Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-39/2012 - Umsóknarfrestur og útborgun - námsárangur barst of seint fyrir námsár

Úrskurður

 

Ár 2013, miðvikudaginn 23. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-39/2012:

 

Kæruefni

 

Með kæru, dagsettri 30. ágúst 2012, kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 30. maí 2012 þar sem hafnað var beiðni kæranda um námslán vegna skólaársins 2010-2011 með vísan til greinar 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 7. september 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 24. september 2012 og var afrit þess sent kæranda með bréfi 28. sama mánaðar, en þar var kæranda jafnframt gefinn 4 vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir kæranda bárust málskotsnefnd í bréfi dagsettu 24. október 2012.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundaði mastersnám í Svíþjóð á námsárinu 2010-2011 og sótti um námslán á haustönn 2010. LÍN bárust námsupplýsingar um kæranda staðfestar af skóla þann 7. október 2010. Samkvæmt þeim hafði hún lokið samtals 9 ECTS-einingum á þessum tíma. Þann 19. mars 2012 barst LÍN staðfesting á námslokum kæranda. Kærandi sótti fyrst um aukið svigrúm vegna útborgunar lána á námsárinu 2010-2011 með bréfi dagsettu 1. febrúar 2012 til stjórnar LÍN. Stjórn LÍN hafnað erindinu með úrskurði dagsettum 17. febrúar 2012 með vísan til greinar 5.2.1 í úthlutunarreglum sjóðsins. Samkvæmt þeirri grein skal lánveitingum vegna námsársins 2010-2011 vera lokið fyrir 15. janúar 2012 og eftir það verði ekki afgreidd lán vegna námsársins. Kærandi sótti um endurupptöku málsins til stjórnar LÍN með bréfi dagsettu 2. maí 2012. Þar ítrekaði hún beiðni sína um aukið svigrúm vegna útborgunar lána á námsárinu 2010-2011. Í erindi kæranda kemur fram að hún hafi ekki lokið við námsritgerð fyrr en 1. febrúar 2012 vegna veikinda en hafi ætlað að skila henni fyrr og því hafi hún ekki sótt um lán á haustönn 2011. Kærandi kveðst hafa farið í viðtal til LÍN í október 2011 og hafa þá haft meðferðis og afhent starfsmanni LÍN staðfestingu á því að hún hafi lokið 18 ECTS-einingum á haustönn 2010. Erindi kæranda var tekið fyrir að nýju á fundi stjórnar LÍN 30. maí 2012 þar sem því var synjað með úrskurði. 

Sjónarmið kæranda 

Kærandi vísar til þess að hún hafi fengið þær upplýsingar frá starfsmanni LÍN í október 2011 að hún gæti sótt um haustlán 2011 þar sem hún væri að ljúka ritgerðinni en hún hafi talið best að halda einingunum saman. Hún bendir á að starfsmaðurinn hafi ekkert sagt um að hún yrði að sækja um til að fá námslánið afgreitt heldur að hún gæti gert það til vonar og vara. Hún bendir á að hún hafi varið ritgerðina í ágúst 2011 og hafi verið að ljúka nokkrum lausum endum og frágangi eftir það. Veikindi hennar hafi svo orðið til þess að seinka endanlegum skilum ritgerðarinnar. Kærandi bendir á að ef hún hafi getað haldið áfram að vinna í ritgerð á árinu 2011 og að miðað sé við að lokadagur skila sé 15. janúar 2012 þá hljóti veikindi á því tímabili líka að hafa áhrif á framgang mála. Kærandi bendir einnig á að námslok hennar hafi verið staðfest af hálfu skólans í mars 2012. Hún hafi verið í samband við LÍN áður en lokað var fyrir námsárið, þ.e. 4. og 13. janúar 2012 og þá liggi fyrir læknisvottorð um veikindi hennar. Þá bendir kærandi á að hún hafi lokið 18 ECTS-einingum haustið 2010 en að pappírar um það virðast hafa glatast eða mislagst hjá LÍN. Kærandi fullyrðir að hún afhent LÍN gögnin í október 2011 og bendir á að hún geti ekki borið ábyrgð á skráningarkerfi LÍN og þeirri framkvæmd sem þar sé fylgt. Kærandi telur að allan vafa í málinu eigi að túlka henni í hag þar sem það liggi fyrir að hún hafi lokið umræddum 18 ECTS-einingum á tilskildum tíma. Kærandi bendir á að veikindi hafi tafið námsframvindu hennar með þeim hætti að hún hafi ekki náð að skila inn gögnum fyrir lokafrest og þegar það hafi orði ljóst hafi verið orðið of seint að breyta lánsumsókn. Kærandi óskar eftir að niðurstaða stjórnar LÍN varðandi veikindi og veikindarétt hennar sé skoðuð sérstaklega. 

