Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-07/2012 - Endurgreiðsla námslána - beiðni um endurútreikning tekjutengdrar afborgunar

Úrskurður

Ár 2012, miðvikudaginn, 12. september 2012 kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-7/2012:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 6. febrúar 2012 sem barst málskotsnefnd þann 14. sama mánaðar kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 15. desember 2011, þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá fresti til að biðja um endurútreikning afborgunar af námsláni. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 27. febrúar 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 19. mars 2012. Með bréfi dagsettu 20. mars 2012 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör stjórnar LÍN. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 31. mars 2012. Með bréfi dagsettu 5. júlí 2012 óskaði málskotsnefnd frekari upplýsinga vegna málsins frá stjórn LÍN. Svör stjórnar LÍN bárust með bréfi dagsettu 6. júlí 2012. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um framkomnar upplýsingar frá stjórn LÍN með bréfi dagsettu 13. júlí 2012 og bárust athugasemdir hans með bréfi dagsettu 2. ágúst s.á.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sem búsettur er erlendis er lántaki hjá LÍN og kveðst hafa greitt af lánum sínum í 20 ár. Ágreiningslaust er að kæranda er kunnugt um að hann þurfi að senda inn upplýsingar um tekjur sínar til LÍN. Ekki liggur fyrir í málinu bréf LÍN til kæranda þar sem honum er bent á að senda uppplýsingar um tekjur sínar, en fyrir liggur greiðsluseðill sem LÍN sendi kæranda vegna gjalddagans 1. september 2011 þar sem fram kemur að afborgun er reiknuð af áætluðum tekjum kæranda. Á seðlinum er einnig tekið fram að mikilvægt sé að beiðni um endurútreikning berist sjóðnum sem fyrst. Kærandi sendi upplýsingar um tekjur sínar erlendis til LÍN þann 9. nóvember 2011 en þá var liðinn lögbundinn 60 daga frestur sem er til að óska endurútreiknings. Honum var svarað af hálfu LÍN í tölvupósti 14. nóvember s.á. þar sem erindinu var hafnað með vísun til 60 daga frestsins og honum jafnframt bent á að hann gæti óskað eftir úrskurði stjórnar LÍN um synjunina. Kærandi sendi þann 21. nóvember 2012 erindi til stjórnar LÍN þar sem hann óskaði eftir undanþágu vegna endurútreiknings. Stjórn LÍN synjaði erindi hans með úrskurði sínum 16. desember s.á.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi bendir á að honum hafi verið ljós þau mistök að hafa ekki haft samband við LÍN fyrr en 9. nóvember 2011 til að biðja um endurútreikning. Hann hafi sent LÍN tímanlega upplýsingar í 20 ár og auk þess alltaf staðið í skilum með greiðslur. Í þetta sinn hafi tekið venju fremur lengur að fá tilskilin gögn hjá skattyfirvöldum. Kærandi upplýsir einnig að tekjuviðmið það sem sjóðurinn noti sé langt yfir hans raunverulegu tekjum sem hafi dregist verulega saman eftir 2008, en hann sé sjálfstætt starfandi í byggingariðnaði þar sem erfitt sé um verkefni um þessar mundir. Einnig hafi hann átt við veikindi að stríða. Tekjur hans hafi einungis verið rúmar 5.000 evrur á árinu 2009 og rúmar 6.000 evrur á árinu 2010, eins og meðfylgjandi gögn beri með sér. Tekjur ársins 2011 séu svipaðar. Samkvæmt tekjuáætlun LÍN sé miðað við að hann hafi haft tekjur að upphæð 8 milljónir kr. eða um 50.000 evrur. Fjárhæð afborgunar, þ.e. kr. 264.269, sé meira en hann geti ráðið við en það sé meira en fjórðungur árstekna hans. Í viðbótarathugasemdum kæranda kemur fram að tekjur hans undanfarin ár séu kunnar lánasjóðinum og hafi þær undanfarin ár verið á bilinu 5.000 til 12.000 evrur. Í athugasemdum kæranda vegna upplýsingar frá LÍN um tekjuviðmið sem notuð voru við áætlun tekna gerir kærandi grein fyrir því að hann hafi starfað við landbúnað í 10 ár eftir að hafa lokið námi en sinni nú öðrum störfum. Kærandi segist ekki hafa aðrar upplýsingar um flokkun námsgráðu sinnar en LÍN hafi. Kveður kærandi áfrýjun sína heldur ekki byggja á því hvort hann hafi tekjur samkvæmt ákveðinni námsgráðu heldur hverjar tekjur hans séu í raun og veru. Hafi hann sent LÍN upplýsingar um þær tekjur í fjölda ára og miðað við þær sé áætlun LÍN gífurlega há. Hafi upplýsingar hans borist 11 dögum of seint og sé það í fyrsta sinn í 20 ár sem slíkt gerist.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

