Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-13/2012 - Útreikningur námslána - beiðni um lán fyrir 90 ECTS-einingum á námsári

Úrskurður

 

Ár 2012, miðvikudaginn 7. nóvember 2012, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-13/2012.

 

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 16. mars 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 15. desember 2011 um að synja henni um fullt námslán vegna náms er hún lagði stund á námsárið 2009-2010. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 21. mars 2012 og gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 10. apríl 2012 og var afrit þess sent kæranda 13. apríl 2012 og henni jafnframt gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum, sem hún gerði með ódagsettu bréfi skömmu síðar. Málskotsnefnd óskaði eftir frekari upplýsingum stjórnar LÍN um mál kæranda í september 2012 og bárust svör LÍN þann 4. október 2012. Þau voru send kæranda til athugasemda, sem hún skilaði málskotsnefnd þann 22. október 2012. Með bréfi málskotsnefndar til LÍN, dagsettu 25. október 2012, var óskað skýringa á misræmi í dagsetningum sem fram kom í bréfum LÍN. Skýringar LÍN bárust með tölvubréfi 30. október 2012 og voru þær framsendar kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi var innrituð í 12 mánaða meistaranám í Bretlandi skólaárið 2009-2010 og sótti um námslán til LÍN fyrir öllu námstímabilinu. Nám kæranda var þriggja anna, þ.e. samfellt 12 mánaða nám á einu skólaári þar sem skiladagur á lokaverkefni var 15. september 2010. Í úthlutunarreglum LÍN telst eitt skólaár vera níu mánuðir, sem jafngildir 60 ECTS-einingum í fullu námi. Sumarönn er þrír mánuðir eða sem svarar til 20 ECTS-eininga í fullu námi. Umsókn kæranda var samþykkt af LÍN og gefin út lánsáætlun fyrir 12 mánuðum sem samkvæmt framansögðu svarar til 80 ECTS-eininga. Eins og fyrr segir var skiladagur á lokaverkefni kæranda í námi hennar 15. september 2010. Fram kemur hjá kæranda að væri þeim skilum ekki náð, t.d. vegna veikinda, væri sjúkradagur skila ári síðar eða 15. september 2011, án þess að til kæmi sérstök skráning, nám eða skólagjöld námsmanns. Hvorn daginn sem væri skilað lægju niðurstöður prófa ekki fyrir fyrr en 1. desember það ár. Kærandi kveðst hafa veikst haustið 2010 og því þurft að nýta sér sjúkraskiladaginn 15. september 2011. Með bréfi dagsettu 21. nóvember 2011 hafði kærandi samband við stjórn LÍN varðandi afgreiðslu á þeim 20 ECTS-einingum sem hún átti ónýttar af lánsloforði sjóðsins. Kvaðst hún hafa staðið í þeirri meiningu að þótt hún hafi þurft að nota sjúkrarétt sinn til seinni skila á lokaverkefni fengi hún lán LÍN afgreitt í samræmi við lánsloforð sjóðsins þegar staðfesting á námslokum lægi fyrir. Hún hafi hins vegar fengið þær upplýsingar frá starfsmanni LÍN að eftir 1. desember 2010 væru ekki greidd námslán vegna skólaársins 2009-2010. Óskaði kærandi eftir leiðbeiningum stjórnar LÍN um lausn málsins og svara sem fyrst svo hún gæti t.d. ákveðið hvort hún myndi sækja um námslán fyrir 1. desember 2011 vegna yfirstandandi skólaárs. Ennfremur benti kærandi á að sjóðnum bæri að virða:“...skyldur sínar til leiðbeininga, upplýsinga, viðvarana um íþyngjandi ákvarðanir, andmælarétt, rannsóknarreglu, meðhóf og birtingu ákvörðunar vegna niðurfellingar veitts lánsréttar.“ Hinn 28. nóvember 2011 sótti kærandi jafnframt um námslán vegna skólaársins 2011-2012. Stjórn LÍN úrskurðaði um erindi kæranda 16. desember 2011. Í niðurstöðu hennar er vísað til þess að í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2009-2010 komi skýrt fram að lánveitingum vegna námsársins skuli lokið fyrir 1. desember 2010. Samkvæmt ákvörðun stjórnar LÍN hafi sá frestur verið framlengdur til 15. janúar 2011, en eftir þann tíma væru ekki afgreidd lán vegna námsársins. Í reglum LÍN sé því enga heimild að finna til að verða við beiðni kæranda um afgreiðslu námsláns nú vegna skólaársins 2009-2010. Ekki var sérstaklega fjallað um það í úrskurði stjórnar LÍN hvort kærandi ætti rétt á námsláni vegna lokaverkefnisins á skólaárinu 2011-2012, eins og hún sótti um þann 28. nóvember 2011. 

