Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-23/2012 - Umsóknarfrestur og útborgun - frestur til að skila námsárangri útrunninn

Úrskurður

 

Ár 2012, föstudaginn 5. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-23/2012.

 

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 18. maí 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 16. febrúar 2012 um að synja honum um afgreiðslu námsláns sökum þess að hann skilaði ekki inn upplýsingum um námsárangur vegna upptökuprófa fyrr en eftir að frestur til þess var útrunninn þann 15. janúar 2012. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 30 maí sl. og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 20. júní 2012 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundaði nám við hönnunarskóla í Danmörku og fékk heimild hjá skólanum til að fresta lokaprófum. Umrædd lokapróf voru ekki haldin fyrr en í desember 2011. Skilaði kærandi upplýsingum um námsárangur sinn þann 18. janúar 2012 eða þremur dögum eftir að frestur til þess rann út. Er kærandi sendi upplýsingarnar til LÍN greindi hann frá því að hann hafi veikst í prófunum 2011 og þurft að taka upptökupróf. Hafi einkunnir vegna þeirra ekki borist fyrr en 18. janúar og hafi hann sent þær samdægurs. Fékk hann þær upplýsingar frá LÍN að búið væri að loka fyrir námslán vegna námsársins 2010-2011. Jafnframt að frestur til að sækja um námslán vegna haustannar 2011 væri liðinn. Fór kærandi þess á leit við stjórn LÍN að hún úrskurðaði um synjunina á námsláninu til hans. Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda með vísan til þess að í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2010-2011 grein 5.2.1 komi fram að lánveitingum vegna námsársins skuli lokið fyrir 15. janúar 2012 og að enga heimild væri að finna í reglum LÍN um afgreiðslu námslána vegna skólaársins eftir þann tíma. 

Sjónarmið kæranda 

Kærandi kveðst hafa frestað því að fara í próf þar sem annarverkefni hans hafi lengst og hann ekki lokið því fyrr en eftir próf. Hafi skólinn samþykkt frestunina og sagt að hann mætti taka prófið með næsta prófi í desember 2011. Kærandi vísar til þess að hann hafi ekki haft möguleika á því að skila einkunnum fyrir 15. janúar 2011 og vísar til þess að LÍN verði að taka tillit til reglna þess skóla er sjóðurinn hafi samþykkt. 

Sjónarmið stjórnar LÍN 

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram kærandi hafi fengið námslán vegna haustmisseris 2010. Hann hafi hins vegar veikst og ekki tekið próf fyrr en í desember 2011. Því hafi hann ekki skilað einkunnum fyrr en eftir tilskilinn frest er hafi verið 15. janúar 2012. Vísar stjórn LÍN til þess að samkvæmt grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN skuli lánveitingum vegna námsársins 2010-2011 vera lokið 15. janúar 2012. Af þeim sökum hafi stjórn LÍN synjað erindi kæranda.

 

Niðurstaða

 

Kærandi stundaði nám í Danmörku námsárið 2010-2011. Hann fékk haustlán 2010 en þurfti síðan að fresta prófum vegna vorannar 2011 fram í desember það ár. Bárust einkunnir kæranda ekki fyrr en eftir að lokið var afgreiðslu námslána vegna skólaársins 2010-2011, þ.e. eftir 15. janúar 2012. Í grein 5.2.1. í úthlutunarreglum LÍN kemur fram að lánveitingum vegna námsársins 2010-2011 skuli vera lokið 15. janúar 2012. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að afgreiða námslán eftir að frestur til að leggja fram gögn um námsárangur og aðrar þær upplýsingar sem LÍN hefur óskað eftir er liðinn. Málskotsnefnd hefur áður úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Í áðurnefndri grein úthlutunarreglna 5.2.1 er sérstaklega tekið fram að eftir lokun námsársins séu ekki afgreidd lán vegna þess. Þegar LÍN barst staðfesting frá skóla kæranda um námsárangur hafði stjórn LÍN lokað á afgreiðslu allra námslána vegna námsársins 2010-2011. Það er álit málskotsnefndar að af fyrrnefndri grein úthlutunarreglna LÍN leiði, að ekki geti komið til lánveitinga vegna umsókna sem berast eftir að lokið er afgreiðslu námslána vegna námsársins. Þá ber til þess að líta að kærandi gerði LÍN ekki grein fyrir breyttum aðstæðum sínum, þ.e. því að hann myndi þreyta próf á haustönn 2011 í stað vorannar 2011 og að samkvæmt reglum skólans ætti hann ekki von á einkunnum fyrr en eftir umræddan frest. Gat sjóðurinn því ekki leiðbeint honum um að sækja um námslán vegna haustannar 2011. Það kemur fram í grein 5.1.6 í úthlutunarreglum LÍN að námsmanni ber að láta LÍN vita ef upplýsingar þær sem lagðar eru til grundvallar lánsáætlun reynast rangar. Með vísan til framanritaðs og fyrri úrskurða stjórnar LÍN og málskotsnefndar við meðferð samskonar mála er það niðurstaða málskotsnefndar að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjun stjórnar LÍN á beiðni kæranda. Að þessu virtu er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 16. febrúar 2012 er staðfestur.

Til baka