Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-24/2012 - Umsóknarfrestur og útborgun - námsárangri skilað eftir að skilafrestur rann út

Úrskurður

 

Ár 2012, miðvikudaginn 21. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-24/2012:

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 31. maí 2012 kærðu kærendur A og B úrskurði stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 20. mars 2012, þar sem kærendum var synjað um námslán vegna náms sem þær stunduðu á skólaárinu 2010-2011. LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 6. júní 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kærendum var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN bárust nefndinni 21. júní 2012. Með bréfi dagsettu 2. júlí 2012 var kærendum gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör LÍN og bárust þær í bréfi dagsettu 15. júlí 2012. Málskotsnefndin óskað eftir frekari upplýsingum frá kærendum í bréfi dagsettu 28. september 2012 og bárust þær 29. október s.á.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærendur stunduðu meistaranám í sálfræði við Háskólann í Árhúsum (Aarhus Universitet) í Danmörku á námsárinu 2010-2011. Þær áttu eftir að fá lán fyrir vorönn 2011, ígildi 30 ECTS eininga, en á þeirri önn unnu þær saman að lokaritgerð sem þær skiluðu á réttum tíma samkvæmt skipulagi skólans í byrjun nóvember 2011. Kærendur fengu að vita 12. desember 2011 að þær hefðu staðist lokaverkefnið en háskólinn birti ekki lokaeinkunnina fyrr en 18. janúar 2012. Stjórn LÍN úrskurðaði um erindi kærenda 20. mars 2012 þar sem erindi þeirra um afgreiðslu námsláns vegna vorannar námsársins 2010-2011 var hafnað. Í niðurstöðunum er vísað til þess að í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2010-2011 komi skýrt fram að lánveitingum vegna námsársins skuli lokið fyrir 15. janúar 2011 en eftir þann tíma væru ekki afgreidd lán vegna námsársins. 

Sjónarmið kæranda. 

Kærendur benda á að þær hafi stundað nám í sálfræði við Háskólann í Árósum og að á vorönn árið 2011 hafi þær unnið að lokaritgerð sem þær hafi skilað á tilsettum tíma. Í háskólanum sé tilhögunin sú að nemendur gera samning við leiðbeinanda og sé miðað við að ritgerð sé skilað innan 6 mánaða og hafi skiladagur kærenda verið 6. nóvember 2011, en þær hafi skilað ritgerðinni tæpri viku fyrr. Leiðbeinandinn fari svo yfir ritgerðina og annað hvort er farið á fund hans til að fá lokaeinkunn eða hún er tilkynnt símleiðis. Kærendum var tilkynnt um lokaeinkunnina símleiðis 12. desember 2011 og hafi þær þar með í raun verið útskrifaðar úr námi við skólann en ekki er um neina formlega útskrift að ræða hjá sálfræðideild Árósarháskóla. Einkunnir þeirra hafi ekki birtst í tölvukerfi skólans fyrr en 18. janúar 2012. Kærendur benda á að þær hafi ítrekað reynt að fá skriflega staðfestingu um einkunnir sínar og hafi jafnframt þrýst á að einkunnin yrði færð inn í tölvukerfi skólans sem fyrst. Jafnframt kveðast kærendur hafa verið í símsambandi við LÍN og haldið sjóðnum upplýstum um vandræði sín við að fá skriflega staðfestingu á einkunnum sínum. Kærendur telja að þegar horft sé til ákvarðana stjórnar LÍN í þessu máli hljóti að vakna sú spurning hvert hlutverk sjóðsins sé og hverjum hann eigi að þjóna sem sé væntanlega námsmönnum líkt og ráða megi af nafni sjóðsins. Kærendur telja vandséð að hin kærða ákvörðun samrýmist því. Kærendur benda á að stjórn LÍN kjósi að taka þá ákvörðun sem komi verst við þær, námsmenn sem stóðu sig vel í námi og skiluðu verkefnum sínum á tilskildum tíma, en vegna vinnubragða og starfshátta hjá skólanum þá bárust einkunnir þeirra LÍN þremur dögum eftir frest. Hér var um atburðarás að ræða sem kærendur höfðu enga stjórn á. Kærendur benda á að í 1. mgr. 6. gr. laga um LÍN nr. 21/1992 segi að námslán skuli aldrei veitt fyrr en námsmaður hafi skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur. Fresturinn sem stjórn LÍN skýli sig bakvið séu hins vegar einungis stjórnvaldsfyrirmæli og sett lög ganga þeim framar þegar um efnislegt misræmi sé að ræða líkt og í þessu tilfelli. Kærendur telja að lögin um LÍN séu skýr um að þegar námsmaður hafi skilað vottorðum um skólasókn og námsárangur, þá fyrst megi greiða honum út námslán. Hafi það verið vilji löggjafans að þessi skilyrði væru bundin einhverjum ákveðnum tímafresti þá hefði slíkt komið fram í lögunum. Þá telja kærendur að þegar framangreint lagaákvæði sé lesið samhliða öðrum ákvæðum laganna að tilgangur þess sé að kveða úr um að ekki megi greiða námsmanni námslán fyrr en staðfest sé að hann hafi náð tilskildum árangri. Það sé jafnframt alveg jafn skýrt að það sé ekki hugsunin að þótt dráttur verði á skilum að þá eigi ekki að greiða námslán. Kærendur telja að LÍN gangi á svig við meðalhófsreglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í þessu máli. LÍN hafi tekið þá ákvörðun sem sé mest íþyngjandi fyrir kærendur en ekki þá sem þjóni best tilgangi laganna um LÍN. Kærendur telja ekki óeðlilegt að sett séu stjórnvaldsfyrirmæli um skilafresti, enda auki slíkt skilvirkni í framkvæmd og stuðli að jafnræði meðal námsmanna. Í tilviki kærenda hafi verið ómögulegt að nálgast þessi gögn þótt þær gengju á eftir skilum af hendi Árósarháskóla. Kærendur telja að slík þjónkun við umræddan frest gangi í berhögg við markmið og tilgang laga um LÍN. Kærendur benda einnig á að þessi synjun um greiðslu námslána sé þeim verulega íþyngjandi. 

