Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-28/2012 - Niðurfelling ábyrgðar - beiðni um niðurfellingu ábyrgðar

Úrskurður

Ár 2012, miðvikudaginn 19. desember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-28/2012:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 20. júní 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 31. maí 2012, þar sem kæranda var synjað um niðurfellingu ábyrgðar hans og barna hans á námsláni lánþega hjá LÍN. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 2. júlí 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust í bréfi dagsettu 9. júlí 2012. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör stjórnar LÍN en engar athugasemdir bárust.

Málsatvik og ágreiningsefni

Málið snýst um ábyrgð á námslánum lánþega hjá LÍN sem tekin voru á árunum 1982 til 1985. Fyrsta afborgun lánsins var 01.09.1989 en lánið hefur verið í vanskilum frá 01.09.2008. Ábyrgðamaður lánþega að hluta lána hennar var systir hennar, sem lést á árinu 2005. Erfingjar hennar, kærandi og fjögur börn hans og hinnar látnu eiginkonu hans, fengu leyfi til einkaskipta og lauk þeim 20. janúar 2006. Lánþegi er öryrki og á bótum í Noregi þar sem hún býr. Lánþegi sótti um það til LÍN í mars 2011 að lán hennar yrðu afskrifuð og gjaldfallnar afborganir felldar niður. Beiðni hennar var hafnað af stjórn LÍN en henni var leiðbeint um að ganga frá gjaldföllnum afborgunum hjá innheimtuaðila LÍN og sækja um undanþágu frá afborgunum á grundvelli örorku sinnar. Málið var endurupptekið í desember 2011 að beiðni lánþega en erindinu var enn hafnað og leiðbeiningar ítrekaðar. Kærandi óskaði eftir niðurfellingu á ábyrgð sinni og barna sinna á námslánum lánþega í erindi til LÍN dagsettu 20.05.2012. LÍN synjaði beiðninni í úrskurði þann 31.05.2012.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi byggir á lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Samkvæmt 36. gr. segi að samningi megi víkja til hliðar í heild eða hluta, eða breyta, ef samningurinn sé talinn ósanngjarn eða að það sé andstætt góðri viðskiptavild að bera hann fyrir sig. Kærandi bendir á að hann verði 67 ára á næsta ári og þar með orðin löggildur ellilífeyrisþegi. Að hann treysti sér ekki til þess að taka á sig þá skuldbindingu sem fylgir ábyrgðinni. Þá séu þrjú af fjórum börnum hans, sem einnig séu í ábyrgð fyrir umræddu láni, aðeins í hlutastarfi. Komi til þess að hann verði að greiða þessa skuld þá lendi það á honum einum en ekki á börnum hans vegna aðstæðna þeirra. Komi það til með að hafa í för með sér mikla erfiðleika fyrir hann á komandi ævikvöldi. Kæranda finnst það afar ósanngjarnt og íþyngjandi að hann eigi að taka að sér ábyrgð og skuldbindingu á láni hjá lánþega LÍN, sem neiti að greiða afborganir sínar. Hann bendir á að lánþegi hafi fengið taugaáfall 1975 og hafi lagst inn á geðdeild. Hún hafi þá verið einstæð móðir en hafi misst forsjá barnsins í kjölfarið. Í þeirri von að hægt væri að hjálpa henni hafi eiginkona kæranda, systir lánþega, gengist í þessa ábyrgð til að hún gæti farið í nám í Noregi. Kærandi bendir á að eiginkona hans hafi látist á árinu 2005. Hún hafi skrifað undir námslánin sem ábyrgðarmaður u.þ.b 30 árum fyrr og telur kærandi afar ósanngjarnt í sinn garð, sem eftirlifandi eiginmanns og svo gagnvart börnum þeirra, að innheimta þetta af dánarbúinu. Hann bendir á að hvorki hann eða börn hans hafi skrifað undir þessar skuldbindingar sem ábyrgðarmenn. Einnig bendir kærandi á að upprunalegur höfuðstóll lánsins sem eiginkona hans hafi verið í ábyrgð fyrir hafi verið 814.051 kr. og sé hann svo gott sem uppgreiddur. Kærandi gerir þá kröfu að ábyrgðin verði felld niður af framangreindum ástæðum með tilvísun í 36. gr. samningslaganna. Verði ekki fallist á það gerir hann þá kröfu að vextir, verðbætur og kostnaður vegna lánsins verði fellt niður að hluta eða öllu leyti.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

