Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-30/2013 - Umsóknarfrestur og útborgun - beiðni um undanþágu frá umsóknarfresti

Úrskurður

 

Ár 2013, miðvikudaginn 25. september, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-30/2013:

 

Kæruefni

 

Með kæru dagsettri 28. maí 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 5. mars 2013 þar sem hafnað var beiðni kæranda um undanþágu frá umsóknarfresti vegna umsóknar um námslán á haustönn 2012. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 5. júní 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN komu fram í bréfi dagsettu 2. júlí 2013 og var afrit þess sent kæranda með bréfi 4. sama mánaðar, en þar var kæranda jafnframt gefinn 5 vikna frestur til að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 7. júlí 2013 sem barst málskotsnefnd 8. ágúst 2013.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi sótti um námslán vegna haustannar 2012 þann 9. janúar 2013 en frestur til að sækja um slíkt lán rann út 30. nóvember 2012. Meðfylgjandi umsókn kæranda var bréf dagsett sama dag þar sem hún fór þess á leit að fá undanþágu frá umsóknarfresti vegna veikinda barns. Hefði barn hennar veikst alvarlega þann 23. nóvember og verið flutt sjö sinnum á bráðamóttöku Barnaspítalans frá þeim tíma og fram í janúar 2013. Lagði kærandi fram staðfestingu Barnaspítalans á komu barnsins. Kemur fram í þessum upplýsingum að komur á göngudeild og bráðamóttöku hafi verið: 23. nóvember 2012 28. nóvember 2012 29. nóvember 2012 3. desember 2012 4. desember 2012 7. desember 2012 28. desember 2012 

Þá lýsir kærandi því að barnið hafi eftir þetta verið veikt heima í hennar umsjá og að beðið hafi verið eftir tíma hjá sérfræðingi sem hafi fengist 18. janúar 2013. Vegna þessara atvika og þess að kærandi hafi jafnframt verið að þreyta próf hefðu hagir kæranda raskast svo verulega að farist hefði fyrir að senda inn umsókn um námslán. Stjórn LÍN úrskurðaði í máli kæranda 1. mars 2013 og synjaði beiðni hennar um undanþágu frá umsóknarfresti. Vísaði stjórnin til greinar 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN þar sem fram kæmi að umsókn um námslán vegna haustannar þyrfti að berast fyrir 1. desember 2012. Jafnframt að opnað hefði verið fyrir umsóknir vegna námslána á haustönn 2012 í júní 2012. Tók stjórnin fram að þrátt fyrir þær aðstæður sem kærandi hafi lýst í erindi sínu gæti sjóðurinn ekki fallist á að veita henni undanþágu frá umsóknarfresti. Þá benti stjórn LÍN á að sjóðunn hefði sent kæranda tölvupóst 5. nóvember 2012 til að minna á umsóknarfrestinn. 