Stjórn LÍN bendir á að kærandi hafi ekki sent tekjupplýsingar fyrr en 9. nóvember 2011 vegna endurútreiknings á tekjutengdri afborgun. Vísar stjórn LÍN til þess að frestur til að sækja um endurútreikning sé 60 dagar frá gjalddaga samkvæmt grein 7.4 í úthlutunarreglum LÍN, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Þar sem umsókn kæranda hafi borist eftir þann frest sé engin heimild til að taka tillit til þeirra atriða sem fram koma í erindi hans. Í viðbótarupplýsingum sem LÍN sendi að beiðni málskotsnefndar koma fram nákvæmar upplýsingar um hvaða viðmið LÍN notar við að áætla tekjur þeirra greiðenda sem búsettir eru erlendis. Segir þar að miðað sé við síðustu námsgráðu sem LÍN veitti lán vegna til viðkomandi greiðanda og að gengið sé út frá því að viðkomandi hafi lokið þeirri gráðu. Um sé að ræða eftirfarandi flokka og tekjur vegna ársins 2010: Heildartekjugrunnur sem verður notaður: Áætlaðar tekjur 2010:

Doktorsnám 11.000.000 Meistaranám 9.500.000 Grunnnám 7.000.000 Aðrar prófgráður 8.000.000

Í tilfelli kæranda hafi hann síðast verið skráður í búfræði árið 1989. Samkvæmt þeirri skráningu sem liggi fyrir frá árinu 1989 sé námið skráð sem grunnnám en ekki á háskólastigi, þ.e. um sé að ræða það sem í dag sé kallað sérnám. Á þeim forsendum hafi tekjur kæranda verið áætlaðar vegna ársins 2010.

Niðurstaða

Í 8. gr. laga nr. 21/1992 segir að árleg endurgreiðsla ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar sé um að ræða fasta greiðslu óháða tekjum lánþega en hins vegar viðbótargreiðslu sem sé háð tekjum fyrra árs. Tekjutengda afborgunin (seinni ársgreiðsla) er í öllum tilvikum með gjalddaga 1. september, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011 og grein 7.4 í úthlutunarreglum sjóðsins 2011-2012. Fjárhæð hennar miðast við ákveðinn hundraðshluta af tekjustofni ársins á undan sbr. 3. mgr. 8. gr. og 10. gr. laga 21/1992. Í 2. málsl. 3. mgr. 10. gr. laganna segir:

"Sé lánþegi á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og skal árleg viðbótargreiðsla ákveðin í samræmi við það. Geri hann það ekki eða telja verður upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna tekjustofn samkvæmt því skal stjórn sjóðsins áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu".