LÍN vísar til þess að í 7. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna komi fram að ábyrgð ábyrgðarmanns, eins eða fleiri, geti fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins meti fullnægjandi. Einnig vísar LÍN til þess að í grein 5.3.2 í úthlutunarreglum LÍN komi fram að eldri ábyrgð falli ekki úr gildi nema henni sé sagt upp og ný sett í staðinn með samþykki sjóðsins. Þá segi í grein 5.3.3 í úthlutunarreglunum að látist ábyrgðarmaður geti lántakandi útvegað nýjan ábyrgðarmann sem uppfylli skilyrði úthlutunarreglnanna en að öðrum kosti taki erfingjar hins látna við ábyrgðinni eftir almennum reglum ef erfingjar hafa á annað borð tekið á sig ábyrgð á skuldum dánarbúsins. LÍN vísar til þess að í 97. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum ofl. beri erfingjar einn fyrir alla og allir fyrir einn ábyrgð á skuldbindingum dánarbús, eftir að einkaskiptum er lokið, án tillits til þess hvort erfingum var kunnugt um þær áður en skiptum var lokið. LÍN bendir á að með kærunni hafi fylgt gögn vegna kæru lánþega og beiðni hennar um endurupptöku til LÍN á árinu 2011. Lánþega hafi í bæði skiptin verið synjað um niðurfellingu á gjalddögum enda engin slík heimild til staðar. Einnig sé ljóst að allir undanþágufrestir hafi verið löngu liðnir er sótt var um. LÍN hafi gætt að leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart lánþega og bent henni á að hafa samband við innheimtuaðila LÍN og gera upp skuld sína þar og í framhaldi af því að sækja um undanþágu frá afborgunum. Hafi ábyrgðarmanni þá einnig verið leiðbeint um að hann gæti sótt um undanþágu fyrir hönd lánþega og hafi honum verið sent umsóknareyðublað. Þeirri umsókn hafi svo verið synjað þar sem ekki hafi borist nein gögn með beiðninni. LÍN byggir niðurstöðu sína á því að ekki sé heimild til þess að fella niður ábyrgð ábyrgðarmanns, eins eða fleiri, nema önnur trygging komi í staðinn sem stjórn sjóðsins meti fullnægjandi. Því hafi stjórn LÍN synjað erindi kæranda um niðurfellingu ábyrgðar hans og barna hans á námsláni lánþega. Niðurstaðan sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilega úrskurði stjórnar LÍN og málskotsnefndar.

