Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-22/2012 - Umsóknarfrestur og útborgun Endurgreiðsla á ofgreiddu námsláni

Úrskurður

 

Ár 2012, miðvikudaginn 26. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-22/2012:

 

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 17. maí 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 16. febrúar 2012 þar sem henni er gert að endurgreiða ofgreitt lán á námsárinu 2010-2011. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi 30. sama mánaðar og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 20. júní 2012 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn kostur á að frekari sjónarmiðum sínum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi var með tvo námsferla á námsárinu 2010-2011. Hún stundaði kennsluréttindanám og síðan meistaranám í ensku við Háskóla Íslands. Kærandi sótti um námslán fyrir kennsluréttindanámið á haust- og vorönn og enskunámið á sumarönn. Í byrjun október 2010 gerði háskólinn þau mistök að senda lánasjóðnum rangar upplýsingar um námsframvindu kæranda og fleiri námsmanna, sem leiddi til rangrar útborgunar námslána þann 4. október 2011. Fyrri námsferill kæranda var kennslufræði og fékk hún afgreidd lán út á 50 ECTS-einingar á haust- og vorönn (25 einingar á hvorri önn). Hinn 4. október 2011 barst LÍN upplýsingar frá Háskóla Íslands um að kærandi hafi lokið 55 ECTS-einingum á fyrri námsferli og fékk hún þá ranglega útborgað lán fyrir 5 ECTS-einingum í viðbót samtals 138.639 kr. Seinni námsferill kæranda var meistaranám í ensku og 4. október 2011 fékk LÍN þær upplýsingar frá Háskóla Íslands að kærandi hafi lokið 30 ECTS-einingum á sumarönn 2011 og fékk hún í kjölfarið afgreitt lán fyrir 20 einingum, samtals 554.555 kr. Þessar upplýsingar voru einnig rangar þar sem kærandi lauk ekki meistaranáminu fyrr en á haustönn 2011. Þegar mistökin komu í ljós nokkrum dögum síðar var kæranda, og öðrum námsmönnum sem eins var ástatt um, sent tölvubréf 14. október 2011 og krafin um endurgreiðslu. Með bréfi LÍN dagsettu 9. nóvember 2011 var endurgreiðslukrafan ítrekuð, en kæranda jafnframt gefinn kostur á að endurgreiða hið ofgreidda námslán á skuldabréfi. Þegar kærandi sinnti ekki tilmælum LÍN var henni tilkynnt með bréfi sjóðsins, dagsettu 28. nóvember 2011, að frekari námsaðstoð við hana yrði stöðvuð. Kærandi hafði samband við LÍN í nóvember 2011 og upplýsti sjóðinn að staðfesting á því að hún hafi lokið meistaranáminu myndi berast fyrstu viku desembermánaðar. Hún kveður starfsmann sjóðsins hafa samþykkt að bíða staðfestingarinnar. Einkunnir hafi þó ekki verið birtar fyrr en síðla desember 2011 og loks að beiðni kæranda sendar LÍN í janúar 2012. Hinn 16. janúar 2012 hafi kæranda verið tilkynnt af starfsmanni LÍN að þar sem námsárangur hennar hafi borist svona seint myndi hann vera skráður á námsárið 2011-2012 og henni bæri því að endurgreiða hið ofgreidda námslán. Kærandi bar þá mál sitt undir stjórn LÍN og benti á að mistökin við lánveitinguna væru alfarið háskólans. Hún hafi leitað leitað til LÍN með að leysa málið á þann hátt að greiðslan til hennar væri meðhöndlað sem venjulegt námslán. Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda með úrskurði sínum 16. febrúar 2012 á grundvelli þess að námsmönnum bæri að endurgreiða ofgreidd námslán skv. grein 5.7 í úthlutunarreglum LÍN. Í kæru sinni til málskotsnefndar bendir kærandi á að hún hafi skilað fullnægjandi námsárangri til þess að fá lán á sumarönn 2011. Þau mistök sem gerð voru við lánveitingarnar séu henni óviðkomandi og megi rekja til mistaka nemendaskrár háskólans. Kærandi tekur fram að hún dragi ekki í efa skyldu sína til að endurgreiða lánið en telur endurheimtuaðgerðir LÍN bæði harkalegar og óþarfar. Greiðslur LÍN til hennar hafi vakið hjá henni lögmætar væntingar um lánveitinguna og því sé afgreiðsla stjórnar LÍN á máli hennar bæði ólögmæt og ósanngjörn. Fer kærandi þess á leit að fallið verði frá endurgreiðslukröfunni og að hinar ofgreiddu fjárhæðir fari í eðlilegan farveg námslána.

