Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-28/2013 - Umsóknarfrestur og útborgun - skilafrestur gagna útrunninn

Úrskurður

 

Ár 2013, miðvikudaginn 25. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-28/2013.

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd þann 28. maí 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 1. mars 2013 sem tilkynntur var henni með bréfi dagsettu 5. mars s.á. um að synja henni um afgreiðslu námsláns sökum þess að hún skilaði ekki upplýsingum um námsárangur fyrr en eftir að frestur til þess var útrunninn þann 15. janúar 2013. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu sama dag og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 26. júní 2013 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundaði meistaranám við háskóla í Bretlandi námsárið 2011-2012 og fékk heimild hjá skólanum til að fresta skilum á lokaverkefni vegna sumarannar 2012. Skilaði háskóli kæranda upplýsingum um námsárangur hennar þann 8. febrúar 2013 eða rúmum þremur vikum eftir að frestur til þess rann út. Í kjölfarið hafði kærandi samband við LÍN og greindi frá því að hún hefði fengið framlengingu á fresti til að skila lokaritgerð til 31. janúar 2013. Ritgerðinni hefði hún skilað 25. janúar 2013. Fékk kærandi þær upplýsingar frá LÍN að búið væri að loka fyrir námslán vegna námsársins 2011-2012. Fór kærandi þess á leit við stjórn LÍN að hún breytti ákvörðun sjóðsins um að synja henni um sumarlán. Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda með vísan til þess að í úthlutunarreglum LÍN fyrir námsárið 2011-2012 grein 5.2.1 komi fram að lánveitingum vegna námsársins skuli lokið fyrir 15. janúar 2013 og að eftir þann tíma væri ekki heimilt að greiða út námslán vegna skólaársins.

Sjónarmið kæranda 

Kærandi byggir á því að hún hafi skilað lokaritgerð þann 25. janúar 2013 og þar með á réttum tíma samkvæmt skipulagi skólans. Það sé almenna reglan að nemendum sé veittur frestur til að skila lokaverkefni í PGT námi en skólinn hafi veitt frest til 31. janúar 2013. Vísar kærandi í þessu sambandi til bréfs frá háskólanum dagsettu 15. febrúar 2013 sem feli í sér staðfestingu á þessari reglu. Vísar kærandi til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna þar sem komi fram að námslán skuli ekki veitt fyrr en námsmaður hafi skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur. Hafi það verið vilji löggjafans að þessi skilyrði væru bundin einhverjum tímafrestum þá hefði slíkt komið fram í lögunum. Kærandi byggir á því að með úrskurði sínum hafi stjórn LÍN farið á svig við meðalhófsreglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að taka þá ákvörðun sem hafi verið mest íþyngjandi fyrir hana. Vísar kærandi til þess að henni hafi verið ómögulegt að skila innan tilskilins frests þar sem nauðsynleg gögn frá skólanum hafi ekki legið fyrir þegar fresturinn rann út. Hafi hún skilað öllum gögnum um leið og þau hafi legið fyrir. Þá vísar kærandi til þess að LÍN hafi samþykkt nám við umræddan háskóla sem lánshæft og þar með fallist á að námsframvinda sem teljist fullnægjandi og eðlileg samkvæmt reglum skólans veiti rétt til námsláns. Fer kærandi þess á leit að málskotsnefnd ógildi úrskurð stjórnar LÍN og að lán vegna sumarannar 2012 verði afgreitt. 

Sjónarmið stjórnar LÍN 

Í athugasemdum stjórnar LÍN kemur fram kærandi hafi stundað meistaranám við háskóla í Bretlandi. Um hafi verið að ræða fullt 12 mánaða nám, 90 ECTS einingar, sem skiptist í haust,- vor- og sumarönn. Kærandi hafi fengið lán fyrir haust og vorönn en hafi fengið samþykkta seinkun á ritgerðarskilum hjá skólanum til 31. janúar 2013 hjá skólanum. Kærandi hafi skilað lokaritgerð 25. janúar og hafi fengið synjun á útgreiðslu námsláns vegna sumarannar. Vísar stjórn LÍN til þess að samkvæmt staðfestingu sviðsstjóra námsbrautar kæranda segi aðeins að skólinn hafi fengið ritgerðina "on time for 31 January 2013 which is the standard time for extension for PGT programmes". Kærandi hafi síðast verið í sambandi við sjóðinn 2. ágúst 2012 en hvorki þá né síðar hafi hún látið vita af seinkun á ritgerðarskilum. Þá hafi lánasjóðurinn sent henni tölvupóst 2. nóvember 2012 þar sem hún hafi verið minnt á umsóknarfrest vegna skólaársins 2012-2013 og að lokað yrði á allar lánveitingar vegna skólaársins 2011-2012 frá og með 15. janúar 2013. Vísar stjórn LÍN til þess að samkvæmt grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN skuli lánveitingum vegna námsársins 2011-2012 vera lokið 15. janúar 2013. Af þeim sökum hafi stjórn LÍN synjað erindi kæranda.

