Úrskurður
Ár 2013, miðvikudaginn 21. ágúst, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-8/2013:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 4. mars 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 6. desember 2012 þar sem hafnað var þeim röksemdum kæranda um að henni bæri ekki að endurgreiða námslán vegna skólaársins 2009-2010 sem sjóðurinn taldi að hún hefði fengið ofgreidd. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu þann 11. mars 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Stjórn LÍN sendi málskostnefnd athugasemdir við kæruna með bréfi dagsettu 4. apríl 2013 og var afrit þess sent kæranda með bréfi 8. sama mánaðar, en þar var kæranda jafnframt gefinn 4 vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Jafnframt aflaði málskotsnefnd viðbótargagna frá stjórn LÍN varðandi samskipti sjóðsins við Háskólann á Bifröst vegna málsins. Var afrit þeirra sent kæranda með bréfi þann 4. júlí 2013 og henni gefinn kostur á að tjá sig um þau. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundaði nám við Háskólann á Bifröst veturinn 2009-2010
og lauk 74 einingum. Kærandi náði því ekki að ljúka 75 einingum sem þurfti til
þess að eiga rétt á námsláni vegna sumarannar 2010, samkvæmt grein 2.1.1 í
úthlutunarreglum LÍN vegna 2009-2010. Leitaði kærandi þá til starfsmanna
háskólans og mun sá starfsmaður sem hafði umsjón með samskiptum við LÍN hafa
ákveðið að heimila kæranda tilflutning á einni einingu milli anna. Um var að
ræða eina einingu sem kærandi hafði þó ekki lokið fyrr en á haustönn 2010 sem
starfsmaðurinn færði yfir á vorönn 2010. Í gögnum þeim sem háskólinn sendi LÍN
sagði því að kærandi hefði lokið 75 einingum á námsárinu 2009-2010. Í yfirlitinu
vegna vorannar 2010 kemur fram eftirfarandi skráning: 912. 1.0 MFLN S L S. Vegna
þessa fékk kærandi á árinu 2010 skólagjaldalán að fjárhæð kr. 172.000 vegna
sumarannar 2010 og hærra framfærslulán, eða sem nam kr. 15.890. Kom síðar fram í
skýringum skólans til LÍN að um væri að ræða áfanga í nemendabókhaldi skólans
sem hefði verið stofnaður af starfsmanni í þeirri trú að skólanum væri heimilt
að millifæra einingar. Kom því fram í nemendabókhaldi að áfanginn héti
Millifært milli anna vegna LÍN og Staðið 25.10.2010. Með bréfi dagsettu 27.
september 2012 tilkynnti LÍN kæranda að hún hefði fengið ofgreidd lán sem henni
bæri að endurgreiða. Var kæranda gefinn kostur á andmælum. Þann 6. desember 2012
tók stjórn LÍN síðan ákvörðun um að kæranda bæri að endurgreiða umrædd námslán.
Sjónarmið kæranda.
Í kæru sinni til málskotsnefndar segir
kærandi að hún telji að úthlutunarreglur LÍN heimili slíkan tilflutning eininga
og vísar í því sambandi til greinar 2.1. Kveðst kærandi ekki sjá að það sé
eingöngu á ábyrgð LÍN að dreifa einingum milli anna. Vísar kærandi til þess að í
ljósi þess að skólar sjái um að senda inn upplýsingar um einingar og
námsframvindu megi draga þá ályktun að skóla sé heimilt að dreifa ECTS einingum
og skila inn árangri innan þess ramma. Kveður kærandi það bæði íþyngjandi og
ósanngjarnt að hún þurfi að bera hallann af óljóst orðuðu ákvæði
úthlutunarreglna LÍN. Sérstaklega eigi þetta við þegar haft sé í huga að kærandi
hafi leitað leiðbeininga hjá starfsmanni skólans og hafi staðið í góðri trú um
heimilt væri að millifæra einingar með þessum hætti. Vísar kærandi til þess að
ákvæði úthlutunarreglnanna sé óljóst orðað og þar sem um einhliða
samningsskilmála sé að ræða beri sá aðili sem setur viðkomandi skilmála hallann
af óljósu orðalagi þeirra. Kærandi hafnar því alfarið að hafa veitt LÍN
vísvitandi rangar upplýsingar. Fer kærandi þess á leit að ákvörðun stjórnar LÍN
verði ógilt. Til vara fer kærandi fram á að beitt verði grein 5.7.1 í
úthlutunarreglum LÍN og henni verði heimilað að greiða námslánið með sérstöku
skuldabréfi. Fer kærandi þess á leit með vísan til meðalhófsreglu
stjórnsýsluréttarins að slíkt skuldabréf verði innheimt með hefðbundnu
innheimtuferli árið 2015.
Sjónarmið stjórnar LÍN.
Stjórn
LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 6. desember 2012 verði staðfestur. Í
athugasemdum stjórnar LÍN segir að um mitt ár 2012 hafi komið í ljós að
Háskólinn á Bifröst hafi sent rangar upplýsingar um námsárangur tiltekinna
nemenda sinna. Námsmaður eigi aðeins rétt á námslánum í samræmi við þann árangur
sem hann hafi sýnt fram á. Bendir stjórn LÍN á að ef námsmaður ljúki fleiri en
60 einingum sé honum heimilt samkvæmt grein 2.4.1 í úthlutunarreglunum að nýta
umframeiningarnar innan ársins eða flytja þær á síðari námsár í sama námsferli.
Engin heimild sé til þess að flytja einingar yfir á fyrra námsár líkt og gerst
hafi í tilviki kæranda, þ.e. aftur í tímann frá haustönn 2010 á vorönn 2010. Þá
hafi hvorki nemendur né skóli slíka heimild heldur sé það sjóðsins að taka
ákvörðun um lánsrétt í hverju tilviki fyrir sig. Stjórn LÍN fer þess á leit að
varakröfu kæranda verði synjað þar sem ekki hafi verið tekin efnisleg ákvörðun
um hana hjá stjórn LÍN.
Niðurstaða
Í úthlutunarreglum LÍN 2009-2010 grein 2.1.1 - Sumartími - segir
eftirfarandi:
Nám á sumarönn tilheyrir undangengnu námsári. Ljúki
námsmaður einingum umfram 60 ECTS einingar á námsári, þá þarf námsmaður að óska
sérstaklega eftir viðbótarláni fyrir þeim einingum. Aldrei er þó lánað fyrir
fleiri en 80 ECTS einingum á hverju námsári. Til að eiga rétt á sérstöku
skólagjaldaláni á sumaönn þarf námsmaður að ljúka a.m.k. 75 einingum á
námsárinu, sbr. gr. 4.8. Námsmaður sem fær lánað fyrir fleiri en 60 ECTS
einingum á skólaárinu telst hafa fengið aðstoð sjóðsins í 1,25 aðstoðarár.
Í 1. mgr. greinar 2.1 segir eftirfarandi um tilflutning eininga:
Almennt telst námsmaður í fullu námi ljúki hann 60 ECTS einingum eða
ígildi þeirra á skólaári í einum námsferli (ECTS stendur fyrir European Credit
Transfer and Accumulation System). Námsmaður sem lýkur fleiri en 60 ECTS
einingum á námsárinu í sama námsferli á rétt á að nýta sér þær til frekara náms
innan ársins, allt að 80 ECTS-einingum, eða flytja þær á síðari námsár í sama
námsferli. Nýr námsferill hefst skipti námsmaður um skóla námsgrein eða
námsárangur.
Kærandi lauk 74 einingum á skólaárinu 2009-2010 og átti
því ekki rétt á námsláni vegna sumarannar 2009-2010. Samkvæmt úthlutunarreglum
LÍN grein 5.2 er útborgun námslána háð því skilyrði að námsmaður hafi lagt fram
gögn um námsárangur sinn, tekjuáætlun og skattframtal og aðrar þær upplýsingar
sem máli skipta. Í framkvæmd hafa þó skólar, a.m.k. á Íslandi, sent upplýsingar
um námsárangur beint til LÍN. Eins og fram hefur komið í fyrri úrskurðum
málskotsnefndar er það þó endanlega á ábyrgð námsmanns að sjá til þess að allar
upplýsingar um námsárangur séu sendar tímanlega til sjóðsins. Í þessu felst að
gögn um námsárangur verða að bera það með sér með skýrum hætti á hvaða önn ECTS
einingum er lokið. Að mati málskotsnefndar er ennfremur ekkert sem gefur til
kynna í úthlutunarreglum LÍN eða öðrum reglum er um sjóðinn gilda að námsmönnum
eða skólum sé heimilt að millifæra einingar á milli anna eða námsára áður en
upplýsingar um námsárangur eru sendar LÍN, eða senda upplýsingar með þeim hætti
að ekki verður gjörla séð hver eiginlegur námsárangur nemanda á hverri önn hefur
verið. Eins og fram kemur í gögnum málsins hafði kærandi einungis lokið 74
einingum á vorönn 2010 en ekki 75 eins og yfirlitið gaf til kynna. Sendi því
Háskólinn á Bifröst rangar upplýsingar um námsárangur kæranda sem gaf til kynna
að kærandi hefði lokið fleiri einingum á námsárinu 2009-2010 en hún lauk í raun
og veru. Lánasjóður íslenskra námsmanna er stjórnvald sem falið er með lögum að
veita námsmönnum námslán að uppfylltum skilyrðum laganna og öðrum þeim reglum
sem um sjóðinn gilda. Það er alfarið á ábyrgð LÍN og stjórnar LÍN að kveða á um
lánsrétt umsækjenda og ekkert í úthlutunarreglum eða öðrum reglum er um sjóðinn
gilda styður þá útskýringu kæranda að henni eða Háskólanum á Bifröst sé heimilt
að senda upplýsingar um námsárangur hennar með þeim hætti sem gert var í umræddu
máli. Þá verður ekki séð að kæranda hafi átt rétt á því að færa umræddar
einingar milli anna með þeim hætti sem gert var tilviki hennar, þ.e. frá
haustönn yfir á vorönn 2010. Er það því niðurstaða málskotsnefndar að kærandi
hafi fengið ofgreitt námslán vegna skólaársins 2009-2010 eins og lýst er í
úrskurði stjórnar LÍN í máli hennar. Að mati málskotsnefndar hefði kærandi með
réttu átt að leita til LÍN þegar hún leitaði úrræða vegna þess að eina ECTS
einingu vantaði uppá vegna sumarláns 2010. Getur hún ekki borið fyrir sig
vanþekkingu á úthlutunarreglum eða rangar upplýsingar Háskólans á Bifröst í
þessum efnum. Ber því kæranda að endurgreiða hið ofgreidda námslán í samræmi við
ákvæði úthlutunarreglna LÍN. Kæranda hefur verið gert að endurgreiða námslán
sitt í samræmi við þau kjör sem lýst er í grein 5.7 í úthlutunarreglum LÍN.
Kærandi hefur hins vegar farið þess á leit að henni verði heimilað að
endurgreiða hina ofgreiddu fjárhæð með hefðbundnu innheimtuferli námslána er
hefjist á árinu 2015. Um er að ræða beiðni um undanþágu frá ákvæðum
úthlutunarreglnanna sem ekki var tekin afstaða til í ákvörðun stjórnar LÍN í
máli kæranda. Er því þessum lið kærunnar vísað frá málskotsnefnd og kæranda bent
á að beina erindi sínu hvað þetta varðar til stjórnar LÍN. Með vísan til
ofanritaðs er það niðurstaða málskotsnefndar að staðfesta beri úrskurð stjórnar
LÍN í máli kæranda.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður frá 6. desember 2012 í máli kæranda er staðfestur.