Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-14/2012 - Lánshæfi - málinu vísað frá

Úrskurður

Ár 2012, miðvikudaginn 5. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð um beiðni LÍN um frávísun máls L-14/2012: Með kæru sem barst málskotsnefnd 28. febrúar 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 17. nóvember 2011, þar sem umsókn kæranda um námslán var synjað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 26. mars 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Með bréfi dagsettu 12. apríl 2012 fór stjórn LÍN þess á leit að málskotsnefnd vísaði málinu frá þar sem kæran hafi borist meira en 3 mánuðum eftir dagsetningu bréfsins sem sent var kæranda, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi dagsettu 20. apríl 2012 var kærandi upplýstur um frávísunarkröfu stjórnar LÍN og þess farið á leit að hann veitti upplýsingar um hvenær honum hafi borist bréf stjórnar LÍN. Með bréfi dagsettu 25. apríl upplýsti kærandi að honum hafi ekki borist niðurstaða stjórnar LÍN fyrr en mánudaginn 28. nóvember 2011. Með bréfi dagsettu 3. maí 2012 óskaði málskotsnefnd upplýsinga frá LÍN um hvernig staðið hafi verið að tilkynningu úrskurðar til hans. Með bréfi dagsettu 10. maí upplýsti LÍN að úrskurðir stjórnar væru póstlagðir til málsaðila einum til tveimur dögum eftir fund. Í tilviki kæranda hafi fundurinn verið 17. nóvember 2011 og bréf dagsett 21. nóvember s.á. eða tveimur virkum dögum eftir fund hafi verið póstlagt sama dag. Sjóðurinn gæti hins vegar ekki staðfest hvenær kæranda hafi borist niðurstaðan. Taldi sjóðurinn að sama ætti að gilda um kæranda, þ.e. ekki lægi fyrir nein staðfesting um að viðkomandi hafi ekki fengið bréfið fyrr en viku síðar. Með bréfi dagsettu 26. júní sendi málskotsnefnd kæranda bréf þar sem hann var beðinn um að gera grein fyrir því hvort þær ástæður sem getið er í 28. gr. stjórnsýslulaga hafi legið að baki því að kæra hans barst of seint til málskotsnefndar. Í svarbréfi kæranda dagsettu 8. júlí 2012 segir að bréf stjórnar LÍN hafi borist honum 28. nóvember 2011 þó svo að dagsetning bréfsins sé fyrr og taldi hann því kærufrest bundinn við þann dag er honum barst bréfið. Hins vegar hafi kæran borist á síðustu stundu og hafi misskilningur vegna tungumáls og annríkis í haustannarprófum truflað ferlið. Kveðst kærandi hafa komið til landsins í ágúst 2009 og þá hafi hann fengið þær upplýsingar að hann ætti rétt á námsláni eftir tveggja ára vinnu á Íslandi. Hafi hann því ákveðið að hefja nám með vinnu haustið 2010. Í ágúst 2011 hafi hann svo sótt um námslán. Hjá LÍN hafi hann fengið þær upplýsingar að allt væri eðlilegt og hafi hann ekki verið upplýstur um neinar breytingar á reglum fyrir útlendinga. Synjun á láni hafi ekki komið fyrr en á miðri önn. Telur kærandi upplýsingagjöf til sín hafa brugðist og ferlið allt langdregið.

