Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-19/2013 - Umsóknarfrestur og útborgun Beiðni um frestun á lokun skuldabréfs

Úrskurður

 

Ár 2013, miðvikudaginn 10. júlí kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu 19/2013:

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 24. apríl 2013 sem barst málskotsnefnd sama dag kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 17. janúar 2013 um að synja kæranda um frestun á lokun skuldabréfs. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 29. apríl 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN í máli kæranda bárust með bréfi dagsettu 22. maí 2013 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 12. júní 2013. Var afrit þeirra sent stjórn LÍN.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundaði nám og fékk námslán hjá LÍN. Með bréfi LÍN dagsettu 24. október 2012 var kæranda tilkynnt um að skuldabréfi vegna námsins yrði lokað en samkvæmt reglum LÍN væri hægt að sækja um frestun á lokun skuldabréfs. Segir orðrétt í bréfi LÍN til kæranda: 

"Sækja verður um frest eða breytingu á lokunardegi skuldabréfsins með þar til gerðri umsókn hjá sjóðnum. Hægt er að nálgast umsóknina á "Mitt svæði" hjá LÍN í gegnum heimabanka eða eyðublað til útfyllingar á skrifstofu sjóðsins. Þú hefur frest til 01.12.2012 til að sækja um að lokun skuldabréfs verði frestað.

Kærandi sótti um frestun skuldabréfs til LÍN þann 3. desember 2012. Erindi hennar var synjað sem of seint fram komnu. Í svari sjóðsins segir að í grein 2.5.2 í úthlutunarreglum sjóðsins komi fram að námsmaður verði að sækja sérstaklega um frestun skuldabréfs fyrir 1. desember 2012. Kærandi bar mál sitt undir stjórn LÍN og vísaði til þess að skilafrestur hafi verið til laugardagsins 1. desember 2012. Í 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga komi fram að ef frest beri uppá almennan frídag framlengist hann til næsta opnunardag. Í erindi sínu til stjórnar LÍN vísar kærandi til þess að hafa sent beiðni sína mánudaginn 3. desember 2012 og hafi hún því borist innan frests. Stjórn LÍN synjaði beiðni kæranda með úrskurði sínu þann 17. janúar 2013. Segir í úrskurðinum að í bréfi LÍN til kæranda þann 24. október 2012 komi fram að sækja þyrfti um um frestun á lokun skuldabréfs fyrir 1. desember 2012. Kærandi kærði úrskurð stjórnar LÍN til málskotsnefndar þann 24. apríl 2013. 

Sjónarmið kæranda. 

Kærandi segir í kærunni að hún hafi sótt um frestun á lokun skuldabréfs og hafi umsóknin borist LÍN að mogni dags 3. desember 2012. Kærandi segir beiðnina því hafa komið innan lokadags frests í skilningi 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi segir að í svörum LÍN hafi verið vísað til þess að umsókn skyldi berast fyrir 1. desember 2012. Kærandi kveður það ekki vera í samræmi við þær upplýsingar sem LÍN hafi sent henni. Bæði í bréfi LÍN til hennar og á heimasíðu LÍN hafi komið fram að frestur til að sækja um lokun skuldabréfs sé til 1. desember 2012. Meðfylgjandi kærunni sendir kærandi afrit af bréfi LÍN dagsettu 24. október 2012 og útskrift af heimasíðu LÍN þar sem segir að umsóknarfrestur sé til 1. desember 2012. Kærandi segir að um sé að ræða augljóst ósamræmi milli reglna LÍN og framkvæmdar. Telur kærandi að LÍN verði að bera hallann af þeim misbresti og taka mál kæranda til efnislegrar meðferðar. Í viðbótarathugasemdum kæranda vísar kærandi til þess að það sé almennur málskilningur að orðalagið til 1. desember beri að skilja til og með 1. desember. Hafi LÍN ætlað að hafa lokadag frestsins 30. nóvember líkt og tilgreint sé í athugasemdum stjórnar LÍN hefði verið nauðsynlegt að taka skýrt fram í útgefnu efni að umsókn þyrfti að berast fyrir 1. desember. Kærandi vísar ennfremur í athugasemdir í greinargerð með frumvarpi til stjórnsýslulaga þar sem beinlínis sé tekið það dæmi að ef frest til 1. desember beri upp á laugardag eða sunnudag þá framlengdist hann til næsta opnunardags, sem undir venjulegum kringumstæðum væri næsti mánudagur þar á eftir, þ.e. 2. eða 3. desember. Jafnframt vísar kærandi í álit Umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 5587/2009. Að lokum fer kærandi þess á leit við málskotsnefnd að hún mæli fyrir um frestun réttaráhrifa þar til skorið verði úr um réttmæti greiðsluskyldu hennar. 

