Úrskurður
Ár 2012, mánudaginn 10. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-1/2012.
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 2. janúar 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 29. september 2011 þar sem synjað var beiðni kæranda um að fá að endurgreiða námslán haustsins 2010 sem henni var veitt vegna MA náms á Bifröst. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 9. janúar 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 31. maí 2011 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 13. febrúar 2012. Málskotsnefnd aflaði frekari upplýsingar frá stjórn LÍN með bréfi dagsettu 21. apríl 2012. Svör LÍN bárust með bréfi dagsettu 3. maí sl. Var kæranda gefinn kostur á sig að tjá sig um viðbótarathugasemdir LÍN og bárust athugasemdir hennar með tölvupósti þann 8. júní 2012. Frekari athugasemdir bárust síðan frá kæranda með tölvupóstum dags. 23. júlí 2012. Einnig liggja fyrir í málinu tölvupóstar með upplýsingum frá kæranda dags. 20. janúar, 24. janúar, 30. janúar, 29. mars og 4. maí 2012. Málskotsnefnd aflaði einnig upplýsinga frá Háskólanum á Bifröst um skipulag MA náms í menningarstjórnun 2010-2011.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi hefur samtímis stundað nám við Háskólann í Reykjavík og
Háskólann á Bifröst. Um er að ræða tvo aðskilda námsferla er stefna að
mismunandi námsgráðum. Kærandi hóf BA nám í lögfræði haustið 2009. Námið er
hefðbundið 180 eininga nám sem er í 6 önnum og er gert ráð fyrir að nemendur
ljúki 30 einingum á hverri önn. Kærandi hóf einnig MA nám í menningarstjórnun
við Háskólann á Bifröst sumarið 2010. Námið er 90 einingar og stendur yfir í 5
annir. Haustönn skiptist í tvær lotur. Hefst námið með sumarlotu haustannar þar
sem kenndar eru samtals 18 einingar. Síðan kemur vetrarlota haustannar kennd í
fjarnámi og telst hún 12 einingar. Vetrarlota vorannar er 12 einingar og
sumarlota vorannar er 18 einingar. Náminu lýkur með 30 eininga haustönn rúmu ári
síðar. Einnig er möguleiki á 120 eininga námi. Kærandi sótti um námslán haustið
2010 vegna MA náms í menningarstjórnun en breytti síðan skráningu sinni í BA nám
í lögfræði vegna bæði haustannar 2010 og vorannar 2011. Kærandi sótti fyrst um
18 eininga lán vegna sumarlotu haustannar 2010 og fékk fyrirframgreitt vegna
skólagjalda í MA náminu. Kærandi skilaði aðeins 12 einingum í MA náminu þar sem
kærandi kveðst hafa fengið þær upplýsingar frá LÍN að lán til MA námsins myndu
skerða rétt hennar til láns vegna BA námsins og hafi hún því ákveðið að ljúka
færri einingum. Þar sem námsárangur í MA náminu var aðeins 12 ECTS einingar fékk
kærandi ekki afgreitt framfærslulán vegna sumarlotunnar. Þann 26. ágúst 2010
breytti kærandi umsókn sinni um haustlán og sótti nú um lán vegna BA náms í
lögfræði við Háskólann í Reykjavík. Sökum veikinda skilaði kærandi ekki
fullnægjandi námsárangri í BA námi sínu haustið 2010 og vorið 2011. Í BA náminu
á haustönn 2010 skilaði kærandi engum einingum sökum veikinda. Í BA náminu á
vorönn skilaði kærandi einungis 16 einingum sökum veikinda. Þann 9. maí 2011
skilaði kærandi til LÍN læknisvottorði vegna haustannar 2010. Þann 9. júní 2011
sendi kærandi tvö erindi til LÍN. Annað erindið var tölvupóstur til LÍN þar sem
kærandi innir starfsfólk LÍN eftir því hvort að úrskurður málskotsnefndar í máli
L-9/2010 um túlkun á svonefndri 5-ára reglu eigi við í máli hennar. Er kæranda
bent á að bera mál sitt undir stjórn LÍN og ef hún verði ekki sátt við úrskurð
stjórnar LÍN þá sé henni heimilt að bera mál sitt undir málskotsnefnd. Sendir
kærandi þá annan tölvupóst 9. júní 2011 varðandi þetta mál. Kemur fram í erindi
kæranda að um sé að ræða fyrirspurn til stjórnar skv. ráði framkvæmdastjóra LÍN.
Þar lýsir kærandi því að hún hafi fengið þær upplýsingar frá LÍN, áður en hún
skráði sig í MA nám sitt sem hún byrjaði sumarið 2010, að henni væri heimilt að
fá lánað vegna þess náms um sumarið og halda síðan áfram um haustið í BA námi
sínu á Bifröst. Þegar hún hugðist fá skólagjaldalán hafi henni verið tjáð að
starfsmaður hefði gert mistök og að þetta væri ekki heimilt og að hún þurfi að
velja á milli þess að vera skráð í BA nám eða MA nám. Henni hafi verið tjáð að
með því að þiggja framfærslu og skólagjaldalán vegna 12 eininga í MA námi
sumarið 2010 fyrirgerði hún rétti sínum til frekari lána vegna BA námsins.
