Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-33/2013 - Umsóknarfrestur og útborgun - skil á námsárangri á sumarönn

Úrskurður

 

Ár 2012, miðvikudaginn 23. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-33/2013:

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 20. júní 2012 sem barst málskotsnefnd 21. sama mánaðar kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 19. mars 2013, þar sem kæranda var synjað um námslán vegna náms sem hann stundaði á sumarönn 2012. LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 21. júní 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN bárust nefndinni 22. júlí 2012. Með bréfi dagsettu 30. júlí 2012 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör LÍN. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundaði nám við Háskólann á Bifröst og sótti um sumarlán fyrir sumarið 2012. Hann fékk afgreitt lán vegna skólagjalda en þar sem námsárangur hafði ekki borist síðla hausts var skráð á hann ofgreiðsla námsláns. Sendi LÍN kæranda tilkynningu um þetta í byrjun október 2012. Sinnti kærandi þessu ekki og var ítrekun send 10. desember s.á og kæranda gefinn frestur til 18. desember til að koma með athugasemdir. Kærandi hafði svo samband við sjóðinn 21. desember 2012 og var þá bent á að frestur til að gera athugasemdir við afgreiðslu málsins væri liðinn. Þann 9. janúar 2013 sendi kærandi tölvupóst til LÍN þar sem kærandi segist hafa verið í sambandi við háskólann fyrir jól en þá hafi starfsfólk verið farið í jólafrí. Hafi hann haft samband aftur og væri skrifstofan búin að senda staðfestingu til LÍN þennan sama dag, þ.e. 9. janúar 2013, um námsárangur kæranda. Kvaðst kærandi vona að leiðrétting kröfunnar gæti nú átt sér stað. Háskólinn sendi þó ekki staðfestingu um námsárangur kæranda fyrr en 15. janúar 2013 eða degi eftir að frestur til þess rann út. LÍN sendi kæranda síðan tölvupóst 28. janúar 2013 þar sem honum var tilkynnt um að engar upplýsingar um námsárangur hafi borist og því væri ekki heimilt að veita honum lán fyrir það misseri. Bæri honum að endurgreiða lán vegna skólagjalda. Fyrir liggur í málinu tölvupóstur dagsettur 1. febrúar 2013 frá starfsmanni háskólans til LÍN þar sem fram kemur að hún hefði staðið í þeirri meiningu að námsárangur sumarannar hefði verið sendur á réttum tíma. Einnig ber viðkomandi starfsmaður fyrir sig að LÍN hafði láðst að gera henni grein fyrir þessum skiladegi. Hún hafi síðan sent uppfærða stöðu 15. janúar 2013 en LÍN hafi ekki tekið við þeim upplýsingum þar sem þær hafi borist einum degi of seint. Kærandi bar mál sitt undir stjórn LÍN sem úrskurðaði í máli hans 19. mars 2013. Var beiðni kæranda um að námsárangur hans yrði tekinn gildur hafnað sökum þess að tilskilin gögn um námsárangur höfðu ekki borist fyrir 15. janúar 2013. 

Sjónarmið kæranda. 

Kærandi upplýsir í kæru sinni að hann hafi beðið starfsmann háskólans um að senda námsárangur sinn þann 6. janúar 2013 og ítrekað þá beiðni 9. janúar 2013. Hefði umræddur starfsmaður sent upplýsingarnar of seint en borið fyrir sig að LÍN hafi láðst að gera sér grein fyrir skiladegi námsárangurs. Fór kærandi þess á leit að tekið yrði tillit til þess að hann hafi ítrekað við umræddan starfsmann að hún sendi inn upplýsingarnar og að mistök umrædds starfsmanns yrði ekki látin bitna á kæranda. Fór kærandi þess einnig á leit að litið yrði til þess að námsárangur sumarannar hafi aðeins borist einum degi of seint. 

Sjónarmið stjórnar LÍN. 

Stjórn LÍN upplýsir í athugasemdum sínum að kæranda hafi ítrekað verið bent á að ofgreiðsla námsláns hafi verið komin til haustið 2012. Kærandi hafi síðan í janúar 2013 haft samband við sjóðinn þar sem hann hafi sagst hafa verið í sambandi við háskólann varðandi námsárangur fyrir sumarið 2012. Þá upplýsir stjórn LÍN að engin samskipti séu skráð í samskiptakerfi LÍN frá 18.6.2012 til 20.12.2012. Ekki liggi fyrir upplýsingar um samtöl kæranda við starfsmann háskólans á Bifröst þrátt fyrir að starfsmenn sjóðsins hafi ítrekað óskað eftir slíkum upplýsingum. Þá sé það á ábyrgð námsmanna að gögn um námsárangur skili sér til sjóðsins en ekki háskólans eða LÍN. Kemur einnig fram í útskýringum stjórnarinnar að tölvupósti kæranda þann 9. janúar 2013 hafi ekki verið svarað fyrr en 28. janúar 2013 sökum anna hjá LÍN. Þá vísar stjórn LÍN til þess að enga heimild sé að finna fyrir því í reglum sjóðsins að afgreiða námslán þegar gögn um námsárangur hafi verið skilað of seint.

