Úrskurður
Ár 2012, miðvikudaginn 30. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-42/2011.
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 12. desember 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 29. september 2011 þar sem umsókn kæranda um námslán vegna skólaársins 2011-2012 var synjað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 28. desember 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 16. janúar 2012 og var afrit þess sent kæranda og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum, sem bárust með bréfi móður kæranda dagsettu 6. febrúar 2012.
Málsatvik og ágreiningsefni
Sjónarmið kæranda
Kærandi, sem er íslenskur
ríkisborgari, kveðst hafa flutt til Svíþjóðar á árinu 2003 eftir að hafa átt í
félagslegum erfiðleikum á Íslandi og flosnað upp úr menntaskólanámi. Honum hafi
verið ráðlagt að skrá heimilisfesti sína í Svíþjóð til að eiga greiðari aðgang
að úrræðum sem þar væru í boði. Eftir að hafa sótt ýmis námskeið og unnið
íhlaupavinnu hafi kærandi innritast í Lýðháskóla á árinu 2006, en þá hafi verið
kominn með rétt til námsláns í Svíþjóð. Hann hafi síðan fengið inngöngu í
kennaraháskóla í Malmö skólaárið 2009-2010, en fallið þar á einu fyrstaársprófi
sem hafi valdið því að hann hafi ekki fengið námslán á öðru ári frá CSN, sem er
lána- og styrkjasjóður námsmanna í Svíþjóð. Skólaárið 2010-2011 hafi hann því
verið án námsláns. Kærandi kveðst vorið 2011 hafi verið orðinn úrkula vonar um
frekari fyrirgreiðslu frá CSN enda hafi hann ekki enn náð að ljúka fyrrgreinda
prófinu. Hann hafi því ákveðið að athuga hvort hann ætti möguleika á námsláni á
Íslandi og hafi móðir hans af því tilefni sett sig í samband við LÍN og fengið
þau svör að ekkert væri því til fyrirstöðu ef hann gæti sýnt fram á skólavist
við lánshæfan skóla. Kærandi tekur fram að allt frá árinu 2006 hafi hann komið
til Íslands til að stunda sumarvinnu þrátt fyrir að njóta ekki fulls
persónuafsláttar vegna heimilisfesti í Svíþjóð. Kærandi kveður að þegar blasað
hafi við sumarið 2011 að hann myndi hafa allar sínar tekjur á Íslandi, þ.e.
sumarlaun og námslán, hafi hann m.a. að ráðleggingum starfsmanns Skattstofu
Vesturlands ákveðið að færa heimilisfesti sína til Íslands. Við það hafi hann
hins vegar misst rétt sinn hjá CSN til námsláns í Svíþjóð. Kæranda tekur fram að
honum skiljist að ef umsókn hans, sem barst LÍN 16. ágúst 2011, hefði borist
fyrir 1. júlí 2011, ættu skilyrði 3. gr. reglugerðar um LÍN nr. 478/2011 ekki
við um umsókn hans og óskar hann eftir undanþágu frá ákvæði reglugerðarinnar. Í
svarbréfi móður kæranda við athugasemdum LÍN eru sjónarmið hans í málinu áréttuð
og lögð áhersla á að meta beri máls hans sérstaklega og veita honum undanþágu í
ljósi aðstæðna og tengsla við Ísland. Þá er ítrekað að kærandi hafi fengið
rangar upplýsingar hjá starfsmönnum LÍN um lánsrétt sem hafi leitt til þess að
hann færði skattfestu sína til Íslands og fyrirgerði með því lánsrétti í
Svíþjóð. Þá er byggt á því að reglugerð nr. 821/2011 um breytingu á reglugerð
LÍN eigi að tryggja kæranda rétt til námsláns.
Sjónarmið LÍN
LÍN bendir á að þar sem kærandi hafi ekki átt lögheimili á Íslandi
hvorki í árslok 2010 né árslok 2009 hafi verið lagt fyrir hann að leggja fram
gögn er staðfestu að hann uppfyllti skilyrði 3. gr. reglugerðar LÍN um lánsrétt.
