Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-02/2012 - Endurgreiðsla námslána - synjun um undanþágu frá fresti vegna endurútreiknings afborgunar

Úrskurður

Ár 2012, miðvikudaginn 13. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-2/2012:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 31. janúar 2012 sem barst málskotsnefnd sama dag kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 15. desember 2011, þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá fresti til að biðja um endurútreikning afborgunar af námsláni. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 2. febrúar 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 13. febrúar 2012. Með bréfi dagsettu 17. febrúar 2012 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör stjórnar LÍN. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Málskotsnefnd óskaði frekari gagna frá LÍN um framkvæmd áætlunar á tekjum kæranda með bréfi dagsettu 15. maí 2012 og sendi LÍN umbeðnar upplýsingar með bréfi dagsettu 22. sama mánaðar. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um fram komnar upplýsingar með bréfi dagsettu 31. maí 2012. Kærandi sendi athugasemdir sínar til nefndarinnar í tölvupósti þann 7. júní s.á.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er lántaki hjá LÍN og hóf endurgreiðslur námslána sinna fyrir nokkrum árum. Kærandi fékk sent bréf frá LÍN dagsett 16. júní 2011 þar sem upplýst var um skyldur hennar að senda inn upplýsingar til LÍN um tekjur sínar erlendis, annars yrðu tekjur áætlaðar. Var þetta gert vegna útreiknings á tekjutengdri afborgun kæranda sem var á gjalddaga 1. september 2011. Í því sama bréfi var henni bent á 60 daga frest til að sækja um endurútreikning. Kærandi hafði samband við LÍN þann 2. nóvember 2011 vegna málsins en þá var 60 daga fresturinn liðinn. Kærandi sendi inn upplýsingar um tekjur sínar 15. nóvember 2011 og óskaði eftir endurútreikningi. Henni var svarað af hálfu LÍN í tölvupósti 16. nóvember s.á. þar sem erindinu var hafnað með vísun til 60 daga frestsins og henni jafnframt bent á að hún gæti óskað eftir úrskurði stjórnar LÍN um synjunina.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi bendir á að henni hafi verið ljós þau mistök að hafa ekki haft samband við LÍN fyrr en 2. nóvember 2011 eða einum degi eftir að frestur til að biðja um endurútreikning hafi runnið út. Hún hafi gert LÍN grein fyrir ástæðum þessara mistaka sem megi rekja meðal annars til þess að í Austurríki séu skattar ekki endilega greiddir á hverju ári og að það taki oft langan tíma að ljúka skattframtali fyrir liðið ár. Til dæmis hafi hennar framtal verið í vinnslu frá sumri 2011 og hafi samt ekki verið tilbúið fyrr en 15. nóvember og þá eftir að hún hafi beðið um hraðafgreiðslu á því. Einnig bendir kærandi á að bréf frá LÍN berist eftir dúk og disk enda alltaf stíluð á heimilisfang sem hún hafi ekki verið með í 5 ár. Kærandi bendir á að afborgun hennar til LÍN sé byggð á áætlun um 11 milljón króna tekjur á árinu 2010. Raunverulegar tekjur hennar séu rétt um 3 milljónir króna. Hún óskar eftir því að tillit verði tekið til aðstæðna hennar. Hún sé einstæð móðir 3ja barna sem enn séu í námi og hafi ekki mikið milli handanna. Hún sé stundakennari við háskóla og doktorsnemi og hún sjái ekki fram á að geta borgað tæpar 400.000 krónur til LÍN á næstunni. Hún bendir á að hún hafi hingað til alltaf staðið í skilum og vilji gjarnan gera það áfram. Hún óskar eftir því að tekið verði tillit til þess að hún hafi haft samband við LÍN til að gera grein fyrir stöðu sinni og biðja um frest til að skila framtalinu. Hún bendir á að það hafi engar athugasemdir verið gerðar við það í símtalinu sem hún átti við starfsmann LÍN þann 2. nóvember sl. og að henni hafi þá verið veittur frestur til 15. nóvember. Aðspurð staðfesti kærandi að hún sé ekki búin með doktorsnám og að tekjur hennar á árinu 2010 séu rétt um 2 milljónir íslenskra króna. Kærandi upplýsti einnig aðspurð að hún hefði ekki gert ráðstafanir til þess að senda upplýsingar um breytt heimilisfang til LÍN fyrr en sjóðurinn hefði gripið til innheimtuaðgerða, þá fyrst hefði hún áttað sig á því að pósturinn frá LÍN hafi ekki verið að berast á tilsettum tíma.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

