Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-19/2010 - Undanþágur frá afborgun - beiðni um undanþágu frá tekjutengdri afborgun

Úrskurður

Ár 2012, miðvikudaginn 5. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-19/2010:

Kæruefni

Um er að ræða endurupptöku á úrskurði málskotsnefndar í málinu frá 12. júlí 2010. Með kæru dagsettri 24. maí 2010 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 14. janúar 2010, þar sem hafnað var beiðni kæranda um undanþágu frá greiðslu tekjutengdrar afborgunar af námsláni 2009. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 3. júní 2010 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 15. júní 2010 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 18. júní 2010 en þar var kæranda jafnframt gefinn 14 daga frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Tölvupóstur barst frá kæranda þann 24. júní þar sem hann benti á að hann hefði verið skráður atvinnulaus á Íslandi en ekki á því tímabili er reglurnar segðu til um og hann hefði verið að reyna að koma sér fyrir í Kanada. Einu tekjur hans hefðu verið atvinnuleysisbæturnar frá Íslandi en þaðan flutti hann í byrjun árs 2009. Kæranda var þá sent nýtt andmælabréf dagsettu 24. júní 2010 á heimilisfang hans í Kanada þar sem honum var veittur 14 daga andmælafrestur. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Málskotsnefndin staðfesti úrskurð stjórnar LÍN í málinu þann 12. júlí 2010. Í kjölfar úrskurðar málskotsnefndar sendi kærandi kvörtun til Umboðsmanns Alþingis sem óskaði eftir gögnum málsins frá málskotsnefnd. Umboðsmaður ritaði nefndinni síðan bréf þann 25. nóvember 2010. Sendi málskotsnefnd svarbréf sitt þann 10. desember s.á. Þann 1. febrúar 2011 ritaði umboðsmaður nefndinni enn bréf þar sem óskað var eftir viðbrögðum nefndarinnar í máli kæranda, einkum í ljósi skorts á leiðbeiningum af hálfu nefndarinnar gagnvart kæranda um framlagningu gagna í máli hans. Málskotsnefndin tilkynnti umboðsmanni að hún hygðist endurupptaka mál kæranda. Kæranda og stjórn LÍN var tilkynnt um endurupptökuna með bréfi þann 14. apríl 2011. Í kjölfarið sendi málskotsnefnd kæranda ítrekað bréf vegna málsins en engin svör bárust frá honm. Ekki náðist samband við kæranda fyrr en með tölvupósti þann 20. júní 2012 er kærandi veitti þær skýringar að hann hefði ekki átt heima á umræddu póstfangi í Kanada í rúmt ár. Nefndinni hafa síðan borist tölvupóstar frá kæranda með nánari andmælum hans.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er skuldari að námsláni hjá LÍN. Kærandi fór þess á leit við stjórn LÍN að fá undanþágu frá greiðslu tekjutengdrar afborgunar haustið 2010. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með úrskurði sínum þann 15. janúar 2010 með vísan til þess að kærandi hefði ekki lagt fram gögn er staðfestu skerta möguleika hans til tekjuöflunar í 4 mánuði fyrir gjalddagann 1. september 2009. Í gögnum málsins kemur fram að LÍN óskaði eftir að kærandi legði fram gögn frá yfirvöldum í Kanada er staðfestu atvinnuleysi hans og staðfestingu úr félagskerfi, staðfestingu frá atvinnumiðlun og þá jafnframt staðfestingu á bótaleysi frá viðkomandi ríki. Kærandi hafði hins vegar útskýrt að hann ætti ekki rétt á neinum bótum í Kanada og fengi hvorki eitt eða neitt frá neinu landi. Hann væri ekki á atvinnuleysisskrá á Íslandi og ætti heldur ekki rétt á neinum bótum þar. Kærandi bar mál sitt undir málskotsnefnd sem staðfesti úrskurð stjórnar LÍN eins og áður er rakið. Var í niðurstöðu nefndarinnar vísað til þess að kærandi hefði ekki lagt fram tilskilin gögn er staðfestu fjárhagsörðugleika hans vegna atvinnuleysis. Í svörum sínum til Umboðsmanns Alþingis gerði málskotsnefndin grein fyrir því að hún teldi að kæranda hefði verið rétt að leggja fram gögn er staðfestu atvinnuleysi hans, s.s. atvinnuleyfi eða staðfestingu á því að hann hafi ekki haft atvinnuleyfi, eða staðfestingu á því að hann hefði ekki greitt skatta í Kanada. Í svarbréfi sínu gerði umboðsmaður athugasemdir varðandi þetta misræmi er kom fram í svörum nefndarinnar til hans um hvaða gögn kæranda væri rétt að leggja fram og niðurstöðu nefndarinnar í máli kæranda er hefði byggt á því, eins og hjá stjórn LÍN, að kærandi hefði ekki lagt fram gögn er staðfestu fjáhagsörðugleika hans vegna atvinnuleysis. Málskotsnefnd ákvað í framhaldinu að endurupptaka málið með það fyrir augum að meta hvort gætt hefði verið ákvæða stjórnsýslulaga um rannsóknarskyldu stjórnvalda og leiðbeiningarskyldu við meðferð máls kæranda.

