Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-41/2012 - Umsóknarfrestur og útborgun Námsárangur barst eftir skilafrest

Úrskurður

 

Ár 2012, miðvikudaginn 5. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-41/2012:

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 30. ágúst 2012 kærði kærandi úrskurði stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) í máli hennar varðandi synjun á um greiðslu námsláns vegna náms sem hún stundaði við Ljósmyndaskóla Íslands á námsárinu 2010-2011. LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 7. september 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN bárust nefndinni 19. september 2012. Með bréfi dagsettu 24. september 2012 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör LÍN og bárust þær í bréfi dagsettu 24. október 2012.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundaði nám við Ljósmyndaskólann námsárið 2010-2011. Vegna veikinda frestaðist verkefni kæranda sem hún átti að skila í tilteknum áfanga á vorönn 2011. Kærandi skilaði umræddu verkefni til skólans þann 18. desember 2011. Skólinn skilaði hins vegar ekki upplýsingum um námsárangur kæranda til LÍN fyrr en 7. febrúar 2012. Í kjölfarið hafði kærandi samband við LÍN og fór þess á leit að tekið yrði tillit til námsárangurs hennar þrátt fyrir að hann hafi borist of seint. Stjórn LÍN úrskurðaði í máli kæranda 20. mars 2012 þar sem erindi hennar um afgreiðslu námsláns vegna vorannar námsársins 2010-2011 var hafnað. Í niðurstöðunum er vísað til þess að í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2010-2011 komi fram að lánveitingum vegna námsársins skuli lokið fyrir 15. janúar 2011 en eftir þann tíma væru ekki afgreidd lán vegna námsársins. Beiðni kæranda var tekin fyrir að nýju hjá stjórn LÍN þann 30. apríl 2012 þar sem kærandi hafði lagt fram gögn frá Ljósmyndaskólanum um að skólinn hefði ekki sökum anna sent upplýsingar um námsáragnur kæranda fyrr en eftir að frestur til þess rann út. Stjórn LÍN synjaði aftur beiðni kæranda með vísan til þess að það væri á ábyrgð námsmanna að sjá til þess að fullnægjandi upplýsingar bærust til sjóðsins fyrir tilskilinn frest. Stjórn LÍN tók mál kæranda aftur fyrir þann 30. maí en synjaði beiðni hennar um endurupptöku þar sem ekki væru skilyrði endurupptöku í máli hennar, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Sjónarmið kæranda. 

Kærandi skýrir frá því í kæru sinni að hún hafi veikst á vorönn 2011. Á þeim tíma áttu nemendur að skila verkefnum í próflausum áfanga og fá einkunnir fyrir. Sökum misskilnings og dráttar af hálfu skólans hafi hún ekki fengið að ljúka verkefninu sem var unnið í stúdíói fyrr en í desember 2011. Þegar hún hafi skilað því af sér til skólans þann 18. desember 2011 hafi einungis verið 4 vikur í skilafrest. Kærandi kveðst hafa verið meðvituð um ábyrgð sína á að skila upplýsingum um námsárangur til LÍN fyrir tilskilinn frest. Það hafi hins vegar verið ómögulegt fyrir hana að afhenda gögn sem hún hafi ekki haft undir hendi. Þá bendir kærandi á að LÍN hafi byggt á því að ekki hafi verið loforð fyrir hendi af hálfu skólans um að senda upplýsingar um námsárangur til LÍN. Kærandi telur að sú skylda er skólinn hafi að lögum til að leysa úr málum er varði réttindi og skyldur nemenda í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti sé nægjanlegt ígildi loforðs. Sú óhóflega töf er hafi orðið á því að kærandi fengi að ljúka verkefninu og sú töf er hafi orðið af hálfu skólans að senda upplýsingar um námsárangur til LÍN geta ekki að mati kæranda talist til góðra stjórnsýsluhátta. Þá vísar kærandi til þess að almennt sé viðurkennt að gildissvið stjórnsýslulaga sé víðtækara en að ná aðeins til töku stjórnvaldsákvarðana. Málshraðaregla stjórnsýslulaga kveði á um að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt er verða má. Sú óhóflega töf er hafi orðið á máli kæranda af hálfu skólans og skortur á að setja viðeigandi reglur hafi gert það að verkum að brotið hafi verið á rétti kæranda. Kærandi leggur fram með kæru sinni bréf framkvæmdastjóra Ljósmyndaskólans þar sem kemur fram að sökum anna hafi stjórnendur skólans ekki sent staðfestingu á námsárangri kæranda til LÍN fyrr en 7. febrúar 2012. Kemur fram í bréfinu að þetta skýrðist jafnframt af því að stjórnendum skólans hafi ekki verið kunnugt um að frestur til að skila inn gögnum til LÍN háður tímamörkum. Í viðbótarskýringum kæranda kemur fram að málið snúist ekki um vitneskju kæranda heldur forsendur þær sem hún hafi haft til þess að uppfylla skyldur sínar við sjóðinn. Ekki hafi verið um að ræða neitt samkomulag milli kæranda og skólans um að skólinn afhenti einkunnir. Kærandi áréttar hins vegar að þegar einkunnir voru loks sendar af hálfu skólans hafi hún ekki verið búin að fá þær afhentar. Vísar kærandi til þess að venjan sé hjá LÍN að greiða út námslán þegar skóli hafi sent einkunnir. Ef námsmaður kjósi að afhenda einkunnirnar sjálfur þá þurfi hann að fá stimpil hjá skólanum. Námsmenn séu því algerlega háðir skóla með einkunnaskil. Þar sem um verulega fjárhagslega hagsmuni sé að ræða hafi flestir skólar sett sér verklagsreglur varðandi þetta. Kveðst kærandi hafa gengið ötullega eftir því að fá að taka prófið og síðar að fá einkunnir afhentar. Hafi henni verið fullljóst hvað í húfi var og hafi hún látið það ítrekað í ljós við stjórnendur skólans. 

