Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-27/2012 - Skilyrði lánveitingar - námsstyrkur frá SU í júnímánuði

Úrskurður

Ár 2012, miðvikudaginn 24. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-27/2012:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 13. júní 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 30. apríl 2012, þar sem kæranda var synjað um heimild til að þiggja styrk frá SU í Danmörku í júní 2012, þar sem hún nyti námsláns frá LÍN á sama tíma. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 14. júní 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 2. júlí 2012. Með bréfi dagsettu 13. júlí 2012 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör stjórnar LÍN. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfum dagsettum 28. september 2012 óskaði málskotsnefnd frekari upplýsinga frá kæranda og stjórn LÍN varðandi umsókn kæranda um styrki frá SU og reglur sem um slíka styrki gilda. Svar stjórnar LÍN barst með bréfi dagsettu 4. október og svar kæranda barst með bréfi dagsettu 9. október 2012.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundar nám í læknisfræði í Danmörku. Kærandi átti rétt á námsláni námsárið 2011-2012 vegna 60 ECTS eininga. Námsárið hjá kæranda eru 10 mánuðir, þ.e. frá september til loka júní. Kærandi átti kost á að njóta námsstyrks frá SU í Danmörku yfir sumartímann. Fór kærandi þess á leit við LÍN að sér yrði heimilt að þiggja þann styrk í 3 mánuði, þ.e. júní, júlí og ágúst þar sem útreikningar LÍN á framfærslu miðuðust við 9 mánuði þó svo að kærandi stundaði nám í 10 mánuði. Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda um heimild til að þiggja styrk frá SU í júní mánuði en gerði ekki athugasemdir við að kærandi þæði styrk í júlí og ágúst. Gæti stjórnin ekki fallist á að námsmaður þæði námsaðstoð frá tveimur norrænum lánasjóðum samtímis.

Sjónarmið kæranda.

Í kærunni kemur fram að samkvæmt reglum LÍN miðist útreikningur framfærslu við 9 mánuði á ári. Skólaár kæranda væri aftur á móti 10 mánuðir. Væri því ljóst að hún þiggi ekki fulla framfærslu frá LÍN. Sökum þessa fer kærandi þess á leit við málskotsnefnd að metinn verði réttur hennar til umsóknar um styrk frá danska ríkinu í þrjá mánuði, eða að öðrum kosti að metinn verði réttur hennar til samsvarandi 10 mánaða grunnframfærslu á ári frá LÍN fyrir námsmann með tvö börn. Í viðbótarathugasemdum kæranda er vísað til þess að hvergi í upplýsingum um framfærslulán á heimasíðu LÍN sé vísað til hvaða mánuða framfærslulán séu veitt. Hafi kærandi þess vegna valið að sækja um SU styrk fyrir 3 mánuði yfir sumartímann, þ.e. júní, júlí og ágúst. Hafi SU samþykkt þetta og kærandi hafi hlotið styrk vegna þessa tímabils frá SU. Sé þetta einnig í samræmi við framkvæmd norrænu ráðherranefndarinnar sem veiti styrk þrjá mánuði á ári, yfir sumarmánuðina. Styðji þessi staðreynd mál kæranda um að námslán LÍN nái einungis yfir 9 mánuði á ári, og samkvæmt þessu frá september til og með maí.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

Í athugasemdum stjórnar LÍN er vísað til VI. kafla úthlutunarreglna LÍN þar sem segir að skilyrði fyrir námsaðstoð frá LÍN sé að umsækjandi fái ekki námsaðstoð (lán eða styrk) frá öðrum samnorrænum lánasjóðum. Komi fram í athugasemdunum að lánað sé að hámarki fyrir 60 ECTS einingum og miðist útborgun við hverja lokna einingu. Almennt talið sé skólaárið 9 mánuðir en erlendis geti það verið mismunandi og í Danmörku sé námsárið 10 mánuðir. Ekki sé gerður greinarmunur á úthlutun vegna 9 mánaða náms eða 10 mánaða náms enda sé námið skipulagt sem fullt nám eða 60 ECTS einingar. Í viðbótarathugasemdum stjórnar LÍN segir að í samnorrænu reglunum felist að námsmenn geti aðeins fengið lán frá einum norrænum lánasjóði á ákveðinni önn. Vísar LÍN til reglna SU í þessu sambandi þar sem fram komi að aðeins sé hægt að fá lán frá einum aðila á hverjum tíma. Stjórn LÍN greinir einnig frá því að tvisvar á ári skiptist sjóðirnir á upplýsingum um námsmenn í viðkomandi landi. Komi í ljós að námsmaður hafi fengið lán frá fleiri en einum sjóði fái þeir sendan tölvupóst þar sem þeir séu upplýstir um stöðu mála og að lánveiting verði stöðvuð þar til málið skýrist. Í tilfelli kæranda hafi LÍN boðið henni að hætta við að þiggja SU styrk og endurgreiða hann.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna skal miða við að námslán samkvæmt lögunum "nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns." Þá kemur fram í 3. mgr. 6. gr. laganna að námsmaður skuli "að jafnaði hafa heimild til þess að taka lán á hverju missiri meðan hann sé við nám, þó ekki lengur en hæfilegur námstími er talinn í þeirri grein og í þeim skóla þar sem nám er stundað." Í reglugerð nr. 478/2011 um lánasjóð íslenskra námsmanna segir að stjórn sjóðsins sé heimilt "að setja reglur um hámark lána, t.d. vegna skólagjalda og miða upphæð lána við námsárangur lánþega á hverri önn, misseri eða skólaári." Um útreikning lána vegna framfærslu er nánar kveðið á um í greinum 3.1.1 og 3.1.2 í úthlutunarreglum LÍN með svofelldum hætti:

