Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-05/2013 - Undanþágur frá afborgun - synjun um undanþágu frá afborgun

Úrskurður

Ár 2013, miðvikudaginn 10. júlí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. L-5/2013:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 11. febrúar 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 13. nóvember 2012 þar sem hafnað var beiðni hennar um að undanþágu frá endurgreiðslu námsláns. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 11. febrúar 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN bárust 7. mars 2013 og var afrit þess sent kæranda og honum gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum sem bárust nefndinni 18. apríl 2013.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi er lántakandi hjá LÍN og hefur hafið endurgreiðslu lána sinna. Kærandi er rúmlega 69 ára gömul og hefur verið óvinnufær frá 2005. Hún var metin með varanlega örorku vegna slitgigtar og fleiri sjúkdóma á árinu 2008 og í málinu liggur fyrir örorkumat frá Tryggingarstofnun ríkisins þar sem gildistíminn er frá 1. mars 2009 og er sagður varanlegur. Kærandi sótti um undanþágu frá endurgreiðslu námslána sinna vegna gjalddagans 1. mars 2012. Var umsóknin samþykkt af hálfu LÍN. Í bréfi LÍN til kæranda í kjölfarið á afgreiðslu þeirrar undanþágubeiðni kom fram að ekki yrðu samþykktar frekari umsóknir um undanþágu frá afborgun vegna örorku og/eða veikinda. Gaf LÍN upp að ástæður þess að undanþágan (vegna gjalddaga í mars 2012) hafi verið samþykkt hafi verið sú að kæranda hafði ekki verið tilkynnt að hún ætti ekki lengur rétt á henni og var því með ívilnandi hætti látin njóta vafans. Kærandi sótti aftur um undanþágu frá endurgreiðslu námslána haustið 2013. Með úrskurði stjórnar LÍN frá 13. nóvember 2012 var beiðni hennar hafnað á grundvelli þess að skilyrði 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN væri ekki uppfyllt.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi vísar til þess að niðurstaða stjórnar LÍN byggi á því að hún uppfylli ekki skilyrði greinar 7.5.1 í úthlutunarreglum LÍN sem byggi á heimild í 16. gr. laga nr. 21/1992. Kærandi bendir á að í úthlutunarreglum LÍN sé kveðið á um að til að unnt sé að veita undanþágu frá endurgreiðslu þá þurfi að uppfylla ákvæði 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 sem kveði á um rétt til örorkulífeyris, en þar segi m.a. að þeir einir eigi rétt til örorkulífeyris sem séu á aldrinum 18-67 ára. Í úrskurði LÍN segi að þar sem kærandi sé nú orðin 68 ára þá uppfylli hún ekki skilyrði greinar 7.5.1 í úthlutunarreglum LÍN. Kærandi byggir á því að samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 megi veita undanþágu frá endurgreiðslu ef m.a. sé um veikindi að ræða. Hvergi sé þess getið í lögunum, né í greinargerð þeirra með vísan til eldri laga, eða í reglugerð nr. 478/2011 um framkvæmd laganna, að heimilt sé að takmarka heimild til endurgreiðslu á grundvelli aldurs lánþega. Í lögunum sé einungis gert það skilyrði að sýnt sé fram á veikindi. Kærandi telur að ákvæði úthlutunarreglna LÍN um að taka mið af 18. gr. laga nr. 100/2007 um almennar tryggingar sé sett til viðmiðunar um alvarleika veikinda til auðvelda skilgreiningu á veikindum og hafi því ekkert með aðrar formkröfur til örorkulífeyris að gera. Aldursviðmið 18. gr. laganna geti því ekki haft efnisleg áhrif á rétt til undanþágu um endurgreiðslu. Þá bendir kærandi á að samkvæmt 16. gr. laga 21/1992 sé kveðið á um að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna og jafnframt sé heimild fyrir stjórn LÍN til að setja nánari útfærslur í reglur. Hins vegar verði, bæði reglugerðin og reglurnar, að hafa efnislega stoð í lögunum og því sé stjórninni óheimilt að taka sér vald með setningu reglna sem þrengja heimild til undanþágu á endurgreiðslu sem ekki eigi sér stoð í lögum. Skipti hér engu hvort ráðherra staðfesti umræddar reglur. Einnig bendir kærandi á að ákvæði greinar 7.5.1 úthlutunarreglan LÍN um aldursviðmið sé íþyngjandi regla sem eigi sér enga stoð, hvorki í lögum nr. 21/1992 né í reglugerð nr. 478/2011. Reglurnar takmarki því með ólögmætum hætti heimildarákvæði um undanþágu frá endurgreiðslu og sé því stjórn sjóðsins óheimilt að byggja ákvarðanir sínar á reglum sem eiga sér ekki efnislega stoð í lögum. Kærandi bendir á að við meðferð málsins fyrir kærunefnd hafi komi fram ný rök af hálfu LÍN sem byggi á því að kærandi uppfylli ekki skilyrði um fjárhagsörðugleika og því sé ekki forsenda fyrir niðurfellingu endurgreiðslu. Kærandi telur að hér sé um nýja málsástæðu að ræða af hálfu LÍN sem sé of seint fram komin og ekki eigi að taka tillit til af hálfu kærunefndar. Kærandi bendir þó að staða kæranda sé óbreytt frá fyrra ári og uppfylli hún bæði skilyrði laganna um veikindi og fjárhagslega örðugleika. Tekjur kæranda hafi ekkert breyst frá því að hún fékk niðurfellingu síðast og staða hennar því eins og hún var. Í yfirliti yfir tekjur hennar vegna ársins 2011 og 2012 komi fram að tekjur vegna 2011 voru kr. 2.823.466 en vegna ársins 2012 kr. 2.842.126.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

