Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-54/2012 - Endurgreiðsla námslána - synjun á endurútreikningi tekjutengdrar afborgunar

Úrskurður

Ár 2013, miðvikudaginn 29. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. L-54/2012:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 24. nóvember 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 20. september 2012 þar sem hafnað var beiðni hans um að endurútreikna tekjutengda afborgun fyrir árið 2011. LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 3. desember 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 17. desember 2012 og var afrit þess sent kæranda og honum jafnframt gefinn 4 vikna frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Málskotsnefndin óskaði eftir frekari upplýsingum frá stjórn LÍN um hvernig staðið var að því að áætla tekjur á kæranda fyrir árið 2010 og barst svar frá LÍN í bréfi dagsettu 6. maí 2013. Í kæru kemur fram að einnig sé óskað eftir endurútreikningi tekjutengdra afborgunar fyrir árið 2011 vegna sambýliskonu kæranda. Fyrir liggur að hún hefur ekki lagt erindi sitt fyrir stjórn LÍN og að ekki hefur verið úrskurðað í hennar máli af hálfu stjórnar LÍN. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. a. laga nr. 21/1992 um LÍN, er valdsvið málskotsnefndar takmarkað við að skera úr um hvort úrskurðir stjórnar LÍN séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Þar sem erindi sambýliskonu kæranda hefur ekki verið borið undir stjórn LÍN brestur nefndinna vald til að fjalla um það og er þessum hluta kærunnar því vísað frá nefndinni.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er lántakandi hjá LÍN og hefur hafið endurgreiðslu lána sinna. Hann flutti erlendis í september 2010 en var með lögheimili sitt skráð í því ríki frá 1. maí 2010. Kærandi bjó í 8 mánuði í viðkomandi ríki þar sem sambýliskona hans starfaði tímabundið. LÍN sendi ábyrgðarmanni kæranda bréf þann 16. júní 2011 þar sem vakin var athygli á mikilvægi þess að þeir lánþegar sem ekki teldu fram allar tekjur sínar á Íslandi skiluðu inn opinberri staðfestingu á erlendum tekjum sínum eða tekjuleysi á árinu 2010 til sjóðsins. Í bréfinu er greint frá því að ef ekki er skilað inn upplýsingum um tekjur fyrir 2. ágúst 2011 muni LÍN áætla tekjur á lánþega við útreikning á afborgun árlegrar viðbótargreiðslu haustið 2011. Kærandi skilaði ekki inn upplýsingum innan tímafrestsins og voru tekjur því áætlaðar á hann. Kærandi hafði samband við LÍN í tölvupósti 1. september 2011 vegna tekjuáætlunarinnar. LÍN staðfesti móttöku beiðni hans um endurútreikning í tölvupósti 8. september og veitti honum frest til 1. október s.á til að skila inn staðfestingu á tekjuleysi frá því ríki þar sem kærandi var búsettur. Þá var tekið fram í tölvupósti LÍN að þó að frestur væri veittur þá færu út ítrekanir og dráttarvextir reiknuðust vegna afborgunarinnar. Þann 3. október 2011 greiddi kærandi afborgunina. Hann hafði því næst samband símleiðis við LÍN 3. nóvember 2011 þar sem fram kom að hann stefndi að því að senda sjóðnum gögn og upplýsingar vegna beiðni sinnar um endurútreikning á gjalddaga 1. september 2011. Í ágúst 2012 var á ný áætlað á kæranda tekjutengd afborgun en nú vegna tekna ársins 2011. Kærandi sendi 29. ágúst 2012 inn upplýsingar um tekjur sínar árin 2010 og 2011 og beiðni um endurútreikning á tekjutengdum afborgunum 2011 og 2012 vegna nýrra upplýsinga um tekjur. Í úrskurði LÍN var beiðni um endurútreikning tekjutengdrar afborgunar ársins 2011 hafnað með vísan til greinar 7.4 í úthlutunarreglum sjóðsins en samþykkt að endurútreikna tekjutengda afborgun ársins 2012 í ljósi framkominna upplýsinga.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi bendir á LÍN hafi áætlað á sig tekjur vegna áranna 2010 og 2011 þar sem lögheimili hans hafi fyrir misskilning verið skráð erlendis. Sambýliskona hans hafi og þau hafi flutt lögheimili sitt til viðkomandi ríkis, en síðar hafi komið í ljós að þar sem sambýliskona hans hafi einungis þegið laun frá Íslandi og verið að fullu skattskyld hér hafi engin þörf verið á því að breyta um lögheimili. Kærandi hafi starfað hjá núverandi vinnuveitanda hér á landi frá árinu 2007 og hafi haustið 2010 tekið sér leyfi frá störfum í 8 mánuði til að dvelja með fjölskyldu sinni í viðkomandi ríki. Hann hafi á þessum tíma verið heimavinnandi og hafi ekki haft neinar tekjur. LÍN hafi áætlað á hann vegna þessa tímabils háar tekjur og hann hafi borgað afborgunina, kr. 265.171, haustið 2011 sem sé í engu samræmi við uppgefnar tekjur samkvæmt skattaskýrslu frá 2010. Kærandi bendir á að honum hafi ekki verið ljóst að tekjur yrðu áætlaðar á hann haustið 2011 þar sem hann hafi ekki fengið tilkynningu um það frá LÍN. Þá vísar hann til þess að Þjóðskrá hafi tekið fyrir erindi hans og sambýliskonu hans vegna skráningar lögheimils þeirra í erlendis árið 2010 og hafi skráning lögheimilis þeirra árin 2010 og 2011 verið leiðrétt og skráð á Íslandi. Kærandi óskar eftir því að áætlun vegna ársins 2010 verði leiðrétt og að gjalddagi verði reiknaður miðað við uppgefnar tekjur á skattskýrslu 2010.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