Kærandi vísar í tölvupósti sínum til 5 ára reglunnar og nýlegra úrskurða
málskotsnefndar þar sem fram komi að lánveiting vegna MA náms skerði ekki
lánsrétt vegna BA náms. Segir í erindi kæranda "í kjölfar fyrrgreinds úrskurðar
tel ég mig hafa rétt á að taka MA nám á sumrin og BA nám á veturna og fá
framfærslulán og skólagjaldalán fyrir báðum án þess að eyðileggja möguleika mín
til að klára BA námið." Síðara erindi kæranda þann 9. júní 2011 er beint til
vafamálanefndar LÍN þar sem hún óskar eftir veikindaundanþágu þannig að hún fái
útborgað lán vegna BA náms á vorönn 2011 þrátt fyrir að hafa aðeins lokið 16
einingum. Jafnframt óskar kærandi eftir leiðbeiningum um hvaða gögnum sé óskað
eftir vegna málsins. Meðfylgjandi erindi kæranda eru læknisvottorð vegna
vorannar 2011. Þann 14. júní 2011 fær kærandi tölvupóst starfsmanns LÍN. Þar
segir "Þú ert að óska eftir því að mál þitt verði tekið fyrir hjá vafamálanefnd
LÍN". Er kæranda tilkynnt í tölvupóstinum að hún þurfi að leggja fram
læknisvottorð ef hún óski eftir undanþágu vegna vorannar. Þá segir einnig "varðandi tíma þinn í náminu þá ertu enn ekki komin með synjun vegna 5 ára
reglu". Kærandi fær síðan bréf frá LÍN dags. 26. júní 2011 með yfirskriftina "Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda, fimm ára reglan". Þar er kæranda
tilkynnt um niðurstöðu stjórnar LÍN í máli hennar þann 23. júní 2011. Þrátt
fyrir að yfirskrift bréfsins vísi til fimm ára reglunnar, er í úrskurðinum ekki
fjallað um fimm ára regluna heldur um lánsrétt kæranda vegna haustannar 2010.
Segir þar að ákveðið hafi verið að veita kæranda undanþágu vegna veikinda á
sumarlotu haustannar 2010 í MA náminu og veita henni sem samsvarar 18 ECTS
eininga lán, þrátt fyrir að hún hafi aðeins lokið 12 einingum. Jafnframt er
kæranda tilkynnt um að árangur hennar á vormisseri 2011, 16 ECTS einingar, sé
ekki lánshæfur. Engar leiðbeiningar um kærufrest voru í bréfi LÍN til kæranda.
Þann 1. júlí 2011 tóku gildi nýjar úthlutunarreglur LÍN vegna 2011-2012. Með
þeim er hætt að miða við fimm og tíu ára reglurnar og í staðinn er lánsréttur
miðaður við fjölda ECTS eininga. Þann 8. ágúst 2011 tilkynnti starfsmaður LÍN
kæranda að fallist hafi verið á að veita henni undanþágu vegna vorannar. Einnig
kemur fram að afgreitt verði til kæranda námslán vegna "haustannar" 2010 vegna
MA námsins á Bifröst. Fram kemur í tölvupósti frá kæranda að hún fellst á þessa
niðurstöðu. Þann 15. ágúst 2011 sendir kærandi erindi til LÍN þar sem hún fer
þess á leit að fá ógilta lánveitingu vegna MA námsins haustið 2010 sem stjórn
LÍN hafði fallist á að veita henni með úrskurði sínum þann 23. júní 2011. Kveðst
kærandi hafa fengið þær upplýsingar frá LÍN að lán vegna þessara eininga í MA
ferlinu muni skerða rétt hennar til láns vegna BA náms hennar. Í kærunni fer hún
þess á leit við LÍN að lánið er hún hafði fengið vegna haustannar 2010 verði
ógilt og hún fái að endurgreiða það. Vísar kærandi til þess að hún hafi aldrei
sótt um þetta lán. Til vara óskaði kærandi eftir viðbótarsvigrúmi vegna vegna
veikinda, brota LÍN á leiðbeiningaskyldu, sem og láns vegna viðbótarárs, 6.
árið, sbr. úthlutunarreglur LÍN vegna 2010-2011. Með úrskurði sínum þann 29.
september 2011 synjaði stjórn LÍN erindi kæranda. Taldi stjórnin að kærandi ætti
ekki rétt á að endurgreiða lán vegna meistaranámsins er hún fékk vegna hausts
2010. Kemur einnig fram í úrskurðinum að kærandi hafi þegar notið aðstoðar
sjóðsins er næmi 180 ECTS einingum í grunnnámi og er næmi 76 ECTS einingum af
svonefndum 120 valeiningum. Ætti kærandi því rétt á 44 eininga láni vegna
yfirstandandi skólaárs 2011-2012. Þá er tekið fram í úrskurðinum að kærandi eigi
að loknu BA námi ennþá rétt á 108 einingum vegna meistaranáms og 120 einingum
vegna doktorsnáms. Einnig er tekið fram að veitt lán og undanþágur skerði
heildar lánsheimild sem sé takmörkuð við 600 ECTS einingar.