LÍN bendir á að kærandi hafi óskað eftir undanþágu frá afborgun vegna örorku. Henni hafi verið synjað á grundvelli þess að hún uppfyllti ekki skilyrði 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN. LÍN byggir á því að í greininni komi fram þau skilyrði sem greiðandi þurfi að uppfylla til að stjórn sjóðsins sé heimilt að veita undanþágu frá endurgreiðslu námslána. Þar komi fram að heimilt sé að veita undanþágu frá ársgreiðslu ef lánshæft nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Í grein 7.5.1 í úthlutunarreglum LÍN sé þessi grein síðan útfærð en þar komi fram að óvinnufær vegna veikinda teljist sá sem eigi rétt til örorkulífeyris samkvæmt skilgreiningu Tryggingastofnunar ríkisins. LÍN bendir á að samkvæmt framangreindri lagagrein þurfi bæði skilyrðin að vera uppfyllt, þ.e. að um verulega fjárhagsörðugleika sé að ræða og að þeir örðugleikar séu til komnir vegna einhverra þeirra atriða sem talin séu upp, m.a. óvinnufærni vegna veikinda samkvæmt skilgreiningu Tryggingastofnunar. Samkvæmt skilgreiningu Tryggingastofnunar eigi einungis þeir sem séu á aldrinum 18-67 ára rétt til örorkulífeyris, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. LÍN bendir á að við 67 ára aldur myndist réttur til ellilífeyris fyrir þá sem séu 67 ára eða eldri og hafi verið búsettir hér á landi í a.m.k. þrjú almanaksár frá 16-67 ára aldurs. Á sama tíma falli niður réttur til örorkulífeyris. LÍN bendir á að ellilífeyrir sé greiddur án tillits til vinnufærni einstaklinga og því hafi örorka og veikindi ekki áhrif á tekjuöflunarmöguleika einstaklinga sem fái tekjur sínar í formi ellilífeyris og hafi þ.a.l. ekki áhrif á fjárhagsstöðu fólks með beinum hætti. Aldursviðmið ákvæða laga nr. 100/2007 um almannatryggingar hafi því ekki með efnislegum hætti áhrif á rétt einstaklinga til undanþágu heldur séu notuð til skýringa. Þá vísar LÍN til þess að sjóðnum beri að gæta jafnræðis í úrlausn sinna mála og geti ekki mismunað greiðendum námslána sem fái tekjur sínar greiddar án tillits til veikinda og uppfylla þar af leiðandi ekki skilyrði 6. mgr. 8. gr. laga um LÍN um að fjárhagsörðugleikarnir séu til komnir vegna þeirra atriða sem talin séu upp í ákvæðinu. Kæranda hafi verið synjað um undanþágu frá afborgun þar sem ekki þótti sýnt fram á að fjárhagslegir örðugleikar hennar séu til komnir vegna örorku hennar. Vegna þess sem sem fram kemur í kæru um að kærandi hafi fengið undanþágu þrátt fyrir að vera orðin 68 ára vegna gjalddagans í mars 2012 bendir LÍN á að sjóðurinn hafi sent kæranda bréf í kjölfar þess að umsókn hennar um undanþágu hafi verið samþykkt. Í því hafi komið skýrt fram að kærandi væri ekki talin uppfylla skilyrði undanþágu frá afborgun og að stjórn LÍN myndi því ekki samþykkja frekari umsóknir um undanþágu frá afborgun vegna örorku og/eða veikinda. Ástæður þess að undanþágan var samþykkt hafi verið sú að að kæranda hafi ekki verið tilkynnt um að hún ætti ekki lengur rétt á undanþágu frá afborgun og hún hafi því með ívilnandi hætti verið látin njóta vafans. Stjórn sjóðsins hefur almennt talið sér heimilt að veita lántökum ívilnandi undanþágur frá ákvæðum einstakra greina úthlutunarrreglna, enda sé gætt jafnræðis og samræmis á milli allra lántakenda.

