Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-33/2012 - Endurgreiðsla námslána - beiðni um skuldbreytingu á lánum í lögfræðiinnheimtu

Úrskurður

Ár 2013, miðvikudaginn 13. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-33/2012:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 7. ágúst 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 31. maí 2012 þar sem synjað var beiðni kæranda um niðurfellingu, skuldbreytingu eða lækkun á skuldum, sem komnar voru í lögfræðiinnheimtu. Í kærunni var eingöngu höfð uppi sú krafa að tilkynning sem kæranda hafði borist frá LÍN í júlí 2012 um gjaldfellingu lána hennar yrði afturkölluð. Hinn 29. ágúst 2012 barst málsskotsnefnd ný kæra frá kæranda vegna úrskurðarins 31. maí 2012. Þar kvaðst kærandi hafa gert þau mistök í fyrri kæru að krefjast einvörðungu afturköllunar gjaldfellingarinnar. Hún hafi vegna gjaldfellingarinnar sent stjórn LÍN nýtt erindi með bréfi dagsettu 6. ágúst 2012 þar sem hún óskaði endurupptöku máls síns með kröfu um að skuldir hennar á gjalddögum 1. september 2006, 1. september 2008, 1. júlí 2010, 1. júlí 2011, 1. september 2011 og 1. nóvember 2011 yrðu felldar niður, og að henni yrði gefinn kostur á að borgar skuldir sínar frá 2006 og 2008, án þess að til gjaldfellingar kæmi. Stjórn LÍN tók það erindi fyrir og afgreiddi með sérstökum úrskurði 22. ágúst 2012 þar sem fyrri synjun um niðurfellingu, skuldbreytingu eða lækkun á skuldum kæranda var staðfest með þeim rökum að skilyrði endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væru ekki fyrir hendi. Hvað varðaði gjaldfellingu lána kæranda úrskurðaði stjórn LÍN að hún féllist á að lækka vanskil kæranda gegn því að þau væru gerð upp og myndi þá gjaldfelling lánsins í kjölfarið verða afturkölluð. Málskotsnefnd tilkynnti stjórn LÍN um fyrri kæruna með bréfi dagsettu 9. ágúst 2012 og gaf henni kost á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN vegna hennar sem og vegna seinni kærunnar komu fram í bréfi dagsettu 29. ágúst 2012 og var afrit þess sent kæranda með bréfi 30. sama mánaðar, en þar var kæranda jafnframt gefinn 4 vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfum dagsettu 6. og 19. október 2012. Málsskotsnefnd aflaði sjálf frekari gagna frá stjórn LÍN um lán kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er skuldari að námslánum hjá LÍN bæði svokölluðum S og V lánum. Samkvæmt upplýsingum stjórnar LÍN námu vanskil hennar með dráttarvöxtum og innheimtukostnaði um 575.900 kr. í ágúst 2012. Af S láni voru í vanskilum afborganir með gjalddögum 1. september 2006, 1. september 2008 og 1. september 2011. Af V láni voru gjalddagar 1. júlí 2010, og 1. júlí 2011 ekki í skilum. Í upphaflegri kæru sinni frá 7. ágúst 2012 kvaðst kærandi hafa náð samkomulagi við starfsmann LÍN um vorið 2012 að námslán hennar yrðu ekki gjaldfelld ef hún borgaði liðlega 400.000 kr. af rúmlega 500.000 kr. skuld. Gerði kærandi upphaflega þá kröfu fyrir málskotsnefnd að gjaldfelling námslána hennar yrðu afturkölluð og að henni yrði gefinn kostur á að semja um greiðslur. Í úrskurði stjórnar LÍN frá 22. ágúst 2012 og í athugasemdum hennar frá 29. ágúst 2012 kemur fram að stjórnin hafi fallist á að lækka skuld kæranda úr 575.900 kr. í 413.000 kr. gegn því að vanskilin yrðu gerð upp og muni þá gjaldfelling lánanna verða afturkölluð. Með þessu hefur stjórn LÍN fallist á þær kröfur sem kærandi upphaflega setti fram fyrir málskotsnefnd. Eftir stendur óafgreidd krafa kæranda um niðurfellingu, skuldbreytingu, frystingu eða lækkun á skuldum sem komnar eru í lögfræðiinnheimtu, sbr. seinni kæru hennar sem móttekin var 29. ágúst 2012. Kærandi færir fram þau sjónarmið fyrir kröfu sinni, að fjárhagslegar og félagslegar aðstæður hennar séu mjög erfiðar. Hún hafi verið alvarlega veik árum saman og að veikindunum fylgi mikið sinnuleysi. Hún sé metin 75% öryrki af Tryggingastofnun ríkisins og því með mjög lágar tekjur. Vegna greiðsluerfileika hafi hún þurft að leita til umboðsmanns skuldara um ráðgjöf. Hún sé því í mjög viðkvæmri stöðu og eigi á hættu að missa íbúð sína fái hún skuld sína við LÍN ekki endurskoðaða. Hún kveðst þurfa að annast um 7 ára barnabarn sitt sem búi í sama hverfi við erfiðar heimilisaðstæður og því mikilvægt að hún haldi húsnæði sínu. Kærandi fer fram á að eftirtaldar afborganir af lánum hennar með gjalddögum 1. september 2006, 1. september 2008, 1. júlí 2010, 1. júlí 2011, 1. september 2011 og 1. nóvember 2011 verði niðurfelldar, skuldbreytt og eða frystar, vegna veikinda hennar. Kærandi vísar til undanþáguheimildar í grein 7.5.1 og 7.5.2 í úthlutunarreglum LÍN. Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 22. ágúst 2012, og þar með einnig úrskurðurinn frá 31. maí 2012, verði staðfestir. Stjórn LÍN kveður kæranda fyrst hafa sent inn erindi í maímánuði 2012 þar sem hún óskaði eftir niðurfellingu, skuldbreytingu eða lækkun á skuldum sem komnar voru í lögfræðiinnheimtu. Sé greiðslusaga kæranda skoðuð aftur til ársins 2006 komi í ljós að hún hafi sótt um og fengið undanþágu frá afborgun vegna örorku árið 2007, vegna septembergjalddaga 2009 og vegna mars 2012. Þrír gjalddagar hafi verið greiddir og loks séu sex gjalddagar í vanskilum. Í einu af þeim tilfellum hafi kærandi sótt um undanþágu en umsókn hennar borist meira en 60 dögum eftir gjalddaga og því verið hafnað. Í hinum fimm tilvikunum hafi hún ekki sótt um undanþágu. Stjórn LÍN bendir á að mælt sé fyrir um 60 daga frest til að sækja um undanþágu frá afborgun í 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna og að sjóðurinn hafi enga heimild til þess að víkja frá honum. Því beri að staðfesta úrskurð stjórnar.

