Úrskurður
Ár 2013, miðvikudaginn 25. september kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. L-12/2013:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 14. mars 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 1. mars 2013 þar sem hafnað var beiðni hans um lán fyrir 30 ECTS-einingum á vormisseri 2013. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 15. mars 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN bárust 8. apríl 2013 og var afrit þess sent kæranda og honum gefin frestur til að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir kærandi bárust nefndinni í bréfi dagsettu 17. apríl 2013.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundar nám í lögfræði. Áður en haustönn 2012 hófst,
hafði hann lokið 140 ECTS-einingum í náminu og átti því eftir 40 ECTS-einingar
til að útskrifast með BA gráðu í lögfræði. Kærandi sendi inn erindi til stjórnar
LÍN í september 2012 þar sem hann gerði kröfu um að fá lánað fyrir 60
ECTS-einingum á skólaárinu 2012-2013. Þar af 40 einingar í grunnnámi og 18-20
einingar af námi sem hann muni svo óska eftir að fá metið inn í meistaranámið í
lögfræði. Til vara, ef ekki yrði fallist á framangreinda kröfu hans, gerði hann
þá kröfu að námsáætluninni fyrir skólaárið yrði snúið við, þ.e. að hann fengi
lánað fyrir 18 einingum á haustönn en 30 einingum á vorönn. Þann 12. október
2012 lá fyrir úrskurður vafamálanefndar LÍN í máli kæranda. Í úrskurðinum segir
um beiðni kæranda: Þú ert skráður í 180 ECTS-eininga bachelor-nám í lögfræði
og hefur samkvæmt upplýsingum sjóðsins þegar lokið 140 ECTS-einingum af náminu.
Fallist er þó á að miða lánsrétt þinn við hámark 48 ECTS-einingar á skólaárinu
2012-2013 ljúkir þú að lágmarki 48 ECTS-einingum. Ljúkir þú t.d. 30 ECT-einingum
á haustmisseri 2012, miðast lánsréttur þinn við 30 ECTS-einingar á því misseri
og 18 ECTS-einingar á vormisseri 2013. Lágmarksnámsárangur á misseri til að eiga
rétt á láni er 18 ECTS-einingar. Ef sjóðnum berst síðar staðfesting á því að þú
fáir metið inn í væntanlegt meistaranám þitt þau námskeið sem þú laukst utan
námsbrautar á skólaárinu 2012-2013, þá er sjóðurinn reiðubúinn að endurmeta
lánsrétt þinn í samræmi við þær upplýsingar, sbr. framangreind heimild. Aldrei
er þó veitt hærra lán en sem nemur 60 ECTS-einingum á hverju skólaári (haust- og
vormisseri). Kærandi óskaði eftir því í janúar 2013 að lánsáætlun hans yrði
uppfærð í samræmi við úrskurð vafamálanefndar og uppfærð í samræmi við að hann
kláraði 18 ECTS-einingar haustönn 2012 og að hann væri í 30 ECTS-einingar á
vorönn. Í framhaldi tilkynnti LÍN kæranda að miðað við breytta lánsáætlun ætti
hann rétt á láni fyrir 18 ECTS-einingar fyrir haustönn, en 22 ECTS-einingar
fyrir vorönn. Kærandi mótmælti þessari niðurstöðu og taldi hana ekki í samræmi
við úrskurð vafamálanefndar frá 12. október 2012 og óskaði eftir að mál hans
yrði tekið fyrir af stjórn LÍN. Í úrskurði stjórnar LÍN segir m.a:
Nú
hefur komið í ljós að þú laukst 18 ECTS-einingum á haustmisseri 2012, ekki 30
ECTS eins og námsáætlun þín gerði ráð fyrir og framangreind afgreiðsla byggði á.
