Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-25/2013 - Námslok - beiðni um frestun á lokun skuldabréfs

Úrskurður

Ár 2013, miðvikudaginn 9. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-25/2013:

Kæruefni

Með kæru sem barst málskotsnefnd 13. maí 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 19. mars 2013 þar sem hafnað var beiðni kæranda um frestun á lokun skuldabréfs. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 16. maí 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 3. júní 2013 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt veittur frestur til að koma að athugasemdum sínum. Kærandi nýtti sér það og sendi athugasemdir með bréfi dagsettu 16. júlí 2013.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi hefur undanfarin ár stundað doktorsnám í sálfræði við háskóla í Danmörku og stefnir að námslokum á þessu ári. Hún naut síðast námsláns hjá LÍN á haustönn 2010. Kærandi sótti um frest á lokun skuldabréfs þann 18. nóvember 2009 og aftur þann 4. nóvember 2010 og var það samþykkt af LÍN.

Í bréfi dagsettu 23. október 2012 og í tölvupósti 13. nóvember 2012 var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun LÍN að loka skuldabréfi hennar og henni jafnframt veittur frestur til að sækja um breytingu á því fyrir 1. desember 2012. Kærandi skilaði inn beiðni um frestun á lokun skuldabréfs þann 11. febrúar 2013 og hafnaði LÍN erindi hennar þann 20. febrúar 2013. Í framhaldi sendi kærandi bréf til stjórnar LÍN og óskaði eftir því að ákvörðuninni yrði breytt, en því var hafnaði af stjórn LÍN með fyrrgreindum úrskurði 19. mars 2011.

Sjónarmið kæranda

Kærandi kveður að þær tilkynningar sem LÍN segist hafa sent 23. október og 13. nóvember 2012 um fyrirhugaða lokun skuldarbréfs hafa hvorki borist henni né umboðsmanni hennar. Það hafi því komið henni á óvart þegar henni í janúar 2013 barst tilkynning LÍN um lokun skuldarbréfs og upphaf endurgreiðslu. Kærandi gagnrýnir vinnubrögð LÍN og telur að sjóðurinn verði að bera hallann af því að geta ekki sýnt fram á að umræddar tilkynningar hafi borist henni eða umboðsmanni hennar. Kærandi bendir á að á árinu 2011 hafi hún átt í samskiptum við LÍN vegna beiðni um frestun á lokun skuldabréfs og þar hafi komið fram að námslok hennar væru áætluð um mitt ár 2012. Beiðni hennar um áframhaldandi frestun á lokun skuldabréfs hefði því ekki átt að koma LÍN á óvart. Þá bendi kærandi á að taka beri tilliti til þess að hún sé enn í námi og hefur hún lagt fram gögn um fyrirhuguð námslok í nóvember 2013. Í lögum um LÍN nr. 21/1992 segir skýrt í 4. mgr. 7. gr. að endurgreiðsla hefist tveimur árum eftir námslok og að sjóðurinn skilgreini hvað telja beri námslok samkvæmt lögunum. Með ákvörðun sinni um að loka skuldbréfi kæranda sé LÍN að horfa framhjá ákvæðum laga 21/1992, sem miði upphaf endurgreiðslu við námslok.

Sjónarmið stjórnar LÍN

Stjórn LÍN LÍN bendir á að skuldabréfi sé lokað þegar námsmaður hætti að þiggja lán og sé þá miðað við lok síðasta aðstoðartímabils, sbr. grein 2.5.1 í úthlutunarreglum LÍN. Heimilt sé að fresta lokun skuldabréfs ljúki námsmaður lánshæfum námsárangri á næsta námsári eftir að hann þáði síðast aðstoð. Námsmaður skuli þá sækja sérstaklega um frestunina fyrir 1. desember og eftir því sem við eigi gilda sömu reglur um frestun á lokun skuldabréfs eins og gilda um lánsumsókn og námsframvindu, sbr. II. kafli reglnanna. Stjórn LÍN bendir á að í bréfi dagsettu 23. október 2012 og svo í tölvupósti dagsettum 13. nóvember 2012 hafi kæranda verið tilkynnt um þá ákvörðun sjóðsins að loka skuldabréfi hennar og hafi kæranda þá jafnframt verið veittur frestur til 1. desember 2012 til að sækja um breytingu á því. Fyrir liggi að kærandi hafði ekki samband við sjóðinn fyrr en 20. febrúar 2012 eða eftir að framangreindur frestur var útrunninn. Þá bendir stjórn LÍN á að námsmönnum beri að kynna sér úthlutunarreglur sjóðsins og að í grein 2.5.1 í úthlutunarreglunum komi skýrt fram að sækja þurfi um frestun á lokun skuldabréfs fyrir 1. desember ár hvert. Þar sem kærandi viðurkenni að hafa þekkt þessa reglu hafi henni mátt vera fresturinn ljós. LÍN hafi því borið að hafna að erindi kæranda.