Sjónarmið kæranda. 

Kærandi tekur fram í kæru sinni að stjórn LÍN hafi ekki hafi ekki orðið við beiðni hennar um leiðbeiningar um hvernig hún ætti að geta notið námsláns í samræmi við útgefna námsáætlun sjóðsins eða námsárangur vegna þeirra ECTS-eininga sem hún hafi lokið umfram þær 60 sem þegar hafi verið lánað til. Samkvæmt lögum nr. 21/1992 sé það meginskylda LÍN að veita lán vegna háskólanáms og hafi sjóðurinn enga lagaheimild til þess búa sér til undanþágu frá þeirri skyldu og lögin heimili engar tæknilegar eða ómálefnalegar hindranir af hálfu sjóðsins. Ennfremur leggi stjórnsýslulög ríkar upplýsinga- og leiðbeiningaskyldur á sjóðinn og hafi honum borið að upplýsa námsmann um allt það sem gæti raskað rétti hans til láns og hafi borið að gera honum viðvart ef svipta ætti hann lánsrétti. Tekur kærandi fram að hvergi sé upplýst af hálfu LÍN eða minnt á að gögn um námsárangur skorti eða hætta væri á að réttur glataðist. Vísar kærandi m.a. á tölvupósta og upplýsingar á heimasíðu LÍN í þessu sambandi. Kærandi tekur fram að til að tryggja sig gagnvart sjóðnum hafi hún aftur sótt um námslán vegna nýs skólaárs, 2011-2012, þ.e. þess árs sem einkunnir myndu skila sér, þó að námið hafi farið fram 2009-2010. Telur kærandi að úr því sem komið er sé eðlilegast að LÍN taki gilda umsókn sína vegna skólaársins 2011-2012 (og/eða sumarannar 2011) og veiti henni í það minnsta fullt haustlán vegna þeirra eininga sem ekki hefur enn verið lánað fyrir. 

Sjónarmið stjórnar LÍN. 

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram að sjóðurinn hafi sent kæranda tölvupóst 10. nóvember 2010 og bent henni á umsóknarfrestinn fyrir skólaárið 2010-2011. Engin umsókn um námslán fyrir það námsár hafi borist frá kæranda og hafi hún ekkert samband haft við sjóðinn frá því að hún sendi inn námsárangur vegna vorannar 2010 og þar til 18. nóvember 2011. Stjórn LÍN tekur fram að samkvæmt grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN skuli lánveitingum vegna námsársins 2009-2010 vera lokið 1. desember 2010. Stjórn LÍN hafi hins vegar ákveðið að framlengja þann frest til 15. janúar 2011, en eftir það yrðu engin lán afgreidd vegna námsársins 2009-2010. Eins og fyrr greinir óskaði málskotsnefnd eftir frekari upplýsingum stjórnar LÍN um mál kæranda. Í svarbréfi stjórnar LÍN frá 4. október 2012 kemur fram að þegar kærandi hafi snúið sér til LÍN í nóvember 2011 og í framhaldi af því skilað inn staðfestingu um loknar einingar á sumarönn hafi umsóknarfrestur vegna sumarannar 2011 verið löngu liðinn og því hafi hún ekki fengið afgreitt námslán. Stjórn LÍN tekur fram að hefði kærandi sótt um lán vegna sumarannar fyrir 1. júlí 2011 hefði hún átt rétt á námsláni fyrir 20 ECTS-einingum, sem hún lauk á sumarönn 2011. Það komi skýrt fram í úthlutunarreglum sjóðsins á hverju ári fyrir hvaða tíma þurfi að skila inn gögnum vegna ákveðins námsárs og þessar upplýsingar sé einnig að finna á heimasíðu sjóðsins. Það sé á ábyrgð námsmanns að kynna sér reglur sjóðsins á hverju tíma enda séu þær aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins. Þar sem enga heimild sé að finna í reglum LÍN til að verða við beiðni kæranda um afgreiðslu námsláns hafi beiðni hennar verið hafnað með úrskurði stjórnarinnar 15. desember 2011. Þá tekur stjórn LÍN fram að kærandi hafi ekki óskað eftir rökstuðningi hennar fyrir úrskurði sínum frá 15. desember 2011 fyrr en með erindi föður hennar 8. febrúar 2012. Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verði beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun stjórnvalds að vera borin fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt hún. Þar sem beiðni kæranda hafi borist sjö vikum eftir úrskurð stjórnar LÍN hafi henni verið hafnað.