Því er einungis heimilt að veita þér lán fyrir 18 ECTS-einingum vegna
haustmisseris 2012 og lánsréttur þinn miðist við hámark 22 ECTS-einingar á
vormisseri 2013, ljúkir þú þeim einingafjölda, sbr. heimild í gr. 2.4.1. Þar með
hefur sjóðurinn veitt þér lán fyrir 180 ECTS-einingum í bachelor-námi í lögfræði
eða eins og skipulag námsins segir til. Stjórn synjar erindi þínu um að veita
þér lán fyrir 30 ECTS-einingum á vormisseri 2013.
Kærandi kærði
niðurstöðu stjórnar LÍN til málskotsnefndar og krefst þess að lánsáætlun hans
verði uppfærð og að honum verði veitt lánsheimild fyrir 48 ECTS-einingum á
skólaárinu 2012-2013, þar af 18 ECTS-einingar á haustönn 2012 og 30
ECTS-einingar á vorönn 2013. Sjónarmið kæranda. Í kæru kemur fram að það hafi
legið fyrir í desember árið 2011 að á haustönn 2012 ætti kærandi 40 einingar
eftir af laganámi sínu, þar af 10 ECTS-einingar á haustönn og 30 ECTS-einingar á
vorönn 2013. Um vorið 2012 hafi hann því farið að huga að því hvort hann gæti
tekið fleiri einingar úr öðrum deildum og fengið þær metnar inn í meistaranám
við lagadeildina. Þannig gæti hann verið í fullu námi haust 2012 en á þessum
tíma hafi ekkert legið fyrir um atvinnuhorfur hans. Eftir samtal við starfsmann
LÍN hafi svo komið í ljós að útlánareglur sjóðsins tækju ekki með skýrum hætti á
þeirri aðstöðu sem kærandi væri í og hafi honum því verið bent á að senda erindi
til stjórnar LÍN sem og hann gerði. Síðar hafi hann fengið vinnu og hann hafi
þurft að vinna töluvert þannig að það hafi verið nægilegt fyrir hann að
varakrafa hans yrði samþykkt, þ.e. að hann fengi lánað fyrir 18 ECTS-einingum á
haustönn en 30 einingum á vorönn. Kærandi telur að túlkun stjórnar LÍN á
lokamisseri í námi sé ekki rétt. Það að eingöngu sé miðað við seinustu önn
standist ekki. Þó slík túlkun sé ef til vill rétt eftir orðanna hljóðan þá sé
túlkunin í engu samræmi við markmið laga nr. 21/1992 um lánasjóð íslenskra
námsmanna. Kærandi bendir á að það sé almennt þannig innan deilda háskólans, að
námskeið séu kennd annað hvort á vorin eða haustin. Ef nemendur klári námið ekki
á réttum tíma, geti tilviljun ein ráðið því hvort að nemendur þurfi að bæta við
sig einingum, á haustin eða vorið, til þess að ná lágmarki útlánareglnanna um
lágmarkseiningafjölda til þess að fá greidd námslán. Kærandi telur að það
samræmist ekki jafnræðissjónarmiðum að það sé tilviljanakennt hvaða nemendur
geti nýtt sér þetta úrræði. Hann telur út frá jafnræðissjónarmiði sé eðlileg
túlkun á greininni sú að nemendur geti einungis einu sinni verið á lokamisseri
í námi, sem væri þá annað hvort á haustönn eða vorönn, eftir því hvernig hitti á
í námsferlinum. Kærandi bendir á að það verði ekki annað ráðið af úrskurði LÍN
frá 15. október 2012 en að LÍN samþykki varakröfu hans. Í úrskurðinum sé með
skýrum hætti fallist á að lána honum 48 ECTC-einingar á skólaárinu 2012-2013. Af
úrskurðinum verði ekki séð að hann sé bundinn við það að kláraðar séu 30
ECTS-einingar á haustönn og 18 ECTS-einingar á vorönn. Kærandi telur að
úrskurðurinn sé skýr varðandi þann hámarksfjölda eininga sem samþykkt hafi verið
fyrir námsárið og feli honum ákvörðunarvald um það hvernig hann skipti þeim 48
ECTS-einingum sem samþykktar voru. Kærandi bendir á að úrskurðir séu
stjórnvaldsákvörðun og um þá gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993. Eftirfarandi
túlkun starfsmanna LÍN á úrskurðinum frá október 2012 og síðan hin kærða
ákvörðun stjórnar LÍN samræmist ekki lögum. Kærandi telur að með síðari úrskurði
LÍN sé annað hvort um að ræða breytingu á fyrri úrskurði eða afturköllun hans.
