Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-03/2012 - Umsóknarfrestur og útborgun - umsókn um lán barst eftir að umsóknarfrestur rann út

Úrskurður

 

Ár 2012, miðvikudaginn 13. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-3/2012.

 

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 2. febrúar 2012 kærði kærandi synjun stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) um undanþágu frá ákvæði 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN um námslán vegna haustsins 2011 þar sem umsókn hans hafði ekki borist fyrir 1. desember það ár. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi sama dag og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 20. febrúar 2012 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Með tölvubréfi dagsettu 13. desember 2011 fór kærandi þess á leit við stjórn LÍN að umsókn hans um námslán vegna haustannar 2011 yrði tekin til greina þrátt fyrir að umsóknarfrestur væri liðinn. Ástæður undanþágubeiðninnar kvað kærandi vera af tvennskonar meiði. Hann hafi viljað komast hjá frekari lántöku hjá LÍN og þess í stað fengið lán hjá foreldrum. Í ljós hafi komið að sú fyrirgreiðsla hafi ekki dugað til að láta enda ná saman. Þá hafi veikindi og andlát náins fjölskyldumeðlims í lok nóvember sl. valdið því að honum hafi ekki gefist kostur á að skila lánsumsókn í tæka tíð, en hann hafi haft símasamband við LÍN 2. desember 2011 og óskað eftir því að sjóðurinn myndi sjá í gegnum fingur sér með frestinn. Í samræmi við ráðleggingar starfsmanns hafi hann formlega sent inn umsókn sína um undanþágu. Kærandi tekur fram að tekjur hans og maka séu lágar og að þrjú ung börn séu á framfæri þeirra. Í kæru sinni nefnir kærandi sem rök fyrir undanþágu að heimilt sé samkvæmt úthlutunarreglum LÍN að veita undanþágu frá námsframvindu vegna andláts í fjölskyldu og ennfremur að LÍN hafi veitt undanþágu frá tímamörkum þegar sótt hefur verið um undanþágu frá afborgun námsláns vegna veikinda einstaklings. Stjórn LÍN bendir á að samkvæmt ákvæði 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN þurfi lánsumsókn vegna náms haustið 2011 að berast fyrir 1. desember það ár og fyrir 1. maí 2012 vegna náms vorið 2012. Kærandi hafi að eigin sögn haft samband við sjóðinn 2. desember 2011 þar sem honum var tilkynnt að umsóknarfresturinn væri liðinn. Í kjölfarið hafi hann þann 13. desember 2011 sent stjórn sjóðsins beiðni um undanþágu frá umsóknarfrestinum. Engin heimild sé hins vegar til að veita undanþágu frá framangreindum reglum og því hafi stjórn sjóðsins synjað erindi hans. Sú afgreiðsla sé í samræmi við reglur sjóðsins og eldri úrskurði stjórnar LÍN og málskotsnefndar.

 

Niðurstaða

 

Í ákvæði 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir árið 2010-2011 segir að sækja skuli sérstaklega um námslán fyrir hvert aðstoðarár og að umsókn vegna náms haustið 2010 skuli hafa borist sjóðnum fyrir 1. desember 2010. Ekki er að finna neinar undanþágur frá auglýstum fresti í framangreindum reglum. Fyrir liggur að kærandi sótti ekki um lán hjá LÍN fyrir haustönn 2010 fyrr en 13. desember 2010 þegar hann fór þess á leit við stjórn sjóðsins að sér yrði veitt undanþága vegna umsóknarfrests. Kærandi hefur gert grein fyrir ástæðum þess að umsókn hans barst ekki tímanlega til sjóðsins, en viðurkennir einnig að hafa þekkt til reglna um umsóknarfrest, enda verið samfleytt í námi við Háskóla Íslands frá árinu 2005. Vegna fyrirspurnar málskotsnefndar um meðferð stjórnar LÍN á sambærilegum málum, sbr. t.d. úrskurði málskotsnefndar í málunum L-34/2010 og L-16/2011, hefur stjórn LÍN upplýst að hvert mál sé skoðað sérstaklega og mat lagt á það hverju sinni hvort rök séu fyrir hendi til að fallast á að veita undanþágu frá umsóknarfrestinum. Við það tilefni var einnig upplýst af hálfu stjórnar LÍN að á undanförnum fimm skólaárum hafi ein undanþágubeiðni frá umsóknarfresti verið veitt og jafnframt hefur verið upplýst að til grundvallar þeirri niðurstöðu hafi verið að námsmanni hefði upphaflega verið óheimilt að sækja um lán hjá LÍN sökum þess að hann hafði sótt um námsstyrk í Danmörku. Í úrskurði sínum þann 16. febrúar 2011 tekur stjórn LÍN afstöðu til umsóknar kæranda með þeim orðum, að ekki sé fallist á að veita honum undanþágu vegna þeirra atriða sem fram koma í erindi hans. Það er álit málskotsnefndar að verulega skorti á að stjórn LÍN í úrskurði sínum taki með rökstuddum hætti afstöðu til þeirra röksemda sem kærandi færir fram. Það er þó mat málskotsnefndar með vísan til reglugerðar LÍN, úthlutunarreglna sjóðsins, sem ekki heimila neinar undanþágur frá auglýstum umsóknarfresti, svo og fyrri úrlausna stjórnar LÍN við meðferð samskonar mála að rétt hafi verið að synja beiðni kæranda um undanþágu frá umsóknarfresti. Þeir annmarkar sem eru á rökstuðningi hins kærða úrskurðar nægi því ekki til þess að fella beri hann úr gildi. Með þessum athugasemdum er fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Niðurstaða hins kærða úrskurðar stjórnar LÍN er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 12. janúar 2012 er staðfestur.

Til baka