Niðurstaða

Við andlát eiginkonu kæranda varð til sjálfstæður lögaðili, dánarbú, sem tók við réttindum og skyldum hinnar látnu. Fyrir liggur að erfingjar hinnar látnu fengu leyfi til einkaskipta á dánarbúinu og að skiptum þess var lokið á árinu 2006. Í 97. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. segir að eftir að einkaskiptum er lokið bera erfingjar einn fyrir alla og allir fyrir einn ábyrgð á skuldbindingum búsins án tillits til þess hvort þeim var kunnugt um þær áður en skiptum var lokið. Fram kemur í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 20/1991 að eitt af skilyrðunum fyrir veitingu leyfis til einkaskipta sé að erfingjar lýsi yfir að þeir taki að sér sjálfskuldarábyrgð in solidum á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á dánarbúinu án fyrirvara um það eða tillits til þess hvort þeim sé kunnugt um tilvist skuldbindinganna. Þá kemur fram í athugasemdunum að til þess að taka af öll tvímæli um að þessi ábyrgð standi ekki aðeins meðan einkaskiptin fara fram, heldur einnig eftir lok þeirra sé kveðið á um þessa ábyrgð í 97. gr. fyrrgreindra laga. Í 7. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna kemur fram að ábyrgð ábyrgðarmanns, eins eða fleiri, geti fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi. Þá segir í grein 5.3.2 í úthlutunarreglum LÍN að eldri ábyrgð falli ekki úr gildi nema henni sé sagt upp og ný sett í staðinn með samþykki sjóðsins. Í grein 5.3.3 í úthlutunarreglum LÍN segir að látist ábyrgðarmaður geti lántakandi útvegað nýjan ábyrgðarmann sem uppfylli skilyrði úthlutunarreglnanna en að öðrum kosti taki erfingjar hins látna við ábyrgðinni eftir almennum reglum ef erfingjar hafi á annað borð tekið á sig ábyrgð á skuldum dánarbúsins. Málsskotsnefnd telur með vísan til 97. gr. laga nr. 20/1991 og gagna málsins að kærandi og samerfingjar hans beri ábyrgð á þeim skuldbindingum sem lánþegi tókst á hendur, sem sjálfskuldarábyrgðaraðili á lánum lánþega hjá LÍN á árunum 1982-1985. Af hálfu kæranda er á því byggt að fella eigi ábyrgðina niður með vísun í 36. gr. samningslaga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í greininni segir að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Í 2. mgr. segir að við mat skv. 1. mgr. skuli líta til efnis samnings, stöðu samnings aðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Kærandi rökstyður mál sitt með því að ósanngjarnt sé að hann og samerfingjar hans eigi að standa við skuldbindingar hinnar látnu sem hún tók á sig fyrir þremur áratugum. Málskotsnefnd bendir á að regla sú sem kemur fram í 36. gr. samningalaganna er undantekningarregla frá meginreglunni um að samninga skuli halda og að beita eigi henni af varúð. Við mat á því hvort umrædd ógildingarregla eigi við skal litið til; efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerð, atvika er síðar komu til. Málskotsnefndin telur ekkert hafa komið fram í málinu um að sjálfskuldarábyrgð sú sem eiginkona kæranda gekkst í á sínum tíma hafi verið óvenjuleg eða ósanngjörn. Þá liggur heldur ekki neitt fyrir um að efni samningsins og staða samningsaðila eða atvik við samningsgerðina hafi verið óvenjuleg með neinum hætti, ósanngjörn eða andstæð góðum viðskiptavenjum þegar undir samninginn var skrifað. Fram hefur komið að eiginkona kæranda hafi tekist á hendur ábyrgðarskuldbindinguna til þess að gefa lánþega, systur sinni, tækifæri á að mennta sig og hefja nýtt líf eftir áföll í lífinu. Ekkert hefur komið fram í málinu annað en að hún hafi gert sér fulla grein fyrir því hvað fælist í sjálfskuldarábyrgð sinni á námslánum lánþega. Þá telur málskotsnefndin heldur ekkert liggja fyrir um síðar tilkomin atvik sem réttlæti það að umrædd skuldbinding sé felld niður. Er því kröfunni um fella eigi niður ábyrgð kæranda með vísan til 36. gr. samningalaga hafnað. Af hálfu kæranda er einnig á því byggt, ef ekki er fallist á að fella ábyrgðina niður, að fella eigi niður, að hluta eða öllu leyti, vexti, verðbætur og kostnað vegna lánsins. Framangreind krafa kæranda kemur fyrst fram í kæru til málskotsnefndar. Af hálfu stjórnar LÍN hefur ekki verið úrskurðað um kröfuna eða hún verið til meðferðar hjá LÍN. Samkvæmt 2. mgr. 5.a. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er valdsvið málskotsnefndar takmarkað við að skera úr um hvort úrskurðir stjórnar LÍN séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Þar sem umrædd krafa hefur ekki verið borin undir stjórn sjóðsins brestur nefndina vald til að fjalla um hana og er þessari kröfu kæranda því vísað frá nefndinni. Málskotsnefndin fellst á það með stjórn LÍN að ekki sé heimild til þess að fella niður ábyrgð ábyrgðarmanns, eins eða fleiri, nema önnur trygging komi í staðinn sem stjórn sjóðsins meti fullnægjandi sbr. grein 5.3.2 í úthlutunarreglum LÍN og 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN nr. 21/1992. Lán lánþega voru tekin í gildistíð laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki og er vísað til umfjöllunar í úrskurði málskotsnefndar nr. L-46/2010 um þróun umræddra ákvæða fram til dagsins í dag. Þar kemur m.a. fram að breyting sem gerð var á lögum nr. 21/1992 um LÍN með lögum nr. 79/2009, þar sem felld er niður krafa um ábyrgðir ábyrgðarmanna ef lántaki er lánshæfur samkvæmt reglum sjóðsins, breytir ekki stöðu eldri lántaka og ábyrgðarmanna þeirra, þar sem breytingalögin eru ekki afturvirk. Situr því kærandi og samábyrgðarmenn hans við sama borð og aðrir lántakendur og ábyrgðarmenn þeirra sem fengu lán fyrir gildistöku breytingarlaganna nr. 79/2009. Þá telur málskotsnefndin að stjórn LÍN hafi í svari sínu til kærða gætt að leiðbeiningarskyldu sinni og upplýst kæranda um möguleg úrræði hans til að sækja um undanþágu frá greiðslu afborgunar vegna félagslegra aðstæðna og veikinda lánþega. Með vísan til framangreindra atriða og gagna málsins að öðru leyti er það mat málskotsnefndar að úrskurður stjórnar LÍN frá 31. maí 2012 sé í samræmi við lög og reglur LÍN og er hann staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 31. maí 2012 er staðfestur. Kröfu kæranda um niðurfellingu vaxta, verðbóta og kostnaðar vegna lánsins er vísað frá. 

Til baka