Úrskurður
Ár 2012, föstudaginn 5. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-20/2012.
Kæruefni
Með kæru, sem móttekin var hjá málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna þann 13 apríl 2012, kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 20. mars 2012, þar sem beiðni hennar um undanþágu vegna veikinda á vormisseri 2011 var hafnað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi þann 16. apríl 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 26. apríl 2012 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar athugasemdir komu frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi var skráð í BS nám í stærðfræði við raunvísindadeild HÍ
haustið 2011. Áður en til þess kom að kærandi hæfi nám sitt veiktist hún og gat
ekki stundað námið fyrstu 4 vikur haustannar. Þegar hún mætti í skólann eftir
veikindi var ljóst að hún hafði dregist það mikið aftur úr í náminu að ekki var
mögulegt fyrir hana að ná upp því sem hún hafði misst úr. Fram kemur í kærunni
að haustönnin hafi því farið forgörðum hjá kæranda. Varð kærandi því að hverfa
frá námi. Í málinu liggur fyrir læknisvottorð um að kærandi hafi misst 4 vikur
úr námi fyrstu vikur haustannar sökum veikinda. Einnig er staðfest af hálfu
Háskóla Íslands að kærandi hafi misst úr 4 kennsluvikur vegna veikinda og að
ógerlegt sé fyrir nýnema í stærðfræði sem séu svona mikið frá námi að ávinna sér
próftökurétt. Kærandi bar mál sitt undir stjórn LÍN og óskaði eftir auknu
svigrúmi vegna veikinda. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með vísan til þess að
hún hefði ekki stundað neitt nám á misserinu og væri því ekki hægt að verða við
erindi hennar.
Sjónarmið kæranda
Kærandi vísar til þess
að nám hennar hafi farið algerlega forgörðum sökum veikinda. Vísar hún til
framlagðra vottorða frá lækni um veikindin og frá HÍ þar sem fram komi að ekki
hafi verið möguleiki á að vinna upp tapaðan tíma vegna veikindanna. Hafi þetta
sett stórfellt strik í reikninginn og hafi hún ekki getað greitt upp
yfirdráttarheimild sem hún hafi stofnað til í banka sem hafi verið fyrirgreiðsla
vegna lánsáætlunar. Lítið hafi verið um vinnu og henni hafi auk þess ekki staðið
til boða að leita fjárhagsaðstoðar í gegnum þjónustumiðstöð síns hverfis þar sem
hún hafi verið skráð í nám og því átt rétt á námsláni.
Sjónarmið
LÍN
Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 20. mars 2012
verði staðfestur. Vísar stjórnin til greinar 2.4.3 í úthlutunarreglum LÍN
varðandi heimild til að veita undanþágu vegna veikinda. Skilyrði fyrir slíkri
undanþágu sé að námsmaður framvísi læknisvottorði þar sem greinilega komi fram á
hvaða tíma læknis hafi verið vitjað og á hvaða tímabili námsmaður hafi verið
óvinnufær vegna veikinda að mati læknis. Í þeim tilfellum sem námsmaður þurfi að
hverfa frá námi sé heimilt að veita hlutfallslegt lán að hámarki 18
ECTS-einingar fyrir þann tíma sem námsmaður stundaði nám og staðfestur hafi
verið af skólayfirvöldum. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi ekkert nám
stundað á misserinu og því hafi ekki verið hægt að verða við beiðni hennar um
undanþágu vegna veikinda á haustmisseri 2011.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra
námsmanna skal aldrei veita námslán fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um
tilskilda skólasókn og námsárangur. Þá skal samkvæmt 4. mgr. 6. gr. sömu laga
ekki veita námslán nema námsframvinda sé með eðlilegum hætti. Um heimild frá
undanþágu á námsframvindu er mælt 12. gr. laga nr. 21/1992 en þar segir:
Sé námsmanni vegna örorku sinnar, framfærslu barna sinna eða maka eða
af öðrum ástæðum illmögulegt að dómi sjóðstjórnar að stunda nám sitt að
fullnýttri lánsheimild má veita honum aukalán úr sjóðnum enda verði höfð
hliðsjón af þeim bótum sem hann fær samkvæmt gildandi tryggingalöggjöf. Lán
þessi eru veitt með sömu kjörum og almenn námslán. Þá er stjórn sjóðsins heimilt
að veita lán með sömu kjörum og almenn námslán vegna annarra áfalla en greinir í
1. mgr., svo sem ef námsmanni stendur ekki tímabundið til boða fullt nám
samkvæmt skipulagi skóla eða veikindi valda því að námsmanni tekst ekki að
standast prófkröfur.