Sjónarmið
kæranda.
Kærandi kærir úrskurð stjórnar LÍN frá 29. september 2011
þar sem synjað var beiðni hennar um að fá ógildingu og heimild til endurgreiðslu
láns vegna MA náms haustið 2010 er stjórn LÍN heimilaði með úrskurði sínum þann
23. júní 2010. Í kærunni krefst kærandi þess að fá viðurkennt að hún eigi fullan
lánsrétt námsárið 2011-2012 vegna BA námsins samtals 60 einingar, þ.e. 30 ECTS
einingar á haustönn og 30 ECTS einingar á vorönn í stað þeirra 44 ECTS eininga
sem LÍN telji hana eiga rétt á. Kærandi krefst þess einnig að fá að endurgreiða
haustlánið 2010 sem hún hafi ekki sótt um. Kærandi kveðst hafa sótt um lán vegna
áfanga í MA náminu sem hún stundaði sumarið 2010. Um var að ræða sumarlotu
haustannar og var umsókn kæranda skráð hjá LÍN 6. júní 2010. Þegar kærandi hafi
fengið upplýsingar frá háskólanum um að þessi lánveiting vegna MA námsins myndi
skerða rétt hennar til að fá lán vegna BA námsins, kveðst hún hafa breytt umsókn
sinni hjá LÍN yfir í umsókn um lán vegna BA náms í lögfræði við HR vegna hausts
2010 og vors 2011. Kemur fram á útprentun af heimasíðu LÍN að kærandi sótti um
lán vegna BA náms á haustönn 2010 þann 26. ágúst 2010. Þegar kærandi hafi síðan
með erindi sínu 9. júní 2011 óskað leiðbeininga vegna veikinda á vorönn 2011
vegna BA náms hafi stjórn LÍN með úrskurði þess efnis samþykkt að veita henni
haustlán 2010 vegna umræddra umsóknar í MA náminu, umsókn er hún hafði verið
búin að draga til baka. Kærandi kvaðst hafa þegið lánið enda hafi henni verið
tjáð að lánveitingin myndi ekki skerða rétt hennar vegna BA námsins. Annað hafi
komið á daginn og því fer kærandi þess á leit að fá að endurgreiða lánið sem
stjórn LÍN hafi fallist á að veita henni með úrskurði sínum 23. júní 2011, enda
hafi kærandi hvorki sótt um slíkt lán né farið þess á leit við stjórn LÍN að fá
undanþágu vegna þessa áfanga í MA námi sínu. Að mati kæranda ber að líta á það
MA námið sem hluta af heildarlaganámi hennar því hún fái það metið þrátt fyrir
að það sé í öðrum skóla. Vísar kærandi til úrskurðar málskotsnefndar í máli
verkfræðinema er styðji þetta og máls laganema við Bifröst. Í tölvupósti frá
kæranda 29. mars 2012 upplýsti hún að hún hafi nú fengið staðfestingu frá HR að
15 einingar af MA náminu yrðu metnar uppí valfög á 6. önn í BA náminu. Jafnframt
sagði hún einnig vera hægt að fá MA námið metið upp í ML nám við lagadeild HR,
allt að 30 einingum. Í viðbótarathugasemdum kæranda skýrir hún frá því að hún
hafi fengið þær upplýsingar frá LÍN er hún hóf MA námið sumarið 2010 að hún
myndi fá lánað 6. árið í BA náminu ef hún uppfyllti skilyrði. Kærandi kveðst
einnig hafa fengið þær upplýsingar frá LÍN er hún hóf MA nám haustið 2010 að það
myndi ekki leiða til skerðingar á BA kvóta. Annað hafi komið á daginn í águst
2011 eftir að hún þáði boð LÍN um veikindaundanþágu vegna haustannar 2010. Þá
hafi henni verið tjáð að lánsréttur hennar vegna BA námsins væri uppurinn og hún
ætti ekki rétt á láni vegna BA náms haustið 2011. Kærandi tekur einnig fram að
sú lýsing LÍN á uppbyggingu náms, þ.e. að sumarönnin væri hluti af haustönn,
hafi aldrei komið fram af hálfu LÍN þegar kærandi sótti um lán vegna MA námsins
haustið 2010. Þá upplýsir kærandi einnig að hún hafi upphaflega ætlað að taka 18
einingar í MA náminu sumarið 2010 en fækkað þeim í 12 þegar hún hafi fengið þær
upplýsingar að MA námið myndi skerða BA kvóta hennar. Kærandi kveður það rangt
hjá LÍN að hún hafi upphaflega einungis ætlað að ljúka 12 einingum sumarið 2010.