LÍN byggir synjun sína á því að frestur til að sækja um endurútreikning sé 60 dagar frá gjalddaga samkvæmt grein 7.4 í úthlutunarreglum LÍN, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Þar sem umsókn kæranda hafi borist eftir þann frest sé engin heimild til að taka tillit til þeirra atriða sem fram koma í erindi hennar. LÍN bendir á að kærandi hafi haft samband við sjóðinn 2. nóvember 2011 vegna endurútreiknings á tekjutengdri afborgun. Kærandi haldi því fram að ekkert hafi komið fram í samtali hennar við starfsmann LÍN varðandi það að 60 daga frestur um endurútreikning á tekjutengdri afborgun hafi verið liðinn. LÍN bendir á að ekki liggi fyrir hvað hafi farið á milli kæranda og ráðgjafans en bendir á að sama dag hafi tölvupóstur verði sendur til kæranda frá öðrum ráðgjafa þar sem henni hafi verið bent á að senda erindi til stjórnar um leið og hún myndi senda inn upplýsingar um tekjur sínar erlendis. Kærandi hafi svarað þeim pósti eins og gögn málsins beri með sér. Kærandi hafi svo sent inn upplýsingar um tekjur sínar 15. nóvember 2011 og óskaði eftir endurútreikningi. Henni hafi verið svarað í tölvupósti daginn eftir þar sem endurútreikningi var hafnað og jafnframt bent á að senda erindi til stjórnar LÍN vegna synjunarinnar. LÍN bendir einnig á að kærandi hafi fengið sent bréf frá LÍN dagsett 16. júní 2011 þar sem upplýst var um skyldur hennar að senda inn upplýsingar um tekjur sínar erlendis, annars yrðu tekjur áætlaðar og jafnframt var upplýst um 60 daga frest til að sækja um endurútreikning. Kærandi hafði fengið samskonar bréf sent ári áður og því hefði henni mátt vera fullkunnugt tímafresti í málinu. Þá bendir LÍN á að það liggi fyrir að pósturinn hafi að lokum skilað sér til kæranda. Enn fremur bendir LÍN á að kærandi hafi sent inn tekjuupplýsingar erlendis frá til LÍN frá árinu 2005 og því fengið send samskonar bréf og árin 2010 og 2011 í þó nokkur ár. LÍN vísar til úrskurðar málskotsnefndar nr. 31/2010 um þá aðferð sem stuðst er við þegar tekjur séu áætlaðar. Þar segir um aðferð LÍN:

