Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-52/2012 - Ábyrgðarmenn - synjun um að fella niður ábyrgð ábyrgðarmanns á námsláni

Úrskurður

 

Ár 2013, miðvikudaginn 13. febrúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-52/2012:

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 16. nóvember 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 22. ágúst 2012 þar sem hafnað var beiðni hans um að fella niður ábyrgð hans á skuldabréfi sem fyrrverandi sambýliskona hans er skuldari að. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi 20. nóvember 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 11. desember 2012 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 13. desember s.á. en þar var kæranda jafnframt veittur 4 vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Bárust athugasemdir kæranda í bréfi dagsettu 7. janúar 2013. Málskotsnefnd óskaði eftir frekari upplýsingum og gögnum frá LÍN og bárust nefndinni umbeðin gögn og upplýsingar 19. febrúar 2013.

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Á árinu 2000 tókst kærandi á hendur sjálfskuldarábyrgð á námsláni þáverandi sambýliskonu sinnar. Um er að ræða R-lán hjá LÍN sem útgefið var í desember 2000. Lántaki hóf endurgreiðslu námslánsins á árinu 2005 en hefur ekki greitt af því síðan í mars 2011. Fyrir þann tíma greiddi lántaki iðulega afborganir sínar töluvert eftir eindaga. Fjórar afborganir eru í dag í vanskilum, þ.e. gjalddagar vegna áranna 2011 og 2012, og nema eftirstöðvar lánsins með áföllnum kostnaði 3.114.443 kr. Kærandi og lántaki slitu sambúð á árinu 2002. Samkvæmt gögnum frá LÍN var kæranda fyrst tilkynnt um vanskil lántaka í desember 2010. Kærandi óskaði eftir því í bréfi dagsettu 9. janúar 2012 til stjórnar LÍN að ábyrgð hans á námsláni fyrrum sambýliskonu hans yrði felld niður. Stjórn LÍN hafnaði erindi hans með úrskurði 16. febrúar 2012. Í bréfi dagsettu 28. júní 2012 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins og að stjórn LÍN endurskoðaði fyrri úrskurð sinn. LÍN féllst á endurupptöku málsins, þrátt fyrir að þrír mánuðir voru liðnir frá því að fyrri úrskurður var kveðinn upp, þar sem í ljós koma að úrskurðurinn frá því í febrúar 2012 hafði ekki verið sendur til kæranda. Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda á ný með úrskurði sem kveðinn var upp þann 22. ágúst 2012. Með kæru dagsettri 16. nóvember 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar LÍN til málskotsnefndar.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi gerir kröfu um að vera leystur undan sjálfskuldarábyrgð sinni á skuld fyrrverandi sambúðarkonu sinnar við LÍN. Kærandi bendir á að hann hafi gert LÍN grein fyrir bágri fjárhagsstöðu sinni. Hann vísar til þess að sambúð hans og lántakanda hafi lokið á árinu 2002 eða u.þ.b. 2 árum eftir að lánið var veitt. Hann sé í dag með stóra fjölskyldu, kona hans sé í námi og laun hans rétt nái að framfleyta fjölskyldunni. Eignir þeirra hjóna séu engar ef frá er talið innbú og verðlítill bíll. Kærandi bendir á að hann sé ekki borgunarmaður fyrir láni fyrrverandi sambýliskonu sinnar og það sé honum um megn að standa skil á ábyrgðinni sem hann samþykkti við aðstæður, sem séu gjörólíkar þeim sem uppi séu í dag. Kærandi bendir á að honum sé ókunnugt um hvernig og hvaða innheimtuúrræðum LÍN hafi beitt gagnvart lánþeganum sjálfum. Einnig sé honum ókunnugt um hvort LÍN hafi krafið lánþega um nýjan ábyrgðarmann eftir að hann óskaði eftir því að ábyrgð hans yrði felld niður. Þá hafi hann engar upplýsingar um hvort að lánþeginn hafi farið fram á beitingu úrræða samkvæmt reglum LÍN vegna þeirra fjárhagsörðuleika sem hún glími við. Kærandi vísar til þess að með breytingum á lögum nr. 21/1992 um LÍN frá árinu 2009 sé námsmanni ekki lengur skylt að fá ábyrgðarmann til að ábyrgjast námslán sitt. Kærandi telur að í raun feli þessi lagabreyting í sér mismunun, sem ekki fái samrýmst meginhugsuninni að baki 65. gr. stjórnarskrárinnar. Vísar kærandi þessu til stuðnings á lögskýringargögn með frumvarpinu sem varð að breytingarlögum nr. 78/2009 á lögum nr. 21/1992.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

