Úrskurður
Ár 2013, miðvikudaginn 11. júlí, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-43/2012:
Kæruefni
Með kæru, dagsettri 27. september 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 22. ágúst 2012 þar sem beiðni kæranda um undanþágu frá afborgun á gjalddaga 1. júlí 2012 var hafnað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 1. október 2012 og var jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 17. október s.á. Var kæranda sent afrit af athugasemdum stjórnar LÍN þann 22. október s.á. og honum gefinn 4 vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Þann 12. júní 2012 sótti kærandi um undanþágu frá afborgun
námslána á grundvelli fjárhagserfiðleika vegna umönnunar maka. Stjórn LÍN kvað
upp úrskurð í máli kæranda á fundi þann 22. ágúst 2012 þar sem umsókn kæranda
var hafnað. Var vísað til þess að í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð
íslenskra námsmanna kæmu fram þau skilyrði sem greiðandi þurfi að uppfylla til
að stjórn sjóðsins væri heimilt að veita undanþágu frá endurgreiðslu námslána.
Taldi stjórn LÍN að ekki hefði verið sýnt fram á að um verulega
fjárhagsörðugleika væri að ræða þar sem að í staðgreiðsluyfirliti kæranda vegna
ársins 2011 kæmi fram, að heildartekjur næmu kr. 5.987.480. Taldi stjórn
sjóðsins ekki heimilt að gera greinarmun á því með hvaða hætti skráðra tekna
væri aflað.
Sjónarmið kæranda
Kærandi bendir á að hann
hafi vegna viðvarandi fjárhagsörðugleika á árinu 2011 nýtt sér heimild til að
leysa út allan séreignarlífeyrissparnað sinn. Meginástæða þeirra erfiðleika væri
örorka maka. Hafi atvinnutekjur hans og umönnunarbætur frá TR vegna maka verið
undir viðmiðunarmörkum LÍN. Hafi hann því óskað eftir undanþágu frá árlegri
endurgreiðslu á afborgun, verðbótum og vöxtum á afborgunum lána árið 2012.
Byggir kærandi á því, að heimild til úttektar á séreignarlífeyrissparnaði hafi
verið sértæk aðgerð stjórnvalda í takmarkaðan tíma sem víki frá upphaflegu
markmiði með lífeyrissparnaði, hvernig hann sé leystur út og þar með
skattdreifingu hans. Vísar kærandi til ákvæðis VIII til bráðabirgða laga nr.
129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða þar sem
tilgreint sé að útgreiðsla séreignasparnaðar hafi ekki áhrif á bætur samkvæmt
lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð né heldur á greiðslu
húsaleigubóta, atvinnuleysisbóta, barnabóta eða vaxtabóta.
Sjónarmið
stjórnar LÍN
Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 22. ágúst
2012 verði staðfestur. Í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra
námsmanna komi fram þau skilyrði sem greiðandi þurfi að uppfylla til að stjórn
sjóðsins sé heimilt að veita undanþágu frá endurgreiðslu námslána. Sé þessi
regla nánar útfærð í grein 7.5.1 í úthlutunarreglum LÍN þar sem fram komi að
heimilt sé að veita undanþágu frá greiðslu fastrar afborgunar ef lánshæft nám,
atvinnuleysi, óvinnufærni vegna örorku og/eða veikinda, þungunar, umönnunar
barna, umönnunar maka eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum
fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 þurfi
bæði skilyrðin að vera uppfyllt, þ.e. að um verulega fjárhagsörðugleika sé að
ræða og að þeir séu til komnir vegna einhverra þeirra atriða sem talin séu upp í
greininni. Óumdeilt væri að kærandi uppfyllti skilyrði um umönnun maka. Samkvæmt
staðgreiðsluyfirliti kæranda þá hafi heildartekjur hans á árinu 2011 verið kr.
5.987.480. Einnig hafi tekjur kæranda fyrri hluta árs 2012 verið skoðaðar með
tilliti til tekjufalls milli ára. Hafi framangreint ekki þótt sýna fram á
verulega fjárhagserfiðleika og ekki hafi frekari gögn borist frá skuldara sem
sýnt hafi fram á verulega fjárhagserfiðleika. Stjórn LÍN bendir á að fram komi í
3. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 að viðbótargreiðsla hvers árs miðist við
ákveðinn hundraðshluta af tekjustofni ársins á undan. Í 1. mgr. 10. gr. laganna
komi fram að með tekjustofni sé átt við útsvarsstofn lánþega að viðbættum
tekjum, skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignaskatt. Telji
stjórnin sér ekki heimilt að fara gegn skýru lagaákvæði og gera greinarmun á því
með hvaða hætti skráðra tekna sé aflað.
Niðurstaða
Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er stjórn
sjóðsins heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu námslána að hluta
eða öllu leyti ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara.
Ákvæðið er svohljóðandi:
Stjórn sjóðsins er heimilt að veita
undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef
skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist
alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og
möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita
undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun,
umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum
hjá lánþega eða fjölskyldu hans.
Kærandi uppfyllir skilyrði um
umönnun maka. Stendur þá eftir hvort um verulega fjárhagsörðugleika sé að ræða
svo unnt sé að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr. 8. gr.
laga nr. 21/1992. Við mat á því hvort um verulega fjárhagsörðugleika sé að ræða
hefur stjórn LÍN m.a. miðað við að tekjur séu undir kr. 4.000.000 en það sé
meðaltal af tekjum hjá bandalagi háskólamanna. Í gögnum málsins sem kærandi
sendi meðfylgjandi kæru sinni, kemur fram að hér sé einungis um viðmið að ræða
og að LÍN skoði hvert tilvik um sigenda hér um matskennda stjórnvaldsákvörðun að
ræða. Málskotsnefnd telur ekkert hafa komið fram í málinu er bendir til að þessi
fjárhæð sé óeðlileg eða ósanngjörn í tilviki kæranda og hefur kærandi ekki
skilað inn frekari gögnum um fjárhagserfiðleika. Fram kemur í 3. mgr. 8. gr.
laga nr. 21/1992 um LÍN að viðbótargreiðsla miðast við 3,75% af tekjustofni
ársins á undan en með tekjustofni er samkvæmt 1. mgr. 10. gr. sömu laga átt við
útsvarsstofn lánþega að viðbættum tekjum samkvæmt c lið 7. gr. laga nr. 90/2003
um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt staðgreiðsluyfirliti kæranda þá var
tekjustofn kæranda á árinu 2011 kr. 5.987.480 en á árinu tók kærandi út
séreignarlífeyrissparnað að fjárhæð kr. 2.285.042. Heimild til úttektar á
séreignarlífeyrissparnaði er að finna í í ákvæði VIII til bráðabirgða laga nr.
129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þetta
ákvæði kom fyrst inn í lögin með lögum nr. 13/2009 og var gildistíminn í upphafi
1. mars 2009 til 1. október 2010. Hefur gildistími heimildar til úttektar síðar
verið framlengdur og gildir hann nú til 1. janúar 2014. Er 9. mgr. ákvæðisins
VIII til bráðabirgða svohljóðandi:
Útgreiðsla séreignarsparnaðar
samkvæmt ákvæði þessu hefur ekki áhrif á bætur samkvæmt lögum um
almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Þá hefur útgreiðslan ekki áhrif
á greiðslu húsaleigubóta skv. 9. gr. laga um húsaleigubætur, greiðslu barnabóta
eða vaxtabóta skv. 68. gr. laga um tekjuskatt, atvinnuleysisbóta skv. 36. gr.
laga um atvinnuleysistryggingar og greiðslur til foreldra langveikra eða
alvarlega fatlaðra barna, sbr. 22. gr. laga nr. 22/2006.
Í meðförum
Alþingis á lögum nr. 13/2009 var upphaflegu frumvarpi breytt að tillögu
meirihluta efnahags- og skattanefndar þannig að útgreiðsla séreignarsparnaðar
kæmi ekki til skerðingar á húsaleigubótum, né heldur bætur samkvæmt lögum um
almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Kemur fram í nefndaráliti
meirihluta efnahags- og skattanefndar frá 5. mars 2009 að í umsögn Seðlabanka
Íslands hafi verið varpað fram þeirri spurningu hvort sambærilegar reglur ættu
að gilda um skerðingu námslána og endurgreiðslur þeirra. Telja verður að þau
tilvik sem talin eru upp í 9. mgr. ákvæðis VIII. til bráðabirgða laga nr.
129/1997 séu tæmandi talin. Um er að ræða undantekningarákvæði sem túlka verður
þröngt. Með vísan til ofangreindra sjónarmiða og forsendna hins kærða úrskurðar
frá 22. ágúst 2012 er fallist á það með stjórn LÍN að sú ákvörðun sjóðsins að
hafna erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn
gilda. Ekki er til staðar lagaheimild til að undanskilja frá tekjustofni vegna
endurgreiðslu námslána útgreiðslur séreignarsparnaðar. Er niðurstaða hins kærða
úrskurðar stjórnar LÍN frá 22. ágúst 2012 í máli kæranda því staðfest.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður frá 22. agúst 2012 í máli kæranda er staðfestur