Sjónarmið kæranda 

Í kærunni lýsir kærandi veikindum barns síns sem hafi veikst 23. nóvember 2012. Hafi það verið með höfuðkvalir, sjóntruflanir, svima og yfirlið. Hafi hún farið með það á Barnaspítalann þar sem það hafi verið í rannsóknum, myndartökum og aðhlynningu. Hafi það verið sent á milli spítala í betri tæki. Hafi ástandið verið alvarlegt fyrstu vikurnar og hafi aðstandendur verið viðbúnir hinu versta. Hafi kærandi því ekki á þessum tíma opnað dagbók sína. Kærandi bendir á að ekki skipti máli þó að opnað hafi verið fyrir umsóknir í júní 2012. Síðasta vika nóvember sé jafnrétthá öðrum vikum. Vísar kærandi til undanþáguheimilda í 6. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1992 og greinar 2.4 í úthlutunarreglum vegna viðbótarlána og afborgana sem hljóti að teljast viðameiri tilhliðranir en kærandi fari fram á. Í viðbótarathugasemdum sínum tekur kærandi fram að sér hafi aldrei borist tölvupóstur frá LÍN. Kærandi kveðst ekki lengur hafa það póstfang sem tilgreint sé í athugasemdum stjórnar LÍN. Þá vísi stjórn LÍN til þess að umsókn kæranda hafi ekki borist fyrr en tveimur vikum eftir að barn hennar hafi útskrifast að spítalanum, eða 11. janúar 2013. Kærandi segir það ekki rétt. Á þessum tíma hafi þau beðið eftir því að mæta með barnið til sérfræðings þann 18. janúar 2013. Því sé það rangt að veikindum barnsins hafi verið lokið. Á þessum tíma hafi barn kæranda verið veikt heima í hennar umsjón. Hafi kærandi mætt með barnið sjö sinnum á barnadeild og einu sinni til sérfræðings, þann 18. janúar 2013. Spurningin í þessu máli sé hve mikil veikindi þurfi til og hve miklar raskanir á högum námsmanns til að undanþága frá undanþágufresti verið heimiluð. Kærandi vísar að lokum til þess hlutverks LÍN að tryggja tækifæri til náms og að um sjóðinn gildi ýmis ákvæði um tilhliðranir vegna veikinda eða umönnunar barna. Við töku slíkra íþyngjandi ákvarðana þurfi stjórnvöld að gæta jafnræðis og meðalhófs sbr. 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Sjónarmið stjórnar LÍN 

Stjórn LÍN fer fram á að úrskurður hennar frá 1. mars 2013 verði staðfestur. Bendir stjórn LÍN á að samkvæmt grein 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN skuli umsókn um námslán hafa borist fyrir 1. desember ár hvert. Ekki sé að finna neinar undanþágur frá umsóknarfresti í úthlutunarreglum sjóðsins. Þrátt fyrir það sé í hverju tilviki fyrir sig metið hvort rök séu fyrir hendi til að fallast á að veita undanþágu frá umsóknarfrestinum. Opnað hafi verið fyrir umsóknir á námslánum vegna haustannar 2012 þegar í júní 2012. Þann 5. nóvember hafi kæranda verið sendur tölvupóstur þar sem hún hafi verið minnt á að umsóknarfrestur væri til 1. desember 2013 og að eftir það væri ekki hægt að sækja um námslán fyrir misserið. Umsókn kæranda hafi ekki borist fyrr en 11. janúar 2013 en þá hafi verið liðnar um tvær vikur frá því að barn hennar hafi verið útskrifað frá spítala. Með vísan til þess hafi umsókn kæranda um undanþágu verið synjað.

 

Niðurstaða

 

Þegar kærandi sótti um námslán 9. janúar 2013 voru liðnar meira en fimm vikur frá því umsóknarfrestur vegna haustláns 2012 rann út. Kærandi sendi meðfylgjandi beiðni um undanþágu frá umsóknarfresti með vísan til þeirrar röskunar sem hafi orðið á hennar högum þegar barn hennar þurfti að fara á sjúkrahús í vikunni áður en fresturinn rann út og næstu vikur þar á eftir. Kveðið er á um umsóknarfrest vegna námslána í 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 479/2011 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í 1. gr. segir: 

Lánasjóður íslenskra námsmanna skal auglýsa með tryggilegum hætti eftir umsóknum um námslán. Í auglýsingu skal taka fram um hvaða lán sé að ræða, hvar umsóknareyðublöð og önnur umsóknargögn séu fáanleg, hvenær umsóknarfrestur renni út, sem og annað sem máli skiptir. Eyðublöð fyrir umsóknir og fylgiskjöl þeirra, svo og upplýsingar um námsaðstoð sjóðsins, skulu jafnan vera fáanleg í íslenskum skólum þar sem lánshæft nám fer fram, sem og í sendiráðum Íslands erlendis. 

Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar segir ennfremur: 

Sækja skal sérstaklega um námslán fyrir hvert námsár, sem miðast yfirleitt við 1. júní ár hvert. Umsóknir um námslán skulu vera á eyðublöðum sjóðsins og skal þeim skilað til hans eða þau póstlögð áður en umsóknarfresti lýkur, ásamt tilskildum fylgiskjölum. 