"Stjórn LÍN segir að fyrir skólaárið 2009-2010 hafi úthlutunarreglum sjóðsins verið breytt þannig að afnumið var ákvæði sem kvað á um fast viðmið fyrir áætlaðar tekjur í framangreindum tilvikum og í staðinn ákvarðaði stjórn LÍN hvaða tekjuviðmið skyldu notuð hverju sinni. Árin 2009 og 2010 hafi þau viðmið byggst á meðaltali þeirra tekjuupplýsinga sem LÍN bárust frá greiðendum með lögheimili í útlöndum og réðust af því hvaða prófgráðu viðkomandi hefði lokið. Þannig hafi stjórn LÍN leitast við að gæta jafnræðis og meðalhófs svo áætlaðar tekjur gætu verið eins nálægt raunverulegum tekjum og mögulega yrði við komið miðað við þær upplýsingar sem LÍN gat aflað, en auk þess tryggt að gætt væri ákveðins samræmis í þessu málaflokki. Þessari aðgerð hafi verið beitt í tilviki kæranda fyrir bæði árin 2009 og 2010. Í athugasemdum stjórnar LÍN er það rakið að áætlun tekjustofn sé eðli málsins samkvæmt alltaf háð takmörkunum, en til þess verði að líta að þeir lánþegar sem sæta áætlun hafa ekki fullnægt þeirri skyldu sem á þeim hvílir samkvæmt lögum nr. 21/1992 um að láta sjóðnum í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að taka efnislega rétta ákvörðun í máli þeirra. Því verði að játa sjóðnum ákveðið svigrúm til þess að meta hverju sinni hvernig áætla skuli tekjur lánþega, enda sé af hálfu sjóðsins gætt bæði jafnræðis og meðalhófs við það mat."

LÍN vísar til þess að tekjur kæranda vegna 2010 hafi verið áætlaðar 11.000.000 króna og hafi sú áætlun byggst á því að skv. upplýsingum sjóðsins er síðast námsgráða hennar doktorsgráða í tónlist við Universitaat Mozarteum.

Niðurstaða

Í 8. gr. laga nr. 21/1992 segir að árleg endurgreiðsla ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar sé um að ræða fasta greiðslu óháða tekjum lánþega en hins vegar viðbótargreiðslu sem sé háð tekjum fyrra árs. Tekjutengda afborgunin (seinni ársgreiðsla) er í öllum tilvikum með gjalddaga 1. september, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011 og grein 7.3 í úthlutunarreglum sjóðsins (nú grein 7.4). Fjárhæð hennar miðast við ákveðinn hundraðshluta af tekjustofni ársins á undan sbr. 3. mgr. 8. gr. og 10. gr. laga 21/1992. Í 2. málsl. 3. mgr. 10. gr. laganna segir:

"Sé lánþegi á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og skal árleg viðbótargreiðsla ákveðin í samræmi við það. Geri hann það ekki eða telja verður upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna tekjustofn samkvæmt því skal stjórn sjóðsins áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu".

