Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-55/2012 - Undanþágur frá afborgun - synjun um undanþágu frá fastri afborgun námsláns

Úrskurður

Ár 2013, miðvikudaginn 29. maí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-55/2012.

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 20. desember 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 24. september 2012, þar sem kæranda var synjað um undanþágu frá fastri afborgun námsláns á árinu 2012. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi sama dag og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 7. janúar 2013. Með bréfi dagsettu 13. janúar 2013 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör stjórnar LÍN. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 2. febrúar 2013. Málskotsnefnd óskaði frekari skýringa stjórnar LÍN þann 23. apríl 2013. Barst svar stjórnar LÍN 30. apríl 2013 og var afrit þess sent kæranda sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er skuldari námsláns hjá LÍN en stundar jafnframt nám. Kærandi fór þess á leit við LÍN vorið 2012 að fá undanþágu frá fastri afborgun vegna þess að hún stundaði nám. LÍN synjaði erindi kæranda þann 22. mars s.á. þar sem hún hafði ekki lagt fram staðfestingu á lánshæfum námsárangri á haustönn 2011. Í bréfi LÍN til kæranda segir ennfremur að kæranda sé heimilt að óska úrskurðar stjórnar LÍN um synjunina og að beiðni um úrskurð skuli bera fram innan þriggja mánaða frá dagsetningu bréfsins. Kærandi sendi tölvupóst til LÍN 16. apríl 2012 og útskýrði að hún hafi vegna veikinda fengið frest til að skila verkefnum í 10 eininga námskeiði og að þær einingar kæmu um vorið 2012. Jafnframt útskýrði kærandi að hún hafi verið tekjulaus vegna veikinda í 4 mánuði á síðasta ári og hafi verið úthlutað örorkulífeyri frá 1. nóvember þannig að hún ætti sennilega einnig rétt á undanþágunni vegna þess. Innti kærandi eftir því hvort hún þyrfti að sækja um undanþágu á ný. Í svari LÍN þann 3. maí 2012 kom fram að kærandi fengi lán vegna haustsins 2011 ef hún skilaði þessum 10 einingum þá um vorið. Þá vísaði LÍN einnig til þess að kærandi hafi fengið synjun á beiðni um undanþágu fastrar afborgunar en eins og fram kæmi í synjunarbréfinu gæti hún óskað úrskurðar stjórnar varðandi þá synjun innan þriggja mánaða frá dagsetningu bréfs LÍN. Segir orðrétt í svari LÍN:

"Ef þú skilar inn 10 ECTS sem eiga við haustönn 2011 núna í vor, þá átt þú rétt á útgreiðslu fyrir haustið 2011. Varðandi undanþágu frá fastri afborgun gjalddaga 1. mars 2012, þá var þér synjað, en fram kemur í bréfinu að þú getur óskað eftir úrskurði stjórnar innan 3.ja mánaða frá dagsetningu bréfsins. Sjá meðfylgjandi bréf vegna undanþágu."

Með tölvupóstinum fylgdi upphafleg synjun LÍN dagsett 22. mars 2012 á beiðni kæranda um undanþágu vegna þess að hún stundaði lánshæft nám. Kærandi sótti síðan um „endurskoðun á synjun um niðurfellingu fastrar afborgunar 2012 á grundvelli 75% örorkumats sem er fyrirliggjandi“ þann 3. ágúst 2012 og lagði fram vottorð um örorku sína. Beiðni hennar var synjað og bar hún mál sitt undir stjórn LÍN með erindi þess efnis dagsettu 22. ágúst 2012. Þar útskýrði kærandi að henni hafi ekki verið unnt að sækja um undanþágu á réttum tíma sökum veikinda sinna er fælust í alvarlegu þunglyndi og kvíðaröskun. Á meðfylgjandi læknisvottorði var vottað að kærandi hafi „vegna kvíða og þunglyndis ekki getað sótt um undanþágu frá afborgun námslána“. Jafnframt segir að kærandi sé „með fulla örorku af sömu ástæðu“. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með úrskurði sínum þann 20. september 2012 sem tilkynntur var kæranda með bréfi dagsettu 24. september 2012. Í úrskurðinum kemur fram að kærandi hafi fengið synjun á undanþágu frá fastri afborgun sökum þess að hún hefði ekki skilað lánshæfum árangri á haustmisseri 2011. Hafi kærandi fengið þriggja mánaða frest til að óska úrskurðar stjórnar LÍN í máli sínu og að sá frestur sé „löngu liðinn sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.“

Sjónarmið kæranda.

Í kærunni kemur fram að kærandi hafi fengið synjun á undanþágu þar sem hún hafi ekki lokið nema 10 einingum á haustönn 2011. Jafnframt upplýsir kærandi að hún hafi fengið frest til að skila verkefnum fram á haustönn og komi til með að fá 10 einingar til viðbót á haustönn. Hafi fresturinn fengist sökum þess að kærandi hafi fulla örorku frá 1. nóvember 2011 og ætti því rétt á undanþágunni af þeim sökum. Kærandi byggir jafnframt á því að hún þjáist af alvarlegu þunglyndi og kvíðaröskun auk vefjagigtar og hafi henni ekki verið unnt að sækja um endurskoðun á synjuninni fyrr en eftir að frestur til þess hafi runnið út. Kærandi upplýsir að vegna veikinda hafi hún verið lítt fær um að sinna þessu verkefni í vor og sumar. Þó hafi hún „eitthvað verið að reyna að garfa í þessu“ í byrjun maí í gegnum síma eins og væntanlega ætti að hafa komið fram í gögnum LÍN. Kærandi bendir á að veikindi sín séu erfið og stundum lamandi og að hún sé einstæð móðir á örorkubótum sem reyni að sinna námi sínu að fremsta megni.

Sjónarmið LÍN.

Í athugasemdum stjórnar LÍN er því lýst að kærandi hafi sótt um undanþágu frá afborgun sökum þess að hún stundaði lánshæft nám. Hafi beiðni hennar verið synjað en henni bent á að hún gæti óskað úrskurðar stjórnar LÍN innan þriggja mánaða. Þegar kærandi hafi haft samband við LÍN 16. apríl 2012 hafi í svari til hennar verið „ítrekuð“„heimild hennar til að koma að nýjum gögnum“ eða bera synjun sjóðsins á undanþágu frá afborgun undir stjórn sjóðsins innan þriggja mánaða frá dagsetningu synjunarbréfsins og henni sent afrit af bréfinu til upplýsinga. Engin samskipti hafi hins vegar verið skráð við kæranda fram til 3. ágúst s.á er sjóðnum hafi borist beiðni hennar um „endurskoðun á fyrri synjun sjóðins“. Hafi kæranda verið bent á að bera máls sitt undir stjórn. Hafi stjórnin síðan synjað erindi hennar þar sem kærufrestur 27. gr. stjórnsýslulaga hafi verið liðinn. Í viðbótarskýringum stjórnar LÍN er ítrekað að leiðbeiningarskyldu hafi verið sinnt.

Niðurstaða

Í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna segir:

Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.

Nánar er kveðið á um skilyrði undanþágunnar í 7. mgr. 8. gr. en þar segir:

Skuldari, sem sækir um undanþágu skv. 6. mgr., skal leggja sjóðstjórn til þær upplýsingar er stjórnin telur skipta máli. Umsóknin skal berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar.

Í grein 7.5.1. í úthlutunarreglum LÍN 2011-2012 segir: "Sjóðsstjórn er heimilt að veita undanþágu frá afborgun námslána ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar, ummönnunar barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Óvinnufær vegna veikinda telst sá sem hefur rétt til örorkulífeyris skv. skilgreiningu Tryggingastofnunar. Að jafnaði er miðað við að ástæður þær sem valda örðugleikunum hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar"

Í grein 7.5.3. segir m.a. eftirfarandi: „Umsókn um undanþágu frá endurgreiðslu námsláns skal berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar. Hafi ósk um undanþágu ekki borist sjóðnum fyrir þessi tímamörk er óheimilt að veita undanþágu, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um sjóðinn.“

Samkvæmt framangreindu er frestur til að sækja um undanþágu lögbundinn. Hann er 60 dagar skv. 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1002. Stjórn LÍN hefur ekki heimild til að víkja frá fortakslausum ákvæðum laganna nema sérstakar ástæður leiði til þess, svo sem að mistök hafi verið gerð af hálfu LÍN við meðferð máls kæranda eða óviðráðanlegar orsakir hafi verið þess valdandi að kærandi gat ekki sótt um undanþágu eða skilað gögnum innan tilskilins frests.

Að mati málskotsnefndar eru umtalsverðir ágallar á meðferð máls kæranda hjá LÍN og stjórn LÍN þar sem leiðbeiningum til kæranda var áfátt og þær komu of seint. Kærandi hafði í upphafi óskað eftir undanþágu frá afborgun vegna lánshæfs náms. Var þeirri beiðni synjað með lögmætum hætti 22. mars 2012 þar sem kærandi hafði ekki náð tilskyldum námsárangri. Þann 16. apríl 2012, þ.e. tæpum 2 vikum áður en 60 daga frestur til að sækja um undanþágu af öðrum ástæðum sbr. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/2002 rann út, sendir kærandi fyrirspurn til LÍN um hvort henni beri að sækja sérstaklega um ef hún óski eftir undanþágu af öðrum ástæðum en vegna lánshæfs náms, þ.e. vegna veikinda. Kærandi fær hins vegar ekki svar frá LÍN fyrr en eftir að 60 daga umsóknarfrestur skv. 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 var runninn út eða þann 3. maí 2012. Í svarinu er spurningu kæranda um hvort hún þurfi að sækja sérstaklega um undanþágu vegna veikinda í engu svarað. Þess í stað vísaði LÍN til upphaflegrar umsóknar kæranda um undanþágu vegna lánshæfs náms og var henni sagt að hún gæti óskað úrskurðar stjórnar LÍN um þá synjun innan þriggja mánaða. Vísaði LÍN í þessu sambandi til synjunarbréfs sem dagsett var 22. mars 2012. Málskotsnefnd getur ekki fallist á þær skýringar stjórnar LÍN að í umræddum tölvupósti hafi kæranda verið boðið að „koma að nýjum gögnum“ innan þriggja mánaða. Samkvæmt orðanna hljóðan fjallaði tölvupósturinn frá LÍN, og þar með þriggja mánaða frestur sem þar er lýst, aðeins um beiðni um úrskurð stjórnar á fyrri synjun á undanþágu vegna lánshæfs náms en ekki um umsóknarfrest undanþágu vegna veikinda. Verður því ekki séð að LÍN hafi leiðbeint kæranda varðandi umsókn um veikindaundanþágu.