Sjónarmið LÍN 

Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 30. maí 2012 verði staðfestur. Í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN komi fram að lánveitingum vegna námsársins 2010-2011 skuli lokið fyrir 15. janúar 2012, og eftir það séu ekki afgreidd lán vegna námsársins. Enga heimild sé að finna í reglum LÍN til verða við beiðni kæranda um afgreiðslu námsláns vegna skólaársins 2010-2011. LÍN bendir á að sjóðnum hafi borist námsupplýsingar fyrir kæranda staðfestar af skóla þann 7. október 2010 fyrir samtals 9 ECTS-einingum. Engar upplýsingar liggi fyrir hjá LÍN um að kærandi hafi leitað til sjóðsins á tímabilinu frá 16. maí 2011 til 4. janúar 2012. Það hafi síðan ekki verið fyrr en 19. mars 2012 sem staðfesting á námslokum kæranda barst. LÍN bendir einnig á að í grein 2.4.3 í úthlutunarreglum LÍN sé heimild til að taka tillit til þess ef námsmaður veikist verulega á námstíma og bæta einingum við loknar einingar námsmanns þannig að lánsréttur miðist við að hafa lokið 18 ECTS-einingum. Kærandi hafi sótt um lán á haustmisseri 2010 og framangreind heimild sjóðsins til að veita veikindaundanþágu miðist við það tímabil. Því sé ekki heimilt að veita veikindaundanþágu á haustmisseri 2010 vegna veikinda haustið 2011. Þá ítrekar LÍN að engin skráð samskipti við kæranda eða staðfesting um loknar einingar sé að finna í skjalavistunarkerfi LÍN frá því í október 2011.

 

Niðurstaða

 

