Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-16/2012 - Útreikningur námslána - lán fyrir lágmarksárangri á síðustu önn í námi

Úrskurður

 

Ár 2012, föstuudaginn 5. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-16/2012:

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 23. mars 2012 sem barst málskotsnefnd sama dag kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 12. janúar 2012, þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá þeirri reglu að hún myndi einungis fá lánað fyrir 180 ECTS- einingum. LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 23. mars 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN bárust nefndinni 12. apríl 2012. Með bréfi dagsettu 23. apríl 2012 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör LÍN. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Málskotsnefnd óskaði eftir frekari upplýsingum frá LÍN í bréfi dagsettu 8. september 2012 og bárust upplýsingar frá LÍN með bréfi dagsettu 10. september 2012. Þá var óskað eftir upplýsingum frá kæranda um þær umframeiningar sem hún tók og barst svar hennar með bréfi þann 25. september 2012. Málskotsnefnd óskaði síðan frekari upplýsinga frá kæranda með bréfi dagsettu 28. september . Engar frekari upplýsingar bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundar 180 ECTS-eininga bachelornám í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Hún átti eftir að ljúka 18 einingum á vorönn 2012 til að ljúka námsgráðunni en var skráð í 28 einingar. Kærandi óskaði eftir því að fá lán fyrir þessum viðbótar 10 ECTS-einingum og sótti því um það til LÍN að fá undanþágu frá þeirri reglu að einungis væri lánað fyrir 180 ECTS- einingum vegna námsins. Fól umsókn kæranda í sér að henni yrði lánað fyrir samtals 190 ECTS-einingum vegna námsins. Stjórn LÍN hafnaði beiðni kæranda með úrskurði dagsettum 13. janúar 2012. 

Sjónarmið kæranda

Kærandi bendir á að hún hafi tekið sumarönn eftir fyrsta árið sitt í námi vegna þess að hún hafi aðeins fengið 50% vinnu það sumar. Vorið 2011 hafi hún áttað sig á að einingarfjöldi hennar myndi fara yfir 180 einingar og hún hafi því hringt í LÍN og spurt hvort það væri í lagi. Henni hafi verið gefnar þær upplýsingar að hún mætti taka BA-prófið á 5 árum og það væri í lagi að taka meira en 180 einingar. Þegar hún hafi síðan sótt um tekjuáætlun hjá LÍN fyrir veturinn 2011-2012 hafi komið í ljós að hún fengi bara lánaðar 18 einingar fyrir vorönnina. Kærandi bendir á að hún sé skráð í 28 einingar vorið 2012 en fái aðeins lánað fyrir 18 einingum. Hana vanti því 10 einingar upp á til að hafa fulla framfærslu eftir áramót. Þetta setji hana í mikinn vanda því erfitt sé að finna hlutastarf og ef það tækist setti það hana í tekjuvanda gagnvart LÍN vegna áætlunar fyrir veturinn 2012-2013 en hún stefni á mastersnám næsta haust. Kærandi bendir á að samkvæmt 1. mgr. ákvæðis 2.3.1 í úthlutunarreglum LÍN sé hámark fyrir láni 180 ECTS-einingar. Í 3. mgr. samu ákvæðis komi eftirfarandi fram; „Að auki á námsmaður rétt á láni fyrir 120-ECTS einingum til viðbótar á grunn- og meistarastigi að eigin vali“ Kærandi byggir á því að sér sé heimilt að fá þær 10 auka ECTS-einingar útlánaðar úr sjóðnum á grundvelli framangreinds ákvæðis enda komi þar hvergi fram að það sé bundið öðrum námsferli. Henni sé það í sjálfvaldi sett hvort hún noti þá heimild sem þar sé veitt til þess að nýta sér 120 ECTS svigrúmið, sjái hún sér hag sinn í því. Telur kærandi það liggja í beinni textaskýringu ákvæðisins „að eigin vali“ að hún hafi þann rétt. Kærandi byggir einnig á því að þar sem LÍN sé stjórnvald beri stofnuninni að lúta þeim reglum sem gilda á milli borgara og stjórnvalda. Öll óskýr lagaákvæði beri að túlka borgara í hag, enda séu stjónvöld í yfirburðarstöðu gagnvart borgurum í þessu tilfelli kæranda og því telji hún að synjun LÍN eigi sér ekki stoð í lögum. Þá bendir kærandi á að hér sé um mjög íþyngjandi synjun að ræða en kærandi hafi tvö börn á grunnskólaaldri á sínu framfæri, hún sé í greiðsluaðlögun og eigi í erfiðleikum með að sjá sér og sínum farborða ef synjunin nái fram að ganga. Ennfremur bendir kærandi á þá staðreynd að þegar hún hafi hafið nám í haust hafi henni verið tjáð munnlega af starfsmanni LÍN að hún hefði þann rétt að fá undanþágu og mætti taka BA prófið á 5 árum og fara yfir umræddar 180 ECTS-einingar. Með þeirri upplýsingargjöf hafi LÍN brotið 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda sem hafi orsakað það að allar forsendur kæranda fyrir áframhaldandi námi á vorönn 2012 hafi brugðist. Samkvæmt upplýsingum kæranda þá tók hún viðbótarfög og með því hafi hún lokið fleiri ECTS-einingum en þeim 180 sem krafist er til að ljúka BA námi í félagsráðgjöf. 

