Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

L-36/2013 - Ofgreidd lán - synjun á endurútreikningi aukaafborgunar

Úrskurður

Ár 2013, fimmtudaginn 14. nóvember, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu L-36/2013:

Kæruefni

Með kæru dagsettri 3. júlí 2012 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 19. apríl 2013, þar sem kæranda var synjað um endurútreikning á aukaafborgun námsláns á grundvelli leiðrétts skattframtals 2012 vegna tekna hans á árinu 2011. LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 4. júlí 2013 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN bárust með bréfi dagsettu 30. júlí 2013. Kærandi sendi viðbótargögn í málinu og voru þau send stjórn LÍN með bréfi dagsettu 30. júlí 2013 og stjórn LÍN gefinn kostur á að gera viðbótarathugasemdir. Frekari athugasemdir bárust ekki frá stjórn LÍN. Með bréfi dagsettu 30. júlí 2013 var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við svör LÍN. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi dagsettu 23. október 2013 fór málskotsnefnd þess á leit við stjórn LÍN að hún gerði grein fyrir því hvort meðferð máls kæranda hefði verið í samræmi við grein 3.3 í úthlutunarreglum LÍN um endurútreikning tekjuviðmiðunar þegar í ljós kemur að tekjur þær sem námslán er miðað við hafa ekki reynst réttar.

Málsatvik og ágreiningsefni

Kærandi stundar nám í öðru landi. Hann fékk afgreitt lán vegna skólaársins 2011-2012 að fjárhæð 888.608 kr. Afgreiðsla LÍN byggði á tekjuupplýsingum í skattframtali kæranda sem sýndu 108.013 kr. í tekjur vegna ársins 2011. Kærandi skilaði framtali eftir tilskilinn frest og sætti áætlun tekna. Á grundvelli fyrirliggjandi launamiða um greiðslur til kæranda ákvarðaði RSK síðan tekjur kæranda vegna ársins 2011 3.337.940 kr. og var miðað við þá fjárhæð við endanlega álagningu í kæruúrskurði ríkisskattstjóra sem lá fyrir 29. nóvember 2012. Með bréfi dagsettu 19. nóvember 2012 sendi LÍN kæranda tilkynningu um að sökum rangra tekjuupplýsinga hefði hann fengið ofgreitt lán og að honum bæri að endurgreiða lánið sem samkvæmt endurútreikningi væri að fjárhæð 891.956 kr. Meðfylgjandi tilkynningunni sendi LÍN kæranda endurgreiðsluskuldabréf til frágangs á ofgreiðslunni. Hafði kærandi samband við LÍN og að sögn LÍN fékk hann framlengdan skilafrest til 24. desember 2012. Ekki kemur fram af hálfu LÍN hver upphaflegur skilafrestur var. Í kærunni kveðst kærandi hins vegar hafa hringt í LÍN og hafi starfsmaður tjáð honum að hann gæti fengið frest fram í febrúar. Af hálfu LÍN kemur fram að þar sem kærandi hafi ekki sinnt því að skila inn endurgreiðsluskuldabréfi fyrir tilskilinn frest hafi honum verið send tilkynning um lokun skuldabréfs vegna námsláns hans þann 14. janúar 2013. Í tilkynningunni var kærandi upplýstur um að skuldabréfið yrði sent Motus til innheimtu. Jafnframt sendi LÍN kæranda og ábyrgðarmanni námsláns hans tilkynningu þann 29. janúar 2013 um aukaafborgun og frágang skuldabréfs sem jafnframt var innheimtuviðvörun vegna lánsins. Var í bréfi LÍN vísað til þess að þessi málsmeðferð væri í samræmi við grein 5.7 í úthlutunarreglum LÍN. Kærandi sem var við nám erlendis kom til landsins í febrúar 2013. Hafði hann samband við LÍN 4. febrúar 2013 og fékk að sögn LÍN upplýsingar um stöðu málsins. Einnig lagði kærandi fram beiðni um endurupptöku á áætlun tekjuskatts hjá skattyfirvöldum þann 7. og 24. febrúar 2013. Skattyfirvöld úrskurðuðu í máli kæranda þann 14. mars 2013. Kærandi sendi síðan tölvupóst til stjórnar LÍN 10 dögum síðar eða þann 24. mars 2013 þar sem hann upplýsti að tekjuskattstofn hans hefði verið lækkaður og fór þess á leit að sú krafa sem send hefði verið á Motus yrði endurreiknuð. Að beiðni LÍN þann 16. apríl 2013 sendi kærandi síðan úrskurð ríkisskattstjóra samdægurs til LÍN með tölvupósti.. Stjórn LÍN úrskurðaði í máli kæranda 23. apríl 2013. Hafnaði stjórnin beiðni kæranda um að ofgreitt námslán yrði endurútreiknað á grundvelli leiðrétts skattframtals.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi lýsir í kæru sinni að honum hafi láðst að skila rekstrarreikningi við skil á framtali vegna ársins 2011. Hafi hann því sætt álagningu skattyfirvalda á tekjur sem hann hafði sem verktaki. Að sögn kæranda hafði hann samband við LÍN þegar honum barst bréfið um ofgreiðslu láns dagsett 19. nóvember 2012. Kveðst kærandi hafa lýst því að hann ætti ekki kost á að komast í gögn málsins fyrr en í febrúar þegar hann kæmi til landsins. Hefði starfsmaður LÍN, sem kærandi nafngreindi, sagt honum að hann gæti fengið frest fram í febrúar en áréttað að hann skyldi hafa samband fyrir frestlok og fá framlengingu ef ekki væri komin niðurstaða frá skattyfirvöldum. Lýsir kærandi því jafnframt að þegar hann hafi komið til landsins í febrúar og haft samband við LÍN hafi honum verið tjáð að málið væri komið í innheimtu. Óskaði kærandi eftir upptökum af samtali sínu við viðkomandi starfsmann en slíkt reyndist ómögulegt þar sem símtöl eru ekki tekin upp. Kærandi mótmælir því að honum hafi verið tjáð hjá LÍN að fresturinn rynni út 24. desember 2012. Kærandi kveður eðlilegt að LÍN notist við tölvupóst í samskiptum sínum við nemendur og kveðst ekki hafa fengið póstinn sem sendur var á lögheimili hans sem skráð er á Íslandi. Kærandi telur málið svo mikilvægt að hann hefði aldrei leikið sér að því að missa það svona frá sér. Skipti niðurstaða málsins hann miklu fjárhagslega þar sem eiginkona hans sé einnig námsmaður en eigi ekki rétt á námsláni þar sem hún sé ríkisborgari ríkis utan EES. Kærandi vísar til þess að sú krafa sem LÍN byggi á styðjist ekki við raunverulegar tekjur hans og sé úrskurður RSK sönnun þess. Þá vísar kærandi til þess að stjórn LÍN virðist ekki telja að það skipti máli að framtal hafi verið leiðrétt heldur vísi í dagsetningar varðandi fresti sem kærandi kannist ekki við að sér hafi verið veittir.

