Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-38/2012 - Lánshæfi - umsókn um lán til ólánshæfs náms skv. reglum LÍN

Úrskurður

Ár 2013, miðvikudaginn 9. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-38/2012:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 30. ágúst 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 24. ágúst 2012 þar sem hafnað var beiðni hans um námslán vegna náms hans við frumgreinasvið háskólans á Bifröst haustið 2010. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi 30. ágúst 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 10. september 2012 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 12. september s.á. en þar var kæranda jafnframt veittur 4 vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfum dagsettum 6. og 14. janúar sendi stjórn LÍN málskotsnefnd afrit af bréfum stjórnar LÍN til kæranda, dagsett 5. ágúst 2012.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundaði nám við frumgreinadeild Háskólans á Bifröst haustið 2010. Hann sótti um námslán vegna námsins en með bréfi LÍN 5. ágúst 2010 var umsókn hans synjað. Í bréfi LÍN sem bar yfirskriftina „Ólánshæft nám“ kom fram sú afstaða LÍN að nám kæranda uppfyllti ekki skilyrði í kafla I í úthlutunarreglum LÍN um lánshæft nám og hefði umsókn hans því „verið dregin til baka“. Kæranda var jafnframt bent á að honum væri heimilt að bera „synjun á umsókn“ undir stjórn LÍN. Skyldi bera fram slíka beiðni innan þriggja mánaða. Sama dag fékk kærandi annað bréf frá stjórn LÍN þar sem fram kom að upplýsingar vantaði vegna umsóknar hans um námslán, þ.e. staðfestingu á að hann hafi lokið lánshæfu starfsnámi. Kom fram að ef umbeðnar upplýsingar myndu ekki berast sjóðnum innan tveggja mánaða yrði litið svo á að umsóknin hefði verið dregin til baka. Kærandi sendi stjórn LÍN bréf þann 19. júlí 2012 og fór þess á leit að fá lán vegna námsins. Kvaðst kæranda hafa sótt um lán 2010 en fengið synjun. Vísaði hann til úrskurðar málskotsnefndar í máli L-42/2010 og fór þess á leit að fá afgreitt það lán sem hann hafi átt rétt á haustið 2010 til viðbótar við haustlán 2012. Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda með úrskurði sínum þann 24. ágúst 2012. Með kæru þann 30. ágúst 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN til málskotsnefndar.

Sjónarmið kæranda.

Í kærunni kemur fram að stjórn LÍN hafi ólöglega synjað kæranda um námslán haustið 2010. Stjórn LÍN hafi synjað beiðni kæranda frá júlí 2012 um að taka málið upp aftur sökum þess hve langur tími sé liðinn. Kærandi byggir á því að málskotsnefnd LÍN hafi í sambærilegu máli L-42/2010 úrskurðað að synjun á námláni þar sem gerður væri greinarmunur á því hvaða undirbúning námsmenn höfðu aflað sér væri andstæð jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

Í athugasemdum LÍN dagsettum 10. september 2012 kemur fram að LÍN hafi með bréfi dagsettu 5. ágúst 2010 synjað kæranda um námslán á námsárinu 2010-2011. Í bréfinu hafi honum verið veittur 3 mánaða frestur til að bera málið undir stjórn LÍN til formlegs úrskurðar. Sá frestur sé löngu liðinn. Þá vísar stjórn LÍN jafnframt til greinar 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN um að lánveitingum vegna námsársins 2010-2011 skuli lokið fyrir 15. janúar 2012, eftir það verði ekki afgreidd lán vegna námsársins. Enga heimild sé að finna í reglum LÍN til að taka til afgreiðslu umsókn kæranda vegna skólaársins 2010-2011 og hafi stjórnin því synjað erindi hans.

Niðurstaða

Í máli þessu liggur fyrir að umsókn kæranda um námslán var synjað þann 5. ágúst 2010 sökum þess að hann uppfyllti ekki skilyrði sem sett voru í úthlutunarreglum LÍN um lánshæft nám. Eftir að umsókn kæranda var synjað féll úrskurður málskotsnefndar í máli L-42/2010 um að tiltekin atriði sem sett voru í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsláni samrýmdust ekki lögum nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um rétt kæranda til að fá endurskoðun á synjun LÍN fer skv. lögum um LÍN og stjórnsýslulögum. Samkvæmt 5. gr. laga um LÍN er það hlutverk stjórnar að skera úr vafamálum er varða einstaka lánþega. Vísa má úrskurðum stjórnar til málskotsnefndar. Af framangreindu má ráða að ekki eru allar ákvarðandi starfsmanna sjóðsins bornar undir stjórn heldur þær sem teljast vafamál. Þegar kærandi fékk synjun námsláns bar hann hana ekki undir stjórn LÍN til formlegs úrskurðar. Þegar hann leitaði aftur til LÍN með endurskoðun ákvörðunarinnar var honum synjað sökum þess að hann hafi ekki borið mál sitt undir stjórn LÍN innan þess þriggja mánaða frests sem honum var veittur með bréfi LÍN þann 5. ágúst 2010. Málskotsnefnd bendir á að þó að kærandi hafi ekki borið mál sitt upp við stjórn LÍN verður ekki litið framhjá því að sú synjun sem kærandi fékk frá LÍN þann 5. ágúst 2010 er stjórnvaldsákvörðun. Ákvörðunin batt enda á mál hans hjá LÍN og var ákvörðun um rétt hans eða skyldu, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Átti kærandi rétt á að sækja um endurupptöku þeirrar ákvörðunar samkvæmt ákvæðum 24. gr. stjórnsýslulaga sem er svohljóðandi:

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef: 1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða 2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim, sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Málskotsnefnd tekur einnig fram að almennt er talið að stjórnvaldi sé heimilt að verða við erindi aðila um endurupptöku máls hans á grundvelli óskráðrar meginreglu ef ákvörðunin er haldin verulegum annmarka, t.a.m. ef hún er ógildanleg. Eins og fram kemur í tilvitnuðu ákvæði stjórnsýslulaga ber að miða frest þann sem aðili hefur til að óska endurupptöku við það tímamark sem honum mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim, sem ákvörðun var byggð á. Að mati málskotsnefndar verður við það að miða að kæranda hafi a.m.k. mátt vera ljóst að ákvörðun í máli hans var ógildanleg eftir að úrskurður málskotsnefndar gekk í máli L-42/2010 þann 1. apríl 2011. Hins vegar verður þó til þess að líta að námslánum er úthlutað árlega. Í úthlutunarreglum LÍN eru settar takmarkanir fyrir því hvenær námslán eru greidd út í síðasta lagi fyrir hvert námsár. Fyrir námsárið 2010-2011 var LÍN heimilt að greiða út lán í síðasta lagi 15. janúar 2012 og er sá frestur auglýstur í úthlutunarreglum LÍN sem birtar eru á hverju ári í B-deild Stjórnartíðinda og á heimasíðu LÍN. Eftir þann tíma er sjóðnum ekki heimilt að greiða út námslán vegna viðkomandi námsárs. Þegar kærandi óskaði eftir leiðréttingu sinna mála hjá LÍN í júlí 2012 hafði liðið meira en eitt ár frá því að úrskurður gekk í máli L-42/2012 og meira en sex mánuðir voru liðnir frá því síðast var heimilt að afgreiða námslán vegna skólaársins 2010-2012. Var beiðni kæranda um námslán því of seint fram komin og stjórn LÍN rétt að synja henni. Er niðurstaða stjórnar LÍN í máli kæranda því staðfest.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 24. ágúst 2012 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka