Úrskurður
Ár 2013, miðvikudaginn 13. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-21/2012.
Kæruefni
Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 7. maí 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 16. febrúar 2012 þar sem synjað var beiðni kæranda um endurútreikning tekjutengdrar afborgunar 2011. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 8. maí 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Í svarbréfi LÍN vegna kærunnar var upplýst að í úrskurði stjórnar LÍN hafi verið ranglega fjallað um tekjutengda afborgun 2011 en með réttu hefði átt að fjalla um tekjutengda afborgun 2010. Upplýsti stjórn LÍN að úrskurðurinn myndi verða afturkallaður og í framhaldinu myndi stjórn sjóðsins fjalla aftur um málið. Þann 22. ágúst 2012 kallaði málskotsnefnd eftir upplýsingum frá stjórn LÍN um hvernig málinu hefði lyktað. Kom fram af hálfu LÍN þann sama dag að hinn kærði úrskurður hafi verið afturkallaður og úrskurðað hafi verið á ný í málinu. Þann 27. september s.á. fékk málskotsnefnd fyrirspurn frá kæranda um meðferð kærunnar. Í framhaldinu óskaði málskotsnefnd frekari upplýsinga frá stjórn LÍN um málið og fékk þær upplýsingar að um leiðréttingu hafi verið að ræða á ártali en að niðurstaða kæru hafi verið á sama veg, þ.e. kæranda hafi verið synjað um endurútreikning tekjutengdrar afborgunar. Með bréfi 24. október 2012 tilkynnti málskotsnefnd stjórn LÍN að litið væri svo á að kæra kæranda vegna fyrri úrskurðar í málinu teldist einnig eiga við síðari úrskurð stjórnar LÍN enda hafi einungis verið um að ræða leiðréttingu fyrri úrskurðar á ártali. Yrði meðferð málsins því haldið áfram hjá nefndinni og óskaði málskotsnefnd eftir athugasemdum stjórnar LÍN í málinu. Er það því úrskurður stjórnar LÍN frá 30. maí 2012 í máli kæranda sem kæra í máli þessu tekur til. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 7. nóvember 2012 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda bárust 30. nóvember 2012. Með bréfi dagsettu 3. janúar 2012 óskaði málskotsnefnd eftir frekari upplýsingum frá stjórn LÍN og bárust þær með bréfi dagsettu 7. janúar 2013. Var kæranda sent afrit svars LÍN með bréfi dagsettu 14. janúar. Kærandi sendi athugasemdir sínar með tölvupósti þann 28. janúar 2013. Málskotsnefnd svaraði kæranda með tölvupósti þann 11. febrúar 2013 og sendi jafnframt afrit af athugasemdum hennar til LÍN. LÍN sendi viðbótarupplýsingar í málinu þann 1. mars 2013 um námsferil kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi sem er skuldari að námsláni hefur verið búsett erlendis
frá því á árinu 2009. Haustið 2010 áætlaði LÍN tekjur kæranda vegna afborgunar
hennar af námsláni sökum þess að kærandi hafði ekki sent LÍN upplýsingar um
tekjur sínar vegna ársins 2009. Kærandi sótti um frystingu afborgana námslána
þann 4. júlí 2011. Kemur fram í tölvupóstsamskiptum að LÍN hafði óskað eftir
gögnum vegna þeirrar beiðni, en kærandi upplýsti í tölvupósti þann 25. júlí 2011
að gögnin væru hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt útskrift úr tölvukerfi LÍN
skráði kærandi fyrst tölvupóstfang sitt hjá LÍN þann 4. júlí 2011og heimilisfang
var fyrst skráð þann 30. september 2011. Kærandi mun hafa óskað eftir frystingu
skulda hjá umboðsmanni skuldara en fengið synjun í desember 2011 sökum þess að
hún byggi erlendis. Í janúar 2012 hafði kærandi samband við LÍN og óskaði eftir
endurskoðun á tekjutengdri afborgun. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda sem of
seint fram kominni með úrskurði sínum 20. febrúar 2012. Eins og áður greinir
misritaðist í úrskurðinum ártal en það var síðan leiðrétt í síðari úrskurði LÍN
þann 30. maí 2012. Niðurstaða stjórnar LÍN var að synja kæranda um
endurútreikning tekjutengdrar afborgunar vegna ársins 2010 þar sem 60 daga
frestur, m.v. gjalddagann 1. september 2010, hafi verið liðinn.
Sjónarmið kæranda.