Þá ber einnig til þess að líta að þegar fyrirspurn kæranda barst LÍN hefði starfsmaður með réttu átt að svara henni tímanlega þar sem umsóknarfrestur var að renna út og þá að leiðbeina henni um að henni bæri að sækja sérstaklega um undanþágu frá afborgun vegna veikindanna innan 60 daga m.v. 1. mars 2012. Þrátt fyrir að umsóknarfrestur sé skýrlega tilgreindur í lögum, þá hafði kærandi þegar lagt inn beiðni um undanþágu frá afborgun 1. mars 2012 og gat með réttu verið í vafa um hvort að sækja þyrfti sérstaklega um undanþágu á grundvelli veikinda eða hvort fyrri umsókn myndi gilda um síðari beiðni hennar. Var meðferð LÍN á fyrirspurn kæranda til þess fallin að vekja óvissu um hvaða reglur giltu um slíkar undanþágubeiðnir. Af þessum sökum telur málskotsnefnd rétt að fella úr gildi úrskurð stjórnar LÍN í máli kæranda og leggja fyrir stjórn LÍN að taka til meðferðar umsókn kæranda um undanþágu vegna veikinda.

Þrátt fyrir að framangreint nægi til að fella úr gildi úrskurð stjórnar LÍN í máli kæranda telur málskotsnefnd rétt að fjalla um þá ágalla aðra sem voru á meðferð máls kæranda hjá stjórn LÍN. Í umsókn sinni til LÍN þann 3. ágúst 2012 fer kærandi fram á „endurskoðun“ á synjun um niðurfellingu fastrar afborgunar á grundvelli örorku. Í bréfi kæranda til stjórnar LÍN 20. ágúst 2012 vísar kærandi síðan til þess að hún hafi sótt um undanþágu of seint vegna veikinda. Leggur hún fram vottorð þess efnis frá lækni. Málskotsnefnd bendir á að umsókn kæranda þann 3. ágúst beinist ranglega að því að óska endurskoðunar á fyrri ákvörðun LÍN í málinu enda hafði kærandi fengið rangar upplýsingar í svari LÍN 3. maí 2012, þar sem henni var leiðbeint með að henni bæri að óska úrskurðar stjórnar vegna ákvörðunar LÍN frá 22. mars 2012 um að synja henni um undanþágu vegna lánshæfs náms. Með réttu hefði stjórn LÍN í úrskurði sínum átt að leggja mat á hvort kærandi ætti rétt á undanþágu frá umsóknarfresti sökum veikinda og jafnframt skoða hvort gætt hafi verið að ákvæðum stjórnsýslulaga við meðferð máls hennar. Þess í stað fjallar úrskurður stjórnarinnar um upphaflegu beiðni kæranda sem var vegna lánshæfs náms en minnist í engu á veikindi hennar.

Í úrskurðinum kemur ennfremur fram sú afstaða stjórnar LÍN að kærufrestur skv. 27. gr. stjórnsýslulaga hafi verið liðinn þegar kærandi hafi lagt fram beiðni sína. Af þessu tilefni tekur málskotsnefnd fram að samkvæmt 5. gr. laga nr. 21/1992 er það hlutverk stjórnar að skera úr vafamálum er varða einstaka lánþega og öðrum málum með bókuðum samþykktum. Úrskurðum stjórnar má síðan vísa til málskotsnefndar. Um stjórnsýslukæru er fjallað í 26. og 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga með svohljóðandi hætti:

26. gr. Kæruheimild. Aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.

27. gr. Kærufrestur. Kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg.

Samkvæmt framansögðu er það kæra skv. 27. gr. stjórnsýslulaga þegar stjórnvaldsákvörðun er kærð til æðra stjórnvalds, s.s þegar ákvörðun stjórnar LÍN er skotið til málskotsnefndar. Það er hins vegar ekki stjórnsýslukæra þegar máli innan LÍN, þ.e. innan sama stjórnvalds, er vísað til ákvörðunar stjórnar. Þó svo að LÍN sé heimilt að setja kæranda og öðrum umsækjendum tiltekna tímafresti til að bera mál undir stjórn er ljóst samkvæmt framansögðu að tilvísun til 27. gr. stjórnsýslulaga á ekki við um slíka fresti.

Með vísan til framanritaðs er úrskurður stjórnar LÍN frá 20. september 2012 í máli kæranda felldur úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 20. september 2012 í máli kæranda er felldur úr gildi. 

Til baka