Sjónarmið stjórnar LÍN. 

Stjórn LÍN vísar til þess að í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN komi fram að lánveitingum vegna námsársins 2010-2011 skuli lokið fyrir 15. janúar 2012, og að eftir það séu ekki afgreidd lán vegna námsársins. Þar sem upplýsingar um námsárangur vegna vorannar 2011 bárust ekki sjóðnum fyrr en fresturinn var runninn út eða 18. janúar 2012 hafi stjórn sjóðsins synjað erindum kærenda. Stjórn LÍN byggir á því að enga heimild sé að finna í reglum LÍN sem heimili að hægt sé að verða við erindum kærenda þar sem gögn vegna námsársins bárust sjóðnum eftir framangreindan frest. Þá bendir stjórn LÍN á að engin samskipti séu skráð við kærendur vegna þessa máls fyrr en í janúar 2012 eftir að einkunarskilin lágu fyrir og eftir að fresturinn var útrunninn. Einnig bendir LÍN á að sjóðurinn hafi sent kærendum ábendingu í tölvupósti dagsettum 16. nóvember 2011 um frest til að sækja um lán fyrir skólaárið 2011-2012.

 

Niðurstaða

 

Í málinu liggja fyrir tveir úrskurðir stjórnar LÍN er varða kærandann A, dagsettir 17. febrúar og 21. mars 2012, og er seinni úrskurðurinn endurupptaka og staðfesting fyrri úrskurðar. Þá liggur fyrir úrskurður stjórnar LÍN varðandi kærandann B, dagsettur 21. mars 2012. Kæran snýr að þessum úrskurðum frá 21. mars 2012 og er ekki fallist á það með LÍN að vísa eigi frá máli kærandans A á grundvelli þess að stjórn sjóðsins hafi ekki fjallað um mál hennar. Kærendur stunduðu meistaranám í sálfræði við Háskólann í Árósum námsárið 2010-2011. Þær sóttu um námslán vegna þessa skólaárs og áttu óafgreitt námslán fyrir vorönn 2011 sem nemur 30 ECTS-einingum. Kærendur skiluðu lokaverkefni sínu í byrjun nóvember 2011 og var þeim tilkynnt símleiðis um einkunnina og að þær hefðu staðist prófið um miðjan desember 2011. Formleg einkunnaskil til LÍN áttu sér ekki stað fyrr en 18. janúar 2012 eða þremur dögum eftir að fresti til þess lauk samkvæmt úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2010-2011. Kærendur telja sig eiga rétt á námsláni vegna vorannar 2011 þrátt fyrir að þær hafi ekki skilað inn gögnum um námsárangur sinn fyrr en 18. janúar 2012. Um skilyrði þess að námslán verði greitt út er fjallað um í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN. Í 1. og 2. mgr. segir eftirfarandi: 