Niðurstaða

Í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN) segir:

Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.

Nánar er kveðið á um skilyrði undanþágunnar í 7. mgr. 8. gr. laganna en þar segir m.a. að skuldari sem sækir um undanþágu samkvæmt 6. mgr., skuli leggja sjóðstjórn til þær upplýsingar er stjórnin telur skipta máli. Ofangreind ákvæði eru nánast samhljóða ákvæðum 5. og 6. mgr. 8. gr. laga nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki sem voru undanfari laga nr. 21/1992. Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins sem urðu að lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna kemur fram að ákvæðið um heimild stjórnar til að veita undanþágu frá afborgunum eru óbreytt. Í lögskýringargögnum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 70/1982 um námslán og námsstyrki segir m.a.:

"Stjórn Lánasjóðs er veitt heimild til þess að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu. Mjög ríkar ástæður verða að vera fyrir hendi, svo sem alvarleg veikindi eða slys, til þess að veita megi undanþágu frá hlutfallsgreiðslunni. Hins vegar er heimild til undanþágu frá föstu greiðslunni mun rýmri, þótt ófrávíkjanlegt skilyrði sé að tilteknar ástæður valdi "verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans". Undanþágu má veita að hluta eða öllu leyti, allt eftir atvikum hverju sinni. Sé undanþága veitt frestar það einungis hlutaðeigandi greiðslu en kemur ekki í veg fyrir að lán greiðist að fullu til baka. ..."

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992 er ráðherra heimilt að setja í reglugerð frekari ákvæði um framkvæmd laganna. Þá kemur fram í 2. mgr. greinarinnar að sjóðstjórn setur reglur um önnur atriði er greinir í lögunum og reglugerð samkvæmt 1. mgr. Í 13. gr. reglugerðar nr. 478/2011, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 21/1992, er 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 nánast tekin orðrétt upp en í lok greinarinnar segir að sjóðstjórn setji nánari almennar reglur um framkvæmd þessa heimildarákvæðis. Úthlutunarreglur LÍN eru almennar reglur sem settar eru af stjórn LÍN með heimild í framangreindum lögum og reglugerð. Grein 7.5.1 í úthlutunarreglunum fyrir skólaárið 2012-2013 fjallar um undanþágu vegna verulegra fjárhagsörðugleika og er svohljóðandi:

Sjóðsstjórn er heimilt að veita undanþágu frá afborgun námslána ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda, þungunar eða umönnunar barna, umönnunar maka eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Óvinnufær vegna veikinda telst sá sem hefur rétt til örorkulífeyris skv. skilgreiningu Tryggingastofnunar. Að jafnaði er miðað við að ástæður þær sem valda örðugleikunum hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar.