"3.1.1 Grunnframfærsla á Íslandi Öll aðstoð til framfærslu á námstíma skólaárið 2012-2013 miðast við grunnframfærslu á Íslandi, sem skilgreind er af sjóðnum. Sú fjárhæð er 140.600 kr. (sjá nánar fylgiskjal I) eða 21.090 kr. fyrir hverja ECTS-einingu sem námsmaður lýkur. 3.1.2 Grunnframfærsla í útlöndum Grunnframfærsla í útlöndum á námstíma skólaárið 2012–2013, sem getur verið mismunandi eftir löndum og borgum, er ákveðið hlutfall af grunnframfærslu á Íslandi. Framfærsla námsmanna erlendis miðast við landið/borgina þar sem skólinn er staðsettur. (Sjá nánar fylgiskjal II)."

Í fylgiskjali I kemur fram útreikningur á framfærslu á Íslandi. Þar kemur fram að mat á lánsþörf námsmanns á námstíma sé reiknuð miðað við að námstími sé almennt 9 mánuðir. Í 5. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1992 er kveðið á um áhrif þess að námsmaður þiggi lán frá öðru ríki og segir þar að námsmaður eigi "ekki rétt á námslánum samkvæmt lögunum njóti hann sambærilegrar aðstoðar frá öðru ríki." Í VI. kafla úthlutunarreglnanna segir ennfremur að "umsækjandi við nám á Norðurlöndum utan heimalandsins getur að uppfylltum sérstökum skilyrðum fengið námslán frá námslandinu. Skilyrði fyrir námsaðstoð frá LÍN er að umsækjandi fái ekki námsaðstoð (lán eða styrk) frá öðrum norrænum lánasjóðum." Í reglum SU sem stjórn LÍN og kærandi hafa vísað til segir m.a:

"Du kan ikke få SU i måneder, hvor du får andre former for offentlig støtte, der skal dække dine leveomkostninger. Får du kun offentlig støtte en del af måneden, udelukker SU-reglerne ikke, at du får SU den måned."

Eins og áður greinir hefur stjórn LÍN greint kæranda frá því að ekki verði fallist á að kærandi þiggi námsaðstoð frá tveimur eða fleiri samnorrænum lánasjóðum á sama námstímabili, þ.e. í þessu tilfelli á vormisseri 2012. Kærandi hefur hins vegar farið þess á leit að sér verði viðurkenndur réttur til að fá styrk frá danska ríkinu í þrjá mánuði á ári. Að öðrum kosti verði kveðið á um rétt hennar á hærra námsláni frá LÍN er samsvari 10 mánaða grunnframfærslu á ári fyrir námsmann með tvö börn. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 21/1992 skal miða námslán við að það nægi námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar. Í úthlutunarreglum LÍN grein 3.1.1 hefur stjórn LÍN ákvarðað grunnframfærslu hvers námsmanns sem ákveðna fjárhæð, þ.e. kr. 21.090 kr., fyrir hverja ECTS-einingu sem námsmaður lýkur. Við útreikning á þessari fjárhæð er lagt til grundvallar að námstími sé 9 mánuðir, þó svo að ljóst sé að hann geti verið lengri eða eftir atvikum styttri. Að baki hverri ECTS-einingu er ákveðinn fjöldi vinnustunda sem er ekki að fullu samræmdur milli ríkja en þó sambærilegur. Á Íslandi eru t.d. taldar vera 25-33 vinnustundir að baki ECTS einingu en í Danmörku 27-28 (sjá ECTS Users‘ Guide. Brussels, 6 February 2009). Fyrir liggur að stjórn LÍN hefur valið að byggja útreikning námslána á reglu sem tryggir námsmanni ákveðna fjárhæð fyrir hverja lokna einingu og þar með áætlaðar vinnustundir námsmanns, frekar en að miða við að námsmaður fái framfærslu fyrir hvern mánuð sem hann er skráður í nám, óháð afköstum. Er því um að ræða meðaltalsreglu sem ætlað er að tryggja jafnræði milli námsmanna, þ.e. að þeir eigi rétt á að fá lánaða sömu fjárhæð vegna hverrar ECTS-einingu er þeir ljúka. Samkvæmt úthlutunarreglum LÍN fær kærandi því í raun lán vegna framfærslu er miðar við loknar einingar og þar með vinnustundir en ekki miðað við það tímabil sem hún er skráð í nám. Að mati málskotsnefndar leiðir það af jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að námsmenn sem fá jafn mikið lánað á sama skólaári eigi að hafa sömu möguleika á að þiggja viðbótaraðstoð. LÍN ber samkvæmt þessu að nota sömu viðmið við skerðingu lána eins og notuð eru við ákvörðun lána. Námsárið hjá þeim skóla sem kærandi stundar nám við er 10 mánuðir. Framfærsluviðmið greinar 3.1.1 í úthlutunarreglum LÍN felur hins vegar í sér að kærandi fær lánað sem samsvarar 9 mánaða framfærslu. Það leiðir af framansögðu að LÍN ber að nota 9 mánaða viðmiðið við skerðingu réttar kæranda en ekki lengd námsárs. Er því ekki fallist á það með stjórn LÍN að kærandi sé í raun að þiggja námsaðstoð frá tveimur norrænum lánasjóðum samtímis þó hún þiggi SU styrk fyrir júnímánuð. Með vísan til framangreindra röksemda er úrskurður stjórnar LÍN felldur úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 30. apríl 2012 er felldur úr gildi. 

Til baka