Úrskurður
Ár 2013, miðvikudaginn 10. júlí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-11/2013:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 11. mars 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 15. febrúar 2013 þar sem hafnað var beiðni kæranda um námslán vegna tungumálanáms Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu þann 14. mars 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Stjórn LÍN sendi málskostnefnd athugasemdir við kæruna með bréfi dagsettu 8. apríl 2013 og var afrit þess sent kæranda með bréfi 15. sama mánaðar, en þar var kæranda jafnframt gefinn 4 vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundar nám við Business Academy South West (EASV) í
Danmörku og stefnir að BS gráðu í viðskiptum og sölu. Það er liður í náminu að
stunda þriggja mánaða 15 ECTS starfsnám hjá fyrirtæki í alþjóðlegum viðskiptum
hvort heldur í Danmörku eða í öðru ríki. Um er að ræða launalausa stöðu og þurfa
nemendur að kosta ferðir og uppihald. Kæranda hefur boðist slík staða hjá
fyrirtæki í Argentínu. Sem lið í undirbúningi hans fyrir starfsnámið mun kærandi
stunda spænskunám þar í landi sumarið 2013. Fór hann þess á leit við LÍN að fá
námslán vegna þessa. Segir í umsóknarbréfi hans til stjórnar LÍN að það sé
skilyrt að hann fari til Argentínu í spænskuskóla í byrjun júlí í tveggja mánaða
spænskuskóla en að námið/lærlingsstaðan taki um fimm mánuði alls. Leitaði
kærandi eftir því við stjórn LÍN að fá ferðastyrk og sumarlán. Stjórn LÍN
synjaði beiðni kæranda með úrskurði þess efnis þann 15. febrúar 2013. Kemur fram
í rökstuðningi LÍN að heimilt sé að lána vegna tungumálanáms til undirbúnings
öðru námi í tilteknum tilvikum, sbr. grein 1.3.4 í úthlutunarreglum LÍN, en
slíkt eigi ekki við í tilviki kæranda því ekki liggi fyrir að kærandi stundi
lánshæft nám í Argentínu á haustmisseri 2013.
Sjónarmið kæranda.
Í kæru til málskotsnefndar segir kærandi að synjunin sé á misskilningi
byggð. Hann sé ekki að fara út í sérstakt tungumálanám þess eins vegna, heldur
sé um að ræða skilyrði sem honum hafi verið gert að uppfylla til að geta tekist
á hendur umrætt starfsnám sem sé hluti af almennu námi hans og eigi að verða
efni lokaritgerðar hans. Spænskunámið sé fullt, skipulagt og formlegt nám sem
krefjist fullra 4-5 daga vikulega í skólanum. Kveður kærandi að með synjun sinni
sé LÍN í raun vera að loka fyrir það að hann geti klárað skólann.
Sjónarmið stjórnar LÍN.
Stjórn LÍN fer fram á að
úrskurður hennar frá 15. febrúar 2013 verði staðfestur. Bendir LÍN á að nemendur
eigi val um það hvort þeir stundi starfsnámið í Danmörku eða í öðru landi.
Stjórn LÍN vísar til þess að sett hafi verið skilyrði í úthlutunarreglum LÍN um
í hvaða tilvikum sé lánað vegna tungumálanáms. Fram komi í grein 1.3.4 að
heimilt sé að veita slík lán við útlendingadeildir háskóla ef slíkt sé
undirbúningur undir nám þar í landi þar sem annað tungumál en enska eða
Norðurlandamál (annað en finnska) sé talað. Að auki sé lánshæfi slíks
undirbúningsnáms háð því að um sé að ræða a.m.k. tveggja mánaða skipulagt nám
sem talist geti nægjanlega veigamikið að því er varðar eðli og uppbyggingu að
mati stjórnar LÍN (a.m.k. 15 kennslustundir á viku). Áður en lán vegna
undirbúingsnáms sé afgreitt að fullu þurfi að liggja fyrir staðfesting á
inngöngu í fagnám. Bendir stjórn LÍN á að engin fordæmi séu fyrir því að lánað
sé vegna tungumálanáms sem sé hluti undirbúnings í þriðja landi þegar aðeins sé
um eina önn að ræða. Sé m.a. lánað vegna undirbúnings skiptináms ef um formlegt
skiptinám sé að ræða. Kærandi muni hins vegar ekki stunda lánshæft nám í landinu
á haustmisseri þar sem starfsnámið sé einungis 15 ECTS einingar. Hafi stjórn LÍN
þess vegna synjað beiðni kæranda.
Niðurstaða
Í grein 1.3.4 í úthlutunarreglum LÍN vegna námsárins 2012-2013
segir eftirfarandi um tungumálanám sem undirbúningsnám:
Heimilt er að
veita lán til tungumálanáms við útlendingadeildir háskóla ef það er
undirbúningur undir nám í landi þar sem annað tungumál en enska eða
Norðurlandamál (annað en finnska) er talað. Heimilt er að líta á undirbúningsnám
í tungumálum sem nám á framhaldsháskólastigi, sbr. gr. 2.3.1 hafi námsmaður
lokið grunnháskólanámi og hyggist stunda framhaldsháskólanám í sömu grein.
Það nám sem kærandi mun stunda í Argentínu er ekki lánshæft eitt og sér
þar sem það er aðeins 15 ECTS einingar og því einungis lítill hluti af
skipulögðu lánshæfu námi sem kærandi stundar í Danmörku. Getur kærandi því ekki
byggt rétt sinn til láns vegna slíks undirbúningsnáms á grein 1.3.4 í
úthlutunarreglum LÍN. Þess ber einnig að geta að kærandi á val um það hvort hann
stundar starfsnám í Danmörku eða í öðru landi. Þær kröfur sem gerðar eru af
háskólanum í Danmörku lúta eingöngu að því að kæranda sé skylt að stunda 15 ECTS
eininga starfsnám í þrjá mánuði. Hvergi er gert að skilyrði að stundað sé
tveggja mánaða tungumálanám til að standast umræddan áfanga. Þær kröfur koma
einungis fram hjá skipuleggjanda starfsnámsins í Argentínu. Með 3. gr. laga nr.
21/1992 um lánasjóð íslenskra námsmanna er það stjórn LÍN sem er falið að setja
nánari ákvæði um úthlutun námslána. Þau skilyrði sem stjórn LÍN hefur sett með
úthlutunarreglunum um veitingu námslána til tungumálanáms miða að því að
nemendur geti undirbúið sig fyrir lánshæft nám í því ríki þar sem þeir munu
aðallega stunda viðkomandi nám, en ekki vegna undirbúnings tiltekinna áfanga sem
námsmenn velja að stunda í öðrum ríkjum en þar sem hið lánshæfa nám er stundað.
Ekki verður séð að slík skilyrði gangi gegn ákvæðum laga nr. 21/1992 eða
reglugerð um LÍN nr. 478/2011. Þar sem kærandi hyggst eingöngu stunda 15 ECTS
eininga nám í Argentínu á haustönn 2013 er það niðurstaða málskotsnefndar að
ákvörðun stjórnar LÍN um að synja beiðni kæranda hafi verið í samræmi við lög og
reglur sem gilda um starfssemi sjóðsins og beri því að staðfesta hinn kærða
úrskurðar stjórnar LÍN frá 15.febrúar 2013.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður frá 15. febrúar 2013 í máli kæranda er staðfestur.