Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-51/2012 - Lánshæfi - lánshæfi sérnáms erlendis

Úrskurður

Ár 2013, miðvikudaginn 13. mars, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-51/2011:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 18. nóvember 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá 22. ágúst 2012, þar sem því var synjað að að veita kæranda lán til náms við skólann The Swedish Academy of Realist Art, Atelier Stockholm (S.A.R.A.). Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 20. nóvember 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 11. desember 2012 og var afrit þess sent kæranda með bréfi 13. desember 2012, en þar var kæranda jafnframt gefinn fjögurra vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum, sem hún gerði með bréfi dagsettu 8. janúar 2013.

Málsatvik og ágreiningsefni

Tildrög þessa máls eru þau að kærandi hefur stefnt á að hefja listnám við fyrrgreindan listaskóla í Svíþjóð. Henni var upphaflega synjað um námslán með úrskurði stjórnar LÍN þann 30. september 2011 með þeim rökum að skólinn uppfyllti ekki skilyrði greinar1.3.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir lánshæfu námi. Með úrskurði málskotsnefndar 30. maí 2012 í málinu nr. L-41/2011 var ákvörðun stjórnar LÍN felld úr gildi þar sem ekki hafði verið lagður fullnægjandi grundvöllur að málinu í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tók málskotsnefnd fram að samkvæmt grein 1.3.2 í úthlutunarreglunum hafi LÍN borið áður en hún tók afstöðu til lánshæfi námsins að ganga úr skugga um hvort umræddur skóli væri viðurkenndur af menntamálayfirvöldum í Svíþjóð og að leggja sjálfstætt mat á það hvort námið teldist nægilega veigamikið hvað varðaði eðli, uppbyggingu og starfsréttindi. Stjórn LÍN tók mál kæranda aftur upp að eigin frumkvæði þann 20. júní 2012 og kveðst í framhaldi af því hafa sent fyrirspurn um skólann til sænska lánasjóðsins CSN. Í svari þeirra hafi komið fram að skólinn væri á mismunandi framhaldsskólastigum („gymnasial eller eftergymnasial“) og að sænski lánasjóðurinn hafi viðurkennt eina námsbraut láns- eða styrkhæfa í skólanum og sú væri á framhaldsskólastigi. Að þessu svari fengnu hafi stjórn LÍN þann 21. júní 2012 synjað að veita kæranda lán við skólann. Hinn 10. ágúst 2012 fór kærandi þess á leit við stjórn LÍN að mál hennar yrði endurupptekið á grundvelli nýrra upplýsinga. Hún hafi fengið staðfestingu sænskra menntamálayfirvalda,YH-myndigheten, um að fyrirhugað nám hennar Traditionell realistisk konstnärsutbilding væri á háskólastigi, enda stúdentspróf inntökuskilyrði. Þá flokkaði CSN skólann á svokallað A2 lánsstig þar sem sænsk yfirvöld hefðu ekki pláss fyrir skólann á B1 lánsstigi. Kærandi segir að þótt finna megi aðra skóla á framhaldsskólastigi undir A2 og að flestir skólar á B1 lánstigi séu á háskólastigi hafi S.A.R.A. skólinn verið flokkaður í A2 lánsstig þó að námið sé á háskólastigi. Þá vakti kærandi athygli á því að ekkert sérhæft listnám fæli í sér sérstök starfsréttindi sem slíkt og synjun á lánshæfi námsins með þeim rökum græfi undan lánshæfismati í listnámi í öðrum skólum. Í hinum kærða úrskurði stjórnar LÍN frá 22. ágúst 2012 segir að hvergi komi fram í gögnum málsins að umræddur skóli sé viðurkenndur sem háskóli. Þá hafi CSN staðfest fyrri upplýsingar sjóðsins um að ekki sé um háskóla að ræða heldur skóla á framhaldsskólastigi (gymnasial nivå). Því geti stjórn LÍN ekki fallist á að nám við skólann uppfylli skilyrði greinar 1.3.1 í úthlutunarreglum LÍN þar sem fjallað er um lánshæfi háskólanáms. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að náminu ljúki með starfsréttindum og þar með sé ekki uppfyllt skilyrði greinar 1.3.2 í úthlutunarreglum LÍN til að námið verði metið lánshæft sem sérnám. Einnig tekur stjórn LÍN fram í úrskurðinum að CSN hafi staðfest við LÍN að nám við S.A.R.A. sem var lánshæft haustið 2011 sé það ekki lengur. Í kæru sinni andmælir kærandi því sjónarmiði stjórnar LÍN, að ekki sé sýnt fram á að hinu fyrirhugaða námi ljúki með starfsréttindum. Við útskrift fái nemandi diplóma sem teiknari eða listmálari og geti starfað sem slíkur og ennfremur opnar námið möguleika á störfum hjá fyrirtækjum í kvikmynda- og tölvuleikjaiðnað og hafi skólinn hlotið viðurkenningar virtra fyrirtækja á þeim vettvangi. Þá kveður kærandi þá staðhæfingu stjórnar LÍN að skólinn njóti ekki lengur lánshæfni CSN vera ranga. Skólinn sé enn lánshæfur í Svíþjóð og hægt sé að fá hefðbundið framfærslulán á A2 stigi samkvæmt CSN, en að ekki sé lánað fyrir skólagjöldum. Í viðbótarathugasemdum sem kærandi sendi málskotsnefnd 8. janúar 2013 segir að mistök hafi orðið hjá CSB í svari þeirra til LÍN varðandi lánshæfni skólans og er vísað í meðfylgjandi tölvubréf CSN þar um. Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 22. ágúst 2012 verði staðfestur þar sem umræddur skóli uppfylli ekki skilyrði fyrir lánshæfu námi hvorki samkvæmt grein 1.3.1 né grein 1.3.2 í úthlutunarreglum LÍN, sem áður séu raktar. Sú staðreynd að CSN hafi gefið rangar upplýsar til LÍN um lánshæfi náms við umræddan skóla breyti engu þar um sé að ræða lánshæfi framhaldsskólanáms en ekki háskólanáms.