Sjónarmið stjórnar LÍN. 

Stjórn LÍN vísar til þess að í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN komi fram að lánveitingum vegna námsársins 2010-2011 skuli lokið fyrir 15. janúar 2012, og að eftir það séu ekki afgreidd lán vegna námsársins. Þar sem upplýsingar um námsárangur vegna vorannar 2011 bárust ekki sjóðnum fyrr en fresturinn var runninn út eða 7. febrúar 2012 hafi stjórn sjóðsins synjað erindi kæranda. Stjórn LÍN byggir á því að enga heimild sé að finna í reglum LÍN sem heimili að verða við erindi kæranda þar sem gögn vegna námsársins bárust sjóðnum eftir framangreindan frest. Þá bendir stjórn LÍN á að það sé á ábyrgð námsmanns að kynna sér úthlutunarreglurnar og á meðan ekki lægju fyrir staðfestar upplýsingar um samskipti kæranda og skólans um að skólinn hafi lofað að senda námsupplýsingar fyrir lok námsársins, þ.e. 15. janúar, geti sjóðurinn ekki orðið við erindi hennar.

 

Niðurstaða

 

Í málinu liggja fyrir þrír úrskurðir stjórnar LÍN er varða kæranda frá 20. mars 2012, 30. apríl 2012 og 30. maí 2012 og eru tveir hinir síðari synjun á beiðni um endurupptöku fyrsta úrskurðarins. Kærandi sendi kæru sína til málskotsnefndar með bréfi dagsettu 30. ágúst 2012. Frestur kæranda til að kæra málið til málskotsnefndar miðast við 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga sem er svohljóðandi: 

"Þegar aðili óskar eftir endurupptöku máls innan kærufrests rofnar kærufresturinn. Hafni stjórnvald að taka mál til meðferðar á ný heldur kærufrestur áfram að líða að nýju frá þeim tíma þegar sú ákvörðun er tilkynnt aðila.

Ljóst af dagsetningum þeim sem fram koma í úrskurðum stjórnar LÍN að frestur kæranda til að kæra til málskotsnefndar sem byrjaði að líða með móttöku bréfs LÍN til hennar, dags. 20. mars 2012 var liðinn þegar kæran barst málskotsnefnd. Málskotsnefnd telur þó að í ljósi þess að kæranda voru ekki veittar fullnægjandi upplýsingar um hvernig kærufresti var háttað þegar fjallað var um endurupptöku máls hennar að rétt sé að taka mál hennar til meðferðar. Um sé að ræða afsakanlegar ástæður með því að kærandi hafi ekki getað gert sér grein fyrir því að kærufrestur vegna synjunar á greiðslu námsláns til hennar byrjaði ekki að líða þegar LÍN úrskurðaði í máli hennar þann 30. maí 2012. Kærandi stundaði nám við Ljósmyndaskólann námsárið 2010-2011 og sótti um námslán vegna þessa skólaárs. Sökum veikinda frestaði kærandi verkefni og átti óafgreitt námslán fyrir vorönn 2011. Kærandi skilaði lokaverkefni sínu um miðjan desember 2011. Það var þó ekki fyrr en 7. febrúar 2012 að skólinn sendi einkunnir kæranda eða þremur vikum eftir að fresti til þess lauk samkvæmt úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2010-2011. Kærandi telur sig eiga rétt á námsláni vegna vorannar 2011 þrátt fyrir að hafa ekki skilað inn gögnum um námsárangur sinn fyrr en 7. febrúar 2012. Kærandi hefur bent á að málið snúist ekki um vitneskju kæranda um frestinn heldur forsendur þær sem hún hafi haft til þess að uppfylla skyldur sínar við sjóðinn. Má af röksemdum kæranda ráða að það hafi verið henni ómögulegt að sjá til þess að skólinn sendi upplýsingar um námsárangur í tæka tíð. Um skilyrði þess að námslán verði greitt út er fjallað um í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN. Í 1. og 2. mgr. segir eftirfarandi: 