Stjórn LÍN byggir á því að í grein 7.4 í úthlutunarreglum sjóðsins, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN, komi fram að lánþegi verði að sækja um endurútreikning árlegrar viðbótargreiðslu eigi síðar en 60 dögum frá gjalddaga og leggja fyrir stjórn sjóðsins bestu fáanlegar upplýsingar um tekjurnar. Þar sem gögn og beiðni um endurútreikning hafi borist löngu eftir þann frest eða 29. ágúst 2012 sé ekki heimild til að taka tillit til þeirra atriða sem fram komi í kæru. LÍN bendir einnig á að kærandi hafi greitt gjalddagann 1. september 2011 þann 3. október s.á. án athugasemda og sé litið svo á að hann hafi þar með viðurkennt umrædda kröfu. Stjórn LÍN synjaði því erindi kæranda um að endurútreikna tekjutengda afborgun 2011 en samþykkti að endurútreikna tekjutengda afborgun 2012 og taka mið af íslenskum tekjum fyrir árið 2011.

Niðurstaða

Í 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er mælt fyrir um endurgreiðslu námslána. Samkvæmt 1. mgr. ákvarðast árleg endurgreiðsla lánþega í tvennu lagi. Skýrlega er mælt fyrir um það að önnur greiðslan skuli vera föst greiðsla, sem innheimt er á fyrri hluta ársins og sé hún óháð tekjum en hins vegar sé tekjutengd greiðsla innheimt á seinni hluta ársins og sé hún háð tekjum fyrra árs. Í 3. mgr. 8. gr. kemur fram að viðbótargreiðslan miðast við ákveðinn hundraðshluta af útsvarsstofni ársins á undan endurgreiðsluári og er útreikningum greiðslunnar nánar lýst í næstu málsgreinum. Þegar greiðendur eru skattskyldir erlendis og með takmarkaða skattskyldu á Íslandi er LÍN heimilt að áætla þeim tekjur vegna þess tímabils sem slík takmörkuð skattskylda tekur til, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. Fyrir liggur í málinu að LÍN sendi kæranda bréf, dagsett 16. júlí 2011, þar sem óskað var eftir því að hann sendi sjóðnum upplýsingar um tekjur sínar á árinu 2010 og honum veittar upplýsingar um að ef ekki væri skilað inn upplýsingum um tekjur myndi LÍN áætla tekjur á lánþega við útreikning á afborgun árlegrar viðbótargreiðslu haustið 2011. Þar sem kærandi var skráður með lögheimili erlendis frá 1. maí 2010 og þar með ekki skattskyldur á Íslandi nema hluta ársins og þar sem hann skilaði ekki tekjuupplýsingum til sjóðsins innan uppgefins frests var LÍN með vísan til 8. gr. sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN rétt að áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu. Í 11. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN, sbr. og grein 7.4 í úthlutunarreglum LÍN, segir að lánþegi eigi rétt á endurútreikningi á árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum. Skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og leggja fyrir stjórn LÍN bestu fáanlegar upplýsingar um tekjurnar. Endurútreikningur á árlegri viðbótargreiðslu skal gerður þegar sjóðnum hafa borist staðfestar upplýsingar um tekjurnar. Málskotsnefndin telur að til þess að rjúfa 60 daga frestinn sem gefinn er í 11. gr. laga nr. 21/1992 hafi verið nægjanlegt fyrir kæranda að leggja inn