Úrskurður
Ár 2012, miðvikudaginn 30. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð um beiðni LÍN um frávísun máls L-17/2012: Með kæru sem barst málskotsnefnd 21. mars 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 16. desember 2011, þar sem kæranda var synjað um endurútreikning tekjutengdrar afborgunar. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 13. apríl 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Með bréfi dagsettu 26. apríl 2012 fór stjórn LÍN þess á leit að málskotsnefnd vísaði málinu frá þar sem kæran hafi borist meira en 3 mánuðum eftir dagsetningu bréfsins sem sent var kæranda, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi dagsettu 3. maí 2012 var kærandi upplýstur um frávísunarkröfu stjórnar LÍN og þess farið á leit að hann veitti upplýsingar um hvenær honum hafi borist bréf stjórnar LÍN. Kom einnig fram í bréfi málskotsnefndar að ef kærandi teldi að kærufrestur skv. 27. gr. stjórnsýslulaga, hafi verið liðinn, að hann gerði grein fyrir því hvort og þá hvaða afsakanlegu ástæður hafi leitt til þess að kæra hans væri of seint fram komin eða hvort einhverjar veigamiklar ástæður leiddu til þess að taka bæri kæruna til efnismeðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Í svarbréfi kæranda segir að drög að ákvörðuninni hafi verið send honum með tölvupósti þann 20. desember 2011. Hafi frumrit bréfsins borist honum í pósti daginn eftir eða 21. desember 2011. Hafi kærufrestur því ekki verið liðinn þegar kæra hans hafi borist málskotsnefnd LÍN. Hann byggir á því að að hinn kærði úrskurður hafi upphaflega borist honum sem drög þar sem undirritun stjórnar LÍN hafi vantað. Endanlegur úrskurður hafi svo borist honum í pósti 21. desember 2011.
Niðurstaða
Um kærufrest í stjórnsýslumálum fer samkvæmt 1. mgr. 27. gr.
stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir að kæra skuli "borin fram innan
þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema
lög mæli á annan veg." Eigi er kveðið sérstaklega á um frest í lögum nr.
21/992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og gildir því framangreindur þriggja
mánaða frestur um kæru þessa. Í 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga segir ennfremur
að kæra teljist "nógu snemma fram komin ef bréf, sem hefur hana að geyma, er
komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en fresturinn er liðinn".
Um þetta segir í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til stjórnsýslulaga að
að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega til aðila, þá skuli miða upphaf
kærufrests við "þann dag þegar ákvörðunin er komin til aðila". Verður því
upphaf kærufrests í máli þessu eigi miðað við þann frest sem tilgreindur er í
bréfi LÍN til kæranda, þ.e. dagsetningu bréfs LÍN til kæranda sem var 16.
desember 2011, heldur ber að miða við þann dag þegar ákvörðun stjórnar LÍN var
tilkynnt til hans. Í máli þessu liggur fyrir að kæranda voru bæði sendar
upplýsingar um niðurstöðu stjórnar LÍN með tölvupósti sem og með bréfpósti. Var
annars vegar um að ræða afrit af bréfi LÍN dagsettu 16. desember 2011 með nafni
framkvæmdastjóra LÍN undir bréfi en án eiginhandar undirritunar
framkvæmdastjórans sem sent var kæranda í tölvupósti að hans beiðni þann 20.
desember 2011. Hins vegar var um að ræða sjálft bréfið frá LÍN dagsett 16.
desember 2011 undirritað af framkvæmdastjóra LÍN sem barst kæranda í pósti 21.
desember 2011. Kemur því til álita hér hvort með tölvupóstinum sem kæranda barst
þann 20. desember 2011 teljist ákvörðun stjórnar LÍN hafa verið komin til hans.