Kærandi upplýsti jafnframt að fyrir liggi samþykki lagadeildar HR á 7,5 einingum
af MA námi kæranda uppí BA námið. Þessar upplýsingar hafi hún sent LÍN tvisvar
en enginn þar virðist vita hvað hún sé að tala um. Hún hafi nú lokið 24 einingum
af MA náminu. Kærandi útskýrir jafnframt að hvergi komi fram í úthlutunarreglum
LÍN að heimilt sé að skerða rétt námsmanna til doktorsnáms með þeim hætti sem
LÍN hafi lýst. Hafi hún kallað eftir skýringu á þessu frá LÍN en ekki fengið.
Sjónarmið stjórnar LÍN
Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur
fram að kærandi hafi sótt um námslán vegna meistaranámsins þann 6. júlí 2010
fyrir sumarlotu haustannar 2010. Síðan hafi hún breytt umsókn sinni og sótt um
lán vegna BA námsins vegna alls námsársins 2010-2011. Þar sem ekki hafi verið
hægt að fá lánað vegna tveggja námsferla á sama tíma hafi LÍN skráð kæranda á
haustönn vegna MA námsins en á vorönn vegna BA námsins. Síðan segir í
athugasemdunum að erindi hafi borist frá kæranda í byrjun júní þar sem óskað
hafi verið eftir framfærsluláni fyrir haustönn 2010.Ekki hafi verið ljóst við
hvað hafi verið átt og því hafi verið óskað skýringa frá kæranda en þær ekki
borist. Síðan hafi annað erindi borist frá kæranda þar sem óskað hafi verið
eftir afgreiðslu á námsláni vegna vorannar 2011. Á stjórnarfundi 23. júní 2011
hafi verið fjallað um lánshæfi kæranda á haustönn og ákveðið að veita kæranda
undanþágu vegna læknisvottorðs sem kærandi hafi sent inn vegna haustannar. Nýtt
erindi hafi borist frá kæranda 15. ágúst 2011 þar sem kærandi hafi óskað eftir
ógildingu námsláns er afgreitt hafi verið til hennar vegna haustannar 2010.
Starfsmaður LÍN hafi sent kæranda tölvupóst þar sem kæranda hafi verið boðin
tiltekin lausn málsins en kærandi hafi ítrekað fyrri kröfur. Stjórn LÍN hafi
síðan synjað beiðni kæranda en samþykkt að veita henni lánsrétt vegna 44 ECTS
eininga fyrir skólaárið 2011-2012. Í viðbótarskýringum LÍN kemur fram að þegar
kærandi hafi hafið BA nám sitt haustið 2009 hafi hún þegar verið búin að fá lán
vegna 180 ECTS eininga. Til viðbótar hafi kærandi fengið 60 ECTS eininga lán
skólaárið 2009-2010. Hafi kærandi þegar hún hóf MA nám sitt á sumarlotu
haustannar 2010 verið búin að fá samtals 240 ECTS eininga lán í grunnnámi eða
sem samsvarar 4 fullum skólaárum á grundvelli 5 ára reglunnar. LÍN kveður
lánveitingu vegna MA námsins teljast sem hluta af meistaranámi er falli undir
reglur sjóðsins skv. grein 2.3 í úthlutunarreglunum, þ.e. fimm og tíu ára
reglurnar. Stjórn LÍN hefði fallist á að sumarlota teldist til haustannar í MA
náminu. Ekki hafi verið heimilt að vera með tvær umsóknir vegna sömu annar.
Kærandi hafi upplýst að hún myndi aðeins ljúka 12 einingum í MA námi og þar sem
það hefði ekki nægt til að fá lán hafi umsókn kæranda verið breytt í umsókn
vegna BA náms. Síðar hafi komið í ljós að kærandi hafi sökum veikinda ekki lokið
neinum árangri í BA námi á haustönn 2010. Kærandi hafi í júní 2011 sótt um
undanþágu vegna vormisseris 2011 en ekkert læknisvottorð hafi fylgt. Þar sem
fyrir hafi legið vottorð vegna haustannar 2010 hafi stjórn LÍN fallist á að
veita henni undanþágu vegna 18 eininga í MA náminu. Með því að samþykkja slíka
undanþágu hafi sjóðurinn talið sig vera að gæta jafnræðis varðandi málefni
kæranda og annarra meistaranema í menningarstjórnun er hófu nám á sömu önn og
höfðu fengið veikindaundanþágu. Í viðbótarskýringum stjórnar LÍN kemur einnig
fram að sjóðnum hafi ekki borist neinar upplýsingar um að þær 12 ECTS einingar
er kærandi hafi lokið í MA námi sínu yrðu metnar sem hluti af lögfræðinámi
hennar. Þá kemur einnig fram sú afstaða sjóðsins að BA nám í lögfræði og MA nám
í menningarstjórnun teljist ekki leiða að sama marki eins og sé með BA og
meistaranám í lögfræði. Þá tekur LÍN einnig fram að skýrt komi fram í
úthlutunarreglunum hvaða áhrif veikindaundanþágurnar hafi á lánsrétt námsmanna.
