Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-49/2012 - Undanþágur frá afborgun - synjun um undanþágu frá afborgun

Úrskurður

Ár 2013, miðvikudaginn 27. júní kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu 49/2012:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 13. nóvember 2012 sem barst málskotsnefnd sama dag kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 24. september 2012 um að synja kæranda um undanþágu frá greiðslu afborgana námsláns 30. júní 2012 og 1. september 2012. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 15. nóvember 2012 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Stjórn LÍN upplýsti málskotsnefnd um að mál kæranda hefði verið tekið fyrir að nýju hjá stjórn LÍN og var meðferð þess frestað á meðan. Þann 16. apríl 2013 bárust málskotsnefnd upplýsingar frá stjórn LÍN um að stjórnin hefði þann 28. janúar 2013 tekið mál kæranda fyrir að nýju á grundvelli nýrra gagna er sjóðinum hefði borist. Hefði stjórnin samþykkt að veita kæranda undanþágu frá gjalddaga 1. september 2012 en staðfest fyrri synjun hvað varðaði gjalddagann 30. júní 2012. Málskotsnefnd fór þess á leit við stjórn LÍN þann 23. apríl 2013 að stjórnin sendi athugasemdir varðandi þann hluta kærunnar sem varðaði gjalddagann 30. júní 2012. Bárust athugasemdir stjórnar LÍN með bréfi dagsettu 7. maí 2013 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 4. júní 2013.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi fór þess á leit við stjórn LÍN með erindi dagsettu 3. september 2012 að fá undanþágu frá afborgunum ársins 2012 vegna fæðingarorlofs. Hafði kærandi verið í fæðingarorlofi í tæpa tvo mánuði er kom að gjalddaganum 30. júní 2012. Erindi kæranda var synjað með úrskurði stjórnar LÍN þann 20. september 2012 þar sem fyrirliggjandi gögn um fjárhagsstöðu hennar, þ.e. staðgreiðsluyfirlit frá RSK og upplýsingar um fæðingarorlofsgreiðslur, voru ekki talin gefa til kynna að um verulega fjárhagsörðugleika hafi verið að ræða fyrir gjalddagana 30. júní 2012 og 1. september 2012. Kærandi kærði úrskurð stjórnar LÍN til málskotsnefndar þann 13. nóvember 2012. Meðfylgjandi kærunni var greiðsluerfiðleikamat frá Umboðsmanni skuldara (UMS) dagsett. 8. nóvember 2012 þar sem fram kom að kærandi ætti í verulegum greiðsluerfiðleikum. Í gögnum frá UMS kom fram að samkvæmt upplýsingum kæranda væri meginástæða erfiðleika kæranda tekjulækkun vegna fæðingarorlofs. Í kjölfar kærunnar tók stjórn LÍN málið til meðferðar að nýju á grundvelli nýrra gagna um fjárhagsstöðu kæranda sem fylgdu kærunni til málskotsnefndar. Í rökstuðningi stjórnar LÍN kemur fram að almennt sé miðað við að ástæður fjárhagsörðugleikann þurfi að hafa varað í a.m.k. fjóra mánuðu fyrir gjalddaga til þess að skilyrði undanþágu teljist vera fyrir hendi. Með vísan til þess og heildarmats á aðstæðum afturkallaði stjórn LÍN ákvörðun sína í máli kæranda frá 20. september 2012 varðandi gjalddagann 1. september 2012 en staðfesti niðurstöðu varðandi gjalddagann 30. júní 2012. Þegar málskotsnefnd bárust upplýsingar frá stjórn LÍN um niðurstöðu í máli kæranda taldi nefndin rétt að halda áfram meðferð máls kæranda varðandi þann lið kærunnar er varðaði gjaldagann 30. júní 2012.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi segir í kærunni að hún hafi orðið fyrir mikilli tekjuskerðingu og útgjaldaaukingu á árinu, m.a. vegna barneigna og fæðingarorlofs, sem LÍN hafi þó ekki viljað taka tillit til. Kærandi tekur fram að gögnin frá UMS séu ný í málinu og að yfirlýsing um greiðsluerfiðleika frá UMS ætti að vera fullnægjandi rökstuðningur fyrir fjárhagserfiðleikum hennar. Hafi hún ekki óskað eftir þessum gögnum fyrr en að lögfræðingur hjá LÍN hafi bent henni á að gera það. Í athugasemdum kæranda segist hún hafa haft ágæt laun þar til tveimur mánuðum fyrir töku fæðingarorlofs sökum mikillar næturvinnu. Segir hún skýrslu UMS þó sýna að hún hafi verið komin í greiðsluvanda á þessum tíma. Einnig hafi hún gengið í gegnum skilnað stuttu áður og hafi þurft að leita sér að húsnæði með tilheyrandi kostnaði. Fer hún þess á leit að tekið verði tillit til þessa við meðferð málsins vegna gjalddagans 1. mars 2012.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

