Úrskurður
Ár 2003, þriðjudaginn 8. júlí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-4/2003:
Kæruefni
Með kæru dags. 25. apríl 2003 kærði kærandi úrskurð stjórnar
LÍN í málinu nr. I-11/03, þar sem hafnað var kröfu kæranda um niðurfellingu
námslánaskulda hans á þeim grundvelli að skv. lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð
íslenskra námsmanna, er ekki heimilt að fella niður námslán nema við andlát
greiðanda.
Stjórn LÍN var með bréfi dags. 30. apríl 2003 tilkynnt um
kæruna og gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna hennar. Svarbréf
stjórnar LÍN er dags. 6. maí 2003. Kæranda var með bréfi dags. 7. maí gefinn
kostur á að koma að frekari sjónarmiðum í málinu. Engin frekari bréf bárust frá
kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi hefur óskað eftir niðurfellingu námslánaskulda sinna
þar sem hann er öryrki. Kærandi skuldar svokallað R-lán, samtals um kr.
1.100.000- fyrir utan dráttarvexti og áfallinn innheimtukostnað. Stjórn LÍN
bendir í hinum kærða úrskurði á að skv. gr. 7.4.3. í úthlutunarreglum LÍN skuli
umsókn um frestun á endrugreiðslu námsláns berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum
eftir gjalddaga afborgunar. Stjórn LÍN kveður kæranda hafa fengið sendan
greiðsluseðil í febrúar 2000 vegna gjalddagans 1. mars 2000 og ítrekun í mars
2000. Kærandi hafi þá haft samband við sjóðinn og í framhaldinu hafi ekki
frekari ítrekanir verið sendar vegna mars gjalddagans, en greiðsla hafi ekki
borist. Kæranda var einnig sendur greiðsluseðill í ágúst vegna gjalddaga 1.
september 2000 og ítrekanir í september og nóvember 2000. Kærandi mun ekki hafa
haft samband við sjóðinn vegna þessara gjaldföllnu afborgana og því hafi
gjalddagar ársins 2000 verið sendir í lögfræðiinnheimtu í janúar 2001. Kærandi
mun næst hafa haft samband við sjóðinn í júní 2002, en þá hafi honum verið veitt
heimild til að skuldbreyta vanskilunum, en þá heimild hafi hann ekki nýtt sér. Á
grundvelli framangreinds synjaði stjórn LÍN erindi kæranda frá 9. desember 2002
um undanþágu frá endrugreiðslu námslána á gjalddaga 1. mars 2000, 1. september
2000, 1. mars 2001 og 1. mars 2002. Kæranda var jafnframt synjað um
niðurfellingu námslána með vísan til þess að heimild skorti til slíks í lögum
nr. 21/1992 um LÍN nema við andlát greiðanda.
Kærandi óskar eftir
niðurfellingu á námslánaskuldum sínum vegna skertrar starfsorku hans sökum
fötlunar. Kærandi kveður málskotsnefnd LÍN nýlega hafa kveðið upp úrskurð í máli
Jóhannesar Davíðssonar, mál L-21/1999, þar sem skuldir hans við sjóðinn hafi
verið felldar niður. Telur kærandi að með þeim úrskurði sé komið fordæmi sem
beita beri í hans máli sökum þess hversu málin eru áþekk að efni til.
Niðurstaða
Í gr. 7.4.3. í úthlutunarreglum LÍN eru ákvæði sem heimila
lánþegum að óska eftir frestun eða niðurfellingu á endurgreiðslu námsláns með
útfyllingu á þar til gerðum eyðublöðum. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að
umsókn um frest á endurgreiðslu námsláns skuli berast sjóðnum eigi síðar en 60
dögum eftir gjalddaga afborgunar. Hafi ósk um frestun ekki borist sjóðnum fyrir
þessi tímamörk sé óheimilt að fresta afborguninni. Á grundvelli framangreindrar
greinar í úthlutunarreglum LÍN var beiðni kæranda um frestun á endrugreiðslu
námsláns hafnað. Þá var kveðið á um það í hinum kærða úrskurði að skv. lögum nr.
21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna sé ekki heimilt að fella niður námslán,
nema við andlát greiðanda. Af þeim sökum var erindi kæranda um niðurfellingu
námslánsins einnig hafnað.
Í 6. og 7. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um
Lánasjóð íslenskra námsmanna eru svohljóðandi ákvæði:
"Stjórn
sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr. að
hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum
skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til
muna ráðstöfunarfé hans og möguleika á að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn
fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám,
atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður
valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.
Skuldari, sem sækir um undanþágu skv. 6. mgr., skal leggja fyrir
sjóðstjórn ítarlegar upplýsingar um eignir sínar, lífeyri og önnur atriði er
stjórnin telur máli skipta."
Efnislega sambærilega grein er að finna
í 10. gr. reglugerðar nr. 602/1997 um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
Skv.
framangreindum ákvæðum í lögum LÍN er ekki að finna heimild til handa stjórn LÍN
til að setja íþyngjandi ákvæði í úthlutunarreglur í tengslum við undanþágur eins
og gert hefur verið með framangreindri 60 daga reglu í gr. 7.4.3. í núgildandi
úthlutunarreglum. Viðkomandi lánþegi sem sækir um undanþágu frá endurgreiðslu
lána á grundvelli framangreindrar lagaheimildar á að geta treyst því að umsókn
hans fái efnislega umfjöllun hjá stjórn LÍN, en sé ekki hafnað vegna þess eins
að formskilyrðum í úthlutunarreglum, sem ekki eiga sér sér stoð í lögum um
sjóðinn, séu ekki uppfyllt. Þá byggir niðurstaða stjórnar LÍN á synjun um
niðufellingu námsláns kæranda á efnislega röngum forsendum þar sem í lögum um
LÍN er ekki að finna ákvæði sem segir að ekki sé heimilt að falla niður námslán,
nema við andlát greiðanda, svo sem haldið er fram í hinum kærða úrskurði.
Með vísan til framangreinds þykir rétt og stjórn LÍN taki umsókn kæranda
til efnislegrar meðferðar að nýju og kveði upp nýjan úrskurð í málinu eftir að
viðhlýtandi stjórnsýslurannsókn á högum kæranda hefur farið fram. Hinn kærði
úrskurður er því felldur úr gildi.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í málinu nr. I-11/03 er felldur úr gildi.