Niðurstaða

Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN segir: "Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok. Sjóðstjórn skilgreinir hvað telja beri námslok samkvæmt lögum þessum og úrskurðar um vafatilfelli." Í 10. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um LÍN segir að fyrsta greiðsla af námsláni sé 30. júní tveimur árum eftir námslok, en ef námslok frestast fram yfir 30. júní vegna náms á sumarönn færist fyrsta greiðsla til 1. mars næsta árs á eftir. Samskonar ákvæði var í eldri reglugerð um LÍN nr. 602/1997. Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2012-2013 segir í grein 2.5.1, sem fjallar almennt um lokun skuldabréfs, að skuldabréfi sé lokað þegar námsmaður hættir að þiggja lán og sé þá miðað við lok síðasta aðstoðartímabils. Þá segir í greininni að sá tímapunktur teljist námslok í skilningi laga nr. 21/1992 og reglugerðar um LÍN. Í grein 2.5.2 er síðan fjallað um frestun á lokun skuldabréfs. Þar segir: "Heimilt er að fresta lokun skuldabréfs ljúki námsmaður lánshæfum námsárangri á næsta námsári eftir að hann þáði síðast aðstoð. Námsmaður skal þá sækja sérstaklega um frestunina fyrir 1. desember 2012 og eftir því sem við á gilda sömu reglur um frestun á lokun skuldabréfs eins og gilda um lánsumsókn og námsframvindu, sbr. II. kafli - Námsframvinda."

LÍN kveðst hafa sent kæranda bréf dagsett 23. október 2012 og tölvupóst 13. nóvember 2012 þar sem henni var tilkynnt um þá ákvörðun sjóðsins að loka skuldabréfi hennar og að hún hefði frest til 1. desember 2010 til að sækja um breytingu á því. Afrit bréfanna eru lögð fram í málinu. Kærandi hafnar því að hafa fengið þessi bréf og verði LÍN að bera hallann af því að geta ekki sannað að hafa sinnt tilkynningaskyldu sinni.

Á heimasíðu LÍN koma fram upplýsingar um frestun á lokun skuldabréfs. Þar segir að ef námsmaðurinn er ennþá í fullu lánshæfu námi en er hættur að sækja um námslán getur hann sótt um frestun á lokun skuldabréfsins. Hann þarf þá að leggja fram gögn sem sanna að hann sé ennþá í námi og sé með lánshæfan árangur. Ljóst er af síðari málslið 4. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1992 að stjórn LÍN ber að skilgreina hvað telja beri námslok samkvæmt lögunum. Í grein 2.5 í úthlutunarreglum LÍN er þetta skilgreint af hálfu LÍN og í úthlutunarreglunum 2012-2013 er tekið fram með skýrum hætti að sækja skuli um frest á lokun skuldabréfs fyrir 1. desember 2012. Þessu til viðbótar eru á heimasíðu LÍN leiðbeiningar um námslok og lokun skuldabréfa. Þessar reglur og leiðbeiningar eru aðgengilegar öllum lántakendum og verður að leggja þá ábyrgð á þá að kynna sér reglur sjóðsins og fylgja þeim. Þá liggur fyrir í málinu að kærandi hafði áður í tvígang sótt um frestun á lokun skuldabréfs. Málskotsnefnd getur því ekki fallist á það með kæranda að niðurstaða þessa máls eigi að ráðast af því að ekki sé sannað að henni hafi borist tilkynningar frá LÍN um frest til breytinga á lokun skuldabréfs.

Fyrir liggur í málinu að kærandi sótti ekki um frest til LÍN fyrr en 11. febrúar 2013. Það er viðurkennd meginregla að stjórnvöld hafi ekki skyldu að taka til efnismeðferðar mál sem borist hafa eftir lögskipaðan frest. Að baki reglum LÍN búa málefnalegar ástæður er lúta að stjórn á fjárreiðum sjóðsins sem gera það mikilvægt að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir. Almennt beri því að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum, s.s. þegar tekst að sanna að óviðráðanleg atvik hafi komið í veg fyrir að sótt væri um innan frests eða mistök hafi verið gerð af hálfu LÍN. Hvorugt á við í þessu máli. Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða málskotsnefndar að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjun stjórnar LÍN á beiðni kæranda og er hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður frá 19. mars 2013 í máli kæranda er staðfestur.

Til baka