Sjónarmið kæranda.

Í kæru sinnni í málinu fór kærandi fram á að fá undanþágu frá greiðslu tekjutengdrar afborgunar af námsláni 2009 vegna atvinnuleysis og tekjuleysis á því ári. Kveðst kærandi hafa misst atvinnu sína hér á landi í desember 2008 og í byrjun ár 2009 hafi hann flutt til Kanada í atvinnuleit. Af þeirri ástæðu hafi hann verið tekinn af atvinnuleysisskrá hér á landi. Kærandi kveðst vera án atvinnu og ekki eiga rétt á neinum bótum í Kanada. Hann hafi verið tekjulaus allt árið 2009 og framfleytt sér með yfirdráttarláni. Kærandi hefur haldið því fram í málinu að þar sem hann hafi verið atvinnulaus í Kanada að verulegu leyti á árinu 2009. Hann hafi hvorki verið á atvinnuleysisskrá þar né á Íslandi, en réttur til að vera á slíkri skrá á Íslandi og að þiggja bætur hafi fallið niður við brottflutning af landinu. Geti Vinnumálastofnun staðfest það. Með tölvupósti í ágúst 2012 sendi kærandi síðan gögn sem bera það með sér að hann öðlaðist ekki atvinnuleyfi í Kanada fyrr en í september 2010. Einnig sendi hann gögn um tekjur sínar í Kanada.

Sjónarmið LÍN.

Stjórn LÍN hefur farið fram á að úrskurður hennar frá 14. janúar 2010 verði staðfestur. Vísar hún því til stuðnings til greinar 7.4.1 í úthlutunarreglum LÍN en samkvæmt greininni sé forsenda þess að unnt sé að veita undanþágu frá greiðslu afborgunar af námslánum að möguleikar lántakanda til öflunar tekna sé skertir á einhvern hátt, t.d. vegna atvinnuleysis, veikinda, lánshæfs náms eða sambærilegar ástæðna. Lánþegi skuli leggja fram vottorð sem staðfesti að eitthvað af framangreindum ástæðum hafi varað a.m.k. í 4 mánuði fyrir gjalddaga afborgunar. Kærandi hafi ekki orðið við ítrekuðum beiðnum um að leggja fram gögn utan upplýsinga um staðgreiðslu sína hér á landi 2008 og 2009. Því hafi ekki verið fyrir hendi forsendur til að veita honum undanþágu. Stjórn LÍN gerir ekki athugasemdir við að kæra kæranda hafi borist að liðnum kærufresti 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 4. mgr. 5. gr.a laga um Lánasjóðs íslenskra námsmanna, þar sem kærandi hafi óskað eftir framlengingu á fresti til að skila inn kæru og ennfremur hafi hann lent í tæknilegum vandræðum með að skila henni inn í gegnum heimasíðu LÍN.