Í athugasemdum stjórnar LÍN vegna kærunnar kemur fram að kæranda hafi eignast barn í byrjun maí 2012 og hafi því verið í fæðingarorlofi í tvo mánuði þegar kom að greiðslu á gjalddaganum 30. júní 2012. Heildartekjur kæranda á árinu 2011 hafi verið um 5,8 mkr. og meðaltekjur u.þ.b. 484 þúsund krónur á mánuði það ár. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluyfirliti hafi tekjur kæranda síðustu fjóra mánuði fyrir gjalddagann verið um 450 þúsund krónur. Hafi því fæðingarorlof hennar haft lítil sem engin áhrif á fjárhagsstöðu kæranda síðustu mánuðina fyrir gjalddagann 30. júní 2012. Heildartekjur kæranda á árinu 2012 hafi verið um 4,7 mkr. þar af hafi tekjurnar fyrstu 6 mánuðina verið um 2,6 mkr. Stjórn LÍN telur að hin nýju gögn frá umboðsmanni skuldara breyti ekki neinu varðandi mat á aðstæðum kæranda vegna gjalddagans 30. júní 2012 en að sýnt hafi verið fram á greiðsluerfiðleika á tímabilinu fyrir gjalddagann 1. september 2012.

Niðurstaða

Í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna kemur fram að:

Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.

Í úthlutunarreglum LÍN 2011-2012 og 2012-2013 segir eftirfarandi um veitingu undanþágu vegna fjárhagsörðugleika sem komnir eru til vegna veikinda, þungunar o. þ. h. :

7.5.1 Undanþága vegna verulegra fjárhagsörðugleika Sjóðsstjórn er heimilt að veita undanþágu frá afborgun námslána ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar eða umönnunar barna, umönnunar maka eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Óvinnufær vegna veikinda telst sá sem hefur rétt til örorkulífeyris skv. skilgreiningu Tryggingastofnunar. Að jafnaði er miðað við að ástæður þær sem valda örðugleikunum hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar.

Eins og fram kemur að ofan er miðað við að ástæður þær er valdið hafa fjárhagsörðugleikum hafi varað að jafnaði í fjóra mánuði fyrir gjalddaga þeirrar afborgunar sem undanþágu er óskað frá. Málskotsnefnd hefur áður bent á í máli L-32/2009 að taka beri mið af aðstæðum hverju sinni og veita undanþágu ef auðsýnt þykir að aðstæður greiðanda séu með þeim hætti að hann sé í verulegum fjárhagsörðugleikum sem rekja megi til þeirra atvika sem minnst er á í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992, þrátt fyrir að tekjulækkun sé ekki viðvarandi nákvæmlega í fjóra mánuði fyrir gjalddaga, heldur á öðrum tíma ársins. Í fyrirliggjandi gögnum kemur fram að tekjur kæranda lækkuðu nokkuð þegar hún fór í fæðingarorlof. Voru meðaltekjur kæranda 484 þúsund krónur á árinu 2011. Meðaltekjur hennar höfðu lækkað í rúm 450 þúsund krónur á fjögurra mánaða tímabilinu fyrir afborgun 30. júní 2012 og síðan í rúm 390 þúsund krónur vegna fjögurra mánaða tímabilsins fyrir gjalddagann 1. september 2012. Í gögnum frá UMS kemur fram að fjárhagsstaða kæranda, miðað við stöðuna í nóvember 2012, er sú að ráðstöfunartekjur hennar eru rúmar 236 þúsund á mánuði. en að þær muni aukast aftur þegar kærandi lýkur fæðingarorlofi sínu í byrjun nóvember 2012. Einnig kemur fram í gögnum frá UMS að kærandi á í viðvarandi fjárhagsörðugleikum sem rekja má til skuldbindinga vegna fasteigna. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að þeir örðugleikar hafi komið til af þeim ástæðum sem tilgreindar eru í 8. gr. laga nr. 21/1992. Málskotsnefnd telur það málefnalegt að miða við að fjárhagsörðugleikar þurfi að hafa staðið yfir í tiltekinn tíma fyrir gjalddaga og þannig ekki ósanngjarnt að miða við að greiðendur þurfi að gera ráðstafanir í tíma þegar þeir sjá fram á að tekjur þeirra lækki á tilteknu tímabili. Ekki liggja fyrir frekari gögn sem benda til þess að kærandi hafi orðið fyrir verulegri kjaraskerðingu umfram það sem að ofan greinir og rekja má til atvika sambærilegum þeim sem tilgreind eru í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. Með vísan til framaritaðs verður að fallast á það mat stjórnar LÍN að ekki er sýnt að kærandi hafi átt í verulegum fjárhagsörðugleikum fyrir gjalddagann 30. júní 2012 sökum þeirra atvika sem lýst er í 8. gr. laga nr. 21/1992. Er það niðurstaða málskotsnefndar að staðfesta beri niðurstöðu stjórnar LÍN í máli kæranda frá 20. september 2012 eins og honum var breytt með úrskurði stjórnar LÍN frá 28. janúar 2013.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 20. september 2012 í máli kæranda er staðfestur. 

Til baka