 

Niðurstaða

 

Kærandi stundaði 12 mánaða mastersnám í Bretlandi námsárið 2009-2010. Hún sótti um námslán vegna þessa skólaárs. Kærandi fékk námslán er svaraði til 60 ECTS-eininga af 80 mögulegum en vegna veikinda skilaði hún ekki 20 ECTS-eininga lokaverkefni sínu fyrr en 15. september 2011, ári síðar en til stóð, eins og að framan er rakið. Kærandi telur sig eiga rétt á námsláni vegna sumarannar 2010 þrátt fyrir að hún hafi ekki skilað inn gögnum um námsárangur fyrr en í nóvember 2011. Í nóvember 2011 þegar LÍN synjaði beiðni kæranda um lán vegna 2009-2010 óskaði hún eftir því við LÍN að fá námslán á skólaárinu 2011-2012 fyrir umræddu lokaverkefni er hún hafði skilað í september 2011. Þeirri umsókn var einnig hafnað. 

Um rétt kæranda til láns vegna skólaársins 2009-2010. 

Um skilyrði þess að námslán verði greitt út er fjallað um í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN. Í 1. og 2. mgr. segir eftirfarandi: 

Útborgun framfærslu-, bóka- og ferðalána hefst að loknum 20-30 ECTS-einingum í byrjun janúar 2010 og að loknum 40 eða fleiri ECTS-einingum í byrjun apríl 2010. Skilyrði er að námsmaður hafi lagt fram gögn um námsárangur sinn, tekjuáætlun eða skattframtal eða aðrar þær upplýsingar er máli skipta. Lán greiðast inn á reikning í viðskiptabanka eða sparisjóði á Íslandi sem skal vera á nafni námsmanns. Heimilt er að greiða út lán á öðrum tímum enda liggi fyrir að námsmaður hafi uppfyllt kröfur sjóðsins um afköst og árangur í námi áður en sjóðurinn innir af hendi greiðslu láns vegna viðkomandi annar, misseris eða skyldunámskeiða. Lánveitingum vegna námsársins 2009-2010 skal þó lokið fyrir 1. desember 2010, eftir það eru ekki afgreidd lán vegna námsársins. 

Samkvæmt framansögðu skyldi lánveitingum vegna námsársins 2009-2010 vera lokið 1. desember 2010, en stjórn LÍN ákvað að framlengja frestinn til 15. janúar 2011, eins og fyrr greinir. Um tilkynningaskyldu námsmanns og skyldu til að skila gögnum er nánar kveðið á um í reglugerð nr. 602/1997 um lánasjóð íslenskra námsmanna og úthlutunarreglum LÍN. Segir í 2. gr. reglugerðarinnar að verði "breytingar á högum námsmanns eftir að umsókn um námslán var lögð fram, ber honum þegar í stað að skýra sjóðnum frá þeim ef ætla má að þær geti haft áhrif á ákvörðun um námslán." Upplýsingaskylda námsmanns er ítrekuð í úthlutunarreglum LÍN 2009-2010. Í grein 5.1.3 er mælt fyrir um gagnaskil af hálfu námsmanns og segir þar sérstaklega að prófvottorðum skuli "skilað eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að próftímabili lýkur. Að öðrum kosti er heimilt að líta svo á að námsmaður hafi fallið frá umsókn um lán á viðkomandi tímabili." Einnig segir eftirfarandi í grein 5.1.6 í um námsáætlun: 

Á grundvelli upplýsinga námsmanns m.a. um tekjur og fjölskylduhagi fær hann útfyllta lánsáætlun frá sjóðnum. Hún gefur kost á tímabundinni fyrirgreiðslu hjá viðskiptabanka, sbr. gr. 5.2.4. Eftir yfirferð lánsáætlunar ber námsmanni að láta sjóðinn vita ef þær upplýsingar sem lagðar eru til grundvallar reynast rangar. Þá segir í grein 5.5.1 um tilkynningaskyldu námsmanns: 

Umsækjanda ber að tilkynna allar breytingar á högum sínum er haft geta áhrif á veitingu námsaðstoðar, svo sem breyttar fjölskylduaðstæður, breytingar á fjárhag, heimilisfangi og námsáætlun, eða veikindi er valdið geta töfum í námi. M.a. ber að tilkynna sjóðnum þegar námsmaður stofnar til hjúskapar eða sambúðar. Námsmanni ber auk þess að senda sjóðnum öll þau gögn sem hann kann að verða beðinn um vegna umsóknar hans um námslán eða frest á lokun skuldabréfs. 

