Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-36/2012 - Undanþágur frá afborgun - synjun á undanþágu frá fastri afborgun 1012

Úrskurður

Ár 2012, miðvikudaginn 5. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-36/2012:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 22. ágúst 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 20. júní 2012 þar sem hafnað var beiðni kæranda um undanþágu frá fastri afborgun 2012 með gjalddaga 1. mars 2012. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 24. ágúst 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 10. september 2012 og var afrit þess sent kæranda með bréfi 12. sama mánaðar, en þar var kæranda jafnframt gefinn 4 vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda, en hún sendi málskotsnefnd ódagsetta yfirlýsingu sálfræðings, sjónarmiðum sínum til frekari stuðnings.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi sótti um undanþágu frá fastri afborgun námsláns fyrir árið 2012 með ódagsettu bréfi til stjórnar LÍN, móttekið þann 14. maí 2012. Í erindi sínu kveðst kærandi enn og aftur vera í þeirri aðstöðu að þurfa að fara þess á leit að fá frest á afborgun námsláns vegna veikinda og atvinnuleysis, en hún hafðu fengið undanþágu 2010 og 2011 vegna atvinnuleysis. Stjórn LÍN tók erindi kæranda fyrir á fundi 30. maí 2012 og ritaði kæranda af því tilefni bréf, dagsett 31. sama mánaðar, þar sem segir að frestur til að sækja um endurútreikning hafi verið 60 dagar frá gjalddaga, en undanþágubeiðni kæranda hafi ekki borist fyrr en 18. maí 2012, eða eftir að fresturinn rann út. Stjórn LÍN frestaði því að taka afstöðu til erindis kæranda og gaf henni kost á að framvísa læknisvottorði sem staðfesti að hún hafi ekki getað sótt um undanþágu innan tilskilins frests vegna veikinda. Kærandi framvísaði þá læknisvottorði frá lækni þar sem kemur fram að kærandi hafi átt við mikla andlega erfiðleika að stríða eftir áramót og orðið fyrir endurteknum áföllum, m.a. missi maka. Erindi kæranda var tekið fyrir að nýju á fundi stjórnar LÍN þann 20. júní 2012 þar sem því var synjað með úrskurði.

Sjónarmið kæranda

Ástæðu beiðni sinnar kveður kærandi vera þá að hún sé án atvinnu og þá hafi hún misst eiginmann sinn með skyndilegum hætti í janúar 2012 og eftir það hafi hún átt við mikla andlega erfiðleika að stríða. Hún hafi af þeim sökum verið ófær að sjá um fjármál sín og ekki getað sótt um undanþágu frá fastri afborgun 1. mars 2012 innan tilskilsins frests. Með beiðni kæranda fylgdi skattframtal 2011 og seðlar frá Vinnumálastofnun um greiðslu atvinnuleysisbóta. Þá hefur kærandi lagt fram staðfestingu þess efnis að maki hennar hafi látist hinn 22. janúar 2012. Loks hefur kærandi lagt fram yfirlýsingu læknis og sálfræðings um andlega erfiðleika sína eftir að hún missti maka sinn.

Sjónarmið LÍN

Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 20. maí 2012 verði staðfestur. Bendir LÍN á að frestur til að sækja um endurútreikning sé 60 dagar frá gjalddaga samkvæmt grein 7.4 í úthlutunarreglum LÍN, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Umsókn kæranda um undanþágu hafi ekki borist sjóðnum fyrr en 18. maí 2012 eftir að framangreindur frestur rann út. Hvorki í lögum né úthlutunarreglum LÍN sé að finna undanþágu frá þeim tímamörkum sem umsóknarfresturinn er miðaður við. Þrátt fyrir það segir stjórn LÍN að hvert mál sé skoðað sérstaklega og lagt mat á það hverju sinni. Stjórn LÍN hafi því ákveðið að gefa kæranda kost á að afla og framvísa læknisvottorði, sem staðfesti að hún hafi ekki vegna veikinda sinna getað sótt um undanþágu innan tilskilins frests. Þau læknisfræðilegu gögn sem kærandi hafi framvísað sýni ekki fram á með óyggjandi hætti að hún haf verið alls ófær um að sækja um undanþágu fyrir tilskilinn frest.