Við afgreiðslu erindis hans hafi legið fyrir að hann hafi flutt lögheimili sitt
til Svíþjóðar árið 2004 og aftur til Íslands sumarið 2011. Hann hafi undanfarin
tvö ár stundað nám við Kennaraháskólann í Malmö, en stundar sumarvinnu á
Íslandi. Skattaleg heimilisfesti hans hafi því verið í Svíþjóð þar til hann
flutti lögheimili sitt til Íslands í júlí 2011. Kærandi hafi verið kominn með
lánsrétt hjá sænska lánasjóðnum (CSN) vegna fimm ára samfelldrar búsetu í
Svíþjóð, en ástæða þess að hann fái ekki frekari lánagreiðslu sé sú að hann hafi
ekki lokið ákveðnu prófi sem sé hluti af lánshæfu námi hans í Svíþjóð. Vegna
þeirrar fullyrðingar kæranda að hann hafi fengið þau svör hjá starfsmönnum LÍN
að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að hann fengi námslán tekur LÍN fram
að ekki liggi fyrir neitt um samskipti aðila í málinu því sé ómögulegt að átta
sig á því hvað aðilum hafi farið á milli, en ólíklegt verði að telja að
starfsmaður hafi gefið þau svör sem kærandi heldur fram. LÍN vísar í úrskurð
sinn þar sem fram komi að samkvæmt 6. mgr. ákvæðis 1.1 í úthlutunarreglum LÍN sé
m.a. skilyrða lánsfyrirgreiðslu að umsækjandi hafi ...stundað launuð störf hér
á landi síðustu 12 mánuði fyrir umsóknardag, hið skemmsta, og haft samfellda
búsetu hér á landi á sama tíma eða starfað í skemmri tíma en 12 mánuði og haft
búsetu hér á landi í tvö ár samanlagt á samfelldu fimm ára tímabili. LÍN kveðst
eftir að hafa metið aðstæður hans eftir innsendum gögnum ekki hafa geta fallist
á að hann uppfyllti framangreind skilyrði um búsetu á Íslandi eða að hann hafi
sýnt fram á sterk tengsl við Ísland. Af þeim sökum hafi stjórn LÍN hafnað beiðni
kæranda um námslán vegna náms í Svíþjóð skólaárið 2011-2012.
Niðurstaða
Engin gögn eða upplýsingar liggja fyrir í málinu sem styðja þá
fullyrðingu kæranda að hann hafi fengið þær upplýsingar frá starfsmönnum LÍN að
hann myndi fá námslán frá sjóðnum. Niðurstaða í málinu verður því ekki
grundvölluð á því að kærandi eigi rétt á námsláni vegna væntinga sem LÍN hafi
skapað hjá honum í þá veru. Í 1. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN kemur fram að
hlutverk lánasjóðsins sé að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms
án tillits til efnahags. Í 1. mgr. 13. gr. laganna er mælt fyrir um að námsmenn
sem séu íslenskir ríkisborgarar eigi rétt á námsláni enda uppfylli þeir skilyrði
laganna og reglna sem settar eru með stoð í þeim. Um LÍN gildir reglugerð nr.
478/2011 og er í 3. gr. hennar tl. 1-3 eru tilgreind þau almennu skilyrði sem
umsækjendur þurfa að uppfylla til þess að eiga rétt til láns, en þau lúta m.a.
að samfelldri búsetu og atvinnuþátttöku hér á landi fyrir umsóknardag. Kærandi
flutti lögheimili sitt til Íslands í júlí 2011 eftir 8 ára samfellda búsetu í
Svíþjóð og uppfyllir því augljóslega ekki almenn skilyrði um hæfi til að fá lán
frá LÍN. Með reglugerðarbreytingu nr. 821/2011 sem tók gildi 5. september 2011,
um breytingu á reglugerð um LÍN, bættist ný málsgrein við 3. gr.
reglugerðarinnar, svohljóðandi:
Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna
er heimilt í sérstökum tilvikum að leggja sterk tengsl umsækjanda við Ísland að
jöfnu við að uppfyllt séu skilyrði lánveitingar samkvæmt 1. mgr. Á
grundvelli framangreinds ákvæðis bar stjórn LÍN að taka afstöðu til þess hvort
kærandi kynni að eiga rétt til námsláns vegna sterkra tengsla við Ísland. Í
úrskurði málskotsnefndar í máli nr. 31/2011 sem kveðinn var upp 14. mars 2012 er
rakið að stjórn LÍN hafi í nóvember 2011 birt leiðbeiningarreglur um þá þætti
sem líta beri til við mat á því hvort tengsl umsækjanda séu með þeim hætti falli
undir ákvæði 3. mgr. 3. gr. reglugerðar um LÍN. Meðal þeirra þátta sem stjórn
sjóðsins líti til er hvort umsækjandi hyggist flytja til landsins til að stunda
það nám sem sótt er um námslán vegna og hvort aðstæður umsækjanda bendi til þess
að umsækjandi muni hafa búsetu hér á landi að námi loknu. Þá sé litið til
ástæðna þess að umsækjandi uppfylli ekki skilyrði ákvæði 1.1. í úthlutunarreglum
LÍN, til að mynda af hvaða ástæðum hann hafi flutt lögheimili sitt, að hve miklu
leyti tengsl hans við Ísland hafi rofnað á meðan á dvöl hans erlendis hefur
staðið og þá sé sérstaklega litið til þess hvernig skattskilum umsækjanda,
búsetu maka og þeirra sem eru á framfæri umsækjanda hefur verið háttað. Litið sé
til ýmissa skuldbindingar umsækjanda og maka umsækjanda, til að mynda
ráðningarsamninga, húsnæðislána, leigusamninga um íbúðarhúsnæði og fleiri atriða
sem geta gefið vísbendingu um tengsl umsækjanda við Ísland og eftir atvikum
tengsl við annað land. Þá sé mælst til þess að umsækjandi skili sjóðnum
greinargerð um þau atriði sem talin eru skipta máli og láti eftirtalin gögn
fylgja eftir því sem við á:
1. Staðfestar upplýsingar um nám sem
umsækjandi og maki umsækjanda hafa stundað erlendis.