Heimildin í 12. gr. er nánar útfærð í
úthlutunarreglum LÍN. Í máli þessu gilda úthlutunarreglur LÍN fyrir skólaárið
2011-2012 og í ákvæði 2.4.3 sem fjallar um veikindi segir m.a. í 2. og 3. mgr.:
"Heimilt er við mat á námsframvindu að taka tillit til þess ef
námsmaður, veikist verulega á námstíma. Er þá heimilt að bæta allt að 6
ECTS-einingum í misseraskólum og samsvarandi hlutfalli í fjórðungaskólum við
loknar einingar þannig að lánsréttur miðist við lágmarkseiningafjölda, sbr. 2.4.
Veikist námsmaður á seinni hluta annar eða í prófum er heimilt að bæta allt að
18 ECTS-einingum í misseraskólum og samsvarandi hlutfall í fjórðungaskólum við
loknar einingar þannig að lánsréttur miðist við lágmarkseiningafjölda, sbr. 2.4.
Í þeim tilfellum þar sem námsmaður verður að hverfa frá námi vegna veikinda er
heimilt að veita hlutfallslegt lán fyrir þann tíma sem námsmaður stundaði nám og
staðfestur er af skólayfirvöldum, að hámarki 18 ECTS eininguar í misseraskólum
og samsvarandi hlutfall í fjórðungaskólum." "Skilyrði fyrir veitingu undanþágu
vegna veikinda námsmanns er að námsmaður framvísi læknisvottorði þar sem
greinilega komi fram á hvaða tíma vitjað var lækni og á hvaða tímabili námsmaður
var óvinnufær vegna veikinda að mati læknis"
Í 1. mgr. 12. gr. laga
nr. 21/1992 sem lýst er hér að framan er gert ráð fyrir að heimilt sé að veita
aukalán til námsmanna er verða fyrir töfum í námi vegna veikinda, þ.e. er
illmögulegt að stunda nám sitt. Má af orðalagi ákvæðisins ráða að gert sé ráð
fyrir að námsmaður geti sýnt fram á einhverja ástundun náms. Hið sama má ráða af
orðalagi 2. mgr. 12. gr. en þar kemur fram að heimilt sé að veita lán þegar
veikindi leiða til þess að námsmaður standist ekki prófkröfur. Þessar heimildir
eru nánar útfærðar í úthlutunarreglum LÍN og er þar sett það skilyrði fyrir
aukaláni vegna veikinda að námsmaður hafi stundað nám a.m.k að hluta og að
skólayfirvöld staðfesti slíkt og/eða að hann hafi skilað einhverjum námsárangri
til að eiga rétt á aukaláni vegna veikinda. Í gögnum málsins kemur fram að
kærandi varð að hverfa frá námi eftir að hafa verið veik fyrstu 4 vikur
haustmisseris. Hún skilaði því hvorki námsárangri á haustönn 2011 né er henni
mögulegt að leggja fram staðfestingu skólayfirvalda á ástundun náms á önninni.
Er því ekki hægt að byggja á því að kærandi hafi stundað nám á haustönn 2011.
Var stjórn LÍN því rétt að synja henni um lán. Með vísan til framanritaðs er
niðurstaða stjórnar LÍN frá 20. mars 2012 í máli kæranda staðfest.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 20. mars 2012 er staðfestur.