Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-12/2012 - Umsóknarfrestur og útborgun - námsárangur barst of seint

Úrskurður

 

Ár 2012, miðvikudaginn 22. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-12/2012.

 

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 15. mars 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 15. desember 2011 um að synja henni um námslán fyrir lokaönn náms er hún lagði stund á námsárið 2009-2010. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi sama dag og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 29. mars 2012 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn kostur á að frekari sjónarmiðum sínum, sem hún gerði með bréfi dagsettu 3. maí 2012.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundaði mastersnám í heimspeki við Birbeck University í London og kveður hún námið hafa hafist 1. október 2009 og lokið 30. september 2010. Í nóvember 2010 hafi komið í ljós að hún hafi ekki staðist tvö próf. Hún hafi óskað eftir því að taka prófin að nýju og hafi endurtekningarprófin farið fram 16. og 17. maí 2011. Í nóvember 2011 hafi henni verið tilkynnt að hún hefði staðist prófin og útskrifast með Master of Art prófgráðu. Í framhaldi af því hafi hún haft samband við LÍN og óskað eftir námsláni vegna lokaannarinnar. LÍN synjaði erindi kæranda með vísan til þess að í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2009-2010 ákvæði 5.2.1 komi skýrt fram að lánveitingum vegna námsársins skuli lokið fyrir 1. desember 2010. Samkvæmt ákvörðun stjórnar LÍN hafi sá frestur verið framlendur til 15. janúar 2011, en eftir þann tíma væru ekki afgreidd lán vegna námsársins. Kærandi óskar eftir því að hún fái undanþágu frá tímatakmörkunum sjóðsins þar sem útilokað hafi verið fyrir hana að sækja um námslán fyrir 15. janúar 2011 þar sem endurtekningarprófin hafi ekki verið fyrr en í maí 2011. Kærandi vísar til þess að á heimasíðu LÍN segi að námslán séu afgreidd þegar námsárangur hafi borist. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir því að umsókn um lán væri háð tímatakmarkönum heldur hafi hún gert ráð fyrir því að sjóðurinn tæki tillit til reglna skólans um endurupptöku prófa. Þar sem sjóðurinn hafði samþykkt að veita henni námslán við skólann hafi honum borið samkvæmt 5. gr. laga um LÍN, þar sem fjallað er um hlutverk sjóðsins, að afla sér upplýsinga um námsskipan og námstíma skólans og því mátt vita að námstíminn gæti dregist. LÍN hafi vanrækt þessa skyldu sína. Þá bendir kærandi á að þar sem sjóðurinn virðist hafa svigrúm til þess að framlengja að vild frestinn til lánveitinga í ákvæði 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN eigi ekkert að standa því í vegi að sjóðurinn geri undantekningar frá framangreindri reglu um tímamörk, sem mismuni nemendum þar sem hún geri ekki nemendum í heilsárprófi kleift að þreyta sjúkra- eða endurtekningarpróf. Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að samkvæmt grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN skuli lánveitingum vegna námsársins 2009-2010 vera lokið 1. desember 2010. Stjórn LÍN hafi hins vegar ákveðið á fundi sínum 18. nóvember 2010 að að framlengja þann frest til 15. janúar 2011, en eftir það yrðu engin lán afgreidd vegna námsársins 2009-2010. Kærandi hefði ekki skilað tilskildum gögnum um námsárangur fyrr en 15. nóvember 2011, ellefu mánuðum eftir að frestur til þess rann út. Það komi skýrt fram í úthlutunarreglum sjóðsins á hverju ári fyrir hvaða tíma þurfi að skila inn gögnum vegna ákveðins námsárs og þessar upplýsingar sé einnig að finna á heimasíðu sjóðsins. Það sé á ábyrgð námsmanns að kynna sér reglur sjóðsins á hverju tíma enda séu þær aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins. Þar sem enga heimild sé að finna í reglum LÍN til að verða við beiðni kæranda um afgreiðslu námsláns eftir að frestur til að skila inn gögnum sé liðinn hafi beiðni kæranda verið hafnað með úrskurði stjórnarinnar 15. desember 2011.

 

Niðurstaða

 

Kærandi stundaði 12 mánaða mastersnám í Bretlandi námsárið 2009-2010. Hún fékk námslán er svarði til 60 ECTS-eininga af 80 mögulegum þar sem hún stóðst ekki tvö próf, sem hún síðan endurtók í maí 2011, eins og að framan er rakið. Í nóvember 2011 fékk hún staðfestingu um að hafa lokið mastersgráðu sinni og óskaði hún þá eftir því við LÍN að fá námslán fyrir viðbótareiningunum. Í grein 5.2.1. í úthlutunarreglum LÍN kemur fram að lánveitingum vegna námsársins 2009-2010 skyldi vera lokið 1. desember 2010, en stjórn LÍN ákvað að framlengja frestinn til 15. janúar 2011, eins og fyrr greinir. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að afgreiða námslán eftir að frestur til að leggja fram gögn um námsárangur og aðrar þær upplýsingar sem LÍN hefur óskað eftir er liðinn. Málskotsnefnd hefur áður úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Í áðurnefndri grein úthlutunarreglna 5.2.1 er sérstaklega tekið fram að eftir lokun námsársins séu ekki afgreidd lán vegna þess. Þegar kærandi þreytti endurtekningarprófin í maí 2011 var komið inn á annað námsár (2010-2011) og þegar LÍN barst staðfesting frá skóla hennar um námsárangur voru liðnir ellefu mánuðir frá því að stjórn LÍN lokaði á afgreiðslu allra námslána vegna námsársins 2009-2010. Það er álit málskotsnefndar að af fyrrnefndri grein úthlutunarreglna LÍN leiði, að ekki geti komið til lánveitinga vegna umsókna sem berast eftir að lokið er afgreiðslu námslána vegna námsársins. Með vísan til framanritaðs og fyrri úrskurða stjórnar LÍN og málskotsnefndar við meðferð samskonar mála er það niðurstaða málskotsnefndar að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjun stjórnar LÍN á beiðni kæranda. Að þessu virtu er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 15. desember 2011 er staðfestur.

Til baka