Niðurstaða

Í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er stjórn sjóðsins heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu, að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar eða verulegar breytingar verða á högum skuldara svo sem alvarleg veikindi eða slys, sem skerða til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Þá er stjórn sjóðsins ennfremur heimilt að veita undanþágu frá árlegri greiðslu ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans. Í 7. mgr. fyrrgreinds lagaákvæðis segir að sá sem sækir um undanþágu skv. 6. mgr. skuli leggja sjóðsstjórn til þær upplýsingar er stjórnin telur skipta máli. Í grein 7.4. í úthlutunarreglum LÍN er nánar fjallað um undanþágur frá endurgreiðslu námslána vegna lágra tekna eða skyndilegra og verulegra breytinga á högum lánþega. Skal að jafnaði miðað við að ástæður þær sem valda verulegum fjárhagsörðugleikum hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar. Fram kemur í gögnum málsins að LÍN hafi ítrekað lagt fyrir kæranda að leggja fram upplýsingar um að möguleikar hans til öflunar fjár hafi verið skertir svo sem vegna atvinnuleysis og jafnframt gögn er staðfestu tekjuleysi (bótaleysi) hans í dvalarlandinu. Þegar kærandi óskaði nánari skýringa fékk hann þær leiðbeiningar frá LÍN að hér væri átt við staðfestingu frá yfirvöldum viðkomandi lands varðandi fjögurra mánaða atvinnuleysi fyrir gjalddaga, staðfestingu úr félagskerfi viðkomandi lands eða vinnumiðlun og þá jafnframt staðfestingu á bótaleysi. Eins og áður hefur komið fram í úrskurðum málskotsnefndar er ekki nægjanlegt að greiðendur hafi lágar tekjur heldur er við það miðað að fjárhagsörðugleikar séu vegna veikinda, atvinnuleysis e.þ.h. Fram kemur í gögnum málsins að kærandi hafi verið á atvinnuleysisskrá hér á landi áður en hann fluttist búferlum til Kanada. Eins og fram kemur hér að framan öðlaðist kærandi ekki atvinnuleyfi í Kanda fyrr en í september 2009. Eðli málsins samkvæmt átti hann því ekki kost á því að þiggja atvinnuleysisbætur í því landi sem hann var nýfluttur til þar sem hann hafði ekki öðlast félagsleg réttindi þar. Í því tilviki verður ekki heldur séð að kærandi hafi getað skráð sig atvinnulausan hjá opinberri atvinnumiðlun. Verður því ekki betur séð en að kæranda hafi verið ómögulegt að leggja fram gögn af því tagi sem LÍN og málskotsnefnd kröfðust af honum. Að mati málskotsnefndar verður að miða við það að kærandi hafi í raun verið atvinnulaus a.m.k. fram til 1. september 2009 þar sem hann var upphaflega skráður sem slíkur hér á landi og fluttist í beinu framhaldi í atvinnuleit til Kanada. Þá bera ný gögn frá kæranda með sér að samanlagðar tekjur hans á Íslandi og í Kanada á árinu 2009 hafi verið afar lágar og verður ekki betur séð en að erlendra tekna hans hafi verið aflað eftir 1. september 2009. Með vísan til þess að ekki var nægjanlega gætt að því að haga meðferð málsins og leiðbeiningum til kæranda í samræmi við þær aðstæður sem hann var í var að mati málskotsnefndar ekki gætt að ákvæðum 7. gr. stjórnsýslulaga um leiðbeiningaskyldu stjórnvalda eða rannsóknarreglu 10. gr. laganna. Með vísan til framangreindra ágalla á meðferð máls kæranda er það niðurstaða málskotsnefndar að fella beri úrskurð stjórnar LÍN úr gildi og leggja fyrir LÍN að kalla eftir frekari gögnum frá kæranda til að hægt sé að meta hvort tekjur hans á árinu 2009 í fjóra mánuði fram til gjalddagans 1. september hafi verið það takmarkaðar að hann eigi rétt á undanþágu frá afborgun með vísan til greinar 7.4. í úthlutunarreglunum.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 14. janúar 2010 í máli kæranda er felldur úr gildi.

Til baka