Kærandi vísar til 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem fjallar um breytingu
og leiðréttingu ákvörðunar stjórnvalds. Hann telur ljóst að ákvörðunin frá
október 2012 hafi verið tilkynnt honum, sem aðila máls, og eftir það sé
stjórnvaldi einungis heimilt að breyta bersýnilegum villum. Í 25. gr.
stjórnsýslulaga sé fjallað um afturköllun stjórnvaldsákvörðunar og kærandi telur
ljóst að þau skilyrði sem þar komi fram eigi ekki við í þessu máli. Þá bendir
kærandi á að hann hafi óskað eftir endurupptöku á erindi sínu í febrúar 2013. Að
þetta hafi verið eina úrræðið sem hann hafi haft til að krefjast þess að stjórn
LÍN færi eftir eigin úrskurði. Kærandi mótmælir því að forsendur hafi breyst
eins og LÍN haldi fram í hinum kærða úrskurði. Kærandi telur engin rök mæli með
því að skilja fyrri úrskurð stjórnar LÍN öðruvísi en svo að samþykkt hafi verið
lán fyrir 48 ECTS-einingum á námsárinu án tillits til þess á hvorri önn
einingunum yrði lokið, þó með þeim fyrirvara að 18 ECTS eininga lágmarki yrði
náð. Kærandi telur að stjórn LÍN verði að bera hallan af óskírleika
úrskurðarins. Önnur niðurstaða sé í andstöðu við 20. gr. stjórnsýslulaga. Þá
bendir kærandi á að gögn málsins sýni að hann hafi upphaflega óskað eftir því að
stjórn LÍN fjallaði um málið. Í athugasemdum stjórnar LÍN komi fram að
vafamálanefnd sé skipuð samkvæmt lögum um LÍN. Kærandi bendir á að í lögum um
LÍN séu engin ákvæði um vafamálanefnd né heldur aðra undirnefnd sem hafi heimild
til þess að taka stjórnvaldsákvarðanir fyrir hönd stjórnarinnar. Þá séu engin
ákvæði um slíka nefnd fyrir hendi í reglum LÍN. Bæði í lögum og reglum um LÍN sé
slíkri nefnd eingöngu falið það hlutverk að undirbúa ákvarðanir sem stjórnin
taki.
Sjónarmið stjórnar LÍN.
LÍN bendir á að kærandi
hafi verið skráður í 180 ECTS-eininga BA nám í lögfræði og hafi samkvæmt
upplýsingum sjóðsins þegar lokið 140 ECTS-einingum af náminu haustið 2012. LÍN
hafi þó fallist á að miða lánsrétt hans við hámark 48 ECTS-einingar á skólaárinu
2012-2013 að því gefnu að hann lyki að lágmarki 48 ECTS-einingum. Til nánari
útskýringa hafi verið tekið fram að: "Ljúkir þú t.d. 30 ECTS-einingum á
haustmisseri 2012, miðast lánsréttur þinn við 30 ECTS-einingar á því misseri og
18 ECTS einingar á vormisseri 2013." Enn fremur hafi stjórnin verið tilbúin
að endurmeta lánsrétt kæranda ef sjóðnum bærist síðar staðfesting á því að hann
fengi metið inn í væntanlegt meistaranám sitt þau námskeið sem hann lyki utan
námsbrautar á skólaárinu 2012-2013. Þá hafi verið bent á að aldrei séu veitt
hærra lán en sem nemi 60 ECTS-einingum á hverju skólaári (haust- og vormisseri).