Útborgun framfærslu-, bóka- og ferðalána vegna haustannar hefst að loknum 18-30 ECTS-einingum í byrjun janúar 2011 og vegna vorannar að loknum 18 eða fleiri ECTS-einingum í lok apríl 2011. Skilyrði er að námsmaður hafi lagt fram gögn um námsárangur sinn, tekjuáætlun eða skattframtal eða aðrar þær upplýsingar sem máli skipta. Lán greiðast inn á reikning í viðskiptabanka eða sparisjóði á Íslandi sem skal vera á nafni námsmanns. Heimilt er að greiða út lán á öðrum tímum enda liggi fyrir að námsmaður hafi uppfyllt kröfur sjóðsins um afköst og árangur í námi. Lánveitingum vegna námsársins 2010-2011 skal þó lokið fyrir 15. janúar 2012, eftir það eru ekki afgreidd lán vegna námsársins. 

Samkvæmt framansögðu skyldi lánveitingum vegna námsársins 2010-2011 vera lokið 15. janúar 2012 eins og fyrr greinir. Um tilkynningaskyldu námsmanns og skyldu til að skila gögnum er nánar kveðið á um í reglugerð nr. 478/2011 um LÍN og í úthlutunarreglum LÍN. Kemur þar m.a. fram að námsmanni beri að tilkynna LÍN verði breytingar á högum hans eftir að umsókn hafi verið lögð fram ef ætla megi að þær hafi áhrif á ákvörðun um námslán og svo fyrirmæli um prófskil. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að afgreiða námslán eftir að frestur til að leggja fram gögn um námsárangur og aðrar þær upplýsingar sem LÍN hefur óskað eftir er liðinn. Málskotsnefnd hefur áður úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Kærandi skilaði verkefni sínu seint á árinu 2011 í stað vorannar 2011 sökum veikinda sinna. Þegar frestur til að skila upplýsingum um námsárangur rann út hafði kærandi engar upplýsingar fengið frá skólanum um einkunn sína eða upplýsingar frá skólanum um að hann myndi skila einkunnum í tæka tíð. Verður ekki séð að kærandi hafi mátt standa í þeirri trú að upplýsingar um námsárangur myndu berast sjóðnum innan þess frests sem LÍN gefur skv. grein 5.2.1, þ.e. 15. janúar 2012. Þau afrit af tölvupóstum og yfirlit um símtöl sem kærandi hefur lagt fram gefa ekki til kynna að kærandi hafi á því tímabili sem máli skipti, þ.e. frá skilum verkefnis í desember 2011 til 15. janúar 2012, reynt að grennslast fyrir um einkunnir sínar hjá skólanum eða ýta eftir því að skólinn myndi senda inn upplýsingar fyrir tilskilinn frest. Getur kærandi ekki borið fyrir sig vanrækslu skólans þegar ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um að kærandi sjálf hafi gert ráðstafanir til að stuðla að því að einkunnir hennar yrðu sendar, þrátt fyrir að kærandi hefði tækifæri til slíks og að frestur til slíks væri augljóslega stuttur sökum þess hve seint kærandi skilaði verkefni sínu. Verður því ekki fallist á með kæranda að sú seinkun sem varð af hálfu skólans á að koma upplýsingum um námsárangur hennar til LÍN sé til komin af atvikum sem hún réði hvorki við né gat haft áhrif á. Var því LÍN rétt að synja henni um greiðslu námsláns sökum þess að upplýsingar um námsárangur hennar bárust eftir að fresti til þess lauk samkvæmt grein 5.2.1. Með vísan til framangreinds eru hinir kærðu úrskurðir stjórnar LÍN frá 20. mars 2012, 30. apríl 2012 og 30. maí 2012 staðfestir.

 

Úrskurðarorð

 

Hinir kærðu úrskurðir stjórnar LÍN frá 20. mars 2012, 30. apríl 2012 og 30. maí 2012 eru staðfestir.

 
Til baka