Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-34/2013 - Umsóknarfrestur og útborgun - málinu vísað frá málskotsnefnd

Úrskurður

 

Ár 2013, fimmtudaginn 14. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð um frávísun máls L-34/2013:

 

Kæruefni

 

Með kæru sem barst málskotsnefnd 25. júní 2013 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 1. mars 2013, þar sem beiðni kæranda um endurskoðun á ákvörðun LÍN um útborgun námsláns var hafnað. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 26. júní 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir LÍN bárust með bréfi dagsettu 22. júlí 2013. Með bréfi dagsettu 21. ágúst voru kæranda sendar athugasemdir stjórnar LÍN og gefinn kostur á að gera við þær athugasemdir. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

Málsatvik og ágreiningsefni

 

Kæran er dagsett þann 2. júní 2013 en umboðsmaður kæranda kom með hana á skrifstofu málskotsnefndar þann 26. júní 2013. Veitti umboðsmaður þær skýringar að ekki hefði reynst unnt að senda kæruna í gegnum vef lánasjóðsins. Í kærunni kemur fram að kærandi óskar eftir því að felld verði úr gildi ákvörðun stjórnar LÍN frá 1. mars 2013 í máli hans varðandi útborgun námsláns. Var kæran send stjórn LÍN til umsagnar og um leið upplýst hverjar skýringar kærandi hefði veitt á því hvers vegna kæran var svo seint fram komin. Í athugasemdum stjórnar LÍN dagsettum 22. júlí 2013 er farið fram á að málskotsnefnd vísi málinu frá þar sem kæran hafi borist meira en 3 mánuðum eftir dagsetningu bréfsins sem sent var kæranda, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Segir í athugasemdunum að þegar kæran hafi borist frá málskotsnefnd hafi ekki verið neitt athugaavert við heimasíðu sjóðsins. Bendir stjórnin einnig á að þrjár vikur hafi liðið frá því að fresturinn hafi runnið út og á þeim tíma hefði kærandi mátt hafa samband við LÍN og gera athugasemdir við virkni heimasíðunnar. Það hafi ekki verið gert svo vitað væri. Með bréfi dagsettu 30. apríl 2013 var kærandi upplýstur um frávísunarkröfu stjórnar LÍN og þess farið á leit að hann sendi nánari útskýringar vegna kærufrestsins og jafnfram hvort hann teldi að einhverjar þær afsökunar ástæður sem vísað væri til í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ættu við í máli hans.

 

Niðurstaða

 

Um kærufrest í stjórnsýslumálum fer samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar segir að kæra skuli „ "borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg." Eigi er kveðið sérstaklega á um frest í lögum nr. 21/992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og gildir því framangreindur þriggja mánaða frestur um kæru þessa. Í 5. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga segir ennfremur að kæra teljist "nógu snemma fram komin ef bréf, sem hefur hana að geyma, er komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en fresturinn er liðinn". Um þetta segir í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til stjórnsýslulaga að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega til aðila, þá skuli miða upphaf kærufrests við "þann dag þegar ákvörðunin er komin til aðila". Verður því upphaf kærufrests í máli þessu miðað við þann dag þegar ákvörðun stjórnar LÍN var komin til kæranda. Í máli þessu liggur fyrir að LÍN tilkynnti kæranda um ákvörðun sína með bréfi dagsettu 5. mars 2013. Ekki liggja fyrir upplýsingar frá kæranda um hvenær honum barst niðurstaða stjórnar LÍN. Ef miðað er við að bréfið hafi verið póstlagt daginn eftir fund stjórnar verður að miða við að kærufrestur hafi byrjað að líða eigi síðar en 2-3 virkum dögum síðar, sbr. fyrri úrskurði málskotsnefndar í málum L-14/2013 og L-14/2012, sbr. og álit umboðsmanns nr. 5587/2009. Kærufrestur hafi því byrjað að líða í síðasta lagi 11. mars 2013, sbr. 8. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt því hefði kæran þurft að berast til málskotsnefndar innan þriggja mánaða eða í síðasta lagi í lok dags þann 10. júní 2013. Samkvæmt ofangreindu er kæra sem barst málskotsnefnd 25. júní 2013 of seint fram borin og ber að vísa henni frá skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nema þær ástæður sem getið er í 28. gr. stjórnsýslulaga séu fyrir hendi en þar segir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema "afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr" eða "veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar". Fyrir liggja útskýringar umboðsmanns kæranda um tæknileg vandamál við að koma kærunni á framfæri í gegnum vef LÍN. Að auki var kæranda með bréfi þann 26. júní 2013 gefinn kostur á að tjá sig frekar um þennan þátt málsins eða aðrar þær afsökunarástæður er kynnu að vera fyrir hendi samkvæmt ákvæðum 27. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi veitti engar frekari skýringar í málinu. Að mati málskotsnefndar verður því ekki í mót mælt að tæknilegir erfiðleikar kunni að hafa tálmað því að kæranda tækist að koma kæru sinni til nefndarinnar í gegnum vef lánasjóðsins í byrjun júní 2013. Hins vegar verður ekki séð að kærandi hafi gert neinar ráðstafanir til að koma kæru sinni sem fyrst til nefndarinnar þegar fyrir lá að tæknileg vandkvæði voru fyrir hendi á heimasíðu LÍN. Getur málskotsnefnd því ekki fallist á að þau vandkvæði eigi að leiða til þess að taka beri kæruna til meðferðar. Verður því ekki séð að afsakanlegt hafi verið hve seint kæran var fram komin af hálfu kæranda. Í máli kæranda er fjallað um rétt hans til lántöku hjá LÍN á tilteknu tímabili sem er ívilnandi ákvörðun um úthlutun láns af opinberu fé. Ekki verður fallist á að veigamiklar ástæður teljist vera fyrir hendi er réttlætt gætu undanþágu frá kærufresti í tilviki kæranda. Ber samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa kæru kæranda frá málskotsnefnd.

 

Úrskurðarorð

 

Kæru kæranda í máli L-34/2013 er vísað frá málskotsnefnd LÍN.

Til baka