Í staðfestingarbréfi dags. 16. september 2009 sem sent var til kæranda vegna umsóknar hennar um námslán vegna námsársins 2009-2010 kemur fram að lánsáætlun sem kæranda verði send byggi á þeim fjölda eininga sem kærandi hyggist ljúka á viðkomandi skólaári, þ.e. á námsárinu 2009-2010. Í áðurnefndri grein úthlutunarreglna 5.2.1 er sérstaklega tekið fram að eftir lokun námsársins séu ekki afgreidd lán vegna þess. Í nóvember 2011 þegar kærandi krafði LÍN um afgreiðslu námsláns vegna sumarannarinnar var komið inn á annað námsár (2011-2012) og liðnir ellefu mánuðir frá því að stjórn LÍN lokaði á afgreiðslu allra námslána vegna námsársins 2009-2010. Umrætt ákvæði greinar 5.2.1 er fortakslaust og í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að afgreiða námslán eftir að frestur til að leggja fram gögn um Um tilkynningaskyldu námsmanns og skyldu til að skila gögnum er nánar kveðið á um í reglugerð nr. 602/1997 um lánasjóð íslenskra námsmanna og úthlutunarreglum LÍN. Segir í 2. gr. reglugerðarinnar að verði „breytingar á högum námsmanns eftir að umsókn um námslán var lögð fram, ber honum þegar í stað að skýra sjóðnum frá þeim ef ætla má að þær geti haft áhrif á ákvörðun um námslán.“ Upplýsingaskylda námsmanns er ítrekuð í úthlutunarreglum LÍN 2009-2010. Í grein 5.1.3 er mælt fyrir um gagnaskil af hálfu námsmanns og segir þar sérstaklega að prófvottorðum skuli „skilað eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að próftímabili lýkur. Að öðrum kosti er heimilt að líta svo á að námsmaður hafi fallið frá umsókn um lán á viðkomandi tímabili.“ Einnig segir eftirfarandi í grein 5.1.6 í um námsáætlun: Á grundvelli upplýsinga námsmanns m.a. um tekjur og fjölskylduhagi fær hann útfyllta lánsáætlun frá sjóðnum. Hún gefur kost á tímabundinni fyrirgreiðslu hjá viðskiptabanka, sbr. gr. 5.2.4. Eftir yfirferð lánsáætlunar ber námsmanni að láta sjóðinn vita ef þær upplýsingar sem lagðar eru til grundvallar reynast rangar. Þá segir í grein 5.5.1 um tilkynningaskyldu námsmanns: 

Umsækjanda ber að tilkynna allar breytingar á högum sínum er haft geta áhrif á veitingu námsaðstoðar, svo sem breyttar fjölskylduaðstæður, breytingar á fjárhag, heimilisfangi og námsáætlun, eða veikindi er valdið geta töfum í námi. M.a. ber að tilkynna sjóðnum þegar námsmaður stofnar til hjúskapar eða sambúðar. Námsmanni ber auk þess að senda sjóðnum öll þau gögn sem hann kann að verða beðinn um vegna umsóknar hans um námslán eða frest á lokun skuldabréfs. 

Í staðfestingarbréfi dags. 16. september 2009 sem sent var til kæranda vegna umsóknar hennar um námslán vegna námsársins 2009-2010 kemur fram að lánsáætlun sem kæranda verði send byggi á þeim fjölda eininga sem kærandi hyggist ljúka á viðkomandi skólaári, þ.e. á námsárinu 2009-2010. Í áðurnefndri grein úthlutunarreglna 5.2.1 er sérstaklega tekið fram að eftir lokun námsársins séu ekki afgreidd lán vegna þess. Í nóvember 2011 þegar kærandi krafði LÍN um afgreiðslu námsláns vegna sumarannarinnar var komið inn á annað námsár (2011-2012) og liðnir ellefu mánuðir frá því að stjórn LÍN lokaði á afgreiðslu allra námslána vegna námsársins 2009-2010. Umrætt ákvæði greinar 5.2.1 er fortakslaust og í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að afgreiða námslán eftir að frestur til að leggja fram gögn um námsárangur og aðrar þær upplýsingar sem LÍN hefur óskað eftir vegna viðkomandi námsárs er liðinn. Vegna þeirra athugasemda kæranda að hvergi á heimasíðu eða í tölvupóstum hafi verið upplýst eða minnt á af hálfu LÍN að gögn um námsárangur skorti eða hætta væri á að réttur glataðist kannaði málskotsnefnd sérstaklega hvernig upplýsingum til námsmanna var háttað varðandi þetta atriði á heimasíðu LÍN. Þar kemur fram að frá og með 21. desember 2010 voru sérstök skilaboð til námsmanna á heimasíðu LÍN þar sem þeir voru minntir á lokafrest til að skila gögnum vegna skólaársins 2009-2010. Þar segir eftirfarandi: 

