Úrskurður
Ár 2012, miðvikudaginn 5. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-26/2012:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 7. júní 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 30. maí 2012 þar sem hafnað var beiðni kæranda um að LÍN veitti A undanþágu frá fastri afborgun 2012 með gjalddaga 1. mars 2012 vegna fjárhagsörðugleika. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 14. júní 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 2. júlí 2012 og var afrit þess sent kæranda með bréfi 13. sama mánaðar, en þar var kæranda jafnframt gefinn 4 vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvubréfi 20. júlí 2012. Málsskotsnefnd aflaði sjálf frekari gagna frá stjórn LÍN um framangreint lán.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi er ábyrgðarmaður á námsláni hjá LÍN sem fyrrum
eiginmaður hennar, A, er skuldari að. Samkvæmt upplýsingum frá LÍN er um að ræða
svokallað S-lán sem var með fyrsta gjalddaga 1. mars 1990. Að baki láninu liggja
svokölluð T-skuldabréf gefin út á árunum 1984 til 1987 til fjörutíu ára og hófst
endurgreiðsla þeirra þremur árum eftir að námi lauk. Hin ógreidda afborgun sé að
fjárhæð 67.502 krónur, en samtals nemi ábyrgð kæranda 2.980.271 krónum að
núvirði.
Sjónarmið kæranda
Kærandi kveður skuldara
lánsins vera óreglumann og öryrkja og hafi þau skilið fyrir um 20 árum. Hann
hafi aldrei greitt af skuldum sínum sem hún hafi verið í ábyrgð fyrir og hún því
þurft að greiða af þeim í gegnum tíðina. Þá hafi hann ekki hirt um að leggja inn
til LÍN umsókn um niðurfellingu eða undanþágu frá greiðslu afborgana af
námsláninu. Kærandi hafi því sjálf í gegnum árin sótt um undanþágur afborgana
námslánsins fyrir skuldarann. Kærandi kveðst hafa útbúið og sent LÍN með
símbréfi umsókn um undanþágu frá téðri afborgun áður en frestur til þess rann út
2. maí 2012. Síðar hafi komið í ljós að símbréfstæki hennar hafi ekki verið
tengt við símalínu á þessum tíma sem skýri það hvers vegna LÍN barst ekki
undanþágubeiðnin. Kærandi kveður aðstæður sínar í dag vera henni mjög öndverðar.
Hún hafi misst heilsuna 2010 og sé í dag öryrki. Hún hafi verið húsnæðislaus en
haustið 2011 hafi henni tekist að kaupa hús í B fyrir lágt verð, en þurft að
fjármagna það að fullu leyti með lánum. Með miklu aðhaldi kveðst hún hafa getað
staðið í skilum með fjárskuldbindingar sínar af örorkulífeyri sínum. Kærandi
telur að í því felist mismunun að gengið sé að henni með greiðslu af námsláninu,
en ekki að sjálfum skuldaranum í ljósi þess að bæði séu öryrkjar. Tekur kærandi
sérstaklega fram að hún sæki um niðurfellingu á þeirri greiðslu sem hún er í
ábyrgð fyrir á grundvelli þess að hún sé öryrki og tekjulág.
Sjónarmið LÍN
Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar
frá 30. maí 2012 verði staðfestur. Hún kveður enga umsókn hafi borist LÍN um
undanþágu frá fastri afborgun námsláns A með gjalddaga 1. mars 2012, áður en
frestur til þess rann út 60 dögum eftir gjalddagann. Því verði að ganga út frá
að mistök hafi átt sér stað hjá kæranda með umsóknina, sem hún verði sjálf að
bera ábyrgð á. LÍN bendir á að mælt sé fyrir um um 60 daga frestinn til að sækja
um undanþágu frá afborgun í 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð
íslenskra námsmanna og að sjóðurinn hafi enga heimild til þess að víkja frá
honum.
Niðurstaða
Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 og grein 7.4.1 í úthlutunarreglum LÍN er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá afborgun námslána ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar eða umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Í seinni málslið 7. mgr. 8. gr. laganna kemur fram að umsókn skuli berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar sem var 1. mars 2012. Í tilviki kæranda hefði umsókn því átt að berast eigi síðar en 2. maí 2012, þar sem 1. dagur þess mánaðar er almennur frídagur. Óumdeilt er að umsókn kæranda barst ekki fyrr en eftir að umræddur frestur rann út. Fyrrgreint ákvæði 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 er fortakslaust hvað varðar umsóknarfrest og er því ekki á færi LÍN að veita undanþágu frá því nema að óviðráðanleg atvik eða handvömm starfsmanna þess hafi orðið til þess að kærandi sótti ekki um undanþáguna innan frestsins, sbr. t.d. fyrri úrskurð málsskotsnefndar nr. L-25/2011 og álit umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 4878/2006. Hvorugt á við í tilfelli kæranda, sem hefur staðfest að sending umsóknar hennar um undanþáguna hafi misfarist þar sem símbréfstæki hennar hafi ekki verið tengt við símalínu á þessum tíma. Með vísan til ofangreindra sjónarmiða og forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Niðurstaða hins kærða úrskurðar stjórnar LÍN frá 30. maí 2012 í máli kæranda er því staðfest.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður frá 30. maí 2012 í máli kæranda er staðfestur.