LÍN vísar til þess að kærandi hafi óskaði eftir endurupptöku á erindi
sínu frá hausti 2012 í febrúar 2013 en þá höfðu forsendur breyst frá því að mál
hans hafi verið tekið fyrir hjá LÍN fyrr um haustið. Breytingarnar hafi falist í
því að hann hafi lokið 18 ECTS-einingum á haustmisseri 2012 og fengið afgreitt
lán í samræmi við það en hann hafi síðan áætlað að ljúka 30 ECTS-einingum á
vormisseri 2013 og ljúka námi. Miðað við það hafi kærandi fengið lánað fyrir
samtals 158 ECTS-einingum í byrjun árs 2013 og eigi því rétt á lánum fyrir 22
ECTS-einingum á vormisseri 2013 skv. úthlutunarreglum sjóðsins. LÍN bendir á að
stjórn LÍN hafi í úrskurði sínum frá 1. mars 2013 staðfest að afgreiðsla
vafamálanefndar hafi byggt á því að kærandi myndi ljúka 30 ECTS-einingum á
haustönn að hámarki og hafi því getað fengið 18 ECTS-einingar lánaðar á vorönn
þar sem það væri seinasta misseri hans. Enn fremur hafi stjórn sjóðsins ítrekað
að námsárið yrði endanlega gert upp hjá kæranda þegar það lægi fyrir hversu
mikið af námi utan námsbrautar hann fengi metið inn í meistaranámið sitt.
Stjórnin synjaði því erindi kæranda um lánsrétt fyrir 30 ECTS-einingum á vorönn
2013. LÍN vísar til þess að hugmyndin á bak við undanþágu þá sem felist í grein
2.4.1 í úthlutunarreglunum sé sú að ef námsmaður eigi færri einingar eftir á
seinasta misseri en gerð sé krafa um að lágmarki, þ.e. 18 ECTS-einingar, geti
hann fengið undanþágu þannig að hann getið náð þessum lágmarkseiningum. Þessar
aðstæður geti aðeins átt við á seinustu önn því annars sé hætta á að þeir sem
nái ekki lágmarksnámsárangri reyni að nýta sér þetta á öðrum misserum. Varðandi
það hvort LÍN hefði átt að afturkalla fyrri ákvörðun sína í málinu þá sé það mat
stjórnar LÍN að það hafi ekki átt við í þessu tilfelli. LÍN bendir á að
vafamálanefnd, sem skipuð sé samkvæmt lögum um LÍN, hafi fjallað um mál kæranda
haust 2012. Þá hafi honum verið gefinn kostur, sbr. bréf LÍN dagsett 15.10.2012,
að vísa málinu til stjórnar ef hann teldi afgreiðsluna ekki fullnægjandi.
Kærandi hafi sent erindi á ný til stjórnar í byrjun febrúar og þá hafi stjórnin
tekið málið til afgreiðslu. Afgreiðsla vafamálanefndar og ákvörðun stjórnar LÍN
í mars 2013 séu byggðar á sömu grein í úthlutunarreglum þ.e. grein 2.4.1 og því
sé samræmi þar á milli. Aðstæður kæranda höfðu breyst og við það miðist
niðurstaða afgreiðslunnar.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra
námsmanna er hlutverk sjóðsins að tryggja þeim er falla undir lögin jöfn
tækifæri til náms. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna setur stjórn sjóðsins nánari
ákvæði um úthlutun námslána. Hefur stjórn LÍN sett úthlutunarreglur sem miða að
því að skilgreina hvaða skilyrði námsmaður þurfi að uppfylla til að eiga rétt á
námsláni samkvæmt lögunum meðan á námi hans stendur. Nánari útfærsla á þessu
skilyrði kemur fram í grein 1.1 í úthlutunarreglunum en samkvæmt henni telst nám
lánshæft þegar það er 60 ECTS-einingar á skólaári eða a.m.k. 30 ECTS-einingar á
hverju misseri í þeim tilvikum sem námsskipulagið nær ekki yfir heilt skólaár.
