Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-41/2011 - Lánshæfi - synjun á lánshæfi náms

Úrskurður

Ár 2012, miðvikudaginn 30. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-41/2011:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 6. desember 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 30. september 2011, þar sem því var synjað að að veita kæranda lán til náms við The Swedish Academy of Realist Art, Atelier Stockholm. Með tölvupósti 19. desember 2011 sendi kærandi málskotsnefnd gögn um framangreindan skóla og frekari rökstuðning fyrir kæru sinni. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 28. desember 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 18. janúar 2012 og var afrit þess sent kæranda með bréfi sama dag, en þar var kæranda jafnframt gefinn frestur til 7. febrúar s.á. til að koma að frekari sjónarmiðum sínum, sem hún gerði með bréfi dagsettu 1. febrúar 2012.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stefnir á að hefja listnám við The Swedish Academy of Realist Art, Atelier Stockholm, í Svíþjóð. Í kærunni kemur fram að námið sem skólinn bjóði upp á sé ekki í boði á Íslandi, en um sé að ræða þriggja ára sérnám og byggist á því að ná tökum á raunsæismálverkinu í myndlist. Kærandi kveðst þegar hafa fengið inngöngu í skólann, en inntökuskilyrði hans séu "gymnasiekompetence", sem séu sambærileg stúdentsprófi, og að umsækjandi búi yfir framúrskarandi listrænum hæfileikum, en hvorttveggja séu hin sömu skilyrði og t.d. séu sett við Listaháskóla Íslands. Nám við skólann sé á háskólastigi og lánshæft í Svíþjóð. Um sé að ræða sérnám erlendis sem að mati kæranda sé lánshæft samkvæmt ákvæði 1.3.2 í úthlutunarreglum LÍN 2011-2012. Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 30. september 2011 verði staðfestur. Hún telur að umræddur skóli uppfylli ekki skilyrði fyrir lánshæfu námi samkvæmt ákvæði 1.3.2 í úthlutunarreglum LÍN, sem áður er nefnt. Þyngst í því mati stjórnar vegi að ekki sé gerð krafa um stúdentspróf við inntöku samkvæmt því sem fram komi á veraldarvef skólans, en þar sé talað um að umsækjandi þurfi að hafa "gymnasiekompetence" en ekki "studentexam". Í gögnum sem kærandi leggi fram á ensku sé talað um "High school" sem ekki sé sama námsstig og stúdentspróf. Á þessari forsendu kveðst stjórn LÍN hafa hafnað erindi kæranda.

Niðurstaða

 

Í ákvæði 1.3.2 í úthlutunarreglum LÍN segir m.a:

Heimilt er að veita lán til sérnáms erlendis. Lánshæfi er háð því að um sé að ræða viðurkenndan skóla af menntamálayfirvöldum í landinu, námið sé skipulagt sem a.m.k. eins árs nám og sé nægilega veigamikið að mati stjórn sjóðsins hvað varðar eðli, uppbyggingu og starfsréttindi.

Niðurstaða úrskurðar stjórnar LÍN var studd þeim einu rökum, að sjóðurinn gæti ekki fallist á að listnám við umræddan skóla í Stokkhólmi uppfyllti skilyrði þessa ákvæðis úthlutunarreglna. Í athugasemdum sínum til málskotsnefndar ber stjórn LÍN því fyrst við að skólinn sé ekki lánshæfur þar sem hann geri ekki stúdentspróf að skilyrði inntöku. Málskotsnefnd bendir á að hafi stjórn LÍN ætlað að byggja niðurstöðu sína á því sjónarmiði hafi henni borið að gera grein fyrir því í úrskurði sínum.

Í úthlutunarreglum LÍN er að finna skilgreiningar á helstu hugtökum og þar er hugtakið sérnám skilgreint þannig:

Starfstengt nám sem ekki er kennt á háskólastigi. Nám á framhaldsskólastigi til stúdentsprófs telst ekki til sérnáms.

Sem dæmi um sérnám á Íslandi sem getur verið lánshæft samkvæmt úthlutunarreglum LÍN er nám við fjölbrauta-, iðn- og verkmenntaskóla, sbr. nánar ákvæði 1.2.2 og fylgiskjal III með úthlutunarreglum LÍN. Það nám telst ekki á háskólastigi og gerir því ekki stúdentspróf að skilyrði fyrir inntöku. Í fyrrgreindu ákvæði úthlutunarreglna um lánshæft sérnám í útlöndum er ekki gerð krafa um að hlutaðeigandi skóli geri stúdentspróf að skilyrði fyrir inntöku, enda færi það ekki saman við skilgreiningu úthlutunarreglnanna á hugtakinu sérnám, sem hér hefur verið rakið. Það er því niðurstaða málskotsnefndar að það sé ekki í samræmi við úthlutunarreglur sjóðsins að synja erindi kæranda á þeirri forsendu að námið geri ekki kröfu um stúdentspróf. Samkvæmt ákvæði 1.3.2 bar LÍN áður en hún afgreiddi umsókn kæranda að ganga úr skugga um hvort téður skóli væri viðurkenndur af menntamálayfirvöldum í Svíþjóð, en gögn málsins virðast bera það með sér að svo sé. Ennfremur bar LÍN að leggja sjálfstætt mat á það hvort námið teldist nægilega veigamikið hvað varðaði eðli, uppbyggingu og starfsréttindi áður en sjóður tæki afstöðu til lánshæfi námsins. Þessari lagaskyldu sinnti LÍN ekki og með því var ekki lagður fullnægjandi grundvöllur að málinu í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en stjórnin kvað upp úrskurð sinn 30. september 2011. Hinn kærði úrskurður er því felldur úr gildi og er lagt fyrir stjórn LÍN að leggja mat á það hvort fyrirhugað nám kæranda við The Swedish Academy of Realist Art, Atelier Stockholm, sé lánshæft samkvæmt þeim sjónarmiðum sem fram koma í úthlutunarreglum ákvæði 1.3.2 og reifuð hafa verið hér að framan.

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður frá 30. september 2011 í máli kæranda er felldur úr gildi.

Til baka