Það að óvinnufærni vegna veikinda skuli miðast við örorkulífeyri samkvæmt skilgreiningu Tryggingarstofnunar ríkisins var bætt inn í úthlutunarreglurnar 2010-2011. Í þeirri skilgreiningu kemur m.a. fram að rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi í ákveðinn tíma, eru á aldrinum 18 til 67 ára og eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Í 8. gr. laga nr. 21/1992 er komið til móts við tekjulága einstaklinga við endurgreiðslu námlána þar sem önnur af árlegum endurgreiðslum námsláns er miðuð við tekjur viðkomandi á undanliðnu ári, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. Ákvæði 6. mgr. 8. gr. laganna er svo sérákvæði sem á við þegar skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara í þeim tilvikum sem tilgreind eru í málsgreininni. Af lagaákvæðinu er ljóst að undanþága verður ekki eingöngu veitt vegna lágra tekna, heldur þarf einnig að vera fyrir hendi einhver af þeim ástæðum sem þar eru taldar upp eða sambærilegar ástæður. Af framangreindum lagagreinum og lögskýringargögnum er ljóst að sjóðsstjórn LÍN er heimilt að veita undanþágu frá afborgun námslána að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í lagaákvæðinu. Einnig er ljóst að stjórn LÍN er heimilt að setja sér nánari reglur um framkvæmd lagaákvæðisins í úthlutunarreglum sínum. Eins og áður hefur komið fram í niðurstöðum málskotsnefndar, sbr. t.d. mál nr. L-32/2009, ber við mat á því hvort samþykkja eigi undanþágu frá endurgreiðslu að taka mið af aðstæðum hverju sinni og veita undanþágu ef auðsýnt þykir að aðstæður greiðanda séu með þeim hætti að hann sé í verulegum fjárhagsörðugleikum sem rekja má til þeirra atvika sem tiltekin eru í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 eða sambærilegra ástæðna. Orðalag greinarinnar gefur svigrúm til mats á því hvort ákvæðið eigi við og telur málskotsnefnd að við það mat verði að horfa á heildarmynd aðstæðna hverju sinni. Það að LÍN hefur sett sér almenn viðmið í úthlutunarreglum sínum undanþiggur LÍN ekki framangreindu mati. Kærandi er sjúklingur sem fór á örorkulífeyri árið 2005 og hefur ekki verið á vinnumarkaði vegna veikinda sinna síðan. Hún hefur notið lífeyrisgreiðslna frá Tryggingarstofnun ríkisins á grundvelli örorku sinnar undanfarin ár en við 67 ára aldurinn öðlaðist hún rétt til ellilífeyris og frá þeim tíma féll réttur hennar til greiðslu örorkulífeyris niður. Að mati málskotsnefndar kölluðu framangreindar breytingar á greiðslu lífeyris hennar við 67 ára aldurinn á sérstaka skoðun LÍN á aðstæðum kæranda þar sem augljóst er að viðmiðið í úthlutunarreglum LÍN átti ekki lengur við um tilvik kæranda. Að mati málskotsnefndar liggja fyrir veikindi kæranda og óvinnufærni vegna þeirra á árinu 2012 og er því skilyrði ákvæðisins uppfyllt að þessu leyti. Málskotsnefndin telur að það skipti ekki máli í þessu sambandi að kærandi er orðin 67 ára og hefur hafið töku ellilífeyris í stað örorkulífeyris. Einstaklingar, 67 ára og eldri, geta sótt um undanþágu á grundvelli fjárhagserfiðleika vegna veikinda eins og aðrir. Þá telur málskotsnefndin einnig að tekjuleysi sökum þess að einstaklingur er kominn á ellilífeyri og hefur ekki möguleika á að vera á vinnumarkaði, þó það stafi ekki af veikindum, geti flokkast undir sambærilegar ástæður samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992. Stendur þá eftir að meta hvort skilyrði ákvæðisins um fjárhagsörðugleika kæranda séu fyrir hendi þannig að rétt sé að fallast á að veita undanþágu frá endurgreiðslu námsláns vegna ársins 2012. Stjórn LÍN hefur í fyrri málum fyrir nefndinni upplýst að við mat á því hvort um verulega fjárhagsörðugleika sé að ræða sé m.a. miðað við að tekjur séu undir kr. 4.000.000, en það mun vera meðaltal af árstekjum lánþega sem tilheyra Bandalagi háskólamanna. Málskotsnefnd telur rétt að leggja framangreint viðmið til grundvallar í þessu máli en fyrir liggur að tekjur kæranda fyrir árin 2011 og 2012 eru langt undir framangreindu viðmiði. Er því fallist á það með kæranda að skilyrði 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1993 um verulega fjárhagsörðugleika sé uppfyllt. Með vísan til framanritaðs telur málskotsnefndin rétt að beiðni kæranda um undanþágu verði tekin til meðferðar á ný hjá stjórn LÍN. Er hin kærða niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 13. nóvember 2012 í máli kæranda felld úr gildi.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 13. nóvember 2012 í máli kæranda er felldur úr gildi. 

Til baka