Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-22/2013 - Umsóknarfrestur og útborgun - synjun um undanþágu frá umsóknarfresti

Úrskurður

 

Ár 2013, miðvikudaginn 23. október, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-22/2013.

 

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd 3. maí 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 24. janúar 2013, um að synja henni undanþágu á umsóknarfresti fyrir námslán fyrir haustönn 2012. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 3. maí 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 28. maí 2013 og var afrit þess sent kæranda og henni jafnframt gefinn kostur á að koma að frekari sjónarmiðum sínum. Bárust athugasemdir kæranda í bréfi dagsettu 19. júní 2013.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kærandi stundar nám í Austurríki. Umboðsmaður hennar sótti um námslán fyrir hana vegna haustannar 2012 þann 12. janúar 2013. Með vísan til þess að umsóknarfrestur vegna haustannar 2012 rann út 1. desember 2012 hafnaði LÍN afgreiðslu á láni til kæranda. Beiðni kæranda um undanþágu frá frestinum var synjað með úrskurði stjórnar LÍN þann 24. janúar 2013. 

Sjónarmið kæranda 

Kærandi bendir á að fyrir misskilning hafi umsókn ekki verið send inn á réttum tíma vegna haustmisseris 2012. Hún hafi stundað fullt nám haustið 2012 og skilað 100% námsárangri. Kærandi bendir á að það sé mikið fjárhagslegt áfall fyrir hana að missa heilt misseri út þegar nám sé stundað í dýrri borg þar sem framfærslukostnaður sé hár. Hagir hennar hafi ekkert breyst á síðasta misseri frá námsárinu á undan. Um sé að ræða sama nám, sama skóla, sama heimilisfang og sama kostnað við námið að viðbættum verðlagsbreytingum. Þá hafi hún litla möguleika til tekjuöflunar með náminu, m.a. vegna kröfu skólans um þátttöku í sumaruppfærslum, en það geri afleiðingar af því að missa lánið á haustönninni enn verri. Kærandi vísar einnig til nýlegs úrskurðar Umboðsmanns Alþingis nr. 6919/2012 í máli annars lánsþega þar sem umboðsmaður bendi stjórn LÍN á að undanþágur séu heimilar og sé með ábendingu til stjórnar LÍN að nýta þær heimildir. Þá bendir kærandi á að hún sé ung að árum og að hún komi til með að endurgreiða námslán sín að fullu. Þá séu lánin með vöxtum og verðtryggð og áhætta LÍN af því að afgreiða námslán fyrir haustönn 2012 til kæranda svo til engin en skaði hennar af því að fá ekki lán geti orðið óbætanlegur. 

Sjónarmið stjórnar LÍN 

LÍN vísar til greinar 5.1.2 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2012-2013 þar sem fram komi að lánsumsókn vegna náms haustið 2012 þurfi að berast sjónum fyrir 1. desember 2012 og fyrir 1. maí 2013 vegna náms vorið 2013. Umsókn kæranda hafi borist til sjóðsins 12. janúar 2012 og gildi því einungis fyrir vormisseri 2013. Á þessum grundvelli hafi stjórn LÍN synjaði erindi kæranda um undanþágu frá frestinum. LÍN bendir einnig á að 5. nóvember 2012 hafi umboðsmanni kæranda verið sendur tölvupóstur frá LÍN um umsóknarfresti á skólaárinu 2012-2013 og þar komi greinilega fram að lokafrestur til að sækja um lán vegna náms á haustmisseri renni út 1. desember 2012. Enn fremur komi skýrt fram á heimasíðu sjóðsins að það þurfi að sækja um á hverju ári og að það komi einnig fram í úthlutunarreglum sjóðsins. LÍN telur að niðurstaðan í þessu máli sé í samræmi við lög og reglur og einnig í samræmi við sambærilega úrskurði stjórnar LÍN og málskotsnefndar.

 

Niðurstaða

 

Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 21/1992 skal stjórn LÍN setja reglur um úthlutun námslána. Þá er kveðið á um umsóknarfrest vegna námslána í 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 479/2011 um LÍN þar sem m.a. segir að LÍN skuli auglýsa með tryggilegum hætti eftir umsóknum um námslán og að sækja skuli sérstaklega um fyrir hvert námsár. Umsóknarfresturinn er birtur árlega í úthlutunarreglum LÍN sem eru auglýstar í stjórnartíðindum. Fresturinn er jafnframt auglýstur á heimasíðu LÍN auk þess sem LÍN sendir námsmönnum sem hafa skráð sig hjá sjóðnum tölvupóst til að minna á umsóknarfrest. Ljóst er að umsóknarfrestur var tryggilega auglýstur. Í grein 5.2.1 í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2012-2013 er kveðið á um að sækja skuli um námslán vegna haustannar 2012 fyrir 1. desember 2012. Óumdeilt er að umsókn kæranda barst ekki fyrr en eftir að umræddur frestur rann út. Almennt verður að ganga út frá því sem meginreglu, að stjórnvöld hafi ekki skyldu til að taka mál til efnismeðferðar, sem borist hafa eftir lögskipaðan frest. Hins vegar hafa stjórnvöld heimild til þess að taka slík mál til efnismeðferðar, hafi afsakanlegar ástæður leitt til þess að umsókn barst of seint. Í málum er varða umsóknarfresti hefur málskotsnefnd lagt til grundvallar að LÍN beri að beita einstaklingsbundnu mati á högum námsmanns með það fyrir augum að kanna hvort óviðráðanleg atvik eða handvömm starfsmanna LÍN hafi orðið þess valdandi að umsækjandi sótti ekki um námslán innan tilskilins frests. Ekkert er komið fram í málinu sem bendir til að um handvömm hafi verið að ræða af hálfu LÍN. Þá er ekki hægt að fallast á að óviðráðanleg atvik hafi komið í veg fyrir að kærandi eða umboðsmaður hans hafi ekki sótt um innan tilskilins frests. Fyrir liggur að ástæða þess að ekki var sótt um innan frestsins var misskilningur umboðsmanns kæranda á reglum LÍN en það er á ábyrgð hans fyrir hönd kæranda að þekkja til þeirra. Með vísan til laga um LÍN, reglugerðar og úthlutunarreglna sjóðsins, svo og fyrri úrlausna stjórnar LÍN við meðferð samskonar mála svo og meðferð þessa máls, verður að fallast á það með stjórn LÍN að lögmæt sjónarmið hafi legið til grundvallar synjunar á beiðni kæranda um undanþágu frá umsóknarfresti og að jafnræðis hafi verið gætt af hálfu LÍN við afgreiðslu málsins. Þá er einnig vísað til úrskurða málskotsnefndar en nefndin hefur margoft úrskurðað um mikilvægi þess að festa ríki um þá fresti sem námsmönnum eru settir og tekið undir það að almennt beri að vísa frá erindum sem berast að liðnum fresti nema í undantekningartilvikum samanber hér fyrr. Er fallist á það með stjórn LÍN að afgreiðsla sjóðsins á erindi kæranda hafi verið í samræmi við lög og reglur sem um sjóðinn gilda. Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda er staðfestur.

 

Úrskurðarorð

 

Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda frá 24. janúar 2013 er staðfestur.

 
Til baka