 

Niðurstaða

 

Samkvæmt grein 5.7. í úthlutunarreglum LÍN skal námsmaður endurgreiða ofgreidd námslán. Er sú regla í samræmi við 6. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna er kveður á um að námslán skuli aðeins veita þeim er leggi fram gögn um tilskilda skólasókn og námsárangur. Í 14. gr. reglugerðar um LÍN nr. 478/2011 segir að fái lánþegi ofgreitt lán vegna rangra upplýsinga eða af öðrum ástæðum sé sjóðsstjórn heimilt að innheimta ofgreidda upphæð með vöxtum frá þeim degi sem greiðslan fór fram. Fyrir liggur að kærandi fékk ofgreitt námslán vegna þeirra mistaka Háskóla Íslands að senda LÍN upplýsingar um skráðar einingar námsmanna en ekki loknar einingar. Krafði lánasjóðurinn kæranda um endurgreiðslu lánsins svo sem honum var heimilt. Í þessu máli er ágreiningslaust að kærandi leitaði til LÍN í nóvember 2011 og óskaði eftir því að innheimtu ofgreidds námsláns gagnvart henni yrði frestað þar sem staðfesting um námsárangur myndi berast í fyrstu viku desembermánaðar. Þá er því ekki andmælt af hálfu LÍN að erindi kæranda hafi verið tekið vinsamlega, en þar sem námsárangur hennar hafi ekki borist fyrr en 11. janúar 2012 hafi ekki verið hægt að taka tillit til hans þar sem umsóknarfrestur námsláns vegna haustannar hafi runnið út 1. desember 2011. Því standi eftir ofgreitt námslán bæði vegna kennslufræðinnar og meistaranáms í ensku. LÍN er opinber stjórnsýslustofnun og ber í starfi sínu jafnt að fylgja þeim lögum og reglum sem gilda um starfsemi sjóðsins og lagareglum, jafnt skráðum sem óskráðum, sem gilda um stjórnsýslu hins opinbera. Þannig bar LÍN að veita kæranda nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi mál hennar og huga að þeim kröfum sem leiða af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Þegar kærandi leitaði til LÍN í nóvember 2011 og upplýsti að námsárangur vegna meistaranámsins myndi skila sér í fyrstu viku desembermánaðar var enn tækifæri til þess að sækja um námslán vegna haustsins 2011, en frestur til þess rann út 1. desember. Að mati málskotsnefndar verður ekki ráðið að LÍN hafi sinnt leiðbeiningarskyldu sinni að þessu leyti þó augljóslega hafi verið ástæða til þess, en sem fyrr greinir hafnaði stjórn LÍN síðan að taka tillit til námsárangursins er hann loks barst 11. janúar 2012 þar sem umsóknarfrestur námsláns vegna haustannar hafi runnið út án þess að kærandi hafi sótt um. Slík leiðbeining hefði getað leyst mál kæranda vegna þeirrar ofgreiðslu sem átti sér stað og henni verður ekki kennt um. Það er því niðurstaða málskotsnefndar að LÍN hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga um þann möguleika kæranda sækja um námslán á haustönn 2011 á meðan hún beið staðfestingar Háskóla Íslands um lok meistaranáms sínsEr því úrskurður hennar um innheimtu námsláns kæranda fyrir 20 einingum til meistaranáms í ensku felldur úr gildi. Á hinn bóginn var stjórn sjóðsins rétt að endurkrefja kæranda um ofgreitt námslán fyrir 5 ECTS-einingum í kennslufræði, þar sem hún hafði þegar fengið afgreitt lán út á 50 ECTS-einingar sem hún átti rétt á í því námi.

 

Úrskurðarorð

 

Hinir kærði úrskurður frá 16. febrúar 2012 um að kæranda beri að endurgreiða námslán vegna 20 eininga í meistaranámi í ensku, samtals 554.555 kr., er felldur úr gildi. Staðfest er niðurstaða hins kærða úrskurðar um að kæranda beri að endurgreiða námslán vegna 5 ECTS-einingum í kennslufræði, samtals 138.639 kr.

Til baka