Úrskurður
Ár 2013, fimmtudaginn 5. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. L-44/2012:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 27. september 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 22. ágúst 2012 þar sem hafnað var beiðni hans um að endurútreikna tekjutengda afborgun fyrir árið 2007. LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi 3. október 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN komu fram í bréfi dagsettu 18. október 2012 og var afrit þess sent kæranda með bréfi dagsettu 22. október s.á. en þar var kæranda jafnframt veittur 4 vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum. Bárust athugasemdir kæranda í bréfi dagsettu 14. nóvember 2012 og voru þær sendar LÍN með bréfi dagsettu 9. janúar 2013. Bárust frekari athugasemdir frá LÍN vegna málsins í bréfi dagsettu 23. janúar 2013. Afrit þess var sent kæranda með bréfi dagsettu 28. janúar s.á. en þar var kæranda jafnframt veittur frestur til 9. febrúar 2013 til að koma að frekari sjónarmiðum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi er lántakandi hjá LÍN og hefur hafið endurgreiðslu lána
sinna. Kærandi var þann 1. desember 2007 með skráð lögheimili í Bretlandi. LÍN
sendi kæranda bréf í byrjun júlí 2008 þar sem vakin er athygli á mikilvægi þess
að þeir lánþegar sem ekki telja fram allar tekjur sínar á Íslandi skili inn
opinberri staðfestingu á erlendum tekjum sínum/tekjuleysi á árinu 2007 til
sjóðsins. Í bréfinu er greint frá því að ef ekki er skilað inn upplýsingum um
tekjur muni LÍN áætla tekjur á lánaþega við útreikning á afborgun árlegrar
viðbótargreiðslu haustið 2008. Kærandi sendi LÍN ekki upplýsingar um tekjur
sínar erlendis fyrir árið 2007 og áætlaði því sjóðurinn á hann árstekjur sem
námu 9 milljónir króna. Viðbótargreiðslan var með gjalddaga 1. september 2008.
Samkvæmt upplýsingum frá LÍN var tímalína skráðra samskipta við kæranda með
eftirfarandi hætti og að engin önnur gögn né samskipti voru skráð undir
kennitölu kæranda í tölvukerfi sjóðsins:
20.10.2008 - kærandi hefur
samband og skilar inn íslensku skattframtali vegna tekna ársins 2007 en erlendar
tekjur vantar.
22.10.2008 - bréf sent til kæranda þar sem óskað er eftir
staðfestingu á tekjum/tekjuleysi hans fyrir árið 2007 erlendis svo hægt sé að
setja hann í endurútreikning.
06.11.2008 - kærandi hefur samband og
ætlar að senda upplýsingar um tekjur sínar á Ítalíu.
06.11.2008 -
kærandi sendir yfirlit úr bókhaldi félags síns og segir þær tekjur sem þar séu
skráðar séu þær tekjur sem hann hafi verið með erlendis og að hann hafi ekki
haft aðrar tekjur.
19.11.2008 - kærandi hefur samband og er bent á að
enn vanti staðfestingu á tekjum hans / tekjuleysi erlendis frá.
18.02.2009 - kærandi skilar aftur inn íslensku skattframtali vegna tekna
ársins 2007.
19.02.2009 - tölvupóstur til kæranda um að þar sem krafan
sé í innheimtu þá verði hann að greiða áfallinn kostnað hjá þeim áður en mál
hans geti farið í endurútreikning.
30.03.2009 - bréf sent til kæranda og
óskað eftir staðfestingu á tekjum/tekjuleysi erlendis þar sem ekki sé nóg að
skila inn upplýsingum um íslenskar tekjur.