beiðni um endurútreikning innan 60 daga frá gjalddaga afborgunarinnar sem og hann gerði með tölvupósti dagsettum 1. september 2011. Með vísan til þess og þeirra sjónarmiða sem fram koma í úrskurði nefndarinnar í máli nr. L-44/2012 er ljóst að kærandi sótti um endurútreikning innan lögmælts frests og að ekki verður gerð krafa um að honum hafi borið að skila inn fullnægjandi gögnum á sama tíma né lá fyrir einhver endanlegur tímafrestur til þess af hálfu LÍN. Þá skiptir hér ekki máli að kærandi greiddi hina umdeildu afborgun án fyrirvara þann 3. október 2011. Með því afsalaði kærandi sér ekki rétti til að láta reyna á rétt sinn til endurútreiknings sbr. 3. mgr. greinar 7.4 í úthtutunarreglum LÍN enda er í greininni gert ráð fyrir því að komi í ljós við endurútreikning að tekjustofn hafi verið of hátt áætlaður skuli lánþega endurgreidd ofgreidd fjárhæð. Eftir að kærandi sótti um endurútreikning til LÍN í byrjun september 2011 hafði hann samband við sjóðinn símleiðis í byrjun nóvember 2011 en svo ekki aftur fyrr en hann skilaði inn upplýsingum um tekjur sínar fyrir árið 2010 og 2011 þann 29. ágúst 2012. Málskotsnefnd telur það hafa verið á ábyrgð kæranda að halda máli sínu fram gagnvart LÍN í framhaldi af því að hann óskaði eftir endurútreikningi í byrjun september 2011 og að honum hafi borið að skila inn fullnægjandi gögnum til stuðnings beiðni sinni um endurútreikning og að það hefði hann þurft að gera í eðlilegu framhaldi af því að hafa óskað eftir endurútreikningi innan lögmælts frests. Þegar kærandi skilaði inn upplýsingum og sótti á ný um endurútreikning á áætlaðrar viðbótargreiðslu með gjalddaga 1. september 2011 í lok ágúst 2012 var liðið ár frá því að hin áætlaða viðbótargreiðsla var ákveðin og 10 mánuðir frá því að kærandi var síðast í sambandi við LÍN vegna málsins. Málskotsnefnd telur með vísan til framangreinds og þess að kæranda var fullkunnugt um það hvaða gögnum honum bar að koma til LÍN til að fá fram endurútreikningi og svo til þeirra almennu fresta sem gefnir eru í stjórnsýslulögum nr. 37/2003 verður að telja framlagningu umbeðinna gagna of seint fram komna. Þá telur málskotsnefndin að ekki hafi verið sýnt fram á af hálfu kæranda að mistök hafi átt sér stað hjá LÍN við afgreiðslu þessa máls eða að kæranda hafi verið ómögulegt að halda fram máli sínu innan eðlilegs tíma. Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga er heimild til endurupptöku eftir að ársfrestur er liðinn bundinn við það að veigamiklar ástæður mæli með því. Í þessu máli verður ekki séð að slíkar ástæður séu fyrir hendi. Með vísan til framangreinds er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 20. september 2012 í máli kæranda staðfest. Þá er erindi kæranda vegna sambýliskonu sinnar vísað frá málskotsnefndinni þar sem mál hennar hefur ekki verið lagt fyrir stjórn LÍN.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 20. september 2012 í máli kæranda er staðfestur. Erindi kæranda vegna sambýliskonu kæranda er vísað frá málskotsnefndinni. 

Til baka