Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-11/2012 - Endurgreiðsla námslána - beiðni um endurútreikning tekjutengdrar afborgunar

Úrskurður

Ár 2012, miðvikudaginn 12. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-11/2012:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 14. mars 2012 sem barst málskotsnefnd sama dag kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 15. desember 2011, þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá fresti til að biðja um endurútreikning vegna tekjutengdrar afborgunar af námsláni fyrir árið 2011. LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 15. mars 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN bárust nefndinni 29. mars 2012. Með bréfi dagsettu 10. apíl 2012 var kæranda gefin kostur á að gera athugasemdir við svör LÍN. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Málskotsnefndin óskaði eftir frekari upplýsingum frá LÍN í bréfi dagsettu 28. ágúst 2012 og bárust þær þann 29. ágúst s.á. Kæranda voru sendar upplýsingarnar og henni gefinn frestur til að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er lántaki hjá LÍN og hefur hafið endurgreiðslu námslána sinna. Hún hafði samband við sjóðinn 17. nóvember 2011 og tilkynnti að hún væri að bíða eftir gögnum þar sem Ríkisskattstjóri hafi áætlað á hana tekjur vegna ársins 2010. Var henni bent á að frestur til að óska eftir endurútreikningi vegna tekjutengdrar afborgunar fyrir árið 2011 væri liðinn og að hún yrði að senda erindi til stjórnar LÍN og óska eftir leiðréttingu. Erindi kæranda barst stjórn LÍN 5. desember 2011 þar sem hún óskaði eftir endurútreikningi á tekjutengdri afborgun 2011. Úrskurður LÍN lá fyrir 15. desember 2011 og var beiðni kæranda um endurútreikning hafnað með vísun til 60 daga frestsins samkvæmt grein 7.4. í úthlutunarreglum LÍN sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi krefst þess að tekjutengd afborgun 2011 af námsláni hennar verði endurreiknuð í samræmi við endanlega álagningu skatta þar sem réttur og raunverulegur tekjuskattsstofn komi fram og að úrskurður stjórnar LÍN um höfnun á þeirri kröfu verði felld úr gildi. Kærandi byggir á því að upphaflegur útreikningur LÍN á umræddri afborgun hafi verið byggður á áætlun ríkisskattstjóra varðandi tekjur kæranda á árinu 2011 og að sú áætlun hafi verið felld úr gildi með bréfi ríkisskattstjóra, dagsettu 21. nóvember 2011. Hafi verið lagt á að nýju á grundvelli framtals kæranda og rauntekjuskattsstofns. Kærandi mótmælir úrskurði LÍN á þeim grundvelli að samkvæmt skilmálum þeirra skuldabréfa sem umrætt lán byggi á þá beri kæranda að greiða tekjutengda afborgun árlega sem sé reiknuð sem 3,75% af útsvarsstofni næsta árs á undan endurgreiðsluári. Engin ákvæði séu í lánssamningi kæranda sem takmarki rétt hennar til þess að fá leiðréttingu á útreikningi ef hann byggi á röngum upplýsingum og sé því rangur. Á þeim tíma er kærandi tók námslán hafi engin ákvæði verið í lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmann um umrædda lánveitingu, sem takmarki rétt kæranda til þess að krefjast leiðréttingar á útreikningi greiðslna af umræddu skuldabréfi. Ákvæði um slíkar takmarkanir hafi verið sett inn í lög nr. 21/1992 með lagabreytingu sem átti sér stað með lögum nr. 40/2004 og tóku gildi 21. desember 2004. Kærandi bendir á að ákvæði það sem LÍN byggi á sé íþyngjandi fyrir kæranda og feli í sér fjártjón fyrir hana vegna meira íþyngjandi og hraðari uppgreiðslu lánsins en skilmálar skuldabréfsins kveði á um samkvæmt framansögðu. Kærandi telur að ákvæðinu verði ekki beitt með afturvirkum hætti um skuldabréf sem gefin hafi verið út fyrir setningu umrædds lagaákvæðis enda verði skilmálum bréfsins ekki breytt afturvirkt og einhliða. Það sama eigi við um beitingu laga, þ.e. það sé ólögmætt að beita slíkum ákvæðum laga afturvirkt. Sé beiting laganna því ólögmæt enda feli hún í sér brot gegn framangreindri reglu um afturvirkni og um leið brot gegn 72. gr. stjórnarskrár. Því til viðbótar verði að ætla að svo íþyngjandi lagaákvæði varðandi rétt lántakenda almennt til að fá leiðréttingu á röngum útreikningi láns séu yfirhöfuð vafasöm hvort sem lán sé tekið fyrir setningu þess eða eftir enda verði ekki séð að rík nauðsyn sé fyrir ákvæðinu og að það geti raskað almennt viðurkenndum rétti lánþega til leiðréttinga sem geti valdið miklu tjóni í formi röskunar á umsaminni greiðsluáætlun og fjárhæðum.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