Kærandi hefur greint frá
málavöxtum með þeim hætti að hann hafi flutti lögheimili sitt til Bretlands í
apríl 2007 þar sem hann hugðist starfa þar um skeið. Það hafi strax breyst og
hann hafi flutt í þess stað til Mílanó á Ítalíu og unnið þar að nokkrum
verkefnum í gegnum einkahlutafélag sitt hér á landi. Kærandi flutti því aldrei
til Bretlands og var ekki með neinar tekjur þar í landi á árinu 2007. Allar
tekjur kæranda á árinu 2007 hafi farið gegnum fyrirtæki hans á Íslandi og komi
þær fram á skattframtali hans. Kærandi hefur greint frá því að hann hafi átt í
margvíslegum samskiptum við LÍN eftir að honum var tjáð að hann þyrfti að leggja
fram upplýsingar um tekjuleysi sitt í Bretlandi. Hann hafi átt ýmis samskipti
við starfsmenn LÍN, bæði símleiðis og svo hafi hann fundaði með starfsmönnum
sjóðsins, þar sem hann útskýrði mál sitt og erfiðleika við að afla gagna um
tekjuleysi frá breskum skattyfirvöldum. Þá hafi hann lagt inn til LÍN tölvupóst
frá Her Majesty Revenue and Customs (HMR), dagsettur 22. apríl 2009, þar sem
fram kemur með skýrum hætti að ekki sé hægt að verða við ósk kæranda um gögn sem
sanni tekjuleysi hans í Bretlandi. Kærandi lagði fram kvörtun til umboðsmanns
Alþingis vegna málsins í byrjun maí 2009. Í svarbréfi umboðsmanns, dagsettu 19.
maí 2009, var kæranda bent á nauðsyn þess, að óska eftir afstöðu stjórnar LÍN
til erindisins og svo eftir atvikum málskotsnefndar, áður en umboðsmanni væri
fært að taka erindi kæranda fyrir. Þann 19. júlí 2012 sendi lögmaður kæranda
erindi til LÍN þar sem óskað var eftir endurútreikningi á áætlun tekna kæranda
fyrir árið 2007. Í úrskurði LÍN frá 22. ágúst 2012 var beiðni um endurútreikning
hafnað með vísan til greinar 7.4 í úthlutunarreglum sjóðsins.
Sjónarmið kæranda.
Kærandi byggir á því að synjun LÍN á
beiðni hans um endurútreikning eigi sér ekki stoð í lögum, auk þess sem hún sé
efnislega röng þar sem hún sé byggð á röngum málsatvikum. Kærandi vísar til
þeirra erfiðleika sem hann hafi lent í við að reyna að afla gagna í Bretlandi.
Hann hafi strax haft samband við skattyfirvöld þar í landi til að nálgast
upplýsingar eða gögn um tekjuleysi sitt í landinu. Þegar hann hafi útskýrt að
hann hafi í raun ekki búið í Bretlandi á þessu tímabili var hann upplýstur um að
bresk skattayfirvöld gætu ekki gefið yfirlýsingu um tekjuleysi hans. Kærandi
óskaði þá eftir staðfestingu um þá afstöðu og fékk hana loks eftir mikla
eftirgangsmuni í tölvupósti frá HMR, dagsettum 22. apríl 2009. Kærandi fullyrðir
að hann hafi komið þessum pósti til LÍN en í honum komi skýrt fram að ekki sé
hægt að verða við ósk um gögn sem sanna tekjuleysi hans og að hann hafi þá
fengið þær munnlegu upplýsingar hjá LÍN að gögnin dygðu ekki til og að
greiðslukröfum á grundvelli hinna áætluðu tekna yrði framhaldið. Kærandi bendir
á að svo virðist sem að ákvörðun LÍN styðjist að öllu leyti við 1. mgr. 11. gr.
laga nr. 21/1992 en ákvæðið sé nánar útfært í grein 7.4. í úthlutunarreglum LÍN.
Þessi ákvæði beri bæði með sér að það sé skilyrði þess að lánþegi eigi rétt á
endurútreikningi að umsóknin hafi borist eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga
afborgunar. Þá skal lántaki leggja fyrir sjóðinn bestu fáanlegar upplýsingar
um tekjurnar. Hins vegar sé hvorki í lagaákvæðinu né í úthlutunarreglunum mælt
fyrir um sérstök tímamörk til að leggja umræddar upplýsingar um tekjur fyrir
sjóðinn. Kærandi byggir á því að til þess að lántaki eigi rétt á
endurútreikningi sé, samkvæmt 11. gr. laga nr. 21/1992, eingöngu gerð krafa um
að beiðni þar um berist innan 60 daga frestsins og að fullnægjandi gögn berist
síðar. Það sé enn skýrara að 60 daga fresturinn taki ekki til framlagningar
gagna þegar litið sé til úthlutunarreglna LÍN þar sem tekið sé fram í einum
málslið að sækja skuli um endurútreikning eigi síðar en 60 dögum eftir
gjalddaga afborgunar og svo segi í öðrum og aðskildum málslið að
endurútreikningur fari síðan fram þegar sjóðnum hafa borist staðfestar
upplýsingar um tekjurnar eða þegar þær hafa verið enduráætlaðar skv. sérstakri
ákvörðun stjórnar. Kærandi vísar til hefðbundinna lögskýringagagna við skýringu
á 11. gr. sbr. grein 7.4 í úthlutunarreglum LÍN og mótmælir túlkun LÍN á
framangreindum ákvæðum. Þá bendir kærandi á að ekki verði séð af samskiptum hans
við LÍN að það hafi verið skilningur starfsmanna sjóðsins að umræddar
upplýsingar þyrftu að berast innan 60 daga frestsins. Vísast í þessu sambandi
til bréfs LÍN til kæranda, dagsett 30. mars 2009, þar sem áréttað sé af hálfu
LÍN að kærandi þurfi að afla staðfestingar á því að hann hafi ekki haft neinar
tekjur í Bretlandi og sé því hvergi haldið fram að frestur til slíks sé liðinn.
Kærandi telur það óumdeilt að hann hafi sótt um endurútreikning innan lögmælts
frests og sé því ekki mótmælt af hálfu LÍN heldur sé beiðninni hafnað á þeim
grundvelli að fullnægjandi gögn hafi ekki borist tímanlega. Kærandi bendir á að
hann hafi varla látið hjá líða að koma tölvupóstinum frá HRM til sjóðsins eftir
alla þá fyrirhöfn sem hann hafi lagt í til að nálgast umræddar upplýsingar og
svo vegna þeirra fjárhagslegum hagsmuna sem hann hafði af því að
endurútreikningur færi fram. Telur kærandi að LÍN verði að bera hallann af þeim
ágreiningi sem sé uppi um málsatvik, en hafa verði í huga að kæranda sé
ómögulegt að færa frekari sönnur á að hann hafi afhent tölvupóstinn. Þá bendir
kærandi á að ákvörðun um að synja um endurútreikning á þeim grundvelli að gögn
bárust of seint sé afar íþyngjandi í hans garð og jafnvel þó uppi sé ágreiningur
um hvort þessi gögn hafi borist á þessum tímapunkti sé ljóst að sjóðurinn hafi
þau nú og að þau séu talin fullnægjandi til að sýna fram á tekjuleysi hans, sbr.
það sem komi fram í bréfi LÍN dagsettu 24. ágúst 2012. Varðandi það sem kemur
fram hjá LÍN um að engin gögn né samskipti séu skráð undir kennitölu kæranda
eftir 30. mars 2009, bendir kærandi á að hann hafi bæði hringt í LÍN, sem og
mætt þangað á fundi eftir þetta. Þá telur kærandi að þessi fullyrðing LÍN
standist heldur ekki með vísan til þess að í fylgiskjali með kæru sé að finna
sjálfvirkt svar frá póstkerfi LÍN vegna erindis, sem sent hafi verið í
smáforriti af vefsvæði LÍN, þann 6. og 10. mars 2010. Kærandi telur að ástæðu
þess hversu langan tíma hafi tekið að fá svör frá skattyfirvöldum í Bretlandi,
séu þær misvísandi upplýsingar og leiðbeiningar sem LÍN hafi veitt kæranda um
hvers eðlis þau gögn skyldu vera, sem hann þyrfti að skila til að staðfesta
tekjuleysi hans. Kærandi telur að það hafi fyrst verið með bréfi LÍN, dagsettu
30. mars 2009, sem réttar leiðbeiningar hafi verið gefnar.
Sjónarmið
stjórnar LÍN.
Stjórn LÍN byggir á því að í grein 7.4 í
úthlutunarreglum sjóðsins, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN, komi
fram að lánþegi verði að sækja um endurútreikning árlegrar viðbótargreiðslu eigi
síðar en 60 dögum frá gjalddaga og leggja fyrir stjórn sjóðsins bestu fáanlegar
upplýsingar um tekjurnar. Þar sem beiðni um endurútreikning hafi borist löngu
eftir þann frest eða 19. júlí 2012 sé ekki heimild til að taka tillit til þeirra
atriða sem fram komi í kæru. Stjórn LÍN bendir á að þrátt fyrir ítarlega leit í
tölvukerfi og gögnum sjóðsins hafi ekki fundist nein merki þess að reynt hafi
verið að skila fullnægjandi gögnum sem staðfesti tekuleysi kæranda erlendis á
árinu 2007. Þar sem LÍN hafi ekki borist slík staðfesting fyrr en með erindi
kæranda í júlí 2012, löngu eftir að fresturinn var liðinn, sé engin heimild til
að taka tillit til þeirra atriða sem fram komi í erindi hans og hafi því beiðni
kæranda um endurútreikning verið hafnað. Stjórn LÍN vísar til 1. mgr. 11. gr.
laga nr. 21/1992, sbr. þær úthlutunarreglur sem í gildi voru þegar áætlun
kæranda átti sér stað. Stjórn LÍN telur að samkvæmt framangreindum reglum þurfi
bæði að vera búið að sækja um og skila réttum gögnum innan 60 daga frá
gjalddaga. Það þurfi þó ekki að vera á sama tíma ef umsóknin og gögnin berast
bæði innan þess frests. LÍN bendir á að þrátt fyrir að sjóðurinn sé strangur á
öllum umsóknarfrestum þá hafi í ákveðnum tilvikum verið gefinn rýmri frestur til
þess að koma gögnum að. Þetta eigi t.d. við í tilvikum sem erfitt geti reynst að
útvega gögn og sjóðnum sé kunnugt um það. Í tilviki kæranda þá hafi hann upplýst
sjóðinn að hann væri að reyna útvega gögnin og því hafi beiðni hans ekki verið
synjað strax þrátt fyrir að 60 daga fresturinn væri liðinn. Þegar hins vegar
engin gögn né upplýsingar um tekjur/tekjuleysi hans bárust þrátt fyrir ítrekanir
var beiðni hans synjað. Upplýsingar sem staðfestu að kærandi hafi ekki getað
nálgast staðfestingu á tekjuleysi sínu í Bretlandi bárust ekki LÍN fyrr en með
fyrirspurn lögmanns hans í júní 2012 og svo formlega með erindi kæranda til
stjórnar sjóðsins 19. júlí s.á. eða tæpum fjórum árum frá þeim gjalddaga sem
óskað sé endurútreiknings á. Stjórn LÍN bendir á að þrátt fyrir að svigrúm sé
veitt frá frestum í undantekningartilvikum verði sjóðurinn að gæta samræmis og
jafnræðis í málum sínum. Þessu markmiði væri ekki hægt að ná ef sjóðnum yrði
gert að endurútreikna gjalddaga mörg ár aftur í tímann. LÍN sé nú nýlega búin að
setja sér þá vinnureglu að við þessar aðstæður sé umsækjendum heimilt að koma
réttum gögnum til LÍN vegna gjalddagans er myndast 1. september fyrir lok sama
árs. Sú regla hafi nú verið sett í úthlutunarreglur sjóðsins en í grein 7.1 komi
fram að fylgiskjöl vegna umsókna eigi að berast sjóðnum eigi síðar en tveimur
mánuðum eftir að umsóknarfrestur renni út. Stjórn LÍN vísar til þess að tekjur
kæranda hafi verið áætlaðar á grundvelli þeirrar námsgráðu sem hann sé með. Á
hverju ári séu reiknaðar út meðaltekjur lánþega sem búsettir séu erlendis á
grundvelli námsgráðu þeirra og skattstofn lánþega síðan miðaður við hann. LÍN
hafi í mörgum tilvikum engum öðrum upplýsingum til að dreifa og erfitt geti
reynst fyrir sjóðinn að nálgast upplýsingar um starfsgrein viðkomandi.
Málskotsnefnd hafi bent á að í þeim tilvikum sem sjóðurinn hafi upplýsingar um
starfsgrein lánþega og tekjur síðustu ára þá séu ákveðin líkindi fyrir tekjum
þeirra við áætlun á tekjustofni. Í þeim tilvikum sem sjóðurinn hafi upplýsingar
um að lánþegi búi í sama landi og vinni sama starf þá geti þetta verið raunhæft
en í þessu máli séu þau atvik ekki fyrir hendi. Kærandi flutti lögheimili sitt
til Bretlands en hafði árin áður búið á Íslandi. Aðstæður voru því ekki þær sömu
á milli ára og með öllu óljóst hverjar tekjur hans yrðu. Til þess að LÍN geti
gætt samræmis- og jafnræðis í málum sínum yrði að telja mjög óeðlilegt ef
lánasjóðurinn hefði ekki heimild til þess að áætla tekjur með þessum hætti eins
og gert var. Vegna vísunar kærandi til sjálfvirks svars frá póstkerfi LÍN, 6. og
10. mars 2010, án þess að gera grein fyrir efni og innihaldi þeirra tölvupósta,
bendir stjórn LÍN á að almennt séu allar heimsóknir lánþega sem og fyrirspurnir
og/eða gagnasendingar vistaðar undir kennitölu viðkomandi sendanda. Eina almenna
undantekningin frá þessu sé ef um almennar fyrirspurnir sé að ræða er lúti að
umsóknar- og/eða öðrum frestum, fyrirspurnum um opnunartíma og þess háttar.
Þannig sé ekki dregið í efa af hálfu LÍN að fyrirspurn hafi komið í pósthólf
sjóðsins þessa daga en ekki sé ljóst hvaða þýðingu það hafi fyrir þetta mál. Þá
sé staðhæfingu kæranda um að skort hafi á leiðbeiningu frá LÍN hafnað og vísað
til gagna málsins um það. Stjórn LÍN telur að þrátt fyrir fullnægjandi
leiðbeininga af hálfu starfsmanna LÍN hafi kærandi ekki sent inn gögn um
tekjur/tekjuleysi sitt erlendis árið 2007, svo sannanlegt sé, fyrr en með
fyrirspurn lögmanns hans til sjóðsins um miðjan júní 2012.
Niðurstaða
Fyrir liggur í málinu að LÍN óskaði eftir því við kæranda að
hann sendi sjóðnum upplýsingar um tekjur sínar á árinu 2007 í bréfi dagsettu 1.
júlí 2008. Í bréfi LÍN kemur fram að þeir lánþegar sem ekki telja fram allar
tekjur sínar á Íslandi þurfi að skila inn opinberri staðfestingu á erlendum
tekjum sínum/tekjuleysi á árinu 2007 til sjóðsins. Í bréfinu er greint frá því
að ef ekki er skilað inn upplýsingum um tekjur muni LÍN áætla tekjur á lánaþega
við útreikning á afborgun árlegrar viðbótargreiðslu haustið 2008. Einnig kemur
fram í bréfinu að sækja verði um leiðréttingu á áætluðum tekjustofni eigi síðar
en 60 dögum eftir gjalddaga. Þar sem kærandi var skráður með lögheimili í
Bretlandi á árinu 2007 og þar með ekki skattskyldur á Íslandi það ár og þar sem
hann skilaði ekki tekjuupplýsingum til sjóðsins þó eftir því væri leitað fyrir
1. ágúst 2007 var LÍN með vísan til 8. gr. sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1997
um LÍN rétt að áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu.
Um framkvæmd og forsendur tekjuáætlanna LÍN er vísað til fyrri úrskurða
málskotsnefndarinnar, sbr. m.a. mál L-7/2012 og L-50/2012 og er fallist á með
LÍN að rétt hafi verið staðið að henni miðað við aðstæður þessa máls. Ákvæði 1.
og 2. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN eru svohljóðandi:
Lánþegi
á rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum
tekjum. Hann skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir
gjalddaga afborgunar og leggja fyrir stjórn sjóðsins bestu fáanlegar upplýsingar
um tekjurnar. Endurútreikningur skv. 1. mgr. á árlegri viðbótargreiðslu skal
gerður þegar sjóðnum hafa borist staðfestar upplýsingar um tekjurnar. Komi þá í
ljós að tekjustofn hafi verið of hátt áætlaður eða oftalinn og lánþegi því innt
af hendi of háa greiðslu skal honum endurgreidd hin ofgreidda fjárhæð með
almennum vöxtum óverðtryggðra bankalána.
Ákvæði 3. mgr. greinar 7.3
í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2008-2009 er svohljóðandi:
Lánþegi á rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé hún
byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en
60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og leggja fyrir stjórn sjóðsins bestu
fáanlegar upplýsingar um tekjurnar. Endurútreikningur fer síðan fram þegar
sjóðnum hafa borist staðfestar upplýsingar um tekjurnar eða þegar þær hafa verið
enduráætlaðar skv. sérstakri ákvörðun stjórnar. Hafi tekjustofn verið of hátt
áætlaður skal lánþega endurgreidd ofgreidd fjárhæð með almennum vöxtum
óverðtryggðra bankalána.
Málskotsnefndin telur að til þess að rjúfa
þann frest sem gefinn er í 11. gr. laga nr. 21/1992 hafi verið nægjanlegt fyrir
kæranda að leggja inn beiðni um endurútreikning innan 60 daga frá gjalddaga
afborgunarinnar. Hvorki í lögunum né í þágildandi úthlutunarreglum er veittur
sérstakur frestur til að skila inn upplýsingum og fullnægjandi gögnum um
tekjurnar. Þá var framkvæmd LÍN með þeim hætti að ljóst er að sjóðurinn leit
heldur ekki svo á að nauðsynlegt væri að upplýsingarnir þyrftu að liggja fyrir
um leið og umsókn um endurútreikning barst þeim. Þá liggur fyrir að nú er komin
sú regla í 2. mgr. greinar 7.1 í úthlutunarreglur LÍN fyrir skólaárið 2012-2013
að "Fylgiskjöl vegna umsókna eiga að berast sjóðnum eigi síðar en tveimur
mánuðum eftir að umsóknarfrestur rennur út." Með setningu reglunnar hefur
sjóðurinn nú sett sér viðmið sem lánþegar geta kynnt sér fyrirfram og gefur
sjóðnum tækifæri á að gæta samræmis og jafnræðis í meðferð mála sinna. Með vísan
til framangreinds verður að fallast á það með kæranda að hann hafi sótt um
endurútreikning innan lögmælts frests og að honum hafi ekki borið að skila inn
fullnægjandi gögnum á sama tíma. Töluverð samskipti áttu sér stað á milli aðila
vegna beiðni um endurútreikning fram til loka mars 2009. Eftir þann tíma eru
engin samskipti skráð hjá LÍN vegna málsins fyrr en með bréfi lögmanns kæranda
dagsett 19. júlí 2012. Kærandi heldur því fram að hann hafi m.a. afhent LÍN
tölvupóst frá breskum skattyfirvöldum í lok apríl 2009 og bæði hringt og mætt á
fund hjá sjóðnum eftir mars 2009. Einnig að hann hafi haft samband í tölvupósti
og vísar um það til sjálfvirks svars úr póstkerfi LÍN á árinu 2010. Í málinu
liggur ekkert fyrir sem styður staðhæfingar kæranda um samskipti hans við LÍN
eftir 30. mars 2009 gegn mótmælum sjóðsins. Verður að telja að sjálfvirkt svar
úr póstkerfi LÍN staðfesti ekki annað en að kærandi hafi sent tölvupóst til
sjóðsins á þessum tíma en segir ekkert um innhald þessa pósts sem kærandi hefði
átt að leggja fram teldi hann það skipta hér máli. Málskotsnefnd telur það hafa
verið á ábyrgð kæranda að halda máli sínu fram gagnvart LÍN á vormánuðum 2009 og
að honum hafi borið að skila inn fullnægjandi gögnum með sannanlegum hætt til
stuðnings beiðni sinni um endurútreikning og að það hefði hann þurft að gera í
eðlilegu framhaldi eftir að hafa óskað eftir endurútreikningi innan lögmælts
frests. Þá verður ekki fram hjá því litið að kærandi leitaði til umboðsmanns
Alþingis í byrjun maí 2009 vegna málsins og var þá sérstaklega leiðbeint um að
leita eftir afstöðu stjórnar LÍN í málinu og að úrskurði stjórnarinnar mætti
vísa til málskotsnefndar og eftir það borið það undir umboðsmann teldi hann þörf
á því. Kærandi sótt á ný um endurútreikning áætlaðrar viðbótargreiðslu með
gjalddaga 1. september 2008 í júlí 2012 og fylgdi þá með tölvupóstur breskra
skattyfirvalda frá 22. apríl 2009. Voru þá liðin tæp fjögur ár frá því að hin
áætlaða viðbótargreiðsla var ákveðin og rúm þrjú ár frá því að kærandi hafði
sannanlega verið í sambandi við LÍN vegna málsins. Málskotsnefnd telur með vísan
til framangreinds og þess að kæranda var kunnugt um það í síðasta lagi í mars
2009 hvaða gögnum honum bar að koma til LÍN til að fá fram endurútreikning og
svo til þeirra almennu fresta sem gefnir eru í stjórnsýslulögum um endurupptöku
mála verður að telja framlagningu umbeðinnar staðfestingar alltof seint fram
komna. Þá telur málskotsnefndin að ekki hafi verið sýnt fram á af hálfu kæranda
að mistök hafi átt sér stað hjá LÍN við afgreiðslu þessa máls eða að kæranda
hafi verið ómögulegt að halda fram máli sínu innan eðlilegs tíma. Með vísan til
framangreindra röksemda er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 22.
ágúst 2012 í máli kæranda staðfest.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður frá 22. ágúst 2012 í máli kæranda er staðfestur.