Námsmaður þarf þó ekki að ljúka fullum 30 einingum á önn heldur er gerð krafa um
lágmarksnámsframvindu sbr. grein 2.2. Greinin er svohljóðandi:
Til að
eiga rétt á námsláni þarf námsmaður að ljúka að lágmarki 18 ECTS-einingum eða
ígildi þeirra á hverju misseri eða samsvarandi hlutfalli á önn í
fjórðungaskólum. Loknar einingar í einum eða fleiri námsferlum veita rétt til
námslána, leggi námsmaður stund á tvær grunnháskóla- eða tvær meistaragráður
samhliða, sbr. gr. 2.3. Þetta á einnig við ef námsmaður er að ljúka
grunnháskólanámi og hefur fengið leyfi skóla til að hefja meistaranám í sama
fagi. Sama gildir þegar námsmanni er gert af skóla að bæta við sig námskeiðum í
lánshæfu grunnháskólanámi samhliða meistaranámi. Þessi heimild er háð því að
námsmaður hafi ekki áður fullnýtt svigrúm sitt til námslána skv. gr. 2.3.
Í grein 2.3 kemur fram að námsmaður á rétt á láni fyrir 180
ECTS-einingum í grunnnámi. Í grein 2.4 er fjallað um aukið svigrúm í námi. Þar
kemur fram að þeir námsmenn sem ekki uppfylla skilyrði sjóðsins um
lágmarksnámsframvindu sbr. grein. 2.2, geta sótt um undanþágu vegna aðstæðna sem
tilgreindar eru í greinum 2.4.1 - 2.4.5. Þá segir einnig í greininni að í þeim
tilfellum sem undanþágur eru samþykktar miðast lánsréttur við
lágmarkseiningafjölda, þ.e. 18 ECTS-einingar á misseri í missera skólum eða 12
ECTS-einingar á önn í fjórðungaskólum. Í 3. mgr. greinar 2.4.1 segir:
Námsmaður getur átt lánsrétt út á lágmarkseiningafjölda, sbr. gr. 2.4
í eftirfarandi tilfellum: a) Námsmaður er að ljúka námi og á eftir færri
einingar en skilyrði um lágmarksnámsframvindu segja til um, sbr. gr. 2.2, til að
ljúka námi. Er heimilt að miða lánsrétt við lágmarkseiningafjölda, sbr. gr. 2.4,
bæti námsmaður við sig þeim einingum sem upp á vantar, óháð námsferlum og gráðu
skv. gr. 2.2. b) ........................
Í málinu liggur fyrir að
haustið 2012 féllst vafamálanefnd LÍN á það að miða lánsrétt kæranda við
"hámark 48 ECTS-einingar á skólaárinu 2012-2013 ljúkir þú að lágmarki 48
ECTS-einingum. Ljúkir þú t.d. 30 ECT-einingum á haustmisseri 2012, miðast
lánsréttur þinn við 30 ECTS-einingar á því misseri og 18 ECTS-einingar á
vormisseri 2013."