LÍN fer fram á að málskotsnefnd staðfesti úrskurð stjórnar og telur að niðurstaða hennar sé í samræmi við lög og reglur og sé einnig í samræmi við sambærilega úrskurði stjórnar LÍN. LÍN vísar til þess að synjunin byggi á því að frestur til að sækja um endurútreikning sé 60 dagar frá gjalddaga samkvæmt grein 7.4 í úthlutunarreglum LÍN, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Þar sem umsókn kæranda hafi borist eftir þann frest sé engin heimild til að taka tillit til þeirra atriða sem fram koma í erindi hennar.

Niðurstaða

Í 8. gr. laga nr. 21/1992 segir að árleg endurgreiðsla ákvarðist í tvennu lagi, annars vegar sé um að ræða fasta greiðslu óháða tekjum lánþega en hins vegar viðbótargreiðslu sem sé háð tekjum fyrra árs. Tekjutengda afborgunin (seinni ársgreiðsla) er í öllum tilvikum með gjalddaga 1. september, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011 og grein 7.4 í úthlutunarreglum sjóðsins. Í 3. mgr. 8. gr. laganna segir að viðbótargreiðslan miðist við ákveðinn hundraðshluta af tekjustofni ársins á undan endurgreiðsluári, sbr. 10. gr. Hundraðshluti þessi er 3,75% við afborganir af skuldabréfinu. Frá viðbótargreiðslunni samkvæmt þessari málsgrein dregst fastagreiðslan. Þá kemur fram í 10. gr. laganna að með tekjustofni sé átt við útsvarsstofn lánþega að viðbættum tekjum skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Einnig kemur fram í 3. mgr. ákvæðisins að sé lánþega áætlaður skattstofn skuli miða við hann. Í 1. mgr. 11. gr. laganna segir:

Lánþegi á rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og leggja fyrir stjórn sjóðsins bestu fáanlegar upplýsingar um tekjurnar.

Í úthlutunarreglum LÍN fyrir árið 2011-2012 í grein 7.4 um árlega endurgreiðslu eru framangreind lagaákvæði tekin upp. Á heimasíðu LÍN kemur fram að sjóðurinn afli upplýsinga um tekjur lánþega hjá Ríkisskattstjóra og ef tekjur hafi verið áætlaðar á lánþega af hálfu skattsins beri sjóðurinn að nota áætlunina við útreikning tekjutengdrar afborgunar. Þar kemur einnig fram með skýrum hætti að lánþegar geti sótt um endurútreikning í allt að 60 daga eftir gjalddaga og fengið afborguninni breytt þegar nauðsynleg gögn hafa borist sjóðnum. Í málinu liggur fyrir að LÍN byggði útreikning sinn á tekjutengdri afborgun kæranda fyrir árið 2011 á tekjuupplýsingum frá Ríkisskattstjóra sem byggði á áætluðum tekjum á kæranda. Var gjalddagi þeirrar afborgunar 1. september 2011 og rann 60 daga frestur til að sækja um endurútreikning út 1. nóvember 2011. Kærandi fékk úrskurð RSK vegna síðbúins framtals í lok nóvember 2011 og hún sótti um endurútreikning til LÍN 5. desember 2011 en þá var hinn lögákveðni 60 daga frestur liðinn. Stjórn LÍN hafnaði erindi kæranda þar sem erindið hafi borist að liðnum þessum fresti. Kærandi undirritaði skuldabréf vegna námsláns hjá LÍN í janúar 2003, þ.e. eftir að lög nr. 21/1992 tóku gildi . Skilmálar skuldabréfs hennar eru samhljóða orðalagi laga nr. 21/1992 um endurgreiðslu námslána og vísa svo til II. kafla laganna að öðru leyti. Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992 segir :

Sé skattþega áætlaður útsvarsstofn skal miða við hann. Komi í ljós að útsvarsstofn hafi verið of hátt áætlaður eða oftalinn og lánþegi því innt af hendi of háa greiðslu skal honum endurgreidd hin ofgreidda fjárhæð með þeim vöxtum sem á hverjum tíma eru reiknaðir af venjulegum sparisjóðsinnstæðum.