Um birtingu stjórnvaldsákvarðana er fjallað í 20. gr. stjórnsýslulaga og segir
þar að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun skal hún tilkynnt aðila máls
nema það sé augljóslega óþarft. Ennfremur segir að ákvörðun sé bindandi eftir að
hún er komin til aðila. Ekki er í 20. gr. laganna mælt fyrir um sérstakan
birtingarhátt. Fram kemur í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til
stjórnsýslulaga að það leiði af eðli máls, svo og réttaröryggissjónarmiðum, að
birta verði aðila ákvörðun sem á að skuldbinda hann. Þar kemur einnig fram að
með tilliti til réttaröryggis, að eðlilegast sé að íþyngjandi ákvarðanir séu
tilkynntar skriflega þar sem því verður við komið. Af ákvæðum IX. kafla
stjórnsýslulaga um rafræna stjórnsýslu verður einnig ráðið að upplýsingar á
rafrænu formi teljist fullnægja þeim áskilnaði að vera skriflegar. Stjórnvald
sem hefur ákveðið að bjóða uppá þann valkost að nota rafræna meðferð upplýsinga
við meðferð máls skal gera slíkt óski aðili þess sérstaklega. Hið sama gildi
þegar aðili hefur að fyrra bragði notað þann búnað til rafrænna samskipta við
stjórnvald sem það hefur auglýst á vefsíðu sinni að standi til boða í slíkum
samskiptum. Í tölvupóstum sem fóru á milli kæranda og LÍN 19. og 20. desember
2011 kemur fram að kærandi óskaði eftir því að fá sent í tölvupósti bréf
stjórnar LÍN varðandi beiðni hans um leiðréttingu á útreikningi tekjutengdrar
afborgunar. Sendi starfsmaður LÍN honum bréfið með tölvupósti 20. desember 2011.
Mátti kærandi byggja á því að um væri að ræða niðurstöðu stjórnar LÍN í máli
hans, enda kom fram í ummælum viðkomandi starfsmanns í tölvupósti til kæranda að
þetta tiltekna bréf yrði póstlagt til kæranda. Bendir málskotsnefnd á að ekkert
bendir til þess að um sé að ræða drög að niðurstöðu í máli hans eins og kærandi
byggir á í svörum sínum til málskotsnefndar. Er það því niðurstaða
málskotsnefndar að miða beri við móttöku kæranda á tölvupósti frá LÍN 20.
desember 2011 sem tilkynningu til hans um stjórnvaldsákvörðun í skilningi 27.
gr. stjórnsýslulaga. Í 8. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um útreikning
kærufrests en þar segir:
Þar sem kveðið er á um frest í lögum telst
sá dagur, sem fresturinn er talinn frá, ekki með í frestinum. Ef lokadagur
frests er almennur frídagur lengist fresturinn til næsta opnunardags þar á
eftir. Að öðru leyti ber að telja frídaga með sem eru innan frestsins þegar
fresturinn er reiknaður.
Í athugasemdum við greinargerð með frumvarpi
til stjórnsýslulaga segir um 8. gr.:
"Í 8. gr. er að finna
skýringarreglu á því hvernig reikna beri út fresti í lögum er varða
stjórnsýsluna, en stundum kemur upp ágreiningur um þetta atriði í framkvæmd.
Samkvæmt reglunni skal sá dagur, sem frestur er talinn frá, ekki teljast með
innan frestsins. Endi frestur á almennum frídegi lengist fresturinn til næsta
opnunardags. Að öðru leyti ber að telja þá frídaga með sem eru innan frestsins
þegar hann er reiknaður. Þegar reiknaður er t.d. út kærufrestur skv. 27 gr. og
ákvörðun er tilkynnt aðila 1. september þarf kæra að berast æðra stjórnvaldi eða
vera póstlögð eigi síðar en 1. desember. Beri 1. desember upp á laugardag eða
sunnudag mundi kærufresturinn framlengjast fram á næsta opnunardag sem undir
venjulegum kringumstæðum væri þá næsti mánudagur þar á eftir, þ.e. 2. eða 3.
desember."
Í máli kæranda bar hvorki upphaf frests né lok frests
uppá almennan frídag. Kæranda barst tilkynning um niðurstöðu í máli sínu þann
20. desember 2011. Eigi ber að telja þann dag með innan frestsins og byrjar
fresturinn að líða daginn eftir eða 21. desember 2011. Skal miða við að frestur
hafi runnið út þremur mánuðum síðar, eða í lok dags 20. mars 2012. Var því kæra
sem barst málskotsnefnd 21. mars 2012 of seint fram borin og ber að vísa henni
frá skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nema þær ástæður sem getið er í 28. gr.
stjórnsýslulaga séu fyrir hendi en þar segir að hafi kæra borist að liðnum
kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki
borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til
meðferðar. Kærandi hefur aðspurður ekki borið við slíkum ástæðum. Þó svo að
stjórn LÍN hafi leiðbeint kæranda ranglega með kærufrest telur málskotsnefnd þær
leiðbeiningar ekki þess efnis að þær hafi mátt verða kæranda tilefni til að
senda kæru sína eftir að kærufrestur í máli hans var liðinn. Verður því ekki séð
að fyrir hendi í máli þessu séu slíkar ástæður sem tilgreindar eru hér að
framan. Ber því samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa kæru kæranda
frá málskotsnefnd.
Úrskurðarorð
Kæru kæranda í máli L-17/2012 er vísað frá málskotsnefnd LÍN