Sjónarmið stjórnar LÍN.

Stjórn LÍN upplýsir í athugasemdum sínum að kæranda hafi verið sent bréf þann 19. nóvember 2012 þar sem honum hafi verið tilkynnt um ofgreiðslu láns. Einnig hafi umboðsmanni kæranda verið send slík tilkynning. Kærandi hafi í kjölfarið haft samband og fengið framlengingu á fresti til 24. desember 2012. LÍN hafi síðan sent tilkynningu um lokun skuldabréfs til ábyrgðarmanna þann 14. janúar 2013 og tilkynningu um aukaafborgun og frágang 29. janúar sama ár. Bendir stjórn LÍN á að kærandi hafi ekki kært álagninguna fyrr en 7. febrúar 2013, eða löngu eftir að tilgreindur frestur var liðinn. Niðurstaðan hafi síðan legið fyrir 14. mars 2013. Vísar LÍN jafnframt til þess að samkvæmt grein 5.1.7. í úthlutunarreglum LÍN skuli námsmaður erlendis hafa umboðsmann sem m.a. hafi umboð til þess að undirrita skuldabréf fyrir hönd námsmanns. Öll bréf og tilkynningar sem eigi að berast námsmanni séu send umboðsmanni. Þá vísar LÍN til þess að samkvæmt grein 5.7 í úthlutunarreglunum skuli námsmaður endurgreiða lán sérstaklega fái hann ofgreitt frá sjóðnum. Orsökin fyrir því að kærandi hafi fengið ofgreitt lán hafi verið að tekjur hans samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjórna hafi reynst hærri en þær voru skráðar á skattframtali kæranda. Samkvæmt grein 5.7.4 komi ofgreitt lán til innheimtu eftir að þau gögn sem óskað hafi verið eftir hafa borist sjóðnum. Geri námsmaður ekki upp ofgreitt lán innan tilskilins frests sé skuldabréfinu lokað, sbr. grein 2.5.1 og hið ofgreidda lán innheimt sem aukaafborgun af námsláni. Tilkynning um ofgreiðslu láns hafi verið send umboðsmanni kæranda þann 19. nóvember 2012 og skráð námslok send á lögheimili kæranda og lögheimili ábyrgðarmanns. Þar sem engin viðbrögð hafi borist frá kæranda hafi tilkynning um aukaafborgun og lokun skuldabréfs verið send bæði til kæranda og til umboðsmanns hans 29. janúar 2013. Í viðbótarathugasemdum vísar stjórn LÍN til þess að samkvæmt grein 3.3.4 sé tekjuáætlun endanleg nema lánþegi geri athugasemd við hana innan þriggja mánaða. Sé þá heimilt að endurskoða áætlun í samræmi við nýjar tekjuupplýsingar staðfestar af skattyfirvöldum Samkvæmt þessu þurfi kærandi bæði að gera athugasemd og leggja fram nýjar tekjuupplýsingar staðfestar af skattyfirvöldum innan sama tímafrests. Þegar kærandi hafi skilað inn nýjum staðfestum upplýsingum um tekjur þann 16.apríl 2013 hafi verið liðnir um fimm mánuðir frá því álagning hafi átt sér stað. Ekki sé hægt að halda því fram að kærandi hafi ekki getað komið framangreindum gögnum til LÍN fyrr enda hafi kærandi ekki lagt fram gögn sem ríkisskattstjóri óskaði eftir 25. október 2012 fyrr en með erindi sínu til ríkisskattstjóra 7. febrúar 2013 og 24. febrúar 2013. Kæranda hafi borist úrskurður RSK með bréfi 14. febrúar en þær upplýsingar hefðu ekki borist LÍN fyrr en rúmum mánuði síðar. Af þessum sökum telur stjórn LÍN að farið hafi verið eftir reglum í kafla 3.3 í úthlutunarreglum sjóðsins.