Sjónarmið stjórnar LÍN

LÍN bendir á að kærandi tiltaki í erindi sínu að hún hafi haft samband við sjóðinn sl. vor til að athuga hvort hún gæti fengið lán fyrir meira en 180 einingum og að hún hafi fengið jákvætt svar. LÍN staðfestir að kærandi hafi átt í samskiptum við sjóðinn sl. vor vegna tekjuáætlunar en að öðru leyti liggi ekki fyrir nein skrifleg samskipti sem staðfesti fullyrðingu kæranda um framangreinda upplýsingargjöf. LÍN byggir á því að það komi skýrt fram í 3. mgr. ákvæðis 2.1 í úthlutunarreglum LÍN og á heimasíðu sjóðsins að "hámarksfjöldi eininga sem lánað er fyrir á einstökum námsbrautum tekur mið af skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins." Samkvæmt námsskrá Háskóla Íslands sé bachelornám í félagsráðgjöf skipulagt sem 180 ECTS-eininga nám á sex misserum. Ekki sé heimild til að veita frekari lán umfram þann einingafjölda sem skipulag námsins segi til um og hafi því LÍN synjaði erindi kæranda. Afstaða LÍN til 3. mgr. ákvæðis 2.3.1 í úthlutunarreglum 2011-2012 sé sú að þetta ákvæði eigi við ef námsmenn ákveða að taka fleiri en eina eða tvær grunnháskólagráður eða meistaragráður. Eins og fram komi í 1. mgr. sömu greinar eigi námsmaður rétt á 180 ECTS-einingum í grunnnámi og sé aldrei lánað meir en það í eitt og sama grunnnámið. Ef námsmaður ákveði að taka tvær grunnnámsgráður getur hann bætt við sig allt að 120 ECTS-einingum með því að nýta svigrúmið sem fjallað sé um í 3. mgr. Niðurstaða LÍN í málinu sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilega úrskurði stjórnar LÍN og málskotsnefndar.

 

Niðurstaða

 

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er hlutverk sjóðsins að tryggja þeim er falla undir lögin jöfn tækifæri til náms. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að miða skuli við að námslán samkvæmt lögunum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmannsins. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. setur stjórn sjóðsins nánari ákvæði um úthlutun námslána. Hefur stjórn LÍN sett úthlutunarreglur sem miða að því að skilgreina hvaða skilyrði námsmaður þurfi að uppfylla til að hafa rétt til námsláns samkvæmt lögunum meðan á námi hans stendur. Í lokamálslið ákvæðis 1.1. í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2011-2012 segir að hafi námsmaður fullnýtt svigrúm sitt til lána á ákveðinni námsbraut eða ákveðnu skólastigi sbr. grein 2.1, telst frekara nám á viðkomandi námsbraut/-skólastigi ekki lánshæft. Í grein 2.1 í úthlutunarreglunum kemur fram að hámarksfjöldi eininga sem lánað er fyrir á einstökum námsbrautum taki mið af skipulagi skóla samþykktu af stjórn LÍN. Í 1. mgr. ákvæðis 2.3.1 í úthlutunarreglunum segir: 

Námsmaður á rétt á láni fyrir 180 ECTS-einingum í grunnnámi. Með grunnnámi er átt við sérnám, grunnháskólanám og einkanám í tónlist

Fjallað er um meistaranám í 2. mgr. greinarinnar en í 3. mgr. segir svo: 

Að auki á hver námsmaður rétt á láni fyrir 120-ECTS einingum til viðbótar á grunn- og meistarastigi að eigin vali

Síðan er í 4. mgr. mælt fyrir um aukið svigrúm og undanþágu frá fyrrgreindum hámörkum að uppfyllt ákveðnum skilyrðum. Með vísan til ákvæðis 2.1 í úthlutunarreglum LÍN er ljóst að lánréttur vegna BA náms verður að hámarki sem samsvarar þeim einingum sem skipulag skólans segir til um og er ágreiningslaust að í tilviki kæranda er það 180 ECTS-einingar. Síðar getur námsmaður bætt við sig námi þ.e. stundað annað nám að eigin vali og þá nýtt sér svigrúmsreglu 3. mgr. 2.3.1. og fengið lánað fyrir 120 ECTS einingum til viðbótar við þær 180 einingar sem námsmaður hefur áður fengið lánaðar. Ekki er hægt að fallast á það með kæranda að hún eigi, með vísan til svigrúmsreglunar í 3. mgr. ákvæðis 2.3.1, rétt á að fá lán fyrir viðbótareiningum vegna sama náms sem hún er þegar búinn að tæma hámarkslánsrétt sinn í skv. 1. mgr. sama ákvæðis. Svigrúmsreglan nýtist kæranda eingöngu ef hún byrjar í öðru námi sbr. hér fyrr. Varðandi það að LÍN hafi brugðist leiðbeiningarskyldu sinni þá liggur ekkert fyrir í málinu um að LÍN hafi leiðbeint kæranda með þeim hætti sem hún lýsir. Er ekki fallist á það með kæranda að LÍN hafi brotið leiðbeiningarskyldu sína að þessu leyti. Verður einnig að líta til þess að það kemur skýrt fram í úthlutunarreglum LÍN og á heimasíðu sjóðsins að hámarksfjöldi eininga sem lánað er fyrir á einstökum námsbrautum taki mið af skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins. Fyrir liggur að BA nám í félagsráðgjöf við HÍ er skipulagt sem 180 ECTS-eininga nám á sex misserum. Málskotsnefnd telur, með vísan til lokamálsliðar ákvæðis 1.1., 2.1 og til 1. mgr. ákvæðis 2.3.1 í úthlutunarreglum LÍN, að kærandi eigi ekki rétt á frekari láni vegna BA náms síns en fyrir þeim 180 ECTS-einingum sem hún hefur þegar fengið lánað fyrir. Með vísan til ofangreindra sjónarmiða og forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Niðurstaða hins kærða úrskurðar stjórnar LÍN frá 12. janúar 2012 í máli kæranda er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 12. janúar 2012 er staðfestur.

Til baka