Útborgun framfærslu-, bóka- og ferðalána vegna haustannar hefst að loknum 18-30 ECTS-einingum í byrjun janúar 2011 og vegna vorannar að loknum 18 eða fleiri ECTS-einingum í lok apríl 2011. Skilyrði er að námsmaður hafi lagt fram gögn um námsárangur sinn, tekjuáætlun eða skattframtal eða aðrar þær upplýsingar sem máli skipta. Lán greiðast inn á reikning í viðskiptabanka eða sparisjóði á Íslandi sem skal vera á nafni námsmanns. Heimilt er að greiða út lán á öðrum tímum enda liggi fyrir að námsmaður hafi uppfyllt kröfur sjóðsins um afköst og árangur í námi. Lánveitingum vegna námsársins 2010-2011 skal þó lokið fyrir 15. janúar 2012, eftir það eru ekki afgreidd lán vegna námsársins. 

Samkvæmt framansögðu skyldi lánveitingum vegna námsársins 2010-2011 vera lokið 15. janúar 2012 eins og fyrr greinir. Um tilkynningaskyldu námsmanns og skyldu til að skila gögnum er nánar kveðið á um í reglugerð nr. 478/2011 um LÍN og í úthlutunarreglum LÍN. Kemur þar m.a. fram að námsmanni beri að tilkynna til LÍN verði breytingar á högum hans eftir að umsókn hafi verið lögð fram ef ætla megi að þær hafi áhrif á ákvörðun um námslán og svo fyrirmæli um prófskil. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að afgreiða námslán eftir að frestur til að leggja fram gögn um námsárangur og aðrar þær upplýsingar sem LÍN hefur óskað eftir er liðinn. Málskotsnefnd hefur áður úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Kærendur skiluðu verkefni sínu á réttum tíma samkvæmt skipulagi skólans og fengu upplýsingar um lokaeinkunn og að þær hefðu staðist prófið um miðjan desember 2011. Á þeirri stundu var ekkert sem gaf kærendum til kynna annað en að upplýsingar skólans um námsárangur þeirra myndi berast sjóðnum innan þess frests sem LÍN gefur skv. grein 5.2.1 þ.e. 15. janúar 2012. Verður ekki séð að kærendur hafi í desember 2011 eða fyrir þann tíma, haft ástæðu til að tilkynna LÍN sérstaklega um stöðu mála enda var námsferilinn og námslokin í eðlilegum farvegi. Að mati málskotsnefndar gátu kærendur ekki séð fyrir að formleg einkunnarskil Háskólans í Árósum myndu dragast með þeim hætti sem þau gerðu né gátu þær haft áhrif á afgreiðslu skólans umfram það sem þær reyndu með tölvupóstum til skólans. Verður kærendum því ekki um það kennt að gögn um námsárangur þeirra barst of seint til LÍN. Er því fallist á með kærendum að sú seinkun sem varð á af hálfu skólans að koma upplýsingum um námsárangur þeirra til LÍN sé til komin af atvikum sem þær réðu hvorki við né gátu haft áhrif á. Ber því LÍN að taka til greina skil þeirra um námsárangur þrátt fyrir að þau gögn hafi borist eftir að fresti til þess lauk samkvæmt grein 5.2.1. Með vísan til framangreinds eru hinir kærðu úrskurðir stjórnar LÍN frá 20. mars 2012 felldir úr gildi.

 

Úrskurðarorð

 

Hinir kærðu úrskurðir frá 20. mars 2012 í málum kærenda eru felldir úr gildi.

Til baka