Í grein 5.2.1. í úthlutunarreglum LÍN kemur fram að lánveitingum vegna námsársins 2010-2011 skuli vera lokið 15. janúar 2012. Um tilkynningaskyldu námsmanns og skyldu til að skila gögnum er nánar kveðið á um í reglugerð nr. 478/2011 um LÍN og í úthlutunarreglum sjóðsins. Kemur þar m.a. fram að námsmanni beri að tilkynna LÍN verði breytingar á högum hans eftir að umsókn hafi verið lögð fram ef ætla megi að þær hafi áhrif á ákvörðun um námslán og svo fyrirmæli um prófskil. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að afgreiða námslán eftir að frestur til að leggja fram gögn um námsárangur og aðrar þær upplýsingar sem LÍN hefur óskað eftir er liðinn. Málskotsnefnd hefur áður úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Kærandi stundaði mastersnám í Svíþjóð á námsárinu 2010-2011 og sótti um námslán til LÍN á haustönn 2010. Kærandi skilaði ritgerð sinn ekki fyrr en eftir 15. janúar 2012 og staðfesting um námsárangur frá skólanum barst ekki fyrr en 19. mars 2012. Staðfesting skólans um að kærandi hafði lokið 9 ECTS-einingum á haustönn 2010 höfðu borist LÍN en frekari upplýsingar um námsárangur höfðu ekki borist LÍN fyrir 15. janúar 2012. Kærandi vísar til þess að hún hafi ekki lokið við ritgerðina fyrr en 1. febrúar 2012 vegna veikinda en hafi ætlað að skila henni fyrr og því hafi hún ekki sótt um lán fyrir haustönn 2011 og dregið haustönn 2010 til baka eins og henni hafi verið leiðbeint um. Kærandi kveðst hafa komið í viðtal hjá starfsmanni LÍN í október 2011 og haft þá meðferðis staðfestingu á því að hún hafi lokið fullum 18 ECTS-einingum á haustönn 2010 sem hún hafi afhent starfsmanni LÍN. Í byrjun árs 2012 hafi hún svo komist að því að skjalið lægi ekki fyrir hjá sjóðnum. Í málinu liggur fyrir læknisvottorð frá 30. janúar 2012 þar sem fram kemur að vegna sjúkdóms og meðferðar við honum hafi kærandi haft verulega skerta vinnugetu frá 1. september 2011 að telja. Í málinu liggja ekki fyrir neinar staðfestar upplýsingar um að kærandi hafi skilað inn staðfestingu um að hafa lokið 18 ECTS-einingum í október 2011. Virðist kærandi hafa skilaði fullnægjandi námsárangri haustið 2010 en henni láðst að koma fullnægjandi gögnum til LÍN innan tilskilins tíma og tryggja sér sönnun fyrir þeirri afhendingu. Þá eru engar upplýsingar um það hjá LÍN að kærandi hafi haft samband við sjóðinn frá 16. maí 2011 og þar til kærandi hafði samband 4. janúar 2012. Af hálfu kæranda hefur því ekki verið mótmælt að LÍN hafi sent henni tölvupósta dagsetta 17. maí 2011 og 16. nóvember 2011, eins og fram kemur í gögnum málsins, með leiðbeiningum um lokun á afgreiðslu lána vegna skólaársins 2010-2011 og svo um umsóknarfrest vegna skólaársins 2011-2012. Að mati málskotsnefndar getur kærandi ekki borið fyrir sig að veikindi hafi komið í veg fyrir að hún gæti skilað inn gögnum um fullnægjandi námsárangur. Kæranda mátti vera ljós nauðsyn frágangs á málunum fyrir 15. janúar 2012. Þá liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um að kærandi hafi gert ráðstafanir til að reyna að hraða frágangi ritgerðarinnar eða sækja um námslán vegna skólaársins 2011-2012. Ennfremur liggur ekki fyrir að hún hafi skilað inn staðfestingu til LÍN á loknum einingum í október 2011, né að hún hafi verið í sambandi við LÍN vegna þessara mála fyrr en í janúar 2012. Verður í þessu sambandi að líta til þess að samkvæmt læknisvottorði var kærandi með skerta vinnugetu frá 1. september 2011 en ekki óstarfhæf. Einnig verður að líta til þess að til viðbótar við þær beinu upplýsingar sem kærandi fékk frá LÍN þá eru upplýsingar um námslán á heimasíðu LÍN. Þar eru úthlutunarreglur sjóðsins aðgengilegar og það er á ábyrgð námsmanns að kynna sér þær vel og gæta allra tímafresta sem þar er getið um. Með vísan til framangreinds verður því ekki fallist á það með kæranda að óviðráðanleg atvik hafi komið í veg fyrir að hún gat fullnægt því skilyrði að koma staðfestum upplýsingum um námsárangur sinn til LÍN innan tilskilins frests og var því LÍN rétt að synja henni um greiðslu námsláns vegna skólaársins 2010-2011 með vísan til greinar 5.2.1. Kærandi bendir sérstaklega á það í kæru sinni að veikindi hafi tafið námsframvindu hennar á þann hátt að hún hafi ekki náð að skila inn gögnum fyrir lokafrest og þegar það hafi orðið ljóst hafi verið orðið seint að breyta lánsumsókn. Kærandi leggur áherslu á að hún hafi verið að óska eftir lengri fresti til að skila inn gögnum vegna veikinda sinna og að hún óski eftir að niðurstaða LÍN varðandi veikindi og veikindarétt hennar verði skoðaður sérstaklega. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN skal aldrei veita námslán fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur. Þá skal samkvæmt 4. mgr. 6. gr. sömu laga ekki veita námslán nema námsframvinda sé með eðlilegum hætti. Um heimild frá undanþágu á námsframvindu er mælt 12. gr. laga nr. 21/1992 en heimildin er nánar útfærð í úthlutunarreglum LÍN. Í máli þessu gilda úthlutunarreglur LÍN fyrir skólaárið 2010-2011 og í grein 2.4.3 sem fjallar um veikindi segir m.a.: 