LÍN byggir á því að enga heimild sé að finna í lögum til að fella slíka ábyrgð niður án þess önnur trygging komi í staðinn sem stjórn sjóðsins meti fullnægjandi, sbr. 7. mgr. 6. gr. laga um LÍN nr. 21/1992. LÍN vísar til þess að við breytingu á lögum um LÍN nr. 21/1992 á árinu 2009 hafi sérstaklega verið tekið fram við lagasetninguna að hún næði ekki til lánsloforða sem veitt voru fyrir gildistöku laganna. LÍN bendir á að það sé meginregla við skýringu laga að skýra beri lög á þá leið að þeim sé ekki beitt afturvirkt. Það komi fram í lögum nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn að 4. gr., 5. gr og 1. mgr. 6. gr. og 8. gr. eigi ekki við um ábyrgðir sem stofnað hafi verið til fyrir gildistöku þeirra. LÍN telur að þar af leiðandi geti ekki verið um ólögmæta mismunun að ræða eins og kærandi haldi fram. Þá bendir LÍN á að fyrir gildistöku laga nr. 32/2009 hafi LÍN ekki borið nein lagaleg skylda til að upplýsa ábyrgðarmenn um greiðslugetu skuldara eða slíkt. Vegna fyrirspurnar málskotsnefndar til LÍN um hvaða úrræði vegna greiðsluerfiðleika hafi verið boðnir kæranda kemur fram í svari LÍN að stofnunin telji ekki ljóst hvað nefndin eigi við með „úrræðum við greiðsluerfiðleikum“ og bendir svo á að samkvæmt reglum sjóðsins miði úrræðin vegna greiðsluerfiðleika nánast eingöngu við lántakanda sjálfan. Að undantekning frá því sé í þeim tilvikum sem lögð sé til frysting í samningum vegna greiðsluaðlögunar ábyrgðarmanna.

Niðurstaða

 

Í lögum nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmann segir í 7. mgr. 6. gr. að ábyrgð ábyrgðarmanns, eins eða fleiri, geti fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi. Með lögum nr. 78/2009 um breyting á lögum nr. 21/1992 um LÍN varð sú breyting gerð að LÍN var heimilað að veita lán án þess að gerð væri fortakslaus krafa um ábyrgðarmenn. Í ákvæði til bráðabirgða með breytingalögunum frá 2009 segir:

Ákvæði laga þessara gilda ekki um lánsloforð sem veitt hafa verið fyrir gildistöku laganna. Um frágang skuldabréfa vegna þeirra fer eftir þágildandi ákvæðum laga nr. 21/1992, reglugerð nr. 602/1997, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, og úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna skal við innheimtu á hendur ábyrgðarmönnum námslána vera bundin af þeim reglum sem fram koma í III. kafla laga um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009, eftir því sem við á.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að breytingalögum nr. 78/2009 segir m.a. að við undirbúning lagafrumvarpsins hafi komið til skoðunar hvort veita ætti stjórn LÍN heimild til að aflétta ábyrgð ábyrgðarmanns á þegar veittu námsláni án þess að gerð verði krafa um að námsmaður setji aðra tryggingu í hennar stað. Niðurstaðan var sú að ekki þótti fært að fara þá leið að taka upp almenna heimild fyrir stjórn LÍN að fella niður ábyrgð á útistandandi námslánum án þess að önnur trygging kæmi á móti. Í þess stað var lagt til að láta ábyrgðarmenn njóta sambærilegrar réttarverndar og veitt hafi verið í lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Ákvæði þeirra laga gilda ekki afturvirkt um þegar veittar sjálfskuldarábyrgðir ábyrgðarmanna á námslánum en með 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í breytingalögunum er LÍN hins vegar bundinn af reglum III. kafla laga um ábyrgðarmenn eftir því sem við á. Ljóst er að engin heimild er í lögum nr. 22/1992 um LÍN fyrir stjórn LÍN að fella niður ábyrgðir á eldri lánum og brestur því lagaheimild til að verða við kröfu kæranda um niðurfellingu ábyrgðarinnar. Í úrskurði málskotsnefndar í máli nr. L-8/2011, þar sem kærandi hafði farið fram á niðurfellingu ábyrgðar sinnar, kemur m.a. eftirfarandi fram:

Þótt fallist sé á að stjórn LÍN sé ekki unnt að verða við beiðni um niðurfellingu ábyrgðar er stjórn sjóðsins heimilt samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN og á grundvelli ákvæðis 7.4 í úthlutunarreglum sjóðsins að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námsláns eða ákvarða fjárhæð hennar lægri. Hefur Umboðsmaður Alþingis vakið athygli á þessu í nýlegu áliti sínu í máli nr. 5924/2010.

Þar sem stjórn LÍN sinnti ekki leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um möguleg úrræði kæranda var úrskurður LÍN felldur úr gildi í fyrrgreindu máli. Málsskotsnefnd gerir eins og áður segir ekki athugasemd við þá afstöðu stjórnar LÍN að ekki sé unnt að verða við beiðni kæranda um niðurfellingu á ábyrgð hans án þess að annar ábyrgðamaður eða annars konar ábyrgð, sem stjórn sjóðsins samþykkir, komi í staðinn. Málskotsnefndin gerir hins vegar athugasemd við skort á leiðbeiningum til handa kæranda við meðferð þessa máls. Af gögnum málsins verður ekki séð að stjórn LÍN hafi á nokkrum tímapunkti leiðbeint kæranda um þau úrræði sem eru fyrir hendi samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN og svo samkvæmt greinum 7.5 og 7.6 í úthlutunarreglum LÍN. Stjórn sjóðsins er heimilt að nota þessi úrræði gagnvart ábyrgðarmönnum sem og lántakendum sbr. fyrrnefndan úrskurð nefndarinnar í máli nr. L-8/2011 og álit Umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5924/2010. Að mati málskotsnefndar bar LÍN að fylgja leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart kæranda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um möguleg úrræði honum til handa til að sækja um undanþágu frá greiðslu afborgunar og eða möguleika á frystingu námslána þegar vanskil lántakanda lágu fyrir. Lánið var gjaldfellt og sett í lögfræðiinnheimtu þegar á árinu 2010 og var ábyrgðarmaður þá upplýstur um vanskilin. Síðan hefur lántaki greitt upp gjaldaga ársins 2010 en afborganir vegna gjalddaga áranna 2011 og 2012 hafa fallið í vanskil. Ábyrgðarmaður er aldrei á þessu tímabili upplýstur eða leiðbeint um þau úrræði sem honum standa til boða samkvæmt lögum og reglum sem gilda um LÍN. Þar sem stjórn LÍN hefur ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni er rétt að fella úrskurð hennar úr gildi og leggja fyrir hana að taka afstöðu til þess hvort að kærandi eigi rétt á þeim úrræðum sem í boði eru af hálfu LÍN sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 og greinar 7.5 og 7.6 í úthlutunarreglum sjóðsins.

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður frá 22. ágúst 2012 í máli kæranda er felldur úr gildi.

Til baka