Kærandi á rétt á námsláni fyrir 180 ECTS-einingum
í grunnnámi í lögfræði eins og skipulag námsins segir til. Í byrjun hausts 2012
hafði hann fengið lánað fyrir 140 ECTS-einingum í grunnnámi sínu og átti hann á
þeim tímapunkti því ónýttan lánsrétt fyrir 40 ECTS-einingum. Haustið 2012 lagði
hann fyrir LÍN þá áætlun sína að hann myndi ljúka 30 ECTS-einingum á haustönn,
10 einingum úr grunnnámi og svo 20 einingum sem hluta af meistaranámi. Á vorönn
hugðist hann síðan ljúka þeim 30 ECTS-einingum sem hann átti eftir til að ljúka
BA gráðu sinni. Á grundvelli þessarar áætlunar var samþykkt af hálfu LÍN í
október 2012 að veita kæranda námslán fyrir 30 ECTS-einingum á haustönn og svo
lágmarkseiningafjölda, 18 ECTS-einingar, á lokaönn. Með því hefði hann fengið
afgreitt 188 ECTS-einingar, í stað 180 ECTS-eininga, og hefði það verið gert
grundvelli ákvæða úthlutunarreglna um aukið svigrúm í námi og byggðist á því að
um lokaönn væri að ræða hjá kæranda og að hann lyki BA námi sínu vorið 2013. Í
málinu liggur fyrir að kærandi lauk 18 ECTS-einingum á haustönn 2012, 10
einingum sem hluti grunnnáms og svo 8 einingum sem hluti af meistaranámi. LÍN
samþykkti námslán vegna þessara 18 eininga og með því fékk kærandi lánað fyrir
lágmarksframfærslu á haustönninni. Málskotsnefnd telur að vegna breytinga
kæranda á skipulagi náms síns hafi ekki komið til þess að hann hafi þurft að
nýta sér þá heimild sem felst í grein 2.4 um aukið svigrúm í námi. Er það mat
málskotsnefndar, með vísan til þessara breytinga á skipulagi náms kæranda og til
framangreindra greina í úthlutunarreglum LÍN, að einungis hafi verið heimilt af
hálfu LÍN að samþykkja lánsrétt fyrir 22 ECTS-einingum á vorönn 2013. Með því
hefur LÍN veitt kæranda lán/lánsrétt fyrir 180 ECTS-einingum í grunnnámi og
kærandi hefur þar með tæmt rétt sinn til námslána á því námsstigi. Málskotsnefnd
fellst ekki á það með kæranda að það standist ekki að lokamisseri í námi miðist
eingöngu við seinustu önn námsmanns. Nefndin vísar til meginreglunnar um 180
ECTS-eininga lánsrétt og svo til greinar 2.4 í úthlutunarreglum LÍN um aukið
svigrúm í námi við ákveðnar aðstæður. Í a lið 3. mgr. greinar 2.4.1 í
úthlutunarreglum LÍN er markmiðið að auka svigrúm í námi þegar námsmenn eru á
lokaönn ef þeir eiga færri einingar eftir á seinasta misseri en 18 ECTS-eininga
lágmarkið segir til um. Stjórn LÍN er falið það í lögum nr. 21/1992 um LÍN að
setja nánari ákvæði um úthlutun námslána og er það gert í úthlutunarreglunum. Í
reglunum er m.a. miðað að því að skilgreina hvaða skilyrði námsmaður þarf að
uppfylla til að eiga rétt á námsláni samkvæmt lögunum meðan á námi hans stendur.
Er ekki fallist á það að gengið sé gegn markmiðum laganna með því að binda þessa
undantekningarheimild við lokaönn náms enda helst að þá reyni á heimildina og að
gætt sé að jafnræði við beitingu hennar. Þá fellst málskotsnefnd ekki á það með
kæranda að túlka eigi úrskurð vafamálanefndar frá október 2012 með þeim hætti að
með úrskurðinum hafi verið fallist á að lána kæranda 48 ECTS-einingar á
skólaárinu 2012-2013 án tillits til þess hvernig hann hagaði skipulagi náms. Með
vísan til framangreindrar umfjöllunar um lánsrétt í grunnnámi og svo til greinar
2.4 um aukið svigrúm í námi við ákveðnar aðstæður er ljóst að skipulag námsmanns
á námi sínu er grundvallarforsenda fyrir því að hægt er að samþykkja
einingafjölda umfram 180 ECTS-einingarnar. Af hálfu kæranda er á það bent að í
lögum og reglum LÍN séu engin ákvæði um vafamálanefnd né heldur aðra undirnefnd
sem hafi heimild til þess að taka stjórnvaldsákvarðanir fyrir hönd
stjórnarinnar. Málskotsnefnd vísar í þessu sambandi á að samkvæmt 5. tl. 5. gr.
lag nr. 21/1992 um LÍN er meðal hlutverka sjóðsins "að skera úr vafamálum er
varða einstaka lánþega og öðrum málum með bókuðum samþykktum. Úrskurðum stjórnar
má vísa til málskotsnefndar, sbr. 6. gr." Þá segir í 2. mgr. 5. gr. laganna
að stjórn sjóðsins er heimilt að skipa undirnefndir úr hópi stjórnarmanna til að "fjalla um einstök mál og gera tillögur fyrir stjórn sjóðsins." Í athugasemdum
við einstakar greinar frumvarpsins sem varð að breytingarlögum nr. 67/1997 á LÍN
lögum segir m.a.:
Þá er lagt til að stjórn sjóðsins verði veitt
formleg heimild til að skipa undirnefndir úr hópi stjórnarmanna. Þetta er í
samræmi við þá venju sem tíðkast hefur í störfum stjórnar. Nú eru starfandi
þrjár undirnefndir stjórnar, vafamálanefnd, endurgreiðslunefnd og
framfærslunefnd. Hver nefnd er skipuð einum fulltrúa stjórnvalda og einum
fulltrúa námsmanna. Nefndirnar leysa úr málum einstakra námsmanna, en
fundargerðir þeirra eru staðfestar af stjórn. Stjórnarmenn geta tekið til
umfjöllunar á stjórnarfundum einstök mál sem áður hefur verið fjallað um í
undirnefndum.
Málskotsnefnd telur að stjórn LÍN hafi heimild til að
skipa vafamálanefnd til að fjalla um einstök erindi námsmanna. Vafamálanefndin
fjallaði um erindi kæranda haustið 2012 og kemur fram í því bréfi að um úrskurð
sé að ræða. Telja verður að eðlilegra hefði verið að nefna slíka afgreiðslu
bókun eða ákvörðun, enda er það hlutverk vafamálanefndar að gera tillögur fyrir
stjórn sjóðsins, og jafnframt að fram hefði komið að hún hafi verið staðfest af
stjórn sjóðsins. Í slíkri staðfestingu felst úrskurður stjórnar LÍN um
ágreininginn, sbr. 5. gr. laga nr. 21/1992 og grein 5.10 í úthlutunarreglum LÍN,
sem er kæranlegur til málskotsnefndar LÍN. Loks hafnar málskotsnefnd því að
málsmeðferð LÍN við afgreiðslu máls kæranda að öðru leyti hafi falið í sér brot
á stjórnsýslulögum. Nefndin vísar til þess að niðurstaða vafamálanefndar byggði
á ákveðnum forsendum um skipulag náms sem kærandi sjálfur lagði upp með haustið
2013. Þegar kærandi breytti skipulaginu á námi sínu og tilkynnti LÍN um þá
breytingu í janúar 2013 tilkynnti LÍN að miðað við breytingar frá fyrri
námsáætlun þá ætti hann rétt á láni fyrir loknar 18 ECTS-einingar á haustönn
2012 og lánsrétt á 22 ECTS-einingum á vorönn 2013. Í framhaldi óskaði kærandi
eftir endurupptöku á ákvörðun vafamálanefndar og hafi stjórn LÍN tekið málið til
afgreiðslu og úrskurðar. Með vísan til framangreindra röksemda er hin kærða
niðurstaða í úrskurði stjórnar LÍN frá 1. mars 2013 í máli kæranda staðfest.
Úrskurðarorð
Hinn kærði úrskurður frá 1. mars 2013 í máli kæranda er staðfestur.