"Heimilt er við mat á námsframvindu að taka tillit til þess ef námsmaður veikist verulega á námstíma. Er þá heimilt að bæta allt að 6 ECTS-einingum við loknar einingar þannig að lánsréttur verði 18 ECTS-einingar. Í þeim tilfellum þar sem námsmaður verður að hverfa frá námi vegna veikinda er heimilt að veita hlutfallslegt lán fyrir þann tíma sem námsmaður stundaði nám og staðfestur er af skólayfirvöldum, að hámarki 18 ECTS einingar. Hámarkssvigrúm eykst ekki að jafnaði vegna þessa.“ ..... "Skilyrði fyrir veitingu undanþágu vegna veikinda námsmanns er að námsmaður framvísi læknisvottorði þar sem greinilega komi fram á hvaða tíma vitjað var læknis og á hvaða tímabili námsmaður var óvinnufær vegna veikinda að mati læknis.

Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 21/1992 er gert ráð fyrir að heimilt sé að veita aukalán til námsmanna er verða fyrir töfum í námi vegna veikinda, þ.e. er illmögulegt að stunda nám sitt. Má af orðalagi ákvæðisins ráða að gert sé ráð fyrir að námsmaður geti sýnt fram á einhverja ástundun náms. Hið sama má ráða af orðalagi 2. mgr. 12. gr. en þar kemur fram að heimilt sé að veita lán þegar veikindi leiða til þess að námsmaður standist ekki prófkröfur. Þessar heimildir eru nánar útfærðar í úthlutunarreglum LÍN og þar er sett það skilyrði fyrir aukaláni vegna veikinda að námsmaður hafi stundað nám a.m.k að hluta og að skólayfirvöld staðfesti slíkt og/eða að hann hafi skilað einhverjum námsárangri til að eiga rétt á aukaláni vegna veikinda. Er í úthlutunarreglum LÍN grein 2.4.3 heimild til að taka tillit til þess ef námsmaður veikist verulega á námstíma og bæta einingum við loknar einingar námsmanns þannig að lánsréttur miðist við að hafa lokið 18 ECTS-einingum. Kærandi sótti um lán fyrir skólaárið 2010-2011 þ.e. haust 2010 og vor 2011. Framangreind heimild sjóðsins til að veita veikindaundanþágu miðast því við það tímabil enda hefur kærandi ekki sótt um lán til LÍN vegna skólaársins 2011-2012. Því ber að fallast á það með LÍN að ekki er heimild fyrir hendi að veita kæranda undanþágu frá námsframvindu vegna veikinda sem hún varð fyrir á haustmisseri 2011. Þá er ekki um frekari heimildir til handa LÍN til að taka tillit til veikinda en að framan greinir, hvorki í lögum, reglugerð eða úthlutunarreglum. Með vísan til framanritaðs og fyrri úrskurða málskotsnefndar, er varða námsframvindu og veikindi, er það niðurstaða nefndarinnar að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjun stjórnar LÍN á beiðni kæranda. Að þessu virtu er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður frá 30. maí 2012 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka