Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-48/2012 - Umsóknarfrestur og útborgun - gögn bárust eftir að lokafrestur rann út

Úrskurður

 

Ár 2013, miðvikudaginn 17. apríl, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-48/2012.

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 12. október 2012, sem barst málskotsnefnd þann 15. sama mánaðar, kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 20. september 2012 þar sem synjað var beiðni kæranda um námslán á vorönn 2011. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 16. október 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Lögmanni kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 12. nóvember 2012 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefið færi á að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi lögmanns hans dagsettu 10. janúar 2013 og var afrit þess sent LÍN samdægurs. Með bréfi dagsettu 23. janúar 2013 gerði LÍN enn frekari athugasemdir vegna málsins og lögmaður kæranda svaraði þeim með bréfi dagsettu 9. febrúar 2013.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi var við nám við University of Victoria í Vancouver í Kanada námsárið 2010-2011. Hann skilaði fullnægjandi námsárangri á haustönn 2010, en gat ekki stundað nám eða tekið próf á vorönn 2011 eins og hann fyrirhugaði vegna veikinda. Kærandi hafði samband við LÍN með tölvubréfi 9. nóvember 2011 til að grennslast fyrir um hvort hann gæti sótt um undanþágu frá kröfum um námsframvindu vegna veikinda á vormisseri 2011. Fram kom hjá kæranda að hann teldi sennilegt að hann myndi aðeins ljúka tveimur námskeiðum á vorönn 2011 í stað þriggja sem þurfi til að ná lágmarkseiningafjölda til að eiga rétt á námsláni. Í svarbréfi starfsmanns LÍN 15. sama mánaðar er kæranda bent á að hann verði að sækja um undanþágu vegna veikinda og senda inn læknisvottorð ásamt námsárangri vegna vorannar 2011. Þá er athygli kæranda vakin á því að taki hann þriðja námskeiðið á haustönn 2011 tilheyri það námsárinu 2011-2012 og að umsóknarfrestur vegna náms haustið 2011 renni út 1. desember 2011. Í svarbréfi degi síðar segir kærandi:"Ég sæki þá um lán fljótlega". Þá innir hann í bréfinu starfsmanninn eftir því hvenær næstu fundir LÍN séu haldnir þar sem ákvarðanir um undanþágur séu teknar. Kveðst kærandi hafa frest til loka desember til að ljúka námskeiðum sínum, en hann vonist til að klára þau um miðjan mánuðinn og viti ekki hvenær einkunnir verði birtar. Í lok bréfs síns spyr hann hvort sá skilningur hans sé réttur, að hann þurfi að klára námskeiðin áður en hann sæki um undanþágu. Í svarbréfi starfsmanns LÍN sama dag segir: "Endilega að sækja um fyrir 1. desember nk. ef þú ert í skipulögðu námi á haustmisseri 2011, veikindaundanþágan á við um vormisseri 2011 ekki satt?" Þann 18. nóvember 2011 svarar kærandi starfsmanni LÍN þannig, að hann sé ekki í námi haustið 2011, en muni fljótlega sækja um lán fyrir vorönn 2012. Undanþága hans frá kröfum um námsframvindu eigi við um vorönn 2011 þar sem hann muni þá aðeins klára tvö námskeið. Þá spyr hann aftur hvenær næsti fundur verði haldinn þar sem undanþágubeiðnir séu teknar fyrir og hvort fundur sé í desember. Starfsmaður LÍN svarar því að stjórnarfundur verði haldinn 15. desember 2011 og að umsókn ásamt fylgigögnum þurfi að berast í síðasta lagi viku fyrir fundinn. Síðustu samskipti kæranda við LÍN á árinu 2011 eru í tölvubréfi 28. nóvember þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni að tímasetning desemberfundarins sé óheppileg vegna náms- og prófanna og spyr hvenær næsti fundur þar á eftir verði haldinn. Þessu tölvubréfi kæranda var ekki svarað af LÍN og það mun ekki hafa fundist hvorki í tölvukerfi né gögnum LÍN. Samkvæmt upplýsingum LÍN hefur kærandi næst samband þann 19. apríl 2012 og kveðst þá vera að undirbúa umsókn um undanþágu frá kröfum um námsframvindu vegna veikinda sinna á vorönn 2011. Í minnisblaði frá LÍN sama dag kemur fram að kæranda hafi verið tjáð í símtali að lánveitingum vegna námsársins 2010-2011 hafi lokið 15. janúar 2012. Þar kemur einnig fram að kærandi hafi lýst óánægju sinni með að hafa ekki verið látinn vita af þessari dagsetningu og að hann hygðist senda erindi til stjórnar LÍN vegna málsins. Hinn 16. ágúst 2012 sótti kærandi um undanþágu til LÍN frá reglum um námsframvindu á tímabilinu 1. september 2010 til 30. apríl 2011 vegna haustannar 2010 og vorannar 2011 á sérstöku eyðublaði LÍN sem heitir Umsókn um aukið svigrúm vegna veikinda, barnsburðar, örorku eða lesblindu og sem ástæðu umsóknarinnar hakaði kærandi við veikindi. Ekkert kemur fram í gögnum málsins um afdrif þeirrar umsóknar, en þó verður ráðið að henni hafi verið hafnað því með bréfi sem er móttekið af stjórn LÍN 12. september 2012 fer kærandi fram á að stjórnin veiti honum undanþágu frá kröfum um námsárangur vegna veikinda á vorönn 2011. Því hafnaði stjórn LÍN eins og fyrr segir með úrskurði 20. september 2012. 

Sjónarmið kæranda 

Um ástæðu umsóknar sinnar um undanþágu frá kröfum um námsárangur vísar kærandi til þess að hann hafi verið í meðferð vegna þunglyndis veturinn 2010 og í lok annar vorið 2011 hafi veikindin ágerst og hann orðið óvinnufær og misst af lokaprófum. Vísar hann til framlagðra læknisgagna því til stuðnings. Kærandi var í samskiptum við starfsmann LÍN haustið 2011, eins og rakið er hér að framan. Bendir kærandi á að í þeim samskiptum hafi komið fram að hann myndi vegna veikinda taka próf í desember 2011, en við þeim upplýsingum hafi starfsmaðurinn ekki brugðist á nokkurn hátt. Þannig hafi starfmanni LÍN borið að leiðbeina kæranda um nauðsyn þess að sækja um undanþágu frá kröfum um námsframvindu fyrir síðasta fund stjórnar LÍN, sem fyrirhugaður var 15. desember 2011 og að eftir 15. janúar 2012 yrðu ekki afgreidd lán vegna námsársins 2010-2011. Bendir kærandi einnig á að hann geti ekki fundið nein ákvæði í lögum eða reglum LÍN sem kveði á um fresti í málum er varði undanþágur (s.s. vegna veikinda). Kærandi leggur áherslu á að starfsmanni LÍN hafi borið í samskiptum þeirra að gæta að leiðbeiningarskyldu stjórnvalds samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993, en það hafi hann ekki gert. Mistök sjóðsins megi ekki bitna á kæranda og bendir hann í því sambandi á grein 5.9 í úthlutunarreglum LÍN sem kveði á um að verði mistök við veitingu námsláns námsmanni í óhag beri að leiðrétta þau strax og upp kemst. Einnig byggir kærandi á því að LÍN hafi brotið gegn ákvæði 5.1.3 í úthlutunarreglum sjóðsins, en þar komi fram að LÍN beri að tilkynna námsmanni tímanlega um þau gögn, sem honum beri að skila þannig að honum gefist nægilegur tími til að senda þau til sjóðsins, en þeirri skyldu hafi LÍN ekki sinnt. Þá vísar kærandi til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sem lögfest er í 12. gr. stjórnsýslulaga, en synjun um að veita kæranda námslán á vorönn 2011 myndi hafa mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir hann, nám hans og þar með framtíð. Um frekari rök fyrir kröfu sinni vísar kærandi til úrskurðar málskotsnefndar í málinu nr. 22/2012 þar sem m.a. komi fram að LÍN hafi borið að veita alla nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar og jafnfram huga að þeim kröfum sem leiða af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Loks bendir kærandi á að hinn kærði úrskurður sé ekki um form og efni í samræmi við 31. gr. stjórnsýslulaga og verði LÍN að bera hallann af því og að stjórn LÍN geti ekki við meðferð málsins hjá málskotsnefnd byggt á öðrum atriðum en tiltekin eru í hinum kærða úrskurði, en þar sé einungis vísað til greinar 5.2.1 í úthlutunarreglum sjóðsins. 

Sjónarmið stjórnar LÍN 

Stjórn LÍN vísar til þess að í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN komi fram að lánveitingum vegna námsársins 2010-2011 skuli lokið fyrir 15. janúar 2012, og að eftir það séu ekki afgreidd lán vegna námsársins. Stjórn LÍN hafnar því að hafa ekki í samræmi við 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga veitt kæranda nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar í máli hans. Til þess að geta sinnt þeirri skyldu sinni sé nauðsynlegt að þær spurningar sem beinast að sjóðnum gefi tilefni til þeirra svara sem spyrjandinn leitar eftir. Kærandi hafi í erindi sínu til LÍN spurt hvort hann gæti sótt um veikindaundanþágu vegna vormissis 2011, en einnig nefnt að hann myndi í desember 2011 ljúka námskeiðum, ritgerð og þreyta próf. Af erindinu og upplýsingum kæranda hafi starfsmaður LÍN mátt líta svo á að kærandi væri að taka áfanga á haustönn 2011, sem hann átti að ljúka á vorönn 2011, og því talið ólíklegt að reglur heimiluðu að veita veikindaundanþágu á vorönn vegna náms sem stundað væri á haustönn. Starfsmaður LÍN hafi bent kæranda á að ef hann hygðist sækja um undanþágu vegna veikinda yrði hann að skila inn umsókn, ásamt læknisvottorði og upplýsingum um námsárangur á vorönn. Þá hafi kæranda einnig verið bent á að umsókn um námslán vegna haustmisseris 2011 rynni út 1. desember 2011 og því yrði hann að sækja um fyrir þann tíma, ef hann væri í námi á þeirri önn. Kærði bendir á að í svarbréfum hafi kærandi lýst því yfir að hann ætlaði að sækja um lán og senda erindi til stjórnar LÍN. Ekkert í erindi kæranda hafi gefið starfsmanni LÍN ástæðu til að ætla að kærandi væri í misskilningi um eitthvað sem þyrfti að skýra betur. Vegna tilvísunar kæranda til greinar 5.1.3 í úthlutunarreglum LÍN um að sjóðnum beri að tilkynna námsmanni tímanlega um gögn, sem honum beri að skila, bendir stjórn LÍN á að þrátt fyrir ítarlegar leiðbeiningar starfsmanns sjóðsins til kæranda um að sækja um undanþágu og upplýsingar um hvaða gögnum bæri að skila hafi kærandi ekki sótt um undanþágu vegna veikinda fyrr en með umsókn sinni til stjórnar LÍN þann 16. ágúst 2012 og þá hafi hvorki fylgt með nauðsynlegt læknisvottorð né námsárangur. Stjórn LÍN fer fram á að málskotsnefnd staðfesti úrskurð sinn, sem sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilega úrskurði stjórnar LÍN. 

Viðbótarsjónarmið aðila 

Lögmaður kæranda sendi málskotsnefnd frekari athugasemdir og andmæli með bréfi dagsettu 10. janúar 2013. Þar ítrekar kærandi að honum hafi ekki verið leiðbeint um að síðasti möguleiki til að sækja um undanþágu frá kröfum um námsárangur á vorönn 2011 hafi verið í desember það ár, eða fyrri hluta janúar 2012. Þá beri gögn málsins það augljóslega með sér að honum hafi ekki verið bent á að sækja um undanþágu fyrir 1. desember 2011, en tölvubréf frá 16. nóvember 2011, sem stjórn LÍN vísi til, fjalli um umsóknarfrest vegna námsláns á haustönn 2011, en ekki um undanþágubeiðni vegna vorannar 2011. Starfsmanni LÍN hafi mátt vera ljóst af tölvubréfi kæranda 16. nóvember 2011 að erindi hans varðaði undanþágu frá námsárangurskröfum vorannar 2011 og hafi starfsmanninum borið að bregðast við því með réttum leiðbeiningum til kæranda, en það hafi hann ekki gert hvorki í svari sínu 16. nóvember 2011 né síðar. Það sé fráleitt að halda því fram, eins og stjórn LÍN geri, að starfsmaður sjóðsins hafi mátt standa í þeirri trú að erindi kæranda varðaði námskeið á haustönn 2011, enda komi skýrt fram í svari kæranda þann 18. nóvember 2011 að hann sé ekki í námi haustið 2011 og undanþágan varði vorönn 2011. Kærandi ítrekar að LÍN hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni og að hann eigi ekki að bera hallan af brotalömum í starfsemi sjóðsins, mistökum starfsmanns og þeim sérkennilegu viðhorfum sem ríki hjá sjóðnum. Í viðbótarathugasemdum stjórnar LÍN frá 23. janúar 2013 er ítrekað að fyrirspurnir kæranda til starfsmanns hafi ekki verið einfaldar og ekki hafi verið augljóst hverra upplýsinga hann hafi verið að leita. Miðað við það sem frá kæranda kom hafi mátt ætla að hann stundaði nám á haustönn og hann lyki prófum um miðjan desember 2011. Fram til 15. janúar 2012 hafi kærandi getað sótt um námslán og/eða undanþágu frá kröfum um námsárangur, en eftir þann tíma séu ekki afgreidd lán vegna námsársins. Þá áréttar stjórn LÍN að tölvubréf sem kærandi sendi starfsmanni LÍN 28. nóvember 2011 finnist ekki, en með því sé þó ekki verið að halda því fram að það hafi ekki verið sent. Telur stjórn LÍN rétt að halda því til haga að kærandi hafi enga tilraun gert til þess að fá þær upplýsingar sem hann óskaði eftir með öðrum hætti og hafði ekki samband við sjóðinn aftur fyrr en í apríl 2012. Lögmaður kæranda kom að frekari athugasemdum og andmælum í bréfi dagsettu 9. febrúar 2013. Þar eru fyrri sjónarmið kæranda áréttuð og sérstaklega mótmælt sem rangri þeirri fullyrðingu stjórnar LÍN að kærandi hafi sagst stunda nám á haustönn, enda komi hið öndverða fram í tölvubréfi hans frá 18. nóvember 2011, svo sem áður hefur verið rakið. Þá er andmælt ýmsum ummælum sem frá stjórn LÍN stafa um málatilbúnað kæranda og lögmanns hans. Kjarni málsins sé sá að þegar kærandi hafi leitað til LÍN hafi stjórnvaldið brugðist skyldum sínum sem fólust í því að veita kæranda fullnægjandi upplýsingar og leiðbeiningar svo hann gæti tímanlega sótt um undanþágu frá námsárangri á vorönn 2011 til að fá afgreitt námslán. 

 

Niðurstaða

 

Um skilyrði þess að námslán verði greitt út er fjallað um í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN. Í 1. og 2. mgr. segir eftirfarandi: 

Útborgun framfærslu-, bóka- og ferðalána vegna haustannar hefst að loknum 18-30 ECTS-einingum í byrjun janúar 2011 og vegna vorannar að loknum 18 eða fleiri ECTS-einingum í lok apríl 2011. Skilyrði er að námsmaður hafi lagt fram gögn um námsárangur sinn, tekjuáætlun eða skattframtal eða aðrar þær upplýsingar sem máli skipta. Lán greiðast inn á reikning í viðskiptabanka eða sparisjóði á Íslandi sem skal vera á nafni námsmanns. Heimilt er að greiða út lán á öðrum tímum enda liggi fyrir að námsmaður hafi uppfyllt kröfur sjóðsins um afköst og árangur í námi. Lánveitingum vegna námsársins 2010-2011 skal þó lokið fyrir 15. janúar 2012, eftir það eru ekki afgreidd lán vegna námsársins. 

Óumdeilt er að kærandi náði ekki vegna veikinda lágmarkseiningafjölda á vorönn 2011 til að fá greitt út námslán. Samkvæmt 2. mgr. framangreindrar úthlutunarreglu hefði mátt greiða kæranda út lánið á öðrum tíma enda uppfyllti hann þá kröfur LÍN um afköst og árangur í námi þó þannig að eftir 15. janúar 2012 yrðu ekki afgreidd lán vegna námsársins. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að afgreiða námslán eftir að frestur til að leggja fram gögn um námsárangur og aðrar þær upplýsingar sem LÍN hefur óskað eftir er liðinn. Málskotsnefnd hefur áður úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Eins og margrakið er hér að framan hafði kærandi samband við LÍN 9. nóvember 2011 til að fá upplýsingar um hvort hann gæti sótt um undanþágu frá kröfum um námsframvindu þar sem hann myndi ekki ná lágmarkseiningafjölda vegna veikinda á vorönn 2011. Í kjölfar samskipta kæranda og starfsmanns LÍN virðist koma upp misskilningur um stöðu kæranda og hverrar aðstoðar og leiðbeininga hann væri að leita eftir. Telur stjórn LÍN að fyrirspurnir kæranda hafi verið óljósar og m.a. valdið því að stafsmaðurinn sjóðsins hafi sennilega litið svo á kærandi væri að taka námsáfanga á haustönn 2011, sem hann átti að ljúka á vorönninni á undan, og því talið ólíklegt að unnt væri að veita veikindaundanþágu. Málskostsnefnd getur fallist á það með stjórn LÍN að fyrirspurnir kæranda hafi ekki verið eins skýrar og kostur var, en hafi stafsmanni LÍN þótt erindi hans óljóst bar stjórnvaldinu að beina því til kæranda að veita nánari skýringar til að koma í veg fyrir misskilning. Af tölvubréfi kæranda til starfsmanns LÍN 9. nóvember 2011 verður ekki um villst að erindi hans laut að undanþágu frá kröfum um námsframvindu vegna vorannar 2011 og í öðru tölvubréfi hans til sama starfsmanns LÍN þann 18. nóvember 2011 tekur kærandi orðrétt fram að undanþágan eigi við um vor 2011 og að hann sé ekki í námi haustið 2011. Málskotsnefnd getur því ekki fallist á það að kærandi eigi að bera hallann af þeim misskilningi sem varð hjá starfsmanni LÍN um efni erindis hans. Er því fallist á með kæranda að ástæður þess að ekki kom til þess að LÍN tæki afstöðu til beiðni hans um undanþágu frá reglum LÍN um námsframvindu á vorönn 2011, þar sem hún barst eftir 15. janúar 2012 þegar lokað hefði verið á lánveitingar námsársins 2010-2011, megi rekja til mistaka hjá starfsmanni LÍN. Er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN frá 20. september 2012 því felldur úr gildi og lagt fyrir stjórn LÍN að taka afstöðu til beiðni kæranda.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 20. september 2012 er felldur úr gildi.

Til baka