Þar sem kærandi er með lögheimili erlendis og þar með ekki skattskyldur á Íslandi fyrir tekjum sínum og eignum og þar sem hann skilaði ekki tekjuupplýsingum til sjóðsins fyrir tilskilinn frest, var sjóðnum rétt að áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu. Fyrir liggur að kæranda lagði ekki fram upplýsingar um tekjur sínar fyrr en 9. nóvember 2011 en frestur rann út 30. október s.á. Það er almennt viðurkennd meginregla að stjórnvöld hafi ekki skyldu til að taka mál til efnismeðferðar, sem borist hafa eftir lögskipaðan frest, nema sérstakar undanþágur þar að lútandi eigi við. Málskotsnefnd hefur í fjölmörgum úrskurðum sínum lagt áherslu á mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Kærandi sótti ekki um endurútreikning fyrr en 60 daga lögbundinn frestur til þess var liðinn. Telur málskotsnefnd að ekki liggi fyrir heimild að lögum fyrir nefndina að veita kæranda undanþágu frá umræddum fresti. Þarf hann því að sæta því að LÍN áætli honum tekjustofn til útreiknings endurgreiðslu eins og kveðið er á um í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992. Í úrskurði sínum í máli nr. L-2/2012 kom fram sú afstaða málskotsnefndar að þegar greiðandi þarf að sæta áætlun þá ber LÍN að gæta að því að slík áætlun sé réttilega framkvæmd og í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga og laga nr. 21/1992. Í máli þessu liggur því fyrir að málskotsnefnd ber að huga að því hvernig LÍN beitir áætlunarheimild 3. mgr. 10. gr. laganna. Með þeirri heimild sem felst í framangreindri 10. gr. laga nr. 21/1992 er LÍN veitt vald til að taka einhliða ákvörðun um hvaða forsendur verða lagðar til grundvallar við úrlausn máls vegna þess að sá sem ákvörðun beinist að hefur ekki orðið við beiðni LÍN um láta af hendi upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að taka efnislega rétta ákvörðun í máli hans. Við þær aðstæður verður að játa LÍN ákveðið svigrúm til mats við áætlun á tekjum lánþega, sem þó takmarkast af rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og reglu um meðalhóf sem mælt er fyrir um í 12. gr. s.l. Þegar stjórnvaldi er falið með lögum að framkvæma mat ber því almennt að taka ákvörðun sem hentar best hag hvers aðili með tilliti til allra aðstæðna. Í tilviki því sem hér um ræðir takmarkast möguleikar LÍN til að framkvæma slíkt einstaklingsbundið mat þar sem eðli málsins samkvæmt er skortur á upplýsingum til að miða við þar sem greiðandi hefur ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni. Í áliti sínu í máli nr. 5321/2008 hefur Umboðsmaður Alþingis tekið fram þegar svo háttar sé LÍN heimilt að setja almenn viðmið til að stuðla að samræmi og jafnræði í beitingu áætlana. Jafnframt að við beitingu slíkra viðmiða verði að játa LÍN ákveðið svigrúm til mats á tekjum. Þurfa slík viðmið að byggja á málefnalegum sjónarmiðum, en við val á slíkum sjónarmiðum þarf að líta til þeirra hagsmuna sem viðkomandi lög eiga að tryggja. Markmið endurgreiðslureglna laga nr. 21/1992 er að önnur árleg endurgreiðsla námslána endurspegli greiðslugetu greiðanda. Í umræddu áliti umboðsmanns kom fram hann taldi það byggja á málefnalegum grundvelli að setja föst viðmið er endurspegluðu tekjur greiðenda bæði hvað varðaði menntun og starf viðkomandi. Eins og fram kemur hér að framan er í þeirri vinnureglu sem LÍN hefur byggt á eingöngu vísað í annað viðmiðið sem umboðsmaður tilgreindi, þ.e. tekjur greiðenda eftir námsgráðu en ekki nákvæmari uppskiptingu, s.s. eftir því við hvað greiðandi starfar. Samkvæmt upplýsingum LÍN sem lýst er hér