Niðurstaða

Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 og grein 7.4.1 í úthlutunarreglum LÍN er sjóðsstjórn heimilt að veita undanþágu frá afborgun námslána ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar eða umönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Í seinni málslið 7. mgr. 8. gr. laganna kemur fram að umsókn skuli berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar. Umsókn kæranda er fyrst sett fram í bréfi dagsettu 23. apríl 2012. Voru þá liðnir tæpir 6 mánuðir frá yngsta gjalddaga þeirra afborgunar sem erindi kæranda lýtur að og liðlega fimm og hálft ár frá gjalddaga elstu afborgunar. Umsókn kæranda barst því löngu eftir að 60 daga fresturinn rann út. Fyrrgreint ákvæði 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 er fortakslaust hvað varðar umsóknarfrest og er því ekki á færi LÍN að veita undanþágu frá því nema að óviðráðanleg atvik eða handvömm starfsmanna þess hafi orðið til þess að kærandi sótti ekki um undanþáguna innan frestsins, sbr. t.d. fyrri úrskurð málsskotsnefndar nr. 25/2011 og álit umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 4878/2006. Hvorugt á við í tilfelli kæranda. Með vísan til ofangreindra sjónarmiða og forsendna hins kærða úrskurðar frá 31. maí 2012 er fallist á það með stjórn LÍN að sú ákvörðun sjóðsins að hafna erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Eins og að framan er rakið kvað stjórn LÍN um tvo úrskurði í máli kæranda og var seinni úrskurðinn frá 22. ágúst 2012 kveðinn upp vegna beiðni kæranda um endurupptöku á fyrri úrskurðinum og kröfu hennar um afturköllun á gjaldfellingu lána. Kæra kæranda tók ekki til seinni úrskurðarins frá 22. ágúst 2012, enda er kæra kæranda og viðbótarathugasemdir hennar dagsett 7. og 21. ágúst 2012. Málskotsnefnd telur þó rétt að taka fram að ekki verður séð að kærandi hafi lagt fram ný gögn í því máli er gefið hefðu tilefni til endurupptöku þess. Er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN frá 31. maí 2012 í máli kæranda staðfestur.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 31. maí 2012 í máli kæranda er staðfestur. 

Til baka