Fram kemur í kærunni að kærandi býr
erlendis. Hún kveðst hafa litlar tekjur og sé ekki borgunarmaður eins og málum
sé nú háttað. Hún kveðst hafa hringt í LÍN og sagt að mál sín væru í ferli hjá
Umboðsmanni skuldara og að sér hafi verið ráðlagt að bíða. Hún hafi síðan fengið
höfnun frá umboðsmanni í desember 2011 og í framhaldinu hafi hún í byrjun árs
2012 sótt um endurútreikning afborgunar þegar hún áttaði sig á því að LÍN hafði
byggt afborgun haustið 2010 á áætlun um tekjur hennar. Kærandi mótmælir því að
LÍN geti tekið einhliða ákvörðun um stöðu hennar. Endurgreiðsla hafi átt að vera
föst greiðsla og síðan greiðsla er miðist við tekjur. Kærandi mótmælir því
einnig að erfitt hafi verið að ná í sig. Hún hafi skráð nýja heimilisfangið sitt
hjá Þjóðskrá á sínum tíma. Hún hafi einnig haft sama tölvupóst og GSM númer í
yfir tíu ár. Kærandi kveðst einnig hafa látið LÍN í té heimilisfang dóttur
sinnar og óskar skýringa á því hvert bréf dagsett 16. júní 2011 hafi verið sent.
Kærandi sendir einnig yfirlit um tekjur sínar og tekur fram að útreikningur LÍN
sé óskiljanlegur. Þá vísar kærandi til þess að LÍN hafi ekki tekið tillit til
þess að framfærslukostnaður sé mun hærri í Danmörku og að hún hafi dóttur sína á
framfæri. Kærandi tiltekur sérstaklega að upplýsingar sem LÍN hafi veitt um
tekjur hennar eigi ekki við rök að styðjast og fer þess á leit að LÍN verði gert
að leggja fram yfirlit um öll gögn og persónuupplýsingar um hana og
greiðsluyfirlit láns hennar frá upphafi. Kærandi bendir á að LÍN hafi ekki miðað
áætlun tekna við réttar upplýsingar. Hafi hún hvorki gengið í eða starfað við
tækniskólann sem LÍN nefnir í athugasemdum sínum.
Sjónarmið stjórnar
LÍN
Í athugasemdum stjórnar LÍN segir að kærandi hafi sótt um
frystingu í júlí 2011. Hafi LÍN bent kæranda á að hún þyrfti að leggja fram
gögn. Þar sem gögn kæranda hafi verið hjá Umboðsmanni skuldara hafi kæranda
verið bent á að hún væri í greiðsluskjóli á meðan. Í þessu samskipum hafi hvergi
komið fram að kæranda þætti afborgun of há eða óskaði endurútreiknings. Á þessum
tíma hafi frestur til að óska eftir slíkum endurútreikningi verið löngu liðinn.
Ekki sé um að ræða önnur samskipti kæranda við sjóðinn fyrr en í janúar 2012 er
hún hafi óskað eftir endurútreikningi afborgunar. Þeirri beiðni hafi verið
synjað sökum þess að 60 daga fresturinn var liðinn. LÍN bendir á að kærandi hafi
flust til Danmerkur á árinu 2009 því hafi sjóðurinn ekki haft upplýsingar um
tekjur hennar þá mánuði ársins er hún var búsett þar. LÍN bendir einnig á að
reynt hafi verið að senda kæranda bréf vegna erlendra tekna þar sem hún hafi
verið skráð með erlent lögheimili í Þjóðskrá þann 1. desember 2009. Bréfið hafi
hins vegar ekki komist til skila þar sem LÍN hafi ekki haft neinar upplýsingar
um heimilisfang, tölvupóstfang eða heimilisfang dóttur kæranda. Hafi þær
upplýsingar ekki verið skráðar hjá sjóðnum fyrr en 4. júlí 2011 eins og fram
komi í skráningarkerfi sjóðsins. Í viðbótarupplýsingum stjórnar LÍN kemur fram
að kæranda hafi verið áætlaðar erlendar tekjur vegna ársins 2009 á grundvelli
tekna miðað við námsgráðu hennar. Hafi sú áætlun 10 milljónir króna verið látin
standa sem viðmið um afborgun en íslenskum tekjum samkvæmt upplýsingum RSK hafi
ekki verið bætt við. Þá bendir LÍN á að tekjuviðmið vegna kæranda hafi byggst á
upplýsingum frá kæranda sjálfum, en kærandi hafi á árinu 1997 sótt um námslán
vegna náms í informatik.
Niðurstaða
Í 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er mælt fyrir um endurgreiðslu
námslána. Samkvæmt 1. mgr. ákvarðast árleg endurgreiðsla lánþega í tvennu lagi.
Skýrlega er mælt fyrir um það að önnur greiðslan skuli vera föst greiðsla, sem
innheimt er á fyrri hluta ársins og sé hún óháð tekjum en hins vegar sé
tekjutengd greiðsla innheimt á seinni hluta ársins og sé hún háð tekjum fyrra
árs. Í 3. mgr. 8. gr. kemur fram að viðbótargreiðslan miðast við ákveðinn
hundraðshluta af útsvarsstofni ársins á undan endurgreiðsluári og er
útreikningum greiðslunnar nánar lýst í næstu málsgreinum. Þegar greiðendur eru
skattskyldir erlendis og með takmarkaða skattskyldu á Íslandi er LÍN heimilt að
áætla þeim tekjur vegna þess tímabils sem slík takmörkuð skattskylda tekur til.
