Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-16/2013 - Endurgreiðsla námslána - útreikningur tekjutengdrar afborgunar

Úrskurður

Ár 2013, miðvikudaginn 27. ágúst kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. L-16/2013:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 27. mars 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 19. mars 2013 þar sem hafnað var beiðni hennar um að útgreiddur séreignasparnaður á árinu 2012 verði undanþeginn frá útsvarsstofni við útreikning á gjalddaga 1. september 2012. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 26. apríl 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN bárust 10. maí 2013 og var afrit þess sent kæranda og henni gefinn fjögurra vikna frestur til að koma að athugasemdum sínum. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Kæran var sett fram í nafni kæranda og eiginmanns hennar en hinn kærði úrskurður snýr eingöngu að kæranda og miðast því niðurstaða málskotsnefndar við það.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hefur hafið endurgreiðslu á námsláni sínu nr. S-xx. Eftir að fjárhæð gjalddagans 1. september 2012 lá fyrir sendi kærandi erindi til stjórnar LÍN þar sem óskað var eftir því að gjalddaginn yrði endurreiknaður. Var því sérstaklega mótmælt að úttekt á séreignarsparnaði kæmi inn í útreikning á gjalddaga.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi mótmælir því í kæru að við útreikning á tekjutengdri afborgun á láni hennar með gjalddaga í september 2012 eigi að taka með úttekt á séreignarsparnaði hennar. Kærandi telur að það sé í andstöðu við þann tilgang sem bjó að baki því að gefin var heimild til úttektar á séreignarlífeyrissparnað, sem hafi verið til að standa straum af stigvaxandi og útbólgnum verðtryggðum lánum og tryggja sér viðurværi á erfiðum tímum. Kærandi bendir á að úttektin sé ekki launatengd og eigi ekki að reiknast sem tekjur við útreikning námsláns hennar. Þá telur kærandi að sú reikniaðferð sem stuðst sé við sé í trássi við þær reglur sem gildi um endurgreiðslur hjá LÍN. Því krefst kærandi þess að greiðsla lánsins verði endurreiknuð og henni endurgreitt það sem beri í milli.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

LÍN bendir á að í grein 7.4 í úthlutunarreglum sjóðsins komi fram að árleg endurgreiðsla námslána sé í tvennu lagi, annars vegar föst greiðsla 1. mars og hins vegar viðbótargreiðsla 1. september. Ennfremur komi þar fram að viðbótargreiðslan sé ákveðið hlutfall af tekjustofni ársins á undan endurgreiðsluárinu og með tekjustofni sé átt við útsvarsstofn lánþega. Í 3. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN komi fram að viðbótargreiðsla hvers árs miðist við ákveðinn hundraðshluta af tekjustofni ársins á undan. Í 1. mgr. 10. gr. sömu laga komi svo fram að með tekjustofni sé í lögum um LÍN átt við útsvarsstofn lánþega að viðbættum tekjum samkvæmt C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Í lögum um LÍN sé því alveg skýrt hvað sé átt við með tekjustofni. Stjórn sjóðsins sé ekki heimilt að fara gegn skýru lagaákvæði og gera greinarmun á því með hvaða hætti skráðra tekna sé aflað. Því hafi erindi kæranda um að útgreiddur séreignarsparnaður á árinu 2012 yrði undanþeginn frá útsvarsstofni við útreikning á gjalddaganum 1. september 2012 verið hafnað. Þá bendir LÍN á að í tengslum við ákvörðun löggjafans um að heimila úttekt á séreignarsparnaði hafi aldrei komið fram krafa um að slík úttekt yrði undanskilin frá útreikningi á tekjutengdri afborgun hjá LÍN. Það sé Ríkisskattstjóri sem skilgreini slíka úttekt sem hluta af útsvari og í samræmi við ofangreind lagaákvæði sé ekki hjá því komist að taka séreignarsparnaðinn með í útreikning á tekjutengdri útborgun.

Niðurstaða

Um endurgreiðslu námslána er fjallað í 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í 3. mgr. 8. gr. segir:

Viðbótargreiðslan miðast við ákveðinn hundraðshluta af tekjustofni ársins á undan endurgreiðsluári, sbr. 10. gr. Hundraðshluti þessi er 3,75% við afborganir af skuldabréfinu. Frá viðbótargreiðslunni samkvæmt þessari málsgrein dregst fastagreiðslan skv. 2. mgr.

Í 1. mgr. 10. gr. laganna segir:

Þegar tekjur eru skattskyldar á Íslandi er með tekjustofni í lögum þessum átt við útsvarsstofn lánþega að viðbættum tekjum skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt.

Samkvæmt lögum nr. 30/1995 um tekjustofna sveitarfélaga er útsvarsstofn hinn sami og tekjuskattsstofn samkvæmt lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt. Tekjuskattstofn tekur m.a. til lífeyrisgreiðslna, sbr. II kafla laga nr. 90/2003. Á það við hvort sem um er að ræða séreignarsparnað eða almennar lífeyrisgreiðslur. Í bráðabirgðaákvæði nr. VIII við lög nr. 122/2011 um breytingu á lögum nr. 129/1997 um skyldutrygginginu lífeyrisréttinda og starfssemi lífeyrissjóða, kemur fram að þegar séreignarsparnaðurinn er greiddur út skuli greiða af honum staðgreiðslu. Samkvæmt framangreindu skal seinnii árlega endurgreiðsla námslána, viðbótargreiðslan, miðast við 3,75% af tekjustofni ársins á undan en með tekjustofni er átt við útsvarsstofn lánþega að viðbættum tekjum samkvæmt c lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Samkvæmt staðgreiðsluyfirliti kæranda þá var tekjustofn hennar á árinu 2011 kr. 7.768.279 og var úttekin séreignarlífeyrissparnaður hennar á árinu hluti tekjustofnsins. Endurgreiðsla kæranda var á grundvelli þessa tekjustofns ákveðin kr. 239.593 með gjalddaga 1. september 2013. Heimild til úttektar á séreignarlífeyrissparnaði er að finna í bráðabirgðaákvæði nr. VIII við lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Ákvæðið kom inn í lögin með breytingalögum nr. 13/2009 og er 9. mgr. bráðabirgðaákvæðisins nr .VIII svohljóðandi:

Útgreiðsla séreignarsparnaðar samkvæmt ákvæði þessu hefur ekki áhrif á bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Þá hefur útgreiðslan ekki áhrif á greiðslu húsaleigubóta skv. 9. gr. laga um húsaleigubætur, greiðslu barnabóta eða vaxtabóta skv. 68. gr. laga um tekjuskatt, atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. 22. gr. laga nr. 22/2006.

Í lögskýringargögnum má sjá að í meðförum Alþingis á lögum nr. 13/2009 var upphaflegu frumvarpi breytt að tillögu meirihluta efnahags- og skattanefndar þannig að útgreiðsla séreignarsparnaðar kæmi ekki til skerðingar á húsaleigubótum, né heldur bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Einnig kemur fram í nefndaráliti meirihluta efnahags- og skattanefndar frá 5. mars 2009 að í umsögn Seðlabanka Íslands hafi verið varpað fram þeirri spurningu hvort sambærilegar reglur ættu að gilda um skerðingu námslána og endurgreiðslur þeirra. Með vísan til þessa verður að telja að þau tilvik sem talin eru upp í 9. mgr. bráðabirgðaákvæðis nr. VIII í lögum nr. 129/1997 séu tæmandi talin. Þau viðmið sem nota ber við útreikning á tekjutengdri afborgun námslána eru samkvæmt framangreindu bundin í lögum nr. 21/1992 um LÍN. Segir í 8. gr. laganna að miða skuli við tekjustofn og í 10. gr. segir að í því sambandi skuli miða við útsvarsstofn, en þar undir falla lífeyrisgreiðslur hvort sem um er að ræða almennar lífeyrisgreiðslur eða útgreiðsla séreignarsparnaðar. Enga undanþágu er að finna í lögum sem heimilar LÍN að víkja frá þessum lögbundnu viðmiðum og undanskilja útgreiðslu séreignarsparnaðar frá tekjustofni vegna útreiknings endurgreiðslu námslána. Er niðurstaða hins kærða úrskurðar frá 19. mars 2013 í máli kæranda því staðfest.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 19. mars 2013 í máli kæranda er staðfestur. 

Til baka