Niðurstaða

Samkvæmt grein 3.3 í úthlutunarreglum LÍN 2011-2012 geta tekjur námsmanns og maka hans haft áhrif á veitta námsaðstoð. Kemur þar m.a eftirfarandi fram:

3.3.3 Tekjuáætlun - skattframtal

Áður en til þess kemur að veita lán vegna náms á haustmisseri skal námsmaður gera grein fyrir áætluðum tekjum á árinu 2011. Áður en til þess kemur að veita lán vegna náms á vormisseri skulu sjóðnum berast staðfestar skattframtalsupplýsingar vegna tekna á árinu 2011.

3.3.4 Endanlegt tekjutillit

Endanlegt tekjutillit á sér stað eftir álagningu skattyfirvalda. Séu tekjur lánþega þá áætlaðar skal sjóðurinn ákvarða honum námsaðstoð í samræmi við áætlunina. Ákvörðunin er endanleg nema lánþegi geri athugasemd við hana innan þriggja mánaða. Skal þá heimilt að endurskoða hana í samræmi við nýjar tekjuupplýsingar staðfestar af skattyfirvöldum.


Samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Í þessu felst að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðila áður en það tekur ákvörðun um rétt hans eða skyldu. Þegar áætlun skattyfirvalda barst sjóðnum í nóvember 2012 bar LÍN því að gera kæranda grein fyrir nýjum tekjuviðmiðum og gefa honum jafnframt kost á því að gera athugasemdir við þá ákvörðun innan þriggja mánaða í samræmi við grein 3.3 í úthlutunarreglunum. Mál kæranda var þó ekki sett í þennan farveg hjá LÍN heldur var honum einungis send tilkynning þann 19. nóvember 2012 um ofgreitt námslán og veittur stuttur frestur til að ganga frá því máli. Þegar kærandi brást ekki við innan þess frests sem LÍN veitti honum var lánið sett í innheimtu. Var fyrsti gjalddagi þann 9. febrúar 2013 sem er áður en sá þriggja mánaða frestur sem kærandi átti rétt á samkvæmt grein 3.3 í úthlutunarreglunum var liðinn. Kærandi hefur borið því við í málinu að hann hafi fengið þær munnlegu upplýsingar hjá LÍN að hann gæti fengið frest fram í febrúar 2013 til að senda inn leiðréttar upplýsingar um tekjur. Ekki liggja fyrir upplýsingar um þessi samskipti hjá LÍN en málskotsnefnd vekur athygli á að þessar upplýsingar eru í samræmi við þann rétt sem kærandi átti samkvæmt úthlutunarreglunum og renna því stoðum undir fullyrðingar hans. Kærandi gerði athugasemd við tekjuviðmið innan þriggja mánaða frá því að LÍN sendi honum tilkynningu um breytt tekjuviðmið. Gerði hann það þrátt fyrir að LÍN hafi veitt honum rangar upplýsingar um hvaða rétt hann hefði í málinu. Málskotsnefnd getur ekki fallist á þá túlkun stjórnar LÍN á grein 3.3. í úthlutunarreglunum að kæranda hafi borið að gera bæði athugasemdir og að senda endanleg gögn innan þess þriggja mánaða frests sem þar er veittur. Málskotsnefnd telur að í samræmi við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar beri að gefa námsmönnum hæfilegan frest til að leggja fram fullnægjandi gögn um tekjur sínar hafi þeir gert athugasemdir við tekjuviðmið. Málskotsnefnd getur heldur ekki fallist á þá afstöðu stjórnar LÍN að meðferð máls kæranda hafi verið í samræmi við grein 3.3 því málið var hvorki sett í það ferli né var kæranda leiðbeint um þann þriggja mánaða frest sem hann hafði samkvæmt ákvæðinu til að gera athugasemdir. Með vísan til framanritaðs telur málskotsnefnd að ákvörðun í máli kæranda hafi ekki verið í samræmi við grein 3.3 í úthlutunarreglunum. Jafnframt er það niðurstaða málskotsnefndar að við meðferð máls kæranda hafi LÍN ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga. Leiddi þetta til þess að ekki var heldur lagður réttur grundvöllur að ákvörðun í máli kæranda í samræmi við rannsóknarreglu 10 gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til framanritaðs er hinn kærði úrskurður stjórnar LÍN frá 19. apríl 2013 felldur úr gildi.

Úrskurðarorð

Úrskurður stjórnar LÍN frá 19. apríl 2013 í máli kæranda er felldur úr gildi.

Til baka