2. Staðfestar
upplýsingar um atvinnu umsækjanda og maka umsækjanda.
3. Leigusamning
eða staðfestingu á eignarhaldi á núverandi íbúðarhúsnæði.
4.
Leigusamning eða staðfestingu á eignarhaldi á íbúðarhúsnæði á íslandi.
5. Skattframtöl á meðan á dvöl erlendis stóð.
6. Staðfestingu á
búsetu maka, einstaklinga sem eru á framfæri umsækjanda og/eða einstaklinga sem
umsækjandi er á framfæri hjá.
7. Þá getur það stutt umsókn ef fyrir
liggur staðfesting þar til bærra stjórnvalda á því að umsækjandi eigi ekki rétt
til töku námslána eða rétt til að þiggja styrki vegna náms í þeim löndum sem
umsækjandi hefur helst dvalið síðustu ár.
Stjórn LÍN hafnaði
lánsumsókn kæranda þar sem hún taldi að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði um
búsetu á Íslandi fyrir umsóknardag né hefði hann sýnt fram á nægjanlega sterk
tengsl við Ísland til þess að eiga lánsrétt. Í úrskurði stjórnar LÍN er ekkert
fjallað um það hvaða atvik valdi því að kærandi teljist ekki hafa sýnt fram á
sterk tengsl við Ísland. Eins og rakið er í úrskurðar málskotsnefndar í mái nr.
34/2011 ber LÍN samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að
sjá til þess að mál kæranda væri nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í
því. Af gögnum málsins verður ekki séð að LÍN hafi kallað eftir neinum gögnum
frá kæranda til að leggja til grundvallar mati á því hvort hann uppfyllti
skilyrði lánveitingar samkvæmt 3. mgr. 3. gr. reglugerðar um LÍN. Þar sem
ákvörðun um lánveitingu á grundvelli téðs reglugerðarákvæði byggist á mati var
nauðsynlegt að fyrir lægju þær upplýsingar um tengsl kæranda eða eftir atvikum
tengslaleysi við Ísland sem ætlunin var að byggja stjórnvaldsákvörðunina á. Eins
og að framan er rakið gaf stjórn LÍN ekki út leiðbeiningareglur sínar fyrr en í
nóvember 2011 í því skyni að auðvelda umsækjendum að koma á framfæri sjónarmiðum
sínum og gera gagnaframlagningu sína markvissa. Þegar kærandi leitaði eftir láni
frá sjóðnum veitti stjórn LÍN honum engar leiðbeiningar um það hvaða sjónarmið
hann gæti sett fram til stuðnings því að hann uppfyllti skilyrði lánveitingar,
eða í hverju umsókn hans um lán kynni að vera ábótavant. Þá virðist LÍN ekki
hafa gengið eftir því að kærandi aflaði og legði fram gögn sem sýndu að hann
fullnægði skilyrðum til námsláns frá sjóðnum. Þar sem stjórn LÍN hefur að þessu
leyti hvorki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga né
leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. laganna og með því ekki lagt
fullnægjandi grundvöll að málinu er óhjákvæmilegt að fella úrskurð hennar úr
gildi. Í þeirri ákvörðun felst engin afstaða málskostnefndar til þess hvort
tengsl kæranda við Ísland séu með þeim hætti að skilyrði séu til lánveitingar.
Málskotsnefnd leggur því fyrir stjórn LÍN að taka afstöðu til þess hvort unnt sé
að veita kæranda námslán á grundvelli þess að leggja megi sterk tengsl hans við
Ísland að jöfnu við að uppfyllt séu skilyrði lánveitingar samkvæmt 1. mgr. 3.
gr. reglugerðar nr. 478/2011 um LÍN, eins og henni var breytt með reglugerð nr.
821/2011.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 29. september 2011 er felldur úr gildi.