Þar sem um ívilnandi aðgerðir sé að ræða verði námsmenn að átta sig á því að
verið sé að þrengja rétt þeirra á öðrum sviðum. Í útskýringum LÍN kemur einnig
fram að LÍN telur kæranda vera búna að nýta sér lánsrétt sinn til og með vorinu
2011 á eftirfarandi hátt m.v. eldri fimm og tíu ára reglur í úthlutunarreglum
LÍN: Samtals Fyrir 2010-2011 4 aðstoðarár í grunnnámi 4 Námsár 2010-2011, haust
0,5 aðstoðarár 4,5 Námsár 2010-2011, vor 0,5 aðstoðarár í grunnnámi 5
Fram kemur af hálfu LÍN að kærandi hafi ekki átt frekari lánsrétt
samkvæmt 5 ára reglunni en hafi átt möguleika á einu ári til viðbótar, þ.e. 6.
árs undanþágureglunni. Samkvæmt þeirri reglu sé heimilt að bæta við 6. árinu ef
námsmaður hafi áður lokið gráðu í lánshæfu námi og eigi eftir 60 einingar eða
færri til lokaprófs í nýja náminu. Telur LÍN að kærandi hefði átt að vera án
láns skólaárið 2011-2012 miðað við 5 og 10 ára regluna. Ógilding
veikindaundanþágunnar myndi bæta við einu misseri, þ.e. 0,5 aðstoðarári hjá
kæranda veturinn 2011-2012 og síðan eigi kærandi væntanlega rétt á láni veturinn
2012-2013 vegna 6. árs reglunnar til að ljúka námi sínu. LÍN tekur fram að nýjar
úthlutunarreglur er tekið hafi gildi frá og með skólaárinu 2011-2012. Ekki sé
lengur horft til þess í hvaða röð námsmenn nýti lánsrétt sinn. Standi nemendum
til boða að fá 300 einingar í grunnnámi, 120 vegna meistaranáms og að auki að
flytja 60 einingar af doktorsstigi til grunnnáms til að ljúka gráðu á lokaári.
Með því að reikna lánsrétt kæranda samkvæmt nýju reglunum geti hún átt rétt á 44
einingum á skólaárinu 2011-2012 í stað þess að eiga engan lánsrétt skv. eldri
reglum. Væri kærandi betur stödd með beitingu nýju reglnanna og fengi 14
einingum fleiri en hún fengi ef krafa hennar um ógildingu á láni vegna
haustmisseris 2010 næði fram að ganga.
Niðurstaða
Kærandi hefur kært úrskurð stjórnar LÍN frá 29. september 2011.
Með úrskurðinum var synjað beiðni kæranda um að fá að endurgreiða námslán vegna
haustmisseris 2010 vegna MA námsins sem henni var veitt í gildistíð
úthlutunarreglna ársins 2010-2011, en kærandi vildi með ógildingunni öðlast
nýjan lánsrétt. Með sama úrskurði féllst stjórn LÍN á að kærandi ætti rétt á að
sækja um 44 ECTS eininga lán vegna skólaársins 2011-2012 á grundvelli nýrra
úthlutunarreglna er tóku gildi fyrir námsárið 2011-2012. Í úrskurðinum er því
einnig lýst hver lánsréttur kæranda er skv. nýju reglunum vegna meistara- og
doktorsnáms. Mál þetta varðar samkvæmt framansögðu í fyrsta lagi hvort
kæranda sé heimilt að endurgreiða námslán vegna MA náms haustið 2010 er hún þáði
í gildistíð úthlutunarreglna 2010-2011. Í öðru lagi varðar málið hver lánsréttur
kæranda er að loknu námsárinu 2010-2011 og hvort hún eigi betri lánsrétt en
kemur fram í úrskurði stjórnar LÍN í máli hennar.
I. Um rétt kæranda
til að endurgreiða námslán vegna haustannar 2010.
Að mati
málskotsnefndar gilda ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um kröfu
kæranda. Samkvæmt 24. gr. á aðili máls rétt á endurupptöku eftir að stjórnvald
hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt ef:
1. ákvörðun hefur
byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða 2. íþyngjandi
ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því
að ákvörðun var tekin.
Fram kemur í fyrirliggjandi gögnum að kærandi
sótti upphaflega um 18 ECTS einingar vegna MA námsins á Bifröst haustið 2010.
Samkvæmt því skipulagi sem fyrir lá hjá skólanum í kynningargögnum hans á þeim
tíma telst umrædd önn haustönn og tilheyrðu einingar þær sem kærandi sótti um
lán vegna svonefndri sumarlotu haustannar. Kærandi lauk 12 einingum í MA náminu.