Þar sem kærandi er með lögheimili í Austurríki og þar með ekki skattskyld á Íslandi fyrir tekjum sínum og eignum og þar sem hún skilaði ekki tekjuupplýsingum til sjóðsins, var sjóðnum rétt að áætla henni tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu. Með þeirri heimild sem felst í framangreindri 10. gr. laga nr. 21/1992 er LÍN veitt vald til að taka einhliða ákvörðun um hvaða forsendur verða lagðar til grundvallar við úrlausn máls vegna þess að sá sem ákvörðun beinist að hefur ekki fullnægt lagaskyldu um láta af hendi upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að taka efnislega rétta ákvörðun í máli hans. Við þær aðstæður verður að játa LÍN ákveðið svigrúm til mats við áætlun á tekjum lánþega, sem þó takmarkast af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og reglu um meðalhóf sem mælt er fyrir um í 12. gr. laganna. Þykir mega fallast á það með LÍN að sú aðferð sem sjóðurinn beitir, að miða við tiltækar upplýsingar um tekjur þeirra greiðenda sem starfa í útlöndum og lokið hafa hliðstæðu námi og kærandi, við það mat sem hér þarf að fara fram byggi á málefnalegum grunni og fari ekki gegn jafnræði þeirra sem eins er ástatt um. Hefur ekki verið sýnt fram á að sjóðnum séu tiltæk önnur gögn eða upplýsingar eða aðrar aðferðir til að áætla tekjustofn kæranda með það fyrir augum að komast nær raunverulegum tekjum hans. Fyrir liggur að LÍN óskaði eftir því við kæranda að hún sendi sjóðnum upplýsingar um tekjur sínar á árinu 2010 með heimild í 10. gr. laga nr. 21/1992. Jafnframt að í bréfi LÍN til kæranda kom fram með skýrum hætti að sækja yrði um leiðréttingu á áætluðum tekjustofni eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga. Kærandi sendi ekki umbeðnar upplýsingar um tekjur sínar og þegar hún fór fram á leiðréttingu á útreikningi var lögmæltur 60 daga frestur sem gefinn er liðinn. Að mati nefndarinnar hefur það ekki áhrif á niðurstöðuna í þessu máli að bréf LÍN voru stíluð á eldra heimilisfang kæranda og bárust henni ekki eins fljótt og ef þau hefðu verið stíluð á rétt heimilisfang. Virðist sem það hafi viðgengist í nokkur ár án þess að kærandi gengi í það að koma réttu heimilisfangi til sjóðsins. Þá liggur fyrir að kærandi móttók bréfin og að henni var vel kunnugt um þessa framkvæmd LÍN þar sem hún hafði árin á undan sent sjóðnum upplýsingar um tekjur sínar vegna september endurgreiðslunnar á réttum tíma. Það er almennt viðurkennd meginregla að stjórnvöld hafi ekki skyldu til að taka mál til efnismeðferðar, sem borist hafa eftir lögskipaðan frest, nema sérstakar undanþágur þar að lútandi eigi við. Málskotsnefnd hefur í fjölmörgum úrskurðum sínum lagt áherslu á mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Samkvæmt upplýsingum LÍN þá byggði tekjuáætlunin fyrir kæranda m.a. á því að síðasta námsgráða hennar væri doktorsgráða í tónlist við Universitaat Mozarteum og voru því tekjur hennar áætlaðar kr. 11.000.000. Kærandi hefur gert grein fyrir því að hún er doktorsnemi og stundakennari, og að raunverulegar árstekjur hennar árið 2010 hafi verið sem samsvarar 2.000.000 íslenskra króna. Í málinu er verulegur vafi um að tekjur kæranda hafi verið áætlaðar með réttum hætti miðað við þær forsendur sem LÍN leggur upp með við slík möt og er þá verið að vísa til þess grundvallaratriðis hvort að kærandi hafi lokið doktorsnámi sínu eða ekki. Þrátt fyrir að LÍN sé rétt og skylt að grípa til þess að byggja útreikning afborgunar á áætluðum tekjum þegar greiðendur vanrækja að senda inn staðfestar upplýsingar um tekjur sínar innan tímafrests, leysir það LÍN ekki undan þeirri skyldu að sjá til þess að slík áætlun um tekjur sé byggð á réttum upplýsingum hverju sinni. Málskotsnefnd bendir á að samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er gerðar ríkar kröfur til stjórnvalda um að sjá til þess að ákvarðanir séu byggðar á réttum og fullnægjandi upplýsingum hverju sinni. Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. laganna skal "stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því." Að auki er stjórnvaldi heimilt skv. 24. gr. stjórnsýslulaga að endurupptaka mál allt að einu ári eftir að aðila var tilkynnt um ákvörðun í máli hans, eða jafnvel síðar ef veigamiklar ástæður mæla með því, þegar svo stendur á að stjórnvald hefur byggt á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik við töku ákvörðunar. Samskonar sjónarmið búa að baki 3. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga þar sem heimilað er að víkja frá kærufresti þegar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar. Málskotsnefnd telur að þrátt fyrir að kærandi hafi ekki sótt um leiðréttingu fyrr en eftir að 60 daga fresturinn rann út valdi sá vafi er leikur á því hvort að LÍN hafi byggt áætlun sína á fullnægjandi og réttum gögnum í máli hennar því að taka þarf málið fyrir á ný og rannsaka það með fullnægjandi hætti. Að mati málskotsnefndar var ekki lagður fullnægjandi grundvöllur að málinu í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en stjórn LÍN kvað upp úrskurð sinn. Með vísan til framangreindra röksemda er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 15. desember 2011 í máli kæranda felld úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 15. desember 2011 er felldur úr gildi.

Til baka