Niðurstaða

Kærandi sækir um undanþágu frá fastri afborgun 2012, sem var á gjalddaga 1. mars 2012 vegna atvinnuleysis og veikinda. Málskotsnefnd bendir á að í athugasemdum stjórnar LÍN vegna kæru, sem og í bréfi þess til kæranda, dagsett 31. maí 2012, segir ranglega að kærandi sæki um endurútreikning vegna afborgunar láns, en 60 daga frestur hennar til þess hafi verið liðinn þegar umsókn hennar var móttekin 14. maí 2012. Umsókn um endurútreikningur lítur að þeirri aðstöðu ef árleg viðbótargreiðsla, sem innheimtist 1. september ár hvert, byggir á áætluðum tekjum. Það sem kærandi sækir um er eins og fyrr segir undanþága frá fastri afborgun, eins og raunar kemur réttilega fram í hinum kærða úrskurði, en sömu skilyrði eiga við um veitingu undanþágu frá fastri afborgun námsláns og endurútreikningi viðbótargreiðslu námsláns. Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 og grein 7.4.1 í úthlutunarreglum LÍN er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá afborgun námslána ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar eða umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Í seinni málslið 7. mgr. 8. gr. laganna kemur fram að umsókn skuli berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar sem var 1. mars 2012. Í tilviki kæranda hefði umsókn því átt að berast eigi síðar en 2. maí 2012, þar sem 1. dagur þess mánaðar er almennur frídagur. Óumdeilt er að umsókn kæranda barst ekki fyrr en eftir að umræddur frestur rann út. Fyrrgreint ákvæði 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 er fortakslaust hvað varðar umsóknarfrest og er því ekki á færi LÍN að veita undanþágu frá því nema að óviðráðanleg atvik eða handvömm starfsmanna þess hafi orðið til þess að kærandi sótti ekki um undanþáguna innan frestsins, sbr. t.d. fyrri úrskurð málsskotsnefndar nr. 25/2011 og álit umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 4878/2006. Eins og að framan er rakið gaf stjórn LÍN kæranda kost á að framvísa læknisvottorði sem staðfesti að hún hafi ekki getað sótt um undanþágu innan tilskilins frests vegna veikinda. Í vottorðinu sem kærandi framvísaði segir:

Óskað er eftir að tekið sé tillit til þess að A hefur átt við mikla andlega erfiðleika að stríða eftir áramót. Hún hefur orðið fyrir endurteknum áföllum. Hún gat ekki skilað vottorði fyrir tilskilinn tíma vegna erfiðrar veikinda og makamissis einmitt á þeim tíma sem frestur rann út.

Þá hefur kærandi lagt fram yfirlýsingu sálfræðings þar sem segir:

A var í viðtölum hjá undirrituðum í mars 2012 vegna depurðar á erfiðum tíma eftir makamissi. Einnig háðu þunglyndiseinkenni, einkum tilgangs- og framtaksleysi verulega í atvinnuleit og daglegu lífi. Langvarandi atvinnuleysi hefur haft veruleg neikvæð áhrif á fjárhag og valdið næstum lamandi áhyggjum.

Málskotsnefnd fellst á það með stjórn LÍN að framgreind vottorð staðfesti ekki með óyggjandi hætti að kærandi hafi verið alls ófær um að sækja um undanþágu innan tilskilins 60 daga frests. Er niðurstaða hins kærða úrskurðar stjórnar LÍN frá 20. júní sl. í máli kæranda því staðfest.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 20. júní 2012 í máli kæranda er staðfestur

Til baka