Kærandi breytti síðan umsókn sinni og sótti nú um lán vegna BA náms í HR haustið
2010. Sökum veikinda lauk kærandi ekki neinum einingum í BA náminu haustið 2010.
Fram kemur í tölvupósti frá kæranda 9. júní 2010 að kærandi leitaði eftir því
við LÍN að fá úr því skorið í fyrsta lagi hvort réttur hennar til BA náms
myndi skerðast vegna MA námsins skv. 5 ára reglunni. Í öðru lagi kemur
fram í tölvupósti kæranda að hún hafi fengið staðfestingu á því hjá starfsmanni
LÍN áður en hún skráði sig í MA námið að hún gæti tekið það nám og BA námið í
framhaldi af haustönn 2010, þ.e. verið samtímis í báðum námsferlum. Segir í
erindi kæranda " í kjölfar fyrrgreinds úrskurðar tel ég mig hafa rétt á að
taka MA nám á sumrin og BA nám á veturna og fá framfærslulán og skólagjaldalán
fyrir báðum án þess að eyðileggja möguleika mín til að klára BA námið."
Reyndi því hér á tvær greinar úthlutunarreglnanna, annars vegar fimm ára regluna
í grein 2.3.2 og hins vegar grein 2.2 um að loknar einingar þurfi að vera í
einum námsferli, eða ef þær eru í fleiri námsferlum að þeir námsferlar leiði til
sameiginlegrar gráðu. Þá reyndi einnig á hvort kærandi gæti byggt á því að hafa
fengið rangar upplýsingar hjá starfsmanni LÍN um síðarnefndu regluna. Kærandi
virðist ekki fá skýr svör varðandi 5 ára regluna og stjórn LÍN úrskurðar ekki um
það atriði erindis hennar. Kærandi fær þó svar frá starfsmanni LÍN 14. júní 2011
þar sem einungis kemur fram að hún sé ekki komin með synjun vegna 5 ára reglu.
Með úrskurði sínum þann 27. júní 2011 í máli kæranda fellst stjórn LÍN á að
veita henni lán vegna MA náms haustannar 2010. Fram kemur í tölvupósti 8. ágúst
2011 að kærandi er samþykk því að veita viðtöku umræddu láni. Þegar kærandi fær
að eigin sögn frekari upplýsingar um að lánsréttur hennar vegna BA náms muni
skerðast sendir hún þann 15. ágúst 2011 erindi til vafamálanefndar og stjórnar
LÍN þar sem hún óskar eftir því að fá ógilta lánveitinguna til sín. Eins og áður
greinir kveðst kærandi ekki hafa sótt um umrætt lán. Þó verður ekki annað séð en
að samþykki LÍN á haustláni til hennar hafi verið til að koma til móts við þá
umkvörtun kæranda að hún hafi verið ranglega upplýst að hún gæti sótt bæði um
lán vegna MA námsins í sumarlotu haustannar 2010 og vegna BA námsins þetta sama
haust. Þá var kæranda tilkynnt um lánveitinguna með bréfi LÍN þann 27. júní. Hún
lýsti yfir samþykki sínu gagnvart LÍN þann 8. ágúst en sendi ekki mótmæli sín
fyrr en 15. ágúst eða næstum tveim mánuðum eftir að henni var tilkynnt um
lánveitinguna. Verður ekki betur séð en að kærandi hafi með beiðni sinni um
úrlausn stjórnar vegna lánsréttar í MA námi sínu óskað eftir auknum lánsrétti
vegna haustsins 2010 vegna MA námsins. Hafi leikið vafi á samþykki kæranda var
honum eytt með samþykki hennar þann 8. ágúst. Eru því ekki skilyrði til
endurupptöku málsins sökum þess að stjórn LÍN hafi byggt á röngum eða
ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik. Kærandi hefur einnig borið við
forsendubresti, að hún hafi verið ranglega upplýst um að réttur hennar til að
þiggja lán vegna BA námsins myndi ekki skerðast vegna MA námsins. Samkvæmt grein
2.3.2 í úthlutunarreglum LÍN vegna ársins 2010-2011 átti kærandi rétt til
námsláns vegna 5 aðstoðarára í BA námi sínu. Eins og fram kemur í úrskurðum
málskotsnefndar í málum nr. L-9/2010 og L-18/2010 skerðist sá réttur ekki vegna
meistaranáms. Eiga úrskurðir málskotsnefndar sér stoð í 3. gr. reglugerðar nr.
607/1997 um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem í gildi var þegar kærandi stundaði
umrætt nám haustið 2010. Að mati málskotsnefndar er því ljóst að kæranda voru
veittar rangar upplýsingar um lánsrétt sitt af hálfu LÍN hvað þetta varðar.
Lánsréttur kæranda til grunnnáms skerðist ekki vegna umræddra eininga í MA námi
hennar. Eru því ekki efni til að taka til frekari umfjöllunar rök kæranda um
forsendubrest.
II. Um lánsrétt kæranda námsárið 2011- 2012.
Í nýjum úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2011-2012 var útreikningi
lánsréttar breytt. Ekki er lengur miðað við aðstoðarár heldur ECTS- einingar.
Samkvæmt nýju reglunum grein 2.3 á námsmaður rétt á eftirfarandi:
Í
grunnnámi: 180 ECTS einingum. Í meistaranámi eða sambærilegu námi: 120 ECTS
einingum. Að eigin vali á grunn- og meistarastigi : 120 ECTS einingum til
viðbótar Samkvæmt undanþágu að uppfylltum skilyrðum: 60 ECTS einingum. Í
doktorsnámi: 180 ECTS-einingar vegna þess náms, þó geta lán hans hjá sjóðnum
aldrei farið umfram 600 ECTS-einingar.