að framan skiptir sjóðurinn greiðendum í fjóra tekjuhópa miðað við námsgráðu, þ.e. þá sem hafa lokið doktorsnámi, meistaranámi, grunn eða öðrum prófgráðum. Tekjutölur, þ.e. 7 – 11 milljónir kr. eru meðaltal fyrir umrædda tekjuhópa m.v. tekjur ársins 2009. Séu viðmiðin byggð á meðaltali þeirra tekjuupplýsinga sem LÍN berist frá greiðendum erlendis og ráðist af því hvaða prófgráðu viðkomandi hefði. Þó að í viðmiðunum sem LÍN hefur sett megi finna ákveðna nálgun á tekjum viðkomandi, þegar engum öðrum upplýsingum er til að dreifa, verður ekki betur séð en að slík nálgun sé afar ónákvæm þegar LÍN hefur ekki miðað við starfsgrein viðkomandi aðila. Málskotsnefnd bendir á að ef sú leið er ekki tæk fyrir LÍN að setja almennar reglur er byggja á málefnalegum viðmiðum, þ.e. bæði námsgráðu og starfsgrein, ber sjóðnum að beita einstaklingsbundnu mati, sem m.a. getur byggt á fyrrgreindum þáttum, þ.e. námsgráðu og eftir atvikum starfsgrein eða fagmenntun, og öðrum tiltækum upplýsingar er geta gefið til kynna hverjar eru sennilegar tekjur kæranda. Tekjur undafarinna ára endurspegla ekki nauðsynlega tekjur þær sem lántaki hefur haft á umræddu tekjuári. Málskotsnefnd bendir þó á í þessu sambandi að í tilviki kæranda, einkum í ljósi þess að hann hefur skilmerkilega sent upplýsingar til LÍN um tekjur sínar í 20 ár, mátti LÍN við áætlun tekna hans vegna gjalddagans 1. september 2011 telja líkindi fyrir því að tekjur hans vegna ársins 2010 hefðu verið nær því sem þær voru árin á undan en þeim viðmiðum sem LÍN hafði sett sér og vísað er til í athugasemdum sjóðsins í máli þessu. Öðru máli gegnir ef kærandi hefur áður vanrækt upplýsingaskyldu sína og hefur ekki sent LÍN, hvorki fyrir eða eftir 60 daga frestinn, upplýsingar um tekjur fyrra árs eða ára. Samkvæmt upplýsingum LÍN þá byggði tekjuáætlunin fyrir kæranda á því að síðasta námsgráða hans væri grunnnám sem ekki væri á háskólastigi og miðað við það hafi tekjur hans verið áætlaðar 8 milljónir kr. eða um 50.000 evrur. Kærandi hefur gert grein fyrir því að hann hafi haft afar lágar tekjur undanfarin ár og hafi hann árlega sent upplýsingar um þær tekjur til LÍN. Hafa tekjurnar verið á bilinu 5.000-12.000 evrur. Þrátt fyrir að kærandi þurfi að sæta áætlun tekna af hálfu LÍN á hann eins og áður greinir rétt á því að við áætlun tekjustofns hans sé byggt á málefnalegum viðmiðum. Er því heimild til að taka tillit til þeirra sjónarmiða er fram komu í erindi kæranda að því leyti er þau snerta röksemdir hans varðandi meðalhóf og íþyngjandi áhrif ákvörðunar LÍN. Með því að byggja alfarið á námsgráðu kæranda, þrátt fyrir að fyrir lægju upplýsingar um tekjur undanfarinna ára er gæfu sennilega mynd af ætluðum tekjum kæranda og með vísan til þess að kærandi hefur um langt árabil sent fullnægjandi upplýsingar til LÍN er gefa vísbendingu um lágar tekjur hans er það mat málskotsnefndar að fyrrgreint einhliða viðmið sem LÍN notaði í tilviki kæranda hafi skert um of það svigrúm til mats sem LÍN hafði í málinu. Að mati málskotsnefndar felur það í sér brot á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og reglu um meðalhóf sem mælt er fyrir um í 12. gr. laganna. Með því var ekki lagður fullnægjandi grundvöllur að málinu í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en stjórn LÍN kvað upp úrskurð sinn. Með vísan til framangreindra röksemda er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 15. desember 2011 í máli kæranda felld úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 15. desember 2011 er felldur úr gildi.

Til baka