Ekki var kveðið á um neinn frest í lögum til að sækja um leiðréttingu en hins vegar var í þágildandi úthlutunarreglum LÍN heimild til að leiðrétta útsvarsstofn í allt að fjögur ár frá gjalddaga viðbótargreiðslu. Með breytingarlögum nr. 140/2004 á lögum nr. 21/1992 bættust tvær nýjar málsgreinar við 11. gr. laganna og hljóðar sú málsgrein sem þetta mál varðar svo:

Lánþegi á rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og leggja fyrir stjórn sjóðsins bestu fáanlegar upplýsingar um tekjurnar.

Í athugasemdum við lagafrumvarpið sem varð að framangreindum breytingalögum kemur fram að meðal helstu breytinga sem frumvarpið feli í sér sé að skýrt sé kveðið á um frest lánþega til að sækja um endurútreikning eða undanþágu frá árlegri viðbótargreiðslu. Breytingalögin tók gildi í desember 2004. Málskotsnefndin telur að með framangreindri lagabreytingu hafi skilmálum skuldabréfs kæranda ekki verði breytt með neinum efnislegum hætti. Með breytingalögunum frá 2004 hafi málsmeðferðarregla verið sett um 60 daga frest til að koma að beiðni um endurútreikning. Áður hafði verið kveðið á um slíkan frest en til fjögurra ára í úthlutunarreglum LÍN. Almenn vísun skuldabréfa kæranda til II. kafli laga nr. 21/1992 tryggir það ekki að ákvæði laganna um lögskipti aðila verði með öllu óbreytt það sem eftir er. Efnisreglum um útreikning afborgunar var ekki breytt heldur var kveðið á um 60 daga frest til að fá endurútreikning á ofgreiddri afborgun. Málskotsnefndin bendir á að í lögskiptum til langs tíma getur það gerst að lögum sem gilda um sambandið er breytt. Ný lög og nýjar reglur gilda þá ekki um þau atriði sem átt hafa sér stað fyrir gildistöku lagannna en það er almennt talið að réttaráhrif slíkra lögskipta ráðast af yngri reglum eftir gildistöku þeirra. Í þessu tilviki er um setningu málsmeðferðarreglu stjórnvalds sem lýtur að fresti til að koma að beiðni um endurútreikning á tekjutengdri afborgun. Hér er ekki um skilmálabreytingu á skuldabréfi kæranda heldur er um breytingu að ræða á formreglu sem kærandi þarf að hlíta jafnt og allir lántakendur LÍN. Þá er til þess að líta að það stóð kæranda næst að tryggja rétta upplýsingagjöf til LÍN og henni var í lófa lagið að koma „bestu fáanlegum upplýsingum“ um tekjur sínar til LÍN innan frestsins en gerði það ekki. Þá er það mat málskotsnefndar að miðað við opið orðalag ákvæðisins um „bestu fáanlegar“ upplýsingar um tekjur, núgildandi staðgreiðslukerfi og hraða í stjórnsýslu skattamála, þá sé umræddur 60 daga frestur ekki óyfirstíganlegur né ósanngjarn fyrir lántakendur LÍN. Málskotsnefndin fellst ekki á það með kæranda að hér sé um afturvirka löggjöf að ræða sem breyti samningssambandi aðila með íþyngjandi hætti umfram það sem samið var um. Hér er um lagabreytingu að ræða á málsmeðferðarreglum opinbers lánasjóðs sem gerð er til hagræðingar og gildir jafnt gagnvart öllum lántakendum sjóðsins og gildir um atvik sem koma upp eftir gildistöku laganna. Það er almennt viðurkennd meginregla að stjórnvöldum beri ekki skylda til að taka mál til efnismeðferðar, sem borist hafa eftir lögskipaðan frest, nema sérstakar undanþágur þar að lútandi eigi við. Málskotsnefnd hefur í fjölmörgum úrskurðum sínum lagt áherslu á mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Hvorugt á við í tilfelli kæranda. Bar því stjórn LÍN að synja erindi hennar. Að þessu virtu er fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Niðurstaða hins kærða úrskurðar stjórnar LÍN er því staðfest.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 15. desember 2012 er staðfestur.

Til baka