 

Niðurstaða

 

Um skilyrði þess að námslán verði greitt út er fjallað um í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN en þar segir: 

Skilyrði er að námsmaður hafi lagt fram gögn um námsárangur sinn, tekjuáætlun eða skattframtal og aðrar þær upplýsingar sem máli skipta. Lán greiðast inn á reikning í viðskiptabanka eða sparisjóði á Íslandi sem skal vera á nafni námsmanns. Heimilt er að greiða út lán á öðrum tímum enda liggi fyrir að námsmaður hafi uppfyllt kröfur sjóðsins um afköst og árangur í námi. Lánveitingum vegna námsársins 2011-2012 skal þó lokið fyrir 15. janúar 2013, eftir það eru ekki afgreidd lán vegna námsársins. 

Samkvæmt framansögðu skyldi lánveitingum vegna námsársins 2011-2012 vera lokið fyrir 15. janúar 2013 eins og fyrr greinir. Um tilkynningaskyldu námsmanns og skyldu til að skila gögnum er nánar kveðið á um í reglugerð nr. 478/2011 um LÍN og í úthlutunarreglum LÍN. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að afgreiða námslán eftir að frestur til að leggja fram gögn um námsárangur og aðrar þær upplýsingar sem LÍN hefur óskað eftir er liðinn. Málskotsnefnd hefur áður úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Kærandi lauk námi sínu með fullnægjandi hætti. Þrátt fyrir ítrekanir þar um hafði kærandi ekki gert reka að því að fá einkunnir sendar til LÍN fyrir en seint í desember 2012. Þegar kærandi hafði samband við háskólann 9. janúar 2013 var þó ekki liðinn sá frestur sem reglur LÍN kveða á um samkvæmt framansögðu. Ekki er ástæða til að draga í efa sannleiksgildi frásagnar kæranda um samskipti hans við skólann, enda gerir hann LÍN grein fyrir því í tölvupósti þennan sama dag að einkunnir hans hafi þegar verið sendar LÍN. Af tölvupóstum starfsmanns háskólans til LÍN má ennfremur sjá að umræddur starfsmaður stóð í þeirri trú að hún hefði þegar sent upplýsingarnar til LÍN. Verður ekki betur séð en að mistök skólans hafi orðið til þess að einkunnir kæranda bárust ekki innan tilskilins frests. Málskotsnefnd fellst á það með stjórn LÍN að það er námsmaður sem endanlega ber ábyrgð á því að upplýsingar um námsárangur verði sendar til sjóðsins. Eins og atvikum er háttað í þessu máli verður ekki betur séð en að kærandi hafi með virkum hætti unnið að því að sjá til þess að námsárangur hans yrði sendur LÍN og að hann hafi mátt treysta því að skólinn yrði við beiðni hans um að senda umræddar upplýsingar. Að mati málskotsnefndar gat kærandi ekki séð fyrir að einkunnarskil Háskólans á Bifröst myndu dragast með þeim hætti sem þau gerðu. Gátu athafnir kæranda ekki breytt því að starfsmaður skólans stóð ranglega í þeirri trú að einkunnir hefðu þegar verið sendar. Þó svo að útskýringar háskólans séu með ólíkindum og vart verði séð hvernig misskilningur hafi mátt vera um gagnaskil verður að telja ósanngjarnt að kærandi beri hallann af því. Þá skiptir það máli að mati málskotsnefndar að kærandi sendi tölvupóst til LÍN þar sem hann gerði grein fyrir því að hann hefði haft samband við skólann og að upplýsingar um námsárangur hefðu verið sendar. Hefði það átt að vera tilefni til þess að LÍN benti kæranda strax á að engar upplýsingar hefðu borist þannig að kærandi hefði haft ráðrúm til þess að leiðrétta þann misskilning sem var um einkunnaskil hjá háskólanum. Verður því að fallast á með kæranda að hann hafi gert viðeigandi ráðstafanir til að sjá til þess að háskólinn sendi upplýsingar um námsárangur hans til LÍN. Ber því LÍN að taka til greina skil kæranda um námsárangur þrátt fyrir að þau gögn hafi borist eftir að fresti til þess lauk samkvæmt grein 5.2.1. Með vísan til framangreinds er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN frá 19. mars 2013 felldur úr gildi.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN frá 19. mars 2013 í máli kæranda er felldur úr gildi.

Til baka