Niðurstaða

Um kærufrest í stjórnsýslumálum fer samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir að kæra skuli "borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg.". Eigi er kveðið sérstaklega á um frest í lögum nr. 21/992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og gildir því framangreindur þriggja mánaða frestur um kæru þessa. Í 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga segir ennfremur að kæra teljist "nógu snemma fram komin ef bréf, sem hefur hana að geyma, er komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en fresturinn er liðinn". Um þetta segir í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til stjórnsýslulaga að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega til aðila, þá skuli miða upphaf kærufrests við "þann dag þegar ákvörðunin er komin til aðila". Verður því upphaf kærufrests í máli þessu eigi miðað við þann frest sem tilgreindur er í bréfi LÍN til kæranda, þ.e. dagsetningu bréfs LÍN til kæranda sem var 21. nóvember 2011, heldur ber að miða við þann dag þegar ákvörðun stjórnar LÍN var komin til hans. Niðurstaða stjórnar LÍN lá fyrir 17. nóvember 2011. Í máli þessu liggur fyrir að kæranda voru sendar upplýsingar um niðurstöðu stjórnar LÍN með með bréfi sem dagsett var 21. nóvember 2011. Samkvæmt upplýsingum LÍN var bréfið póstlagt sama dag. Um birtingu stjórnvaldsákvarðana er fjallað í 20. gr. stjórnsýslulaga og segir þar að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun skal hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Ennfremur segir að ákvörðun sé bindandi eftir að hún er komin til aðila. Ekki er í 20. gr. laganna mælt fyrir um sérstakan birtingarhátt. Fram kemur í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til stjórnsýslulaga að það leiði af eðli máls, svo og réttaröryggissjónarmiðum, að birta verði aðila ákvörðun sem á að skuldbinda hann. Þar kemur einnig fram að með tilliti til réttaröryggis, að eðlilegast sé að íþyngjandi ákvarðanir séu tilkynntar skriflega þar sem því verður við komið. Samkvæmt framansögðu er eingöngu gerð krafa um að umrædd ákvörðun stjórn LÍN hafi verið birt skriflega. Hins vegar er ekki er gerð nein krafa í stjórnsýslulögum um að birting skuli fara fram þannig að móttaka skuli staðfest. Ákvörðun í máli kæranda var tekin fimmtudaginn 17. nóvember og að sögn LÍN póstlögð mánudaginn 21. nóvember. Að sögn kæranda barst hún honum þó ekki fyrr en viku síðar, eða mánudaginn 28. nóvember. Að mati málskotsnefndar þarf að taka afstöðu til þess hvort miða eigi upphafsdag kærufrests við þann dag sem LÍN kveður vera póstlagningardag og eðlilegan afhendingartíma talinn þar frá, sem er 2-3 virkir dagar í það mesta, eða hvort miða eigi við þann dag sem kærandi kveður bréf LÍN hafa borist sér. Málskotsnefnd byggir á því að póstlagningardagur hafi verið 21. nóvember 2011 og hefur kærandi ekki lagt fram gögn er benda til annars. Að mati málskotsnefndar er ekki tæk sú leið að miða kærufresti við að tafir hafi verið á póstþjónustu, heldur verður að gera ráð fyrir því að bréf berist innan 1-3 daga. Bendir málskotsnefnd á að Umboðsmaður Alþingis hefur miðað við 1-2 daga í álitum sínum (sjá t.d. mál nr. 5587/2009). Samkvæmt upplýsingum sem málskotsnefnd hefur aflað sér á www.posturinn.is fara léttari bréf eins og það sem sent var kæranda sjálfkrafa í A-flokk. Samkvæmt upplýsingum frá LÍN hefur sjóðurinn aðeins nýverið, þ.e. í ágúst 2012 tekið upp þann háttinn að senda öll bréf í B-pósti. Eru slík bréf merkt sérstaklega. Samkvæmt könnun Póst – og fjarskiptastofnunar um gæði í póstþjónustu 2011 voru 89% sendinga í þessum flokki bornar út á fyrsta degi eftir póstlagningu og á þriðja degi eftir póstlagningu hafði 100% pósts í þessum flokki verið borinn út. Að mati málskotsnefndar verður því ekki byggt á því að slíkar tafir hafi verið á póstþjónustu í máli kæranda að honum hafi ekki borist bréfið fyrr en viku eftir að bréfið var póstlagt. Ekkert bendir til að bréfið hafi ratað á rangan stað og kemur heimilisfang kæranda réttilega fram í bréfi því sem stjórn LÍN sendi honum. Verður því ekki byggt á því að bréf LÍN hafi borist kæranda síðar en venja er, heldur miðað við bréfið hafi borist honum 3 dögum síðar. Kærufrestur hafi byrjað að líða daginn eftir eða 25. nóvember 2011, sbr. 8. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt því hefði kæran þurft að berast til málskotsnefndar í síðasta lagi í lok dags þann 24. febrúar 2012. Samkvæmt ofangreindu er kæra sem barst málskotsnefnd 28. febrúar 2012 of seint fram borin og ber að vísa henni frá skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nema þær ástæður sem getið er í 28. gr. stjórnsýslulaga séu fyrir hendi en þar segir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema "afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr" eða "veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar". Kærandi hefur aðspurður ekki borið við slíkum ástæðum. Mál kæranda varðar mikilvæga hagsmuni en þó ekki umfram aðra þá kærendur sem bera mál sín undir málskotsnefnd, sem flest varða með einum eða öðrum hætti fjárhagslega hagmuni kærenda og framfærslu þeirra. Löggjafinn hefur þó ekki séð ástæðu til þess að kveða á um rýmri málskotsrétt í málum er varða LÍN en þá 3 mánuði sem kveðið er á um í stjórnsýslulögum. Þó svo að stjórn LÍN hafi leiðbeint kæranda ranglega með kærufrest og sagt hann styttri en hann er telur málskotsnefnd þær leiðbeiningar ekki þess efnis að þær hafi mátt verða kæranda tilefni til að senda kæru sína eftir að kærufrestur í máli hans var liðinn. Verður því ekki séð að fyrir hendi í máli þessu séu slíkar ástæður sem tilgreindar eru hér að framan og réttlætt gætu undanþágu frá kærufresti. Ber samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa kæru kæranda frá málskotsnefnd.

Úrskurðarorð

 

Kæru kæranda í máli L-14/2012 er vísað frá málskotsnefnd LÍN.

Til baka