Úrskurður
Ár 2012, miðvikudaginn 22. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-18/2012.
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd 27. mars 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 13. janúar 2012, þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá fastri afborgun námsláns á árinu 2011. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 10. apríl 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 26. apríl 2012. Með bréfi dagsettu 3. maí 2012 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör stjórnar LÍN. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 8. maí 2012.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi er skuldari tveggja námslána hjá LÍN. Kærandi fór þess
á leit við LÍN þann 4. maí 2011 að fá undanþágu frá fastri afborgun. LÍN sendi
kæranda bréf þann 20. maí þar sem honum var bent á að honum bæri að skila inn
tilskildum gögnum vegna beiðninnar. Þar sem kærandi sinnti ekki beiðni LÍN um
framlagningu gagna var beiðni hans synjað þann 27. maí 2011. Kærandi sendi
umsókn um undanþágu ásamt gögnum um tekjur og atvinnuleysi þann 28. október 2011
og þann 29. nóvember 2011 sendi hann síðan erindi til stjórnar LÍN og fór þess á
leit að honum væri veitt undanþága frá greiðslu afborgunar. Stjórn LÍN synjaði
beiðni kæranda með úrskurði sínum þann 13. janúar 2012. Í úrskurðinum kemur fram
að frestur til að sækja um undanþágu hafi verið 60 dagar frá gjalddaga. Umsókn
kæranda hafi borist eftir þann frest og væri henni því synjað.
Sjónarmið kæranda.
Í kærunni kemur fram að kærandi hafi
ekki sent umbeðin gögn þar sem á þessum tíma hafi verið óreiða á fjármálum hans,
sem hann hafi unnið markvisst í að koma böndum á síðan. Geri hann ráð fyrir að
geta farið að borga af námslánum á næsta ári. Á árinu 2011 hafi tekjur hans
verið tæpar 60.000 kr. á mánuði og eitthvað sambærilegar það sem af er árinu
2012. Í viðbótarathugasemdum kemur m.a. fram sú afstaða kæranda að þar sem
erindi hans hafi borist seint og hann hafi ekki sent inn tilskilin gögn hafi LÍN
verið heimilt að synja erindi hans. Furði hann sig þó á hörku og bókstafstrú
sjóðsins þar sem tekjur hans hafi verið langt fyrir neðan fátækramörk.
Sjónarmið LÍN.
Í athugasemdum LÍN kemur fram að þar sem
kærandi hafi ekki sinnt tilmælum um að leggja fram gögn hafi beiðni hans verið
synjað. Hann hafi borið mál sitt undir stjórn LÍN þann 29. nóvember 2011 og hafi
stjórnin allt að einu tekið mál hans til umfjöllunar þrátt fyrir að 3 mánaða
frestur til að senda erindi til stjórnar LÍN væri runninn út.
Niðurstaða
Í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra
námsmanna segir:
Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá
árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og
verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða
verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að
afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá
ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna
eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega
eða fjölskyldu hans.
Nánar er kveðið á um skilyrði undanþágunnar í
7. mgr. 8. gr. en þar segir:
Skuldari, sem sækir um undanþágu skv. 6.
mgr., skal leggja sjóðstjórn til þær upplýsingar er stjórnin telur skipta máli.
Umsóknin skal berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga
afborgunar.
Í gr. 7.4.1. í úthlutunarreglum LÍN 2010-2011 segir:
"Sjóðsstjórn er heimilt að veita undanþágu frá afborgun námslána ef lánshæft
nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar, ummönnunar barna eða
aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega.
Óvinnufær vegna veikinda telst sá sem hefur rétt til örorkulífeyris skv.
skilgreiningu Tryggingastofnunar. Að jafnaði er miðað við að ástæður þær sem
valda örðugleikunum hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga
afborgunar".
Í grein 7.4.3. segir eftirfarandi: "Lánþegi sem
óskar eftir undanþágu frá endurgreiðslu námsláns, til lækkunar eða
niðurfellingar, skal sækja um það á þar til gerðu umsóknareyðublaði og láta
nákvæmar upplýsingar sem þar er óskað eftir fylgja. Sækja þarf um undanþágu
fyrir hvern gjalddaga fyrir sig. Umsókn um undanþágu frá endurgreiðslu námsláns
skal berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar. Hafi ósk
um undanþágu ekki borist sjóðnum fyrir þessi tímamörk er óheimilt að veita
undanþágu, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um sjóðinn".
Samkvæmt
framangreindu er frestur til að sækja um undanþágu lögbundinn. Stjórn LÍN eða
málskotsnefnd hafa ekki heimild til að víkja frá fortakslausum ákvæðum laganna
nema sérstakar ástæður leiði til þess, svo sem að mistök hafi verið gerð af
hálfu LÍN við meðferð máls kæranda eða óviðráðanlegar orsakir hafi verið þess
valdandi að kærandi gat ekki sótt um undanþágu eða skilað gögnum innan
tilskilins frests. Hvorugt á við í tilfelli kæranda. Bar því stjórn LÍN að synja
erindi hans. Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN frá 12. janúar
2012 í máli kæranda staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 12. janúar 2012 í máli kæranda er staðfestur.