Niðurstaða

Mál þetta snýst um það hvort fyrirhugað listnám kæranda við S.A.R.A. í Svíþjóð sé lánhæft samkvæmt úthlutunarreglum LÍN. Í kafla 3.1 í úthlutunarreglum LÍN eru ákvæði um lánshæft nám erlendis. Í grein 1.3.1 er fjallað um lánshæfi náms við erlenda háskóla og segir þar að LÍN láni til framhaldsnáms við viðurkenndar stofnanir erlendis, sem geri sambærilegar kröfur til nemenda og gerðar eru í háskólanámi hérlendis. Í grein 1.3.2 er fjallað um heimild LÍN til að veita lán til sérnáms erlendis. Þar segir nánar að lánshæfi sé háð því að um sé að ræða viðurkenndan skóla af menntamálayfirvöldum í landinu, námið sé skipulagt sem a.m.k. eins árs nám og sé nægilega veigamikið að mati stjórn sjóðsins hvað varðar eðli, uppbyggingu og starfsréttindi. Niðurstaða úrskurðar stjórnar LÍN var rökstudd með því að hvergi komi fram að umræddur skóli sé viðurkenndur sem háskóli enda hafi sænski lánasjóðurinn CSN staðfest fyrri upplýsingar að ekki væri um að ræða háskóla heldur skóla á framhaldsskólastigi (gymnasial nivå). Því uppfylli nám við skólann ekki skilyrði greinar 1.3.1 í úthlutunarreglum LÍN. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að náminu ljúki með starfsréttindum og þar með séu ekki fyrir hendi skilyrði til að meta námið lánshæft sem sérnám á grundvelli greinar 1.3.2 í fyrrgreindum úthlutunarreglum. Í málinu liggur frammi tölvubréf frá sænska lánasjóðnum CSN til LÍN, dagsett 15. ágúst 2012, þar sem segir að S.A.R.A. heyri til svokallaðra "Kompletterande" skóla, sem séu um margt ólíkir öðrum menntastofnunum í landinu. Um 2000 nemendur stundi nám við slíka skóla í Svíþjóð og teljist námið ekki vera á háskólastigi heldur framhaldsskólastigi, ýmist "gymnasial" eða "eftergymnasial". Eins og áður er rakið hefur sænski lánasjóðsins CSN dregið til baka fyrri fullyrðingu um að fyrirhugað nám kæranda við skólann í Traditionell realistisk konstnärsutbilding sé ekki lengur lánshæft og staðfest að því sé öfugt farið. Meðal þeirra gagna sem kærandi hefur lagt fram er bréf menntamálayfirvalda í Svíþjóð, YH-myndigheten för yrkeshögskolan, til S.A.R.A., dagsett 24. júlí 2012, þar sem segir að námið, sem kæranda hyggst leggja stund á sé fullt nám (heltidsstudier) og uppfylli kröfur yfirvalda til viðbótarnáms (kompletterande utbildingar) samkvæmt reglugerð þar um, þ.á m. til fjárhagsaðstoðar. Ennfremur kemur þar fram að sú krafa sé gerð til þeirra nemenda sem hyggjast stunda sama nám og kærandi að þeir hafi lokið framhaldsskólaprófi. Með vísan til þeirra upplýsinga sem koma fram hjá sænska lánasjóðnum CSN um það skólaform sem S.A.R.A. heyrir undir fellst málskotsnefnd á það með stjórn LÍN að fyrirhugað nám kæranda teljist ekki á háskólastigi og sé því ekki lánshæft sem háskólanám samkvæmt grein 1.3.1 í úthlutunarreglum LÍN. Kemur þá til skoðunar hvort heimilt sé að veita kæranda lán á grundvelli greinar 1.3.2 um sérnám erlendis. Af hálfu stjórnar LÍN er á því byggt að þar sem ekki sé sýnt fram á að námi kæranda ljúki með starfsréttindum í samræmi við grein 1.3.2, séu skilyrði fyrir því að námið sé lánshæft sem sérnám ekki uppfyllt. Af hálfu stjórnar LÍN er því ekki haldið fram að námið sé ekki lánshæft af öðrum ástæðu ástæðum en tilgreindar eru í grein 1.3.2, þ.e. að það sé ekki nægilega veigamikið hvað varðar eðli, uppbyggingu og inntökuskilyrði. Í úthlutunarreglum LÍN er að finna skilgreiningar á helstu hugtökum og þar er hugtakið sérnám skilgreint þannig:

Starfstengt nám sem ekki er kennt á háskólastigi. Nám á framhaldsskólastigi til stúdentsprófs telst ekki til sérnáms.

Ljóst er að margs konar listnám á Íslandi getur verið lánshæft samkvæmt úthlutunarreglum LÍN, sbr. nánar grein 1.2.2 og fylgiskjal III með úthlutunarreglum LÍN. Slíku námi, eins og kvikmyndagerð, ljósmyndun o.fl. og LÍN lánar til, fylgja almennt engin lögvernduð eða ákveðin starfsréttindi þótt markmið slíks náms sé almennt að gera hlutaðeigandi hæfari fyrir tiltekin störf. Þrátt fyrir að starfsréttindi geti verið vísbending um að starfsnám sé nægjanlega veigamikið getur það ekki eitt og sér verið tilefni til þess að synja um námslán á meðan ekki eru gerðar fortakslausar kröfur um slíkt vegna starfsnáms hérlendis. Það væri ekki í samræmi við úthlutunarreglur sjóðsins eða jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar að synja kæranda um lán þótt hinu sérhæfða listnámi sem hún hyggst leggja stund á fylgi ekki sérstök starfsréttindi. Með því sæti kærandi ekki við sama borð og ýmsir aðrir námsmenn í sérnámi sem sjóðurinn lánar til. Hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN frá 22. ágúst 2012 í máli kæranda er því felldur úr gildi.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 22. ágúst 2012 í máli kæranda er felldur úr gildi. 

Til baka