Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-17/2013 - Endurgreiðsla námslána - málinu vísað frá

Úrskurður

Ár 2013, miðvikudaginn 26. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð um frávísun máls L-17/2013: Með kæru sem barst málskotsnefnd 19. apríl 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 13. desember 2012, þar sem beiðni kæranda um endurskoðun á ákvörðun LÍN um endurútreikning gjalddaga var synjað. Málskotsnefnd ritaði kæranda bréf vegna málsins þann 26. apríl 2013 og óskaði skýringa hans á því hvers vegna kæran hefði verið send nefndinni eftir að þriggja mánaða kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var runninn út. Í útskýringum kæranda sem bárust með bréfi dagsettu 12. maí 2013 kemur fram að kærandi hafi talið að honum væru allar dyr lokaðar eftir að hafa fengið úrskurð stjórnar LÍN. Við nánari athugun hefði honum verið bent á að ástæða væri til þess að bera málið undir málskotsnefnd. Kvaðst kærandi því hafa ákveðið að senda kæru til málskotsnefndar þrátt fyrir að meira en þrír mánuðir væru liðnir frá því stjórn LÍN hafi hafnað beiðni hans. Eftir það hefði kærandi síðan lent í kerfisvillu á heimasíðu LÍN við að koma kæru til skila og síðan hafi tekið aðrar tvær vikur að koma kærunni í gegn.

Niðurstaða

Um kærufrest í stjórnsýslumálum fer samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir að kæra skuli "borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg." Eigi er kveðið sérstaklega á um frest í lögum nr. 21/992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og gildir því framangreindur þriggja mánaða frestur um kæru þessa. Í máli þessu liggur fyrir að LÍN tilkynnti kæranda um ákvörðun sína með með bréfi dagsettu 17. desember 2012. Kæran barst málskotsnefnd hins vegar ekki fyrr en þann 19. apríl og hefur kærandi upplýst að hann hafi tekið ákvörðun um að senda kæru eftir að kærufrestur var runninn út. Samkvæmt ofangreindu er kæra sem barst málskotsnefnd 19. apríl 2013 of seint fram borin og ber að vísa henni frá skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nema þær ástæður sem getið er í 28. gr. stjórnsýslulaga séu fyrir hendi en þar segir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema "afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr“"eða "veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar". Kærandi hefur aðspurður vísað til þess að hann hafi talið málið erfitt og að stjórn LÍN hefði betri forsendur fyrir synjun sinni en honum hafi síðar verið tjáð. Af þessu sökum gerði hann ekki reka að því að senda kæruna fyrr en eftir að frestur var liðinn. Málskotsnefnd telur af þessum sökum að ekki hafi verið óviðráðanlegar eða afsakanlega ástæður fyrir því að kærandi sendi kæru sína ekki fyrr en eftir að lögbundinn kærufrestur var liðinn. Við mat á því hvort veigamiklar ástæður mæli með því að taka kæru þessa til meðferðar bendir málskotsnefnd á að í úrskurði stjórnar LÍN í máli kæranda er synjað beiðni hans um endurútreikning á tekjutengdri afborgun með vísan til þess að umsókn hans hafi borist eftir þann lögbundna 60 daga frest sem kveðið er á um í 11. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Það er áskilið í 10. gr. laganna að sé lánþega áætlaður skattstofn skuli miða við hann við útreikning tekjutengdrar afborgunar. Greiðendur hafa síðan samkvæmt 11. gr. laganna 60 daga frest til að leggja fram beiðni um endurútreikning. Í ljósi þeirra skýru lagaákvæða er gilda um frest til að óska endurútreiknings á tekjutengdri afborgun og einstaklingsbundinna hagsmuna kæranda af málinu sem varða útreikning á annarri af tveimur árlegu afborgunum námsláns hans, verður ekki séð að fyrir hendi séu í máli þessu slíkar ástæður sem tilgreindar eru hér að framan og réttlætt gætu undanþágu frá kærufresti. Ber samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa kæru kæranda frá málskotsnefnd.

Úrskurðarorð

Kæru kæranda í máli L-17/2013 er vísað frá málskotsnefnd LÍN.

Til baka