Segir þannig í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992:
Sé lánþega áætlaður
skattstofn skal miða við hann. Sé lánþegi á endurgreiðslutímanum ekki
skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur
á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og skal árleg
viðbótargreiðsla ákveðin í samræmi við það. Geri hann það ekki eða telja verður
upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna tekjustofn samkvæmt því
skal stjórn sjóðsins áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar
viðbótargreiðslu.
Þegar LÍN beitir áætlunarheimildum er lánþega
heimilt að sækja um endurútreikning samkvæmt 11. gr. laga nr. 21/1992. Samkvæmt
11. gr. skal lánþegi þá "sækja um endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum
eftir gjalddaga afborgunar og leggja fyrir stjórn sjóðsins bestu fáanlegar
upplýsingar um tekjurnar."
Málskotsnefnd hefur í úrskurðum sínum í
málum L-26/2011 og L-7/2012 komist að þeirri niðurstöðu að fyrrgreindur 60 daga
frestur taki einungis til beiðni um endurútreikning og framlagningu gagna um
raunverulegar tekjur, sbr. orðalag 11. gr. Af því leiðir að kærandi hefur þessu
til viðbótar lögbundinn 3 mánaða frest stjórnsýslulaga til að kæra hvort LÍN
hafi verið heimilt að beita áætlunarheimildum sínum og hvort áætlanir hafi verið
í samræmi við lög nr. 21/1992 og meginreglur stjórnsýluréttar um matskenndar
ákvarðanir stjórnvalda. Eins og fram kemur í máli L-26/2011 telur málskotsnefnd
að slíkt eigi einnig við um heimild til endurupptöku samkvæmt 24. gr.
stjórnsýslulaga, s.s. þegar byggt er að öllu eða hluta til á röngum upplýsingum
um málsatvik, s.s. um skattalega stöðu kæranda, sbr. mál L-26/2011. 24. gr. er
svohljóðandi:
Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið
tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef: 1.
ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa
verulega frá því að ákvörðun var tekin Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því
að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða
mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1.
mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina,
nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp
að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli
með því.
Málskotsnefnd tekur einnig fram að almennt er talið að
stjórnvaldi sé heimilt að verða við erindi aðila um endurupptöku máls hans á
grundvelli óskráðrar meginreglu ef ákvörðunin er haldin verulegum annmarka,
t.a.m. ef hún er ógildanleg. Kærandi hafði samkvæmt framansögðu þann möguleika
að fá mál sitt endurupptekið innan eins árs frá því henni átti eða mátti vera
ljóst að LÍN hafði byggt útreikning afborgunar hennar á áætlun. Við ákvörðun
þessa frest verður að mati málskotsnefndar að líta til þess að kærandi flutti af
landi brott í október 2009. Kærandi lét þó LÍN ekki í té neinar upplýsingar um
póstfang eða tölvupóstfang fyrr en í júlí 2011. Ef kærandi hefði sinnt þessu
hefði LÍN verið unnt að senda henni upplýsingar um að fyrirhugað væri að byggja
afborgun á áætlun eins og gert er ráð fyrir í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992
eða eftir atvikum að senda henni greiðsluseðil þar sem umræddar upplýsingar um
að áætlun hafi verið beitt koma fram. Kæranda hefði því mátt vera ljóst þegar
haustið 2010 að LÍN hafði byggt útreikning afborgunar á áætlun. Þegar kærandi
bar mál sitt undir stjórn LÍN í janúar 2012 var því eins árs frestur hennar til
að óska endurupptöku liðinn. Málskotsnefnd bendir á að þrátt fyrir að eins árs
frestur skv. 24. gr. stjórnsýslulaga sé liðinn ber stjórn LÍN sem stjórnvaldi
eigi að síður að taka afstöðu til þess hvort "veigamiklar ástæður" mæli með því
að málið verði eigi að síður tekið til meðferðar. Í þessu sambandi vísar
málskotsnefnd m.a. í álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5471/2008 um að í
rökstuðningi stjórnvaldsákvörðunar þurfi ef svo ber undir að taka afstöðu til
þessa atriðis.
Málskotsnefnd telur að við mat á þessu atriði beri einkum
að líta til þess hvort að stjórnvald hafi ranglega leiðbeint kæranda, s.s.
varðandi kærufrest hinnar umdeildu álagningar eða að ómögulegt hafi verið fyrir
kæranda að senda kæru sína fyrr. Hvorugt liggur fyrir í máli þessu, auk þess sem
kærandi veitti LÍN ekki upplýsingar um póstfang sitt fyrr en í júlí 2011. Ber
því að mati málskotsnefndar að staðfesta úrskurð stjórnar LÍN
Með vísan
til framangreindra sjónarmiða er úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda
staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 30. maí 2012 í máli kæranda er staðfestur.