Á ári hverju er umsóknarfrestur birtur í úthlutunarreglum LÍN sem auglýstar eru í stjórnartíðindum. Í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN 2012-2013 er kveðið á um að sækja skuli um námslán vegna haustannar 2012 fyrir 1. desember 2012. Fresturinn er jafnframt auglýstur á heimasíðu LÍN auk þess sem LÍN sendir námsmönnum sem hafa skráð sig hjá sjóðnum tölvupóst til að minna á umsóknarfrest. Ljóst er að umsóknarfrestur var tryggilega auglýstur. Málskotsnefnd telur það ekki skipta máli í þessu sambandi þó að tölvupóstur sem LÍN sendi námsmönnum kunni ekki að hafa borist kæranda. Það nægi að fresturinn hafi verið auglýstur með fyrrgreindum hætti. Þá er það á ábyrgð námsmanns að leiðrétta persónulegar upplýsingar gagnvart LÍN vilji hann tryggja að honum berist slíkar orðsendingar. Óumdeilt er að umsókn kæranda barst ekki fyrr en eftir að umræddur frestur rann út. Almennt verður að ganga út frá því sem meginreglu, að stjórnvöld hafi ekki skyldu til að taka mál til efnismeðferðar, sem borist hafa eftir lögskipaðan frest. Hins vegar hafa stjórnvöld oft heimild til þess að taka slík mál til efnismeðferðar, hafi afsakanlegar ástæður leitt til þess að umsókn barst of seint. Í málum er varða umsóknarfresti hefur málskotsnefnd lagt til grundvallar að LÍN beri að beita einstaklingsbundnu mati á högum námsmanns með það fyrir augum að kanna hvort óviðráðanleg atvik eða handvömm starfsmanna LÍN hafi orðið þess valdandi að umsækjandi sótti ekki um innan tilskilins frests. Ekkert er komið fram í málinu sem bendir til að um handvömm hafi verið að ræða af hálfu LÍN. Eins og að framan er rakið lagði kærandi fram útskrift af komutímum á bráðamóttöku með barn sitt, sem var sjö sinnum á tímabilinu 23. nóvember 2012 til 28. desember 2012. Jafnframt hefur kærandi útskýrt að hún hafi beðið þess að fá tíma fyrir barnið hjá sérfræðingi, en sá tími hafi verið 18. janúar 2013. Eins og áður greinir lagði kærandi fram umsókn sína um námslán 11. janúar 2013. Kemur þá til álita hvort að þessar aðstæður kæranda teljist vera með þeim hætti að telja verði þær til óviðráðanlegra atvika er hafi orðið þess valdandi að kærandi sótti ekki um námslán fyrir auglýstan frest. Málskotsnefnd telur að við mat á því hvort kærandi hafi verið ófær um að sækja um námslán verði að líta til þess hvernig aðstæður hennar hafi verið fram til þess að hún sótti um námslán, hve lengi það ástand hafi varað og hvort óhæfilegur dráttur hafi verið á að kærandi sækti um námslán. Í ljósi þessa fellst málskotsnefnd á það með kæranda að svo alvarleg veikindi barns hennar að þurft hafi að leita ítrekað á bráðamóttöku á því tímabili sem umsóknarfrestur var að renna út teljist töluverð röskun á hennar högum. Að mati málskotsnefndar verður að telja þær aðstæður er kærandi var í á umræddu tímabili hafi verið þess valdandi að hún hafi verið ófær um að sækja um námslán a.m.k. á því tímabili sem veikindi barns hennar stóðu yfir á tímabilinu 23. nóvember til 28. desember 2012. Jafnframt að sá tími sem leið frá þessu tímabili og þar til kærandi sótti um námslán hafi verið stuttur auk þess sem því verði ekki mótmælt að aðstæður kæranda hafi verið óvenju erfiðar á þessu tímabili. Í ljósi þessa telji málskotsnefnd rétt að undanþága verði veitt frá umsóknarfresti námsláns.

 

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður frá 1. mars 2013 í máli kæranda er felldur úr gildi.

Til baka