Sjónarmið stjórnar LÍN. 

Í athugasemdum stjórnar LÍN vegna kærunnar kemur fram að í gögnum frá LÍN, bæði bréfi til kæranda, upplýsingum á heimasíðu sem og í tölvupósti sé vísað til þess að frestur til að sækja um frestun á lokun skuldabréfs sé til 01.12.2012. Stjórn LÍN kveðst ekki fallast á þá skýringu kæranda að með þessu orðalagi sé átt við að frestur sé til og með 1. desember 2012. Ákvæði um frest komi skýrt fram í úthlutunarreglum LÍN grein 2.5.2 en þar segi að sækja þurfi um frestun á lokun skuldabréfs fyrir 1. desember. Ekki sé talað um til og með 1. desember og eigi því tilvísun kæranda til 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga því ekki við. Þá tekur stjórn LÍN einnig fram að rafræna umsóknarferlið virki þannig að opið sé til miðnættis daginn sem fresturinn renni út eða í þessu tilfelli 30. nóvember 2012. Mikilvægt sé að gæta jafnræðis í þessum málum og því sé öllum umsóknum um frestun á lokun skuldabréfa sem berist eftir 30. nóvember synjað.

 

Niðurstaða

 

Í grein 2.5.2 í úthlutunarreglum LÍN 2012-2013 segir að sækja þurfi um frestun á lokun skuldabréfs fyrir 1. desember. Er því ljóst að samkvæmt reglum LÍN var kærufrestur runninn út þegar kærandi sendi beiðni sína til LÍN þann 3. desember 2012. Málskotsnefnd hefur í fyrri úrskurðum sínum ítrekað nauðsyn þess að festa ríki um þá umsóknarfresti sem gilda hjá lánasjóðnum. Undanþága verði því almennt ekki veitt nema að í ljós hafi komið óviðráðanleg atvik eða handvömm hjá LÍN. Í máli þessu liggur fyrir að í því bréfi sem sjóðurinn sendi sérstaklega til kæranda að frestur til að sækja um lokun á skuldabréfi sé til 1. desember. Hið sama kom fram á heimasíðu sjóðsins, sbr. útskrift sem var meðfylgjandi kæru. Málskotsnefnd fellst á það með kæranda að það sé almenn málvenja að þegar frestur er veittur til tiltekins dags beri að telja þann dag með. Samkvæmt þeim upplýsingum sem sjóðurinn sendi kæranda og voru aðgengilegar á heimasíðu vegna rafrænna umsókna var því frestur settur til og með 1. desember 2012. Verður því að telja að leiðbeiningum LÍN vegna umsókna um lokun skuldabréfa hafi verið ábótavant og af þeim sökum megi kærandi byggja á því að umsóknarfrestur hafi verið til og með 1. desember 2012. Í þessu tilviki þar sem 1. desember bar uppá laugardag er því ljóst að samkvæmt 2. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga “lengist fresturinn til næsta opnunardags þar á eftir”. Samkvæmt þessu bar LÍN því að taka til meðferðar umsókn kæranda sem barst mánudaginn 3. desember 2012. Var synjun stjórnar LÍN í máli kæranda því ekki í samræmi við stjórnsýslulög og ber því að fella hana úr gildi. Í ljósi þess að niðurstaða er fengin í máli kæranda eru ekki efni til að taka afstöðu til beiðni hennar um frestun réttaráhrifa.

 

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður frá 17. janúar 2013 í máli kæranda er felldur úr gildi.

Til baka