Lokun síðasta skólaárs, þ.e. 2009-2010 21.12.2010 Heimilt verður að taka við gögnum sem tilheyra skólaárinu 2009-2010 fram til 15. janúar 2011. Eftir þann dag verður ekki heimilt að greiða lengur út námslán vegna skólaársins 2009-2010, þ.e. í fyrra. Athugið að ekki er átt við yfirstandandi námsár, 2010-2011! (sjá: http://www.lin.is/lin/Namsmenn/Skilabod_til_namsmanna/Nl-Skilabod12.html) 

Málskotsnefnd hefur áður úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Framangreind ákvæði úthlutunarreglna LÍN fela í sér almenn fyrirmæli um skilyrði þess að fá greitt út námslán á grundvelli lánsloforðs. Sérstök tilmæli LÍN til einstakra námsmanna um að skila gögnum fyrir tilskilinn frest beinast að námsmönnum á grundvelli þeirra upplýsinga sem þeir sjálfir hafa látið LÍN í té. Til þess að LÍN geti veitt frekari leiðbeiningar, s.s. þegar aðstæður námsmanns breytast, verður sjóðurinn að hafa undir höndum upplýsingar frá námsmanni um breytta stöðu hans. Að mati málskotsnefndar verður því ekki séð að LÍN hafi borið að upplýsa kæranda sérstaklega um áhrif þess að hún skilaði ekki tímanlega gögnum um námsárangur sinn vegna skólaársins 2009-2010 þar sem úthlutunarreglur LÍN eru skýrar að þessu leyti auk þess sem á heimasíðu LÍN voru sérstök skilaboð til námsmanna um afleiðingar þess að gögnum væri ekki skilað vegna skólaársins 2009-2010. Þá ber einnig til þess að líta að engar upplýsingar höfðu borist frá kæranda um breyttar aðstæður hennar er gáfu tilefni til að bregðast sérstaklega við af hálfu LÍN. Með vísan til framanritaðs var stjórn LÍN því rétt að synja beiðni kæranda að fá greitt út námslán vegna lokaverkefnis á grundvelli umsóknar hennar um lán á skólaárinu 2009-2010. 

Um rétt kæranda til námsláns vegna skólaársins 2010-2011. 

LÍN synjaði umsókn kæranda um námslán vegna skólaársins 2010-2011 sem of seint fram kominni en kærandi sótti um lán í nóvember 2011. Í V. kafla úthlutunarreglna LÍN 2010-2011 er fjallað um umsóknir og útborgun námslána. Í grein 5.2.2 segir að sækja skuli sérstaklega um námslán fyrir hvert aðstoðarár og að umsóknir verði að hafa borist sjóðnum fyrir: 1. desember 2010 vegna náms haustið 2010; 1. maí 2011 vegna náms vorið 2011; 1. júlí 2011 vegna náms sumarið 2011. 

Ofangreindir umsóknarfrestir eru fortakslausir og hefur málskotsnefnd eigi talið neina undanþágu vera frá þeim nema ef óviðráðanlegar orsakir eru þess valdandi að umsækjandi sækir ekki um fyrir tilskilinn frest eða mistök hafi verið gerð af hálfu LÍN. Kærandi hefur borið því við að LÍN hafi ekki sinnt leiðbeiningaskyldu gagnvart henni. Fram kemur í grein 5.1.6 í úthlutunarreglum LÍN að námsmanni ber að láta LÍN vita ef upplýsingar þær sem lagðar eru til grundvallar lánsáætlun reynast rangar. Þá er einnig ítrekað sérstaklega í grein 5.5.1 að umsækjanda um námslán beri að tilkynna um allar breytingar á högum sínum er haft geti áhrif á veitingu námsáðstoðar, s.s. veikindi er valdið geta töfum í námi. Kærandi gerði LÍN ekki grein fyrir breyttum aðstæðum sínum fyrr en í nóvember 2011, þ.e. því að hún hefði skilað lokaverkefni í september 2011 í stað september 2010. Gat sjóðurinn því ekki leiðbeint henni um að sækja um námslán vegna sumarannar 2011 sem tilheyrir skólaárinu 2010-2011, áður en frestur til þess rann út þann 1. júlí 2011. Með vísan til framanritaðs og fyrri úrskurða stjórnar LÍN og málskotsnefndar við meðferð samskonar mála er það niðurstaða málskotsnefndar að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjun stjórnar LÍN á beiðni kæranda. Að þessu virtu er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 15. desember 2011 er staðfestur.

Til baka