Úthlutunarreglurnar fyrir
2011-2012 voru staðfestar af mennta- og menningarmálaráðherra 21. júní 2011 og
birtar sama dag í B-deild Stjórnartíðinda. Kemur þar fram að reglurnar tóku
gildi hinn 1. júlí 2011. Ekki var kveðið á um það í úthlutunarreglum 2011-2012
hvernig fari með mat á lánsrétti þeirra er höfðu hafið nám í gildistíð eldri
reglna. Hins vegar er í núgildandi úthlutunarreglum 2012-2013 grein 2.3.3 kveðið
á um að áframhaldandi gildi fimm og tíu ára reglnanna gagnvart þeim sem höfðu
hafið nám sitt í gildistíð eldri reglna með eftirfarandi hætti:
Námsmenn sem stunda áfram sama nám og þeir voru byrjaðir í fyrir
námsárið 2011-2012 og hafa ekki gert lengra hlé á námi sínu en eitt námsár síðan
2010-2011, njóta áfram lánsheimildar skv. gr. 2.3.2 og 2.3.3 (5 og 10 ára
reglurnar) eins og þeim er lýst í úthlutunarreglum 2010-2011.
Verður
ekki betur séð en að LÍN hafi beitt sambærilegum sjónarmiðum við mat á lánsrétti
2011-2012, sbr. athugasemdir stjórnar LÍN í málinu. Samkvæmt framansögðu er
kæranda heimilt að byggja á fimm og tíu ára reglunum enda veiti þær reglur henni
betri rétt. Í kærunni kemur fram sú afstaða kæranda að hún eigi rétt á 60
einingum námsárið 2011-2012. Stjórn LÍN telur að lánsréttur kæranda til
grunnnáms 2011-2012 sé tæmdur ef byggt sé á eldri úthlutunarreglunum. Hins vegar
eigi kærandi betri rétt samkvæmt nýrri úthlutunarreglum er gildi fyrir 2011-2012
eða samtals 44 ECTS einingar vegna skólaársins 2011-2012.
Réttur
kæranda skv. eldri úthlutunarreglunum.
Rök kæranda fyrir 60 eininga
lánsrétti sínum vegna skólaársins 2011-2012 eru að hún eigi rétt á að fá
endurgreitt 18 eininga lán vegna MA náms haustönn 2010. Við það muni réttur
hennar til BA náms aukast. Eins og áður greinir ber að taka tillit til úrskurða
málskotsnefndar í málunum L-9/2010 og L-18/2010. Þegar kærandi hóf BA nám í
lögfræði haustið 2009 hafði hún lokið 3 námsárum í grunnnámi eða 180 ECTS
einingum. Kærandi bætti við sig einu námsári veturinn 2009-2010 (60 ECTS) og
hálfu námsári vorið 2011 (12 ECTS). Þar sem lán vegna meistaranáms kemur ekki
til frádráttar átti kærandi á grundvelli eldri úthlutunarreglna við BA nám
námsárið 2011-2012 rétt á námsláni vegna 0,5 aðstoðarsárs (30 ECTS) einingum og
möguleika á undanþágu vegna 6. námsársins. Möguleg endurgreiðsla vegna láns til
MA náms myndi samkvæmt framansögðu heldur engu breyta um rétt kæranda til láns
vegna BA náms.
Réttur kæranda samkvæmt nýjum úthlutunarreglum.
Samkvæmt nýjum úthlutunarreglum eiga námsmenn rétt á 180 ECTS einingum
vegna grunnnáms og 120 ECTS einingum vegna framhaldsnáms. Síðan bætast við 120
ECTS einingar að eigin vali. Eins og lýst er í athugasemdum LÍN hefur kærandi
þegar nýtt sér 256 einingar í grunnnámi í lok skólaárs 2010-2012. Á kærandi því
rétt á 30 eininga láni haustið 2011 og 14 einingum vorið 2012 vegna BA náms.
Málskotsnefnd tekur fram að möguleg endurgreiðsla kæranda á láni vegna MA náms
2010 myndi í engu bæta við þennan lánsrétt, heldur einungis bætast við lánsrétt
vegna MA námsins. Þá er rétt að geta þess að nýju úthlutunarreglurnar eru
öðruvísi upp byggðar og veikindalán skerða ekki lánsrétt nema sem samsvarar
veittu láni. Því yrði viðbótin vegna endurgreiðslunnar ekki 0,5 aðstoðarár (30
einingar) eins og var samkvæmt eldri úthlutunarreglunum, heldur aðeins sem
samsvarar því láni sem veitt var upphaflega, þ.e. 18 einingar.
Niðurstaða varðandi lánsrétt kæranda.
Samkvæmt
ofangreindu er lánsréttur kæranda vegna BA náms 2011-2012 30 ECTS einingar ef
byggt er á fimm og tíu ára reglunum. Ef byggt er á nýjum úthlutunarreglum LÍN
2011-2012 er lánsréttur kæranda vegna BA náms nokkuð betri eða 44 ECTS einingar.
Þessi munur skýrist af því að réttur námsmanna sem þiggja veikindalán var verri
samkvæmt eldri reglum en er samkvæmt nýrri reglum. Veikindalán það sem kærandi
þáði vorið 2011 skerti lánsrétt hennar um 0,5 aðstoðarár (30 ECTS einingar)
samkvæmt fimm og tíu ára reglunni, en mun einungis skerða lánsrétt hennar í
samræmi við veitt lán, þ.e. 16 ECTS einingar ef byggt er á nýjum
úthlutunarreglum LÍN. Kemur þetta skýrt fram í viðbótarathugasemdum LÍN. Hagræði
kæranda af nýjum útlánareglum er því ótvírætt. Kærandi telur sig einnig eiga
rétt á 30 einingum á vorönn 2012 þar sem BA nám í lögfræði og MA nám í
menningarstjórnun stefni að sama marki og af þeim sökum eigi hún rétt á að
stunda þessa tvo námsferla samhliða á sömu önn. Einnig bendir kærandi á máli
sínu til stuðnings að HR bjóði uppá það að nemendur fái að taka hluta náms síns
í öðrum skólum. Málskotsnefnd getur ekki fallist á þessar röksemdir kæranda.
Ótvírætt er að fyrrgreindir námsferlar stefna ekki að sameiginlegri námsgráðu í
skilningi úthlutunarreglna LÍN. MA nám í menningarstjórnun stefnir ekki að
lokaprófi í lögfræði. Varðandi röksemdir kæranda um að HR bjóði uppá að stunda
valgreinar úr öðru námi þá kom það álitamál ekki til úrskurðar stjórnar LÍN þar
sem á þeim tíma lá ekkert fyrir um samþykki HR á því hvaða námsgreinar skólinn
myndi samþykkja vegna kæranda. Þegar slíkt samþykki viðkomandi menntastofnunar,
þ.e. HR, liggur fyrir er það fyrir sjóðinn að meta möguleg áhrif þess á lánsrétt
kæranda. Kærandi hefur einnig mótmælt því sem hún telur vera skerðingu á
lánsrétti sínum vegna doktorsnáms er hún kunni að stunda í framtíðinni.
Málskotsnefnd tekur fram af þessu tilefni að það kemur skýrlega fram í úrskurðum
málskotsnefndar, sbr. L- 15/2002, að námsmenn geta ekki byggt rétt sinn á eldri
úthlutunarreglum sem giltu þegar þeir hófu sinn fyrsta námsferil. Þá kemur fram
í úrskurðum málskotsnefndar og álitum Umboðsmanns Alþingis að námsmenn þurfa að
sætta sig við breytingar á úthlutunarreglum sem birtar eru með fullnægjandi
hætti í Stjórnartíðindum og geta ekki vænst þess að þær haldist óbreyttar frá
ári til árs. Þegar og ef kærandi hefur doktorsnám munu því um lánsrétt vegna
þess náms gilda þær úthlutunarreglur sem samþykktar hafa verið fyrir það námsár.
Er því eigi efni til að fjalla nánar um þessar röksemdir kæranda. LÍN veitti
kæranda rangar og ófullnægjandi upplýsingar um þýðingu fimm ára reglunnar sem
varð kæranda tilefni til að bera mál sitt undir stjórn LÍN. Þá voru kæranda ekki
veittar upplýsingar um kæruheimild þegar henni var tilkynnt um úrskurð stjórnar
LÍN í máli hennar 26. júní 2011. Málskotsnefnd telur þetta aðfinnsluvert.
Málskotsnefnd telur hins vegar að mál kæranda hafi farið í réttan farveg með
úrskurði stjórnar í máli hennar þann 29. september 2011 sem kærður var í máli
þessu. Í úrskurðinum kemur fram að nýjar úthlutunarreglur veita kæranda betri
lánsrétt og endurgreiðsla hins umdeilda láns á grundvelli nýju reglnanna verður
ekki til þess að auka rétt kæranda umfram þær einingar sem endurgreiddar yrðu
(þ.e. 18 einingar). Verður því að fallast á þá niðurstöðu stjórnar LÍN að
jafnvel þó kæranda væri heimilað að endurgreiða hið umdeilda lán myndi hún ekki
fá betri lánsrétt en hún hefur nú þegar samkvæmt nýju reglunum. Með vísan til
framanritaðs er það niðurstaða málskotsnefndar að synjun stjórnar LÍN á beiðni
kæranda um endurgreiðslu námsláns vegna MA náms haustið 2010 hafi byggt á
lögmætum sjónarmiðum. Þá fellst málskotsnefnd einnig á að mat stjórnar LÍN á
lánsrétti kæranda sem fram kemur í hinum kærða úrskurði sé í samræmi við
úthlutunarreglur LÍN. Ber því að staðfesta úrskurð stjórnar LÍN frá 29.
september 2011.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður frá 29. september 2011 í máli kæranda er staðfestur.