 

Niðurstaða

 

Kærandi stundaði nám í Bretlandi námsárið 2011-2012. Hún fékk haust- og vorlán en fékk frest á skilum á ritgerð sinni til 31. janúar 2013. Bárust einkunnir kæranda ekki fyrr en eftir að lokið var afgreiðslu námslána vegna skólaársins 2011-2012, þ.e. eftir að liðinn var skilafrestur sem var til 15. janúar 2013. Í grein 5.5.1 í úthlutunarreglum LÍN vegna skólaársins 2011-2012 kemur eftirfarandi fram um upplýsingaskyldu námsmanna: 

5.5.1 Tilkynningaskylda námsmanns Umsækjanda ber að tilkynna allar breytingar á högum sínum er haft geta áhrif á veitingu námsaðstoðar, svo sem breyttar fjölskylduaðstæður, breytingar á fjárhag, heimilisfangi og námsáætlun, eða veikindi er valdið geta töfum í námi. M.a. ber að tilkynna sjóðnum þegar námsmaður stofnar til hjúskapar eða sambúðar. Námsmanni ber auk þess að senda sjóðnum öll þau gögn sem hann kann að verða beðinn um vegna umsóknar hans um námslán eða frest á lokun skuldabréfs. 

Í upplýsingum á heimasíðu umrædds háskóla um skipulag þeirrar námsbrautar sem kærandi hefur stundað nám við kemur fram að námið skiptist í þrjár annir. Lokaönnin er sumarönn og kemur fram að verkefni sem unnið skuli á sumarönn skuli skilað um miðjan október. Í reglum skólans vegna viðkomandi skólaárs segir síðan að nemendum á lokaári í meistaranámi sé heimil framlenging á skilum lokaverkefnis tvisvar, í fyrra sinnið sem nemur þriðjungi af heildarnámstíma og í síðara skiptið sem nemur einum sjötta af heildarnámstíma. Samkvæmt framansögðu er ljóst að kærandi hefur fengið framlengingu á skilum fram yfir þann frest sem gildir samkvæmt upphaflegu skipulagi náms, enda segir í kærunni og í bréfi háskólans að um sé að ræða framlengingu frests eða "extension". Bar kæranda því að tilkynna LÍN að hún hún hafi nýtt sér heimild til framlengingar á skilum á lokaritgerð sinni, sbr. framangreind ákvæði úthlutnarreglna LÍN. Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 21/1992 skal stjórn sjóðsins setja reglur um úthlutun námslána. Í grein 5.2.1. í úthlutunarreglum LÍN kemur fram að lánveitingum vegna námsársins 2011-2012 skuli vera lokið 15. janúar 2013. Í lögum um LÍN og úthlutunarreglum sjóðsins er ekki að finna heimild til þess að afgreiða námslán eftir að frestur til að leggja fram gögn um námsárangur og aðrar þær upplýsingar sem LÍN hefur óskað eftir er liðinn. Málskotsnefnd hefur áður úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að um sé að ræða óviðráðanleg atvik eða mistök hjá LÍN. Í áðurnefndri grein úthlutunarreglna 5.2.1 er sérstaklega tekið fram að eftir lokun námsársins séu ekki afgreidd lán vegna þess. Kærandi hafi ennfremur fengið sérstaka tilkynningu þess efnis frá LÍN að lokað yrði fyrir afgreiðslu námslána vegna skólaársins 2011-2012 frá 15. janúar 2013. Þegar LÍN barst staðfesting frá skóla kæranda um námsárangur hafði stjórn LÍN lokað á afgreiðslu allra námslána vegna námsársins 2011-2012. Það er álit málskotsnefndar að af fyrrnefndri grein úthlutunarreglna LÍN leiði, að ekki geti komið til lánveitinga vegna umsókna sem berast eftir að lokið er afgreiðslu námslána vegna námsársins og að málsatvik séu ekki með þeim hætti í málinu að það eigi að leiða til undantekningar frá framangreindri reglu. Þá ber að líta til þess að kærandi gerði LÍN ekki grein fyrir breyttum aðstæðum sínum, þ.e. að hún myndi fresta skilum á lokaverkefni fram í lok janúar 2013 og að hún ætti ekki von á einkunnum fyrr en eftir umræddan frest. Það kemur fram í grein 5.1.6 í úthlutunarreglum LÍN, sbr. og 2. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um lánasjóð íslenskra námsmanna, að námsmanni ber að láta LÍN vita ef upplýsingar þær sem lagðar eru til grundvallar lánsáætlun reynast rangar. Með vísan til þessa getur málskotsnefnd ekki fallist á að afgreiðsla stjórnar LÍN í máli kæranda hafi falið í sér brot á reglum um meðalhóf. Með vísan til framanritaðs og fyrri úrskurða stjórnar LÍN og málskotsnefndar við meðferð samskonar mála er það niðurstaða málskotsnefndar að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjun stjórnar LÍN á beiðni